Forseti Íslands hefur ásamt hluta VG og hluta Sjálfstæðismanna farið offari gegn auknum samskiptum við nágrannalönd okkar innan ESB. Þetta fólk hefur ítrekað sett fram hugmyndir um að taka frekar upp aukin samskipti við Kína og Rússland. Gert hefur verið lítið úr ESB og velferðarkerfi Norðurlandanna.
Ekki eru mörg misseri síðan að Sjálfstæðismenn voru hér við völd og þá var fylgt þeirri stefnu að sveigja sem mest til hægri í átt til Bandaríkjanna. Forsetinn fagnaði þessu ákaft og fór víða til þess að kynna þann boðskap. Afleiðingar þeirrar stefnu blasa við okkur, og hefur fengið ítarlega umfjöllun hér á þessari síðu og á svo mörgum öðrum stöðum.
Það stjórnkerfi sem blasir við okkur hefur fengið lágmarkseinkunn. Samræmi milli ráðuneyta skortir tilfinnanlega. Vantar mælikvarða og virðist vera að það hafi verið gert vísvitandi svo ekki sé hægt að greina hvernig kerfið standi sig. Aðgerðaáætlanir virðast vanta og ef þeim er komið á fót eins og t.d. Stöðugleikasáttmála, þá bregst stjórnkerfið við með því að vilja alls ekki fara eftir samþykktum.
Þau sjónarmið sem framangreindir aðilar færa fram sem rök fyrir sínu máli, er frelsi og fullveldi eins og þeir skilja þau hugtök. Þessi lönd Kína, Rússland og Bandaríkin eiga það sannmerkt að þar eru réttindi launamanna ákaflega léleg, það mætti reyndar taka mun sterkar til orða hvað þetta atriði varðar.
En aftur á móti er viðurkennt að hvergi búa launamenn við öruggara umhverfi en á Norðurlöndum og ESB hefur sett inn mörg eftirtektarverð atriði til að tryggja stöðu launamanna. Eftirminnilegt hversu erfiðlega gekk að fá ríkisstjórnir Sjálfstæðismanna til þess að staðfesta þær reglur. Framangreindar ástæður segja í raun okkur allt um hver afstaða þessa fólks er gagnvart launamönnum.
Framangreint fólk hefur ítrekað sagt að það vilji halda í krónuna, hún skapi svo góðan sveigjanleika og tryggi minna atvinnuleysi. Það er gert með því að fella krónuna reglulega og um leið ógilda kjarasamninga lækka laun og kaupmátt og tryggja að Ísland sé láglaunasvæði. Samtök launamanna hafa bent á að nú sé nóg komið og segja að það sé tilgangslaust að gera langtímakjarasamninga nema þessum leikreglum verði breytt.
Ég er einn af mörgum sem velta því fyrir sér hvort nú sé komið að uppgjöri. Alþingi og stjórnmálin eru í upplausnar ástandi og allir kjarasamningar lausir eftir nokkrar vikur. Verður það niðurstaðan að halda áfram óbreyttri stefnu og þeir sem hafa náð að skara eld að sinni köku tryggi sín völd á kostnað launamanna eins og svo oft áður?
Alla vega virðist formaður Sjálfstæðismanna skynja að sú staða sé að koma upp og vill nú komast í ríkisstjórn. Samfara þessu lýsir hluti Sjálfstæðismanna því yfir að þeir vilji stofna flokk til þess að verja sín borgaralegu réttindi við að tryggja völd sín á þjóðfélaginu og verjast því að launamenn nái rétti sínum.
2 ummæli:
Góð grein,
Verkefnin framundan eru ærin, nú veltur allt á aðild að ESB.
Minnumst hinsvegar orða, leiðtoga sem bjargaði heilli þjóð úr meiri hörmungum.
It always seems impossible until its done.
Nelson Mandela
Fantagóð grein að venju, takk Kristinn
Skrifa ummæli