miðvikudagur, 8. september 2010

Ruglið í Óla Birni og skoðanabræðrum

Sú krafa hefur verið áberandi í umræðunni í mörg ár að lífeyrissjóðir fjárfesti með peningum almennings í fyrirtækjum og tryggi þar með íslenskt atvinnulíf og þá um leið að þar séu starfsmenn sem greiði til sjóðanna. Lífeyrissjóðirnir hafa reyndar alltaf gert þetta og hafa verið umsvifamiklir á hlutabréfamarkaði og eins kaupum á bréfum frá fyrirtækjum.

Allt er þetta eðlilegt, ef rétt er að málum staðið. En það hefur hins verið áberandi af hálfu tiltekins hóps fólks, eins og t.d. sumum þingmanna Sjálfstæðisflokks að almenningur kunni ekki fótum sínum forráð í í fjárfestingum í fyrirtækjum. Þar eigi fjárfestar að fá fyrirtækin og lífeyrissjóðirnir að vera hlutlausir.

Þetta er klætt í búning þess að hér sé á ferðinni umhyggjusemi fyrir almenningi. Við sjáum vel afleiðingar gjörða og græðgi Hrunkvöðlana. Hagsmunum sjóðsfélaga hefur sannarlega ekki verið best fyrir komið með slíkri forræðishyggju. Hrunkvöðlar hafa viljað sitja að gróðanum en senda síðan tapreikninginn til skattgreiðenda. Þessar úrtöluraddir hefta aðgang fyrirtækja að fjármagni og draga að óþörfu þróttinn úr starfsemi þeirra.

Hrunkvöðlar vilja halda áfram á braut sérlausna og pólitískra afskipta. Launamenn sjá vel að þetta fyrirkomulag hefur ekki verið að færa landsmönnum bætt lífskjör. Ljóst er að það hagkerfi sem Norðurlöndin hafa starfað eftir og byggt upp hefur verið að skila bestu samfélögunum. Þar starfa auk heimamanna milljónir farandverkamanna við bestu og öruggustu skilyrði sem til eru. En þingmenn sjálfstæðismanna hafa aftur á móti verið fastir í aulabröndurum um norræna velferðarkerfið og berjast með kjafti og klóm að okkur takist að byggja upp samskonar samfélag. Til þess njóta þeir dyggan stuðning órólegu deildar VG þessa dagana.

Ísland var fyrir Hrun í efstu sætum þegar staða landa er skoðuð, en afleiðingar hagstjórnar og stefnu Hrunkvöðlana hefur leitt okkur til setu mun neðar á þeim listum. Við þurfum ekki heimasmíðaðar sérlausnir útvalinna, heldur að taka upp sömu stefnu og hin Norðurlöndin.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það á náttúrulega að gera þetta eins og norski olísjóðurinn sem er algjörlega bannað að dæla fjármagni inn í noreg, fyrir utan olíufjárfestingar.

En það er kannski hægt að hafa 15% þak á lífeyrissjóðunum, að þeir fjárfesti 15% innanlands en meira erlendis.

Auðvitað væru þessir peningar kærkomnir í þjóðfélagið, vandamálið er bara þannig að spilling og vinagreiðar eru ávallt til staðar hérna þess vegna verða fjárfestingar aldrei eðlilegar.

Það er að sjálfsögðu algjört tabú að tala um þetta opinberlega en allir vita þetta, við viljum flokka okkur undir upplýsta og gáfaða þjóð en þegar öllu er á botninn hvolft þá erum við alveg eins og Ítalir, við vitum um spillinguna, en gerum ekkert í því.

Nafnlaus sagði...

Varðandi lífeyrisjóðina vil ég koma að eftirfarandi sem mér finnst ámælisvert bæði hvernig greiðslur í lífeyrissjóðina er háttað sem og aðkomu sjóðsfélaga að þeim.

1) Það stenst varla skoðun að sjóðsfélagi fái ekki lífeyrir sinn á reikning og geti valið um leiðir til ávöxtunar. Slík er staðan í Noregi.

2) Það stenst varla skoðun að eftirlifandi maki eigi aðeins rétt á 50% af lífeyri maka síns við andlát hans. Skuldir hjá sama lífeyrissjóði erfast hins vegar 100%.

3) Það stenst varla skoðun hvernig lífeyrissjóðum íslendinga er allt of oft misbeitt í þágu viðskiptablokka á íslandi sem og pólitískra.

4) Það má færa fyrir því sterk rök að stórar fjárfestingar lífeyrissjóðanna hér á landi hafa átt stóran hlut í því að halda uppi of háu vaxtastigi.

