sunnudagur, 26. september 2010

Hvert stefnum við?

Við erum mörg sem veltum því fyrir okkur þessa dagana hvernig málin muni þróast næstu vikurnar. Stjórnmálin í upplausn, þingmenn berast á banaspjótum og víkja sér undan allri ábyrgð og vilja telja okkur í trú um að allt sé kerfinu og bankaglæframönnum að kenna. Og svo eigum við að fara að gera kjarasamninga.

Fall efnahagslífsins var í boði íslenskra stjórnmálamanna. Það er Ríkið sem á að setja leikreglur og gæta hagsmuna almennings. Nú liggja fyrir upplýsingar um að það lágu fyrir stjórnmálamönnum upplýsingar um veika stöðu íslenska bankakerfisins í kosningabaráttunni 2007. En þrátt fyrir fóru stjórnmálamenn í gegnum þá baráttu undir fánum traustrar efnahagsstjórnunar og í stjórnarsáttmála Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks vorið 2007 eru ákvæði um að stækka bankakerfið enn frekar.

Þá fyrst varð dansinn í kringum gullkálfinn taumlaus og almenning staðfastlega talið í trú um að hér gæti ekkert gerst, nema þá að yfir okkur myndi flæða enn meiri velmegun. Efnahagsstjórnin var í höndum ábyrgðarlausra lýðskrumara sem börðu sér á brjóst yfir innistæðulausri velsæld, sem þeim var það samt sem áður kunnugt um að myndi ekki standast.

En þeir horfðu á hvert heimilið á fætur öðru ásamt fyrirtækjum í Þórðargleðinni skuldsetja sig út fyrir öll mörk. Sveitarstjórnarmenn eyddu langt um efni fram í hinni hömlulausu fegurðarsamkeppninni sem fram fór milli sveitarfélaganna og þau tóku erlend lán og byggðu fótboltavelli og sundlaugar og sóknarnefndir reistu stórar og glæsilegar kirkjur. Mörg heimili og fyrirtæki eru fallinn eða þjökuð af uppdráttarsýki fallinnar krónu. Þarna er ekki einvörðungu við fjárglæframenn að sakast. Á þessum forsendum fer um mann hrollur þegar hlustað er á umræður þingmanna á Alþingi þessa dagana, ekki síst þeirra sem voru stjórnarþingmenn og ráðherrar fyrir Hrun.

Á fyrstu mánuðum eftir hrun töluðu þessir menn um að áfallið hefði komið sem þruma úr heiðskýru lofti erlendis frá og vonlaust að sjá fyrir. En nú hafa háttsettir skipt um plötu og segja að allt hafa verið fyrirséð og reyndar lítið hægt að gera á árunum 2006 til 2008. Störf ráðherra hefðu falist að fela fyrirsjáanlegar hörmungar sem allra lengst. Lygavefur var spunninn, skattar á hina hæst launuðu lækkaðir til þess að kynda bálið enn frekar.

Hvers vegna var ekki farið að ráðum erlendra vinaþjóða og leitað til AGS árið 2007 í stað þess að fara í hömlulausa kosningaloforðabaráttu, ef allt var á hraðri leið til helvítis? Nei rætt var um snertilendingu seinni hluta árs 2008 og hagkerfið myndi taka flugið óðara þar á eftir. Hvers vegna var ekki farið að ráðum erlendra Seðlabanka og ráðinn fagmaður í Seðlabanka í stað stjórnmálamanns. Á Alþingi er viðurkennt að kerfið hafi brugðist en þingmönnum virðist það virðist vera fyrirmunað að skilja sína ábyrgð, það var kerfið sem brást segja þeir ekki þeir sem stjórnuðu kerfinu. Þessi málflutningur er fullkomlega óskiljanlegur venjulegu fólki sem stendur utan Alþingis og horfir þar inn furðulostið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er undir aðilum komið hvar við lendum.

Aðilar geta valið um nýtt hrun eða endurreisn.

Nýtt hrun:
Ef aðild að ESB verður felld verður nýtt hrun, þar sem ekki verður aðgangur að erl. lánum. Stór verkefni komast því ekki í gang. Verðtryggðarskuldir hækka, aukin gjaldþrot og líklega nýtt kerfishrun, með verri afleiðingum.

Endurreisn:
Aðild að ESB, og hærra gengi, með lækkun verðtryggðra lána, auknum kaupmætti stöðugleika og aðgangi að erl. lánsfé, sem gerir mögulegt að setja stórverkefni í gang. Þetta er eina raunhæfi möguleikinn á björgun.

Um helgina var unnið frækið björgunarafrek, þar sem björgunarfólk beitti þeim aðferðum og aðgerðum sem skiluðu sem mestum árangri og hikaði ekki.

Þannig verður Ísland að komast út vandanum. Það er engin önnur leið.

Nafnlaus sagði...

Hárrétt seinasta komment.

Aðlögun að alþjóðlegum raunveruleika, innan ESB, í stað þess að lifa í þrælabúðum krónunnar, þar sem hörmungarnar verða alltaf verri og verri,,,

"Það verða ekki sterkustu tegundirnar sem lifa af.

Það verða ekki gáfuðustu tegundirnar sem lifa af.

Tegundirnar sem lifa af, eru þær sem geta aðlagast breyttum aðstæum."

Charles Darwin.

Nafnlaus sagði...

Sammála Nafnlaus.En kvótakerfið verður að brjóta upp,fjármálasiðferði eyðileggst sjálfkrafa þar sem ákveðnum gæðingum er leyft að skapa sér auð úr engu, slíkt virkar sem krabbamein í samfélagið,það er ekki að ástæðulausu að bannað er með lögum í USA að nokkur maður geti skapað sér auð úr engu. Bannið er til að fyrirbyggja að efnahagskerfi landsins hrynji.Aðrir vilja nefnilega líka geta skapað sér auð úr engu, þetta er löngu vitað lögmál.

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist við stefna til svona 1968, sé mið tekið af afturhalds- og forræðishyggjukúrsi ríkisstjórnarinnar.