mánudagur, 13. september 2010

Valdaskrímslið

Þær eru í fersku minni ræður fyrrverandi ráðherra og stjórnarþingmanna þar sem þeir héldu því fram að hið íslenska Hrun hafi alfarið verið afleiðing alþjóðlegrar fjármálakreppu, og gerðu grín af þeim sem héldu því fram að efnahagsstjórnin hefði verið röng. Þrátt fyrir að fyrrv. forsætisráðherra og fjármálaráðherra höfðu ásamt Seðlabankastjóra fengið alvarlegar aðvaranir frá erlendum Seðlabönkum um hvert stefndi.

Þingmenn sjálfstæðismanna tóku vart til máls í pontu Alþingis án þess að minna á hversu óspillt stjórnmál og embættiskerfið væri á Íslandi, og vitnuðu þar í erlenda könnun sem átti að sanna það. Á það var bent að sú könnun segði ekkert til um Íslands, hér væru ekki í gildi þær reglur sem mælt væri eftir. Til þess að splundra orðræðunni gripu sömu menn ítrekað í allskonar skýrslur, stundum voru þær 15 ára gamlar og sögðu í raun ekkert til um það sem deilt var um.

Árið 2006 var svo komið að ekki var komist hjá hruni íslenska bankakerfisins, sem var hvort tveggja í senn, fyrirsjáanlegt og fyrirbyggjanlegt. Í skýrslu rannsóknarnefndar eru veigamikil rök fyrir því hvernig hin pólitíska forysta hafði brugðist skyldum sínum við að grípa til fyrirbyggjandi ráðstafana. Þessu var í engu sinnt og hagkerfi Íslands flaug fram af brúninni á fullri ferð og með skelfilegum afleiðingum.

Þáverandi stjórnmálamenn voru búnir að lofa álveri fyrir norðan, álveri á Reykjanesi, tvöföldun álvers í Straumsvík, nokkrum gagnaverum og kísilverksmiðjum, auk þess að leggja streng til útlanda og flytja um hann orku frá Íslandi. Alltaf töluðu stjórnmálamenn eins og ótakmörkuð orka væri til staðar hér á landi.

Ég spurðist nokkrum sinnum fyrir um, t.d. í umfangsmikilli vinnu við undirbúning Stöðugleikasáttmála, hvar ætti að fá orku til þess að uppfylla alla þessa drauma og benti á að ef út í þetta væri farið á þeim framkvæmdatíma sem rætt var um, þyrfti að flytja hingað helmingi fleiri erlenda launamenn en voru hér við uppbygginguna fyrir austan, eða um 30 þús. manns. Eftirköstin yrðu helmingi alvarlegri en þau voru í lok þeirra framkvæmda. Aldrei fékk ég alvöru svör og málinu ævinlega eytt.

Ábyrgðarmenn þeirrar efnahagshelstefnu sem var fylgt undanfarna tvo áratugi eiga það sameiginlegt, að ekki einn einasti þeirra vill kannast við að bera nokkra ábyrgð á Hruninu. Það er óumflýjanlegt að gera upp við fortíðina og menn verði dregnir til ábyrgðar. Ekki síst sakir þess þeirrar söguskoðunar, sem þessa dagana er haldið að okkur um að Ísland sé fórnarlamb utanaðkomandi afla. Nágrannaþjóðir séu óvinir og við berum enga ábyrgð á Hruninu.

Þar eru sömu menn enn eina ferðina vísvitandi að leiða umræðuna inn á villigötur með þeim afleiðingum að okkur miðar lítið við úrbætur í hagkerfinu. Þetta ástand veldur mikilli reiði meðal almennings og leiðir til þess að umræðan er á heiftúðugum brautum upphrópana og rakalausra fullyrðinga.

Ríkissjóður er rekinn með gífurlegum halla og mörg fyrirtæki í landinu eru í mjög erfiðri stöðu. Ísland er að dragast aftur úr hinum Norðurlöndunum og þar með aukast líkur á því að okkur haldi áfram að fækka. Hin Norðurlöndin eru með öflug hagkerfi sem byggja á vel skipulögðum og öguðum markaðsbúskap, sem er forsenda þess að þau geti staðið undir öflugu velferðarkerfi. Margir hugsa þessa dagana hvað bíði þeirra hér, hvort þeir og börn þeirra hafi möguleika til þess að búa í skipulegu og öguðu samfélagi með fjölbreyttum atvinnumöguleikum.

Endurtekinn pólitísk afskipti af vinnumarkaðnum einkennast af sérlausnum innrömmuðum í stundarhagsmuni atkvæðaveiðara. Oft á tíðum ganga þær þvert á hvor aðra og eru þar að auki ekki í samræmi við reglur og skipulag. Allstaðar blasa við geðþótti, fúsk og óvönduð vinnubrögð í stjórnkerfinu. Alþingi nær ekki að klára Icesave og atvinnulífið hefur þar af leiðandi ekki aðgang að fjármagni, ekkert miðar við að endurskoða kvótakerfið og allskonar höft eru á erlendum fjárfestingum.

Það er Ríkið sem hefur brugðist, það á að setja leikreglur og sjá til að þeim sé fylgt, en það hentar hentistefnