miðvikudagur, 8. september 2010

Efla hátækniiðnað og rannsóknir.

Það hefur ítrekað komið fram að íslensk tæknifyrirtæki séu að flytja úr landi eða að undirbúa það. Forsvarsmenn hafa hver á fætur öðrum lýst hver staðan hér sé og að fyrirtækin séu nauðbeygð til að flytja starfsemi sína af landi brott. Ástæðan séu óstöðugur gjaldmiðill og háir vextir. Mörg svæði í öðrum löndum bjóða fyrirtækjunum margskonar ívilnanir, vilji þau flytja starfsemi sína þangað.

Aðrar þjóðir og þá kannski sérstaklega ákveðin svæði, ganga langt fram í því að laða til sín hátæknifyrirtæki og skapa þeim aðlaðandi umhverfi. Þetta vantar hér á landi. Íslensk stjórnvöld verða að taka frumkvæði og taka á þessu verkefni af metnaði. Íslendingar hafa varið svipuðu hlutfalli og aðrar þjóðir í rannsóknir. Meðal hinna norðurlandanna er verið að auka rannsóknarfé og styðja betur við hátækniiðnaðinn. Einnig verðum við að styðja enn betur við háskólana og þá sérstaklega starfstengt framhaldsnám. T.d. ræða Danir það nú að stighækka á næstu árum það hlutfall sem rennur til rannsókna og nær tvöfalda það árið 2015.

En hér heima hverfa erlend fyrirtæki frá vegna vandræðagangs í stjórnsýslunni. Það tekur mánuði jafnvel ár að fá niðurstöður frá skipulagsnefndum og samningum milli sveitarfélaga, eins og við sjáum svo glögglega þessa dagana á Suðurnesjum. Sama á við um skattgreiðslur og skil á virðisauka. Þetta er ekkert nýtt þetta hefur komið margoft fyrir á undanförnum árum. Vinnumarkaðurinn getur ekki búið við sérlausnum stjórnmálamenna byggðum á einhverjum prinsippum án tillits til heildarhagsmuna. Grundvöllur leikreglna verður að vera öguð og skýr stefna

Undanfarin misseri hefur okkur verið gert að horfa á eftir góðum fyrirtækjum sem eiga langa sögu í íslensku atvinnulífi. Þar voru að verki frumkvöðlar sem með mörgum góðum starfsmönnum hafa á undanförnum árum lagt á sig aukna vinnu og lægri laun til þess að komast í gegnum byrjunarerfiðleika fyrirtækjanna. Þessi fyrirtæki vilja vera áfram hérna, en ástandið hér heima er þeim óbærilegt.

Vaxandi fjöldi rafiðnaðarmanna er að horfa á eftir störfum sínum fluttum til annarra landa. Þeir hafa tekið þátt í að byggja þessi fyrirtæki upp. Rafiðnaðargeirinn og samtök rafiðnaðarmanna hafa varið hundruðum milljónum króna á hverju ári til þess að bæta menntunarstig íslenskra rafiðnaðarmanna. Í þessu fólki er fólgin gífurlegur auður fyrir íslenskt atvinnulíf. Þetta fólk skiptir sköpum við að skapa íslenskum fyrirtækjum samkeppnishæft umhverfi.
En nú stendur þetta fólk í vaxandi mæli frammi fyrir því að verða að velja á milli atvinnuleysis, lágt launaðra starfa, eða fylgja fyrirtækjunum erlendis, eins og mörgum þeirra stendur til boða. Það er verið að eyðileggja áratuga umfangsmikið og kostnaðarsamt uppbyggingarstarf.

Á undanförnum 2 árum hafa verið stofnuð með stuðningi Nýsköpunarstofnunar um 80 ný sprotafyrirtæki og þau eru í dag með um 400 manns í vinnu. Á árunum fyrir Hrun komust fá fyrirtæki af stað vegna þess viðhorfs sem þau mættu hjá fjármálastofnunum, sem má lýsa með margendurteknum lýsingum á því hverju menn mættu í bönkunum; „Hvaða fífl ertu að setja peninganan þína í áhætturekstur, láttu okkur frekar fá þá og við setjum á þá í 100% örugga peningasjóði okkar. Láttu peningana vinna fyrir þig.“ Afleiðingarnar þekkjum við.

