miðvikudagur, 26. ágúst 2009

Ráðvillt umræða

Umræðan um lífeyrissjóðina er oft með hreinum eindæmum, eins og ég hef reyndar alloft bent á. Upphrópanir og rakalausar klisjur. T.d. á Silfri Egils í gær er birt grein þar sem það er fullyrt að verkalýðsforystan hafa verið að sukka með sjóðina og þeir séu tómir og svo er grein þar fyrir ofan þar sem það er vandamál hversu miklir fjármunir séu til ráðstöfunar í lífeyrissjóðunum og það verði að koma þeim fjármunum út úr bankabókunum í atvinnulífið, það sé bjarghringur Íslands.


Það hefur reyndar aldrei verið útskýrt hvernig menn fá það út að Verkalýðsforystan sé að ráðskast með eignir sjóðanna. Við hvað er átt? Í stjórnum lífeyrissjóða er helmingur úr röðum fyrirtækja sem greiða iðgjöld til sjóðannna og hin helmingur er kosinn af stéttarfélögum sjóðsfélaga viðkomandi sjóðs. Það voru þessir aðilar sem gerðu kjarasamninga um uppbyggingu viðkomandi sjóða. Svo eru til allnokkrir aðrir lífeyrissjóðir. Hlutverk allra sjóðanna er að ávaxta það fé sem er í viðkomandi sjóðs sem best.

Það er útilokað að alhæfa um lífeyrissjóðina, þeir standa ákaflega misjafnlega, eins og margoft hefur komið fram, t.d. eiga þeir mismiklar eignir erlendis. Sumir eiga þar töluvert og þær eignir hafa verið að vaxa mjög hratt undanfarið eins og kom fram í fréttum í síðustu viku.

Einnig eru eignir þeirra í ríkistryggðum skuldabréfum mismiklar, en hjá sumum er það töluvert. Einnig hefur ítrekað fram að undanförnu að eignir á bankabókum safnist nú upp sakir þess að verðbréfamarkaðir séu óvirkir.

Spurningin um tap lífeyrissjóða eins og reyndar tap annarra sem áttu sparifé, snýr að nokkrum af þeim félögum sem útrásarvíkingarnir settu upp. Málið snýst um spil þeirra með bönkunum, þar sem keypt voru upp virk félög í atvinnulífinu og þeim var breytt í fjárfestingarfélög og skuldapíramída án þess að öðrum eigendum væri gerð grein fyrir því og Fjármálaeftirlit eða Seðlabanki stæðu sína eftirlitsplikt. Heldur stóðu forsvarsmenn opinberra eftirlitsstofnana fremstir í flokki sem klappstýrur útrásarinnar og hvöttu fólk og lífeyrisjóði að til þess að vera virkir þátttakendur í spilinu. Þetta mynd hefur sífellt að koma skýrar fram undanfarnar vikur.

Þar var vísvitandi verið að blekkja allmarga einstaklinga sem keyptu skuldabréf og hlutabréf tengt þessum félögum. Þetta hefur verið gagnrýnt harkalega hér á þessari síðu í fjölmörgum pistlum. Það hefur einnig verið gagnrýnt að ríkjandi stjórnvöld stóðu ekki vaktina. Þetta athafnaleysi leiddi til þess að útrásarvíkingar fengu svigrúm til þess að spila þennan leik. að sumir lífeyrissjóðir og allmargir einstaklingar hafa tapað fjármunum, hversu miklum er ekki komið fram ennþá og verður ekki ljóst fyrr en skilanefndir eru búnar að ganga frá málum og niðurstaða væntanlegra réttarhalda fæst.

En eins og margoft hefur komið fram á eru í lífeyrissjóðunum gríðarlegar eignir og eru mikið rætt um að það fjármagn geti verið það haldreipi sem gæti komið þessu þjóðfélagi í gang. Spurningin er hvenær efnhags- og atvinnulífinu verður komið í gang og hægt verður að láta þetta fjármagn vinna í stað þess að safnast upp á bankareikningum.

