fimmtudagur, 16. september 2010

Formannafundur ASÍ

Í dag 16. sept. er formannafundur aðildarfélaga ASÍ, þennan fund sitja um 60 formenn. Þessir fundir eru haldnir reglulega og eru áhrifamesta valdið milli ársfunda. Væntanlegir kjarasamningar verður vitanlega meginviðfangsefni fundarins, auk þess hefur undanfarið ár farið fram umræða um skipulag ASÍ.

Á fundum innan stéttarfélagana undanfarið hafa verið bollaleggingar hvort það sé grundvöllur til þess að fara fram sameiginlega til samninga, eins og gert hefur verið í síðustu tveimur samningum. Margir eru þeirrar skoðunnar að forsendur skorti, en flestir eru sammála að samstarf aðila vinnumarkaðs, sveitarfélaga og hins opinbera sé aftur móti vænlegasta leiðin til þess að koma fótunum undir atvinnulífið.

En það þarf margt að gerast ef takast á að gera sameiginlegan samning til nokkurra ára og það mun örugglega taka langan tíma, verði ákveðið að fara þá leið. Þar spilar langstærstu rulluna krónan og hagstjórnin. Ríkisstjórnin fæst ekki til þess að ræða ESB vegna þess að það er óþægilegt mál innan hennar veggja.

Valdamenn innan hagstjórnarkerfisins gefa verkalýðshreyfingunni langt nef og segja að slaki á vinnumarkaði sé það mikill að verkalýðshreyfingin geti ekki gert neitt annað en að þiggja það sem að henni verði rétt, og þeir sjá í raun enga ástæða til þess að vera að trufla sig á því að taka þátt í neinum viðræðum við stéttarfélögin.

Það blasir við launamönnum að stjórnmálamenn hafa viðhaldið því fyrirkomulagi að láta launamenn og almenning um það hlutskipti að sitja við árarnar í bátnum, ríkisstjórn og stjórnendur hagkerfisins hafa haldið sig til hlés. Hagstjórnarmistök eru leiðrétt með því að fella gengið og þá um leið rústa öllum forsendum sem kjarasamningar voru reistir á.

Margir benda á ofsfengin gróða útflutningsfyrirtækja og þá ekki síst útgerðarfyrirtækjanna. Staðan er reyndar sú að um þriðjungur útgerðarfyrirtækja hefur verið svo illa rekinn undanfarin ár að ekkert getur bjargað þeim, vitanlega væri best fyrir samfélagið að þessi fyrirtæki fari á hausinn sem fyrst svo hægt sé að koma veiðiréttindum í hendur manna sem hafa meiri samfélagslega ábyrgð.

Ljóst er að ekki er hægt að undirbúa langtímakjarasamning á þess að vita á hvaða forsendum eigi að reisa hann. Ætla stjórnvöld að nota krónuna sem aðalgjaldmiðil til framtíðar eða á gera einhverjar breytingar?

Kjarasamningar undanfarinna ára hafa einkennst af því að sá launakostnaðarauki sem til skiptana var hefur verið settur nær allur í lægstu launataxtana á meðan hærri taxtar hafa fengið mun lægri hækkanir. Þar má t.d. benda á taxtakerfi rafiðnaðarmanna, lægstu taxtar þar hafa frá 2001 hækkað um 46% umfram almennar launahækkanir. Samkvæmt tölum Hagdeildar þá hafa lægstu taxtar haldið í við verðbólguna. Það er engin launung á því að það eru margir sem eru þeirrar skoðunnar að nú verði að semja um hækkanir sem ná upp í gegnum öll launakerfin.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Núna er Ísland farið framhjá "point of no return" eins og sagt er á flugleiðum, þegar flugvélar fara yfir þann stað, þegar ekki er lengur hægt að snúa til baka, þar sem of langt er í brottfararstað, þar sem slíkt flug er of langt og ekki er til nægjanlegt eldsneyti.

Eina leiðin er að halda áfram á ætlaðan lendingarstað framundan, enda er styttra þangað. Þetta á t.d. við þagar flugvélar flúga yfir mikið hafsvæði.

Ísland er í þessari stöðu. Búið er að sækja um aðild að ESB, og landið hefur ekkert þol eða burði til að fara í gamla farið, með stórhættulegan gjaldmiðil, verðbólgu, sem eykur skuldir og vanda heimilanna.

40 þúsundir heimila eru nú þegar á barmi gjaldþrots. Ferkari aukning á skuldum þeirra, með gömlum krónuaðferðum myndi sökkva þessum heimilum.

Ef það væri gert færi eins fyrir þjóðinni og flugvél sem reyndi að snúa til baka yfir hafsvði, þegar hú væri löngu komin yfir "point of no return" og hefði þvi ekki eldsneyti í slíkt flug,,,,

Alvaran fyrir Ísland er jafn mikil og fyrir flugvél sem er yfir hafsvæði.

Verði reynt að snúa til baka, á grunni krónunnar og gamalla aðferða, verða hörmungar, með heila þjóð - en ekki bara eina flugvél. Þetta þarf að upplýsa fólk um.

Klárum flugið, lendum vélinni heilli á áfangastað innan ESB, þar sem fók byggir hús á klettum, en ekki sandi, þar sem er traustur gjaldmiðill, sem sekkur ekki við minnstu ágjöf, þar sem fólk borgar eitt hús fyrir eitt hús, en ekki tvö fyrir eitt eins og á Íslandi, þar sem er von um bjarta framtíð,,,

Þrælaálag krónunnar (verðtrygging og vextir á Íslandi umfram það sem er innan evrunnar) vegna húsnæðiskaupa, jafngildir því að meðalmaður vinni frá janúar til maí á hverju ári - bara fyrir þessum skatti.

Það væru stærsta kjarabót í 100 ár að losa þjóðina úr þessum krónuhlekkjum,,,,

Með slíkum aðferðum væri búið að leggja grunna að hraðleið til endurreinsar,,,

Notum aðferðafræði Mandela og horfum til framtíðar og forðumst mistök fortíðarinnar.

Þannig bjargaði einn maður heilli þjóð, með samtakamætti og heilbrigðri skynsemi,,,

Oft veltir lítil þúfa þungu hlassi,,,

Nafnlaus sagði...

Mikið rétt,

Nú þarf bara leiðtoga á öllum stöðum til að lenda vélinni, með öruggum hætti.

Traustur skipstjóri í stórsjó og háska, endurtekur ekki aðferðir sem kostað hefur fórnir og skaða.

Sama á við um þjóðina,,,,

Þjóðin þarf að komast í örugga höfn, það er ekkert þrek eftir,,,

Þjóðin þarf leiðtoga, með kjark og þor, sem eru hæfir til forystu á örlagastundu, lenda flugvélum örugglega og koma skipum í örugga höfn,,,

Á slíkum stundum, veltur allt á réttum aðgerðum, á meðan tími er til.

Til þess þarf fólk með kjark.

Ísland þarf Mandela eintök,,,

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, komdu með þrýsting,
Frjálsar handfæra veiðar.