Íslensk fyrirtæki stríða við svo miklar sveiflur í sínum rekstri að þau eru undirseld þeirri stefnu sem stjórnvöld hafa fylgt að bíða eftir næstu innspýtingu sem hafa verið mannaflsfrekar framkvæmdir. Ef ekki verður staðið rétt að næstu "uppsveifla", má búast við hún gæti orðið styttri en oft áður og timburmennirnir enn harkalegri. Sumt af því sem stjórnmálamenn ræða um lítur út eins og "síðasti smókurinn" áður en við hættum alveg.

Er okkar björg fólgin í því að verða með svo skert mannorð að við fáum ekki lán erlendis frá? Í þeirri stöðu að verða að fara að huga að alvöru lausnum, sem eru að setja niður stöðugan gjaldmiðil, viðráðanlega vexti, þannig að við gætum skapað verðmæti eins og annað fólk með því að gera hlutina aðeins betur en næsti maður. Það er nefnilega undirstaða viðskiptahugmyndar og eðlilegrar uppbyggingar atvinnulífs ásamt hugmyndum sem skapa 3 – 20 manns atvinnu þar sem unnið er að því að skapa verðmæti.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Held að stór hluti af vandanum sé ekki aðeins gengissveiflan heldur einnig óstöðugt stjórnarfar.

Það er/hefur verið mikil stjórnarkreppa hér á landi. Alþingi óstarfhæft og óeiningin náð inn í alla flokka.

Stefna í opinberum fjármálum er óskýr og það sem hefur verið birt/sagt vekur ekki traust.

Síbreytilegar reglur á skattalögum fæla einnig fjárfesta. Þetta snertir bæði skatta á lögaðila, fjármagnstekjur en ekki síður mikil hækkun á tryggingargjaldi.

Gjaldeyrishöftin gera síðan lítið annað en að loka stöðunni. Ég vil í reynd kalla þetta höft á fjármagnsflutninga því þótt við hefðum annan gjaldmiðil en IKR þá væri einnig hægt að setja slík höft.

Kveðja,
Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Ég vona Guðmundur að þú sért ekki taka þessa umræðu vegna þess að IBM er hætt við að nota þjónustu gagnavers hér á landi. Gagnaver höfum við ekkert að gera við skapa því sem næst enginn störf. Þau störf sem skapast einsog þú veist eru ekki tæknistörf, kanski einn rafvirki , vélstjóri og svo öryggisverðir. Enn það er rétt við verðum að hafa rétt umhverfi fyrir fyrirtækinn og þau verða svo að geta borgað góð laun og skkatta. Hvar tekur ár að fá niðurstöður frá skipulagsnefnd ?? Það er ekkert sem þú getur kennt sveitarfélögum Suðurnesjum um að Áver í Helguvík kemur ekki. Það er skortur á lánsfé sem stoppar það. Einsog þú veist þá er leyfið fyrir suð vestur línu til enn það vill enginn fjármagna. Ekki viljum við að stjórnsýslan standi sig ekki einsog var fyrir hrun. Ég er sammála þér með sprotafyrirtækinn þau þarf að efla og styðja við þaug ef þau eru lífvænleg. Stjórnmálamenn okkar eru okkur mjög dýrir og þá er ég ekki að tala um laun heldur vegna aðgerðaleysis og sundrungar. Þettað á við alla flokka, þeir sem eru í stjórnarandstöðu minna mann oft á áhorfendur á fótboltaleik vantar ekki leiðbeiningar enn geta svo ekkert. Kv Simmi

Nafnlaus sagði...

Búið er að eyða mikilvægum tíma og möguleikum í moldviðri um ESB á umliðnum árum, á meðan tækifæri voru til að fyrirbyggja hrun, með traustum gjaldmiðli.

Nú er sá tími liðinn, hrunið veruleiki, með stórkostlegu tjóni, en ekkert slíkt skuldatjón heimila eða fyrirtækja varð innan evrunnar, vegna gengisfalls eða verðtryggingar.

Stærsti hluti tjónsins sem var á Íslandi má rekja beint til krónunnar. Hvernig væri að ræða það frekar.

Fyrir hrun var Ísland miklu betur í stakk búið til að mæta áföllum. Nu er ekkert svigrúm til að mæta frekari áföllum.

Nú er enginn tími í frekari moldviðri og ruglandi umræðu, ef ekki á að verða annað hrun.

