Í báðum rannsóknarskýrslunum koma fram óhrekjanleg rök fyrir því að orsakir Hrunsins er að finna í atburðum og ákvörðunum sem áttu sér stað fram til ársins 2006 og fyrstu mánuði ársins 2007. Eftir það varð hruninu vart forðað, þótt vissulega hefði verið hægt að draga úr tjóninu og bregðast við með faglegri hætti.
Þingmannanefndin telur að meginástæðu fyrir hruninu megi rekja fyrst og fremst til framferðis og stjórnarhátta stjórnenda og aðaleigenda bankanna sjálfra en rótina að þessum óförum megi hinsvegar rekja til einkavæðingar bankanna fram til ársins 2003 og þess óhefta vaxtar sem stjórnvöld og eftirlitsstofnanir létu viðgangast, og í raun hvöttu til, framundir það síðasta.
Fjármálaeftirlitið og ekki síst Seðlabanki Íslands fá algjöra falleinkunn í þessu samhengi. Þá sé ekki síst orsaka hrunsins leitað í þeim alvarlegu mistökum sem hér voru gerð í efnahagsstjórn á árunum fyrir hrun. Sérstaklega á þetta við um tímabilið frá 2003 til 2007 þegar vöxtur bankakerfisins var sem mestur.
Umræða í aðdraganda að skilum skýrslu þingmannanefndarinnar og fyrstu dagarnir á eftir lituðust nokkuð af forsíðufréttum MBL sem birti fimm daga í röð undarlegar fréttir fullar af alvarlegum aðdróttunum grundvölluðum á óljósum sögusögnum. Óvandaður fréttaflutningur blaðsins um svo mikilvæg mál er enn alvarlegri þegar tekið er tillit til þess að þar ræður ríkjum sá einstaklingur sem m.a. niðurstöður þingmannanefndar benda til að beri mesta ábyrgð, t.d. sem forsætisráðherra á tímum einkavæðingar bankanna og mestu hagstjórnarmistaka Íslandssögunnar og sem seðlabankastjóri og formaður bankastjórnar á þeim tíma sem Seðlabankinn brást algerlega sínum eftirlits- og ekki síst viðbragðsskyldum. Vegna fyrningarákvæða eru störf hans sem ráðherra ekki til umfjöllunar hjá þingmannanefndinni.
En maður verður í sjálfu enn meir undrandi á þeim umæðum sem fram fara á hæstvirtu Alþingi þessa dagana. Þar sem fremstir fara fulltrúar þeirra flokka sem hafa verið í ríkisstjórnum undanfarna tvo áratugi. Þeir vola og fyrra sig allri ábyrg og ganga svo langt í leit sinni að það er helst að skilja að það sé lífeyrissjóðunum að kenna hvernig komið er fyrir þessari þjóð.
Er gjörsamlega útilokað að fram fari vitræn umræða á „hæstvirtu!!??“ Alþingi?
6 ummæli:
Sá svoldið góðan punkt í bók í gærkvöldi og datt í hug að kanski ætti hann við okkur Íslendinga. "Fólk kýs þá stjórnmálamenn sem það finnst samsvara sér " Kv Simmi
Sæll Guðmundur,
Það er margbúið að hrekja þessar fullyrðingar um að ekki hefði mátt afstýra hruninu eftir 2007. En auðvitað er skiljanlegt að menn sem hafa pólitíska hagsmuni af því að halda þessu fram skuli gera það. Það hefur þvert á móti verið sýnt framá með rökum að falli bankanna hefði mátt afstýra og þannig koma í veg fyrir það þjóðargjaldþrot sem við stöndum frammi fyrir.
Þó að það kunni að vera freistandi að taka Samfylkinguna út fyrir sviga er þáttur hennar og ábyrgð á hruninu sjálfu jafnmkil og Sjálfstæðisflokksins á því tímabili sem þessir flokkar störfuðu saman.
Því sem ekki var forðað eftir 2007 var fyrirsjáanleg bankakreppa en það er allt annað og miklu minna en hrun alls bankakerfisins og er það ekki einmitt þá sem stjórnvöld áttu að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir allsherjarhrun?
Þannig vil ég meina að meginábyrgðin á því að allt hrundi hér til grunna sé hjá Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki. Framsóknarflokkurinn á svo heiðurinn af mestu spillingu sem þrifist hefur hér á landi en það verður seint hægt að kenna þeim um hrunið sjálft.
kv
Gunnar Jóhannsson
Sæll Gunnar
Verð að viðurkenna að ég hvergi séð þetta hrakið nema í MBL, og ég þekki reyndar engan sem tekur mark á umfjöllun núverandi ritstjóra um Hrunið og aðdraganda þess.
Góða helgi GG
Jæja Guðmundur minn, þú ert greinilega í skotgröfunum sem einkenna íslensk stjórnmál og koma okkur nákvæmlega ekkert áfram. Mér dettur t.d. ekki í hug að kenna jafnaðarmönnum einum um hrunið jafnvel þó þeir eigi heiðurinn af EES samningnum sem gerði jú útrásina mögulega ekki satt?
Ég er kominn á þá skoðun að stjórnmálamenn séu í eðli sínu prinsipplausar druslur. Lýðskrumið sem m.a. felst í því að skerða kjör stjórnmálamanna gerir ekkert annað en að auka á spekilekann sem hrjáir okkar hæstvirta alþingi nú um stundir og er tilefni pistilsins sem þú skrifar.
Ég er í Rafiðnaðarsambandinu og tel að þú hafir staðið þig nokkuð vel á þeim vettvangi. Þess vegna finnst mér að þú ættir að vera hafinn yfir svona flokkspóitískt bull en það er engu líkara en að þú fallir í sömu gryfju og þú ert að gagnrýna þ.e.a.s. skotgrafirnar.
Góðar stundir.
kv
Gunnar Jóhannsson
Flottur pistill og skilmerkilegur, í sjálfu sér ekkert nýtt þar og einfaldlega raktar staðreyndir sem allir vita, en sumir vilja ekki að séu sagðar eins og t.d. þessi Gunnar. Þá er gripið til þess að reyna klína á þann hinn sama að þar fari einhver flokkspólitískur dindill. Það er bara ekki heil brú þessum málflutningi Gunnars
Kv. Kristinn sem er líka Rafís maður og líka mjög sáttur hvernig sambandið hefur verið undir undir stjórn Guðmundar
Skrifa ummæli