Í Morgunblaðinu í dag er mjög góð grein eftir stjórnarformann Lífeyrissjóð verzlunarmanna. Þar stendur m.a.“ Fréttastofa Stöðvar 2 hefur flutt af því fregnir í sumar og nú síðast 22. ágúst sl. að stjórn Lífeyrissjóðs verzlunarmanna vilji ekki veita öðrum en stjórnarmönnum sjóðsins upplýsingar um tiltekin atriði í rekstri sjóðsins, einkum gjaldmiðlaskiptasamninga og skuldir stærstu lánþega. Í fréttatíma stöðvarinnar sl. sunnudagskvöld var það ein fréttin að formaður stjórnar lífeyrissjóðsins hefði neitað Stöð 2 um viðtal um þessi málefni.

Fréttamaður Stöðvar 2 innti mig ítrekað eftir því í símtali fyrr um daginn hvort ekki væri ástæða til að sjóðurinn breytti afstöðu sinni til þagnarskyldu sinnar „í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu“. Jafn oft minnti ég fréttamanninn á að þagnarskyldan er lögboðin. Ég náði ekki að sannfæra fréttamanninn um að landslög séu rétthærri en „fjórða valdið“, fjölmiðlarnir.

Stjórnvöld eru þessa dagana að kanna hvort efni standi til að breyta lagareglum um trúnaðarskyldu banka og annarra fjármálastofnana. Lífeyrissjóðir hljóta eins og aðrir að sýna biðlund og fylgja því sem lög mæla fyrir um á hverjum tíma. Það er sérkennilegt að menn krefjist þess af öðrum að brjóta lög og gerast þar með sekir um refsivert athæfi. Lögbrot geta ekki innleitt traust og virðingu.“

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Lífeyrissjóðir og staða þeirra eru að sjálfsögðu "heitt" mál, enda skiptir staða þeirra og afkoma allan þorra landsmanna miklu máli.Það er hinsvegr fáránlegt, hversu margir hafa fallið fyrir ódýrum málflutningi Helga í Góu um sjóðina og heimta þá lagða niður. Helga, eins og flestum öðrum gróðamönnum, er umhugað um það fyrst og fremst að losna við þá viðbót og kostnaðarauka sinn við taxtalaun sem felst í lífeyrissjóðsframlagi launagreiðandans. Þarf ekki fleiri orð um það. En okkur alþýðufólki finnst hinsvegar óréttlátt og fáránlegt að Samtök Atvinnulífsins, þ.e. Vilhjálmur Egilsson, hafi rétt til þess að ráðstafa ellilaunum okkar með þeim hætti að tilnefna helming stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna. Fulltrúar okkar, launafólksins, eru kjörnir með lýðræðislegum hætti í gegn um stéttarfélög okkar. Hinsvegar hafa þeir ekki nema helmings rétt við ráðstöfun og ávöxtun fjárins. Þess eru fjöldamörg dæmi að stjórnarmenn SA í lífeyrissjóðunum hafi beitt bæði valdi og þvingunum til að láta sjóðina fjárfesta í nýtum hlutabréfum og verðbréfum fyrirtækja, sem þeir hafa borið fyrir brjósti og hafa ekki getað sýnt hinum almenna markaði að þau séu þess trausts verð að í þeim sé fjárfest. Lög um lífeyrissjóði hafa ítrekað og margoft verið brotin með þessum hætti. Við, sem greiðum í sjóðina, launþegarnir og hinir raunverulegu eigendur sjóðanna, eigum ein að geta kosið stjórnir sjóðanna. Atvinnurekendum kemur ekkert við hvernig þessu fé er ráðstafað, enda hafa þeir síður en svo sýnt það með sínu ráðslagi að þeim sé treystandi fyrir fé almennings.

Nafnlaus sagði...

Það skýla sér allir á bak við bankaleyndina. Þess vegna verður hér aldrei nein vitræn umræða um stöðu lífeyrissjóðanna frekar en annað í fjármálum þjóðarinnar.