5) Það stenst varla skoðun að sjóðsfélagar eigi ekki að hafa meiri afgerandi áhrif á starfssemi sjóðsins síns sem og fjárfestingarstefnu. Sjóðsfélagar eru nefnilega "hluthafar" í þeim og ber að virða sem slíka. Ávöxtun sjóðanna undanfarin ár sannfærir mig ekki um faglega nálgun þeirra.

Kveðja,
Björn Kristinsson

Sigurður Sigurðsson sagði...

Þú skautar framhjá aðalatriði málsins sem er að afhverju eiga lífeyrissjóðir að koma með beinum hætti að rekstri andvana fyrirtækja sem undirbjóða samkeppnisaðila á markaði. Ég sem sjóðsfélagi og atvinnurekandi hef athugasemdir við það að lífeyrissjóðurinn minn sé í benni samkeppni við mig. Ég hef ekki áhuga að því að leggja samkeppnisaðilum mínum til fjármagn svo þeir geti stundað undirboð og selt vörur undir kostnaðarverði eins og sum fyrirtæki hafa orðið uppvís af.

Nafnlaus sagði...

Ég viðurkenni að ég hræðist fátt meira en að lífeyrissjóðirnir verði nú tæmdir inn í "björgunaraðgerðir" þar sem fyrirtæki í kröggum verða keypt upp í stórum stíl í nafni þess að verið sé að bjarga atvinnulífinu.

Lífeyrissjóðir mega ekki vera notaðir í slíkt gambl. Hvaða vit eða þörf er á því að lífeyrissjóðir eigi Húsasmiðjuna eða Icelandair? Ef þessi fyrirtæki eru á hausnum þá eiga þau að fara í gjaldþrot og nýjir aðilar að taka við.

Annað sem hefur alltaf valdið mér áhyggjum er hvernig er valið í stjórnir lífeyrissjóða. Þrátt fyrir mikin áhuga á efninu hef ég enn ekki hugmynd um það hvernig fólk velst þarna inn, ég hef aldrei verið boðaður á aðalfund í lífeyrissjóðnum mínum en ég er hluthafi þar eins og ég lít á málið.

En stóra málið er í dag að lífeyrissjóðirnir mega ekki koma inn á markaðinn og skekkja þar alla samkeppnisstöðu. Til þess eru þeir of stórir, það kemur enginn til með að geta keppt við lífeyrisssjóð og líka eru þeir síðasta fjöreggið. Ef þeir tæmast núna inn í vanhugsaðan fyrirtækjarekstur þá eru þetta síðustu sjóðirnir á Íslandi. Tapist þeir þá er þettta búið á Íslandi. Þess vegna verður að umgangast þá peninga sem þar liggja með virðingu og varfærni.

Kær kveðja, Þórður Á Magnússon

Guðmundur sagði...

Bara svo það sé á þurru.

Ég er ekki sammála hvernig nefndin hefur staðið að þessu, en er að benda á þversögnina í umfjölluninni.

Menn eru að krefjast að lífeyrissjóðirnir fjárfesti, en vilja svo ekki að þeir geri það, nema þá í fyrirtækjum sem Hrunkvöðlum er að skapi, reyndar fyrirtækjum sem eru vonlaus en ætlast til þess að lífeyrisjóðinir bjargi þeim.

Vitanlega fjárfesta lífeyrissjóðirnir í samkeppnisfyritækjum og þeim sem þeir telja að komi til með að skila arði.

Hvað annað?

Tryggvi sagði...

Sjálfsagt að menn skiptist á skoðunum um þetta eins og annað en er ekki kominn tími til að hætta að afgreiða það sem tómt "rugl" ef menn eru á öndverðri skoðun. Svoleiðis umræða er ekki gagnleg.

Sigurður Sigurðsson sagði...

Það er ekkert að því að lífeyrissjóðir fjárfesti í atvinnufyrirtækjum en það óþolandi að þeir skekki samkeppnisstöðu fyrirtækja á markaði.

Guðmundur sagði...

Sammála Tryggva, þurfum að komast upp úr þessari gryfju sem stjórnamálamenn þá sérstaklega stjórnarandstaðan ástundar

Nafnlaus sagði...

Það er mikilvægt að Þorgerður komi aftur á þing svo við losnum við Óla Björn sem allra fyrst. Kv Gísli

Nafnlaus sagði...

Auðvitað eiga lífeyrissjóðir að fjárfesta í fyrirtækjum og þó svo þau séu í samkeppni. Þettað er gert með all flest lífeyrissjóði erlendis. Enda er hlutverk lífeyrissjóða að ávaxta peningana okkar. Bara það sama og bankar eru að gera, þeir eru að lána fyrirtækjum í samkeppni peninga. Enn mér finnst Framtakssjóðurinn ekki vinna þannig að maður fá traust á honum, full mikið 2007 andi og það má alls ekki vera. Því hlutverk hans er ekki síður að vinna heiðarlega og hafa siðferði að leiðarljósi. Kv Simmi