Vandi og sjúkdómur Íslands er allt of smár og ónýtur gjaldmiðill, sem hefur valdið mesta skuldatjóni í sögu þjóðarinnar, og svift þúsundir heimila og einstaklinga aleigunni.

Margir flúnir land eða eiga vart til hnífs eða skeiðar, vegna þess að ekki var hlustað á aðvaranir vegna mikillar hættu vegna svo smás gjaldmiðils. Ætla menn virkilega að halda áfram á þessari háskabraut, eru aðilar svona blindir, eða er aðilum alveg sama um hörmungar almennings.

Engan sjúkdóm er hægt að lækna nema ráðast að rótum vandans.

Upptaka alvöru gjaldmiðils (evru) er eina lækningin sem til er við vanda Íslands. Ef það er ekki gert, mun vandinn magnast frekar.

Hefur Ísland ekkert lært??

Nafnlaus sagði...

Nafnlaus: 8. september 2010 15:13

Eylíf umræða um krónuna. Þetta er svona spurning um eggið og hænuna. Var það krónan sem olli hruninu eða var það hagstjórnin.

Þórarinn Guðmundsson, yfirhagfræðingur, Seðlabankans er búinn að gefa út ágæta skýrslu um þetta. Niðurstaðan var einföld. Bankahrunið á Íslandi hefði orðið nánast jafnstórt þótt við hefðum haft EUR. Hagstjórnin og stjórn peningamála var í slíkum lamasessi.

Það er hins vegar allt annað mál hvort við eigum að nota IKR í framtíðinni. Ekki halda samt að upptaka EUR ein og sér geri einhverja stórkostlega hluti. Grunnurinn að veldsæld þjóða felst í nokkrum mikilvægum atriðum:

*Lítil pólitísk spilling
*Skynsamleg nýting auðlinda ef fyrir eru
*Öflugt lýðræði
*Öguð hagstjórn
*Pólitískur stöðugleiki

og nokkur atriði í viðbót sem ég leyfi þér að fylla inn í.

Þetta allt er forsenda velferðarsamfélags. Hve marga af þessum ofangreindum þáttum hafa verið við lýði á Íslandi ? Ég tel engann. Þetta er meginástæða þess að Hrunið varð, ekki IKR.

Nafnlaus sagði...

Ákaflega einkennileg vinnubrögð að skrifa um svona málefni nafnlaus. Á að taka nafnlausar aths. alvarlega. Nei
Kristinn Þ. Guðmundsson

Guðmundur sagði...

Úr því menn eru farnir að tala um kr. hér, en ekki undir pistlum þar um hana er fjallað.

Almennt séð þá ræðst verð á gjaldmiðlum af framboði og eftirspurn. Núna er lítil eftirspurn eftir krónum og mikil eftir að kaupa gjaldeyri fyrir krónur. Því veikist krónan. Trúverðugleiki krónunnar er lítill og við þurfum að fjármagna afborganir og vexti af erlendum lánum í náinni framtíð. Krónan er því mjög veik og er haldið frá því að veikjast enn frekar með gjaldeyrishöftum. Hér væri hægt að enda söguna og segja að við þurfum á veikri krónu að halda til að skapa viðskiptaafgang við útlönd svo að við getum greitt miklar erlendar skuldir.

En málið er ekki alveg svona einfalt. Raungengi krónunnar er sögulega mjög lágt en eftir því sem raungengið er lægra því betri er samkeppnisstaða útflutningsgreinanna. Þegar krónan er svona veik þá verður til mikill hagnaður í útflutningsgreinanna. Við það verður mikið ójafnvægi milli atvinnugreina. Við getum reiknað með að launafólk í útflutningsgreinunum vilji hluta af þeim mikla gróða sem verður til í útflutningsgreinunum. Í kjölfarið má búast við að verslun og þjónusta hækki laun hjá sínu fólki og velti þeim kostnaði út í verðlagið. Þegar upp er staðið þá verðum við búin að hækka raungengið í gegnum verðbólgu í stað þess að hækka það í gegnum nafngengið. Þá hafa allir tapað.

Því er heppilegasta leiðin til að koma á jafnvægi milli atvinnugreina og launþegahópa að nafngengið styrkist. Við getum þó ekki búist við að gengið nái aftur fyrri styrk í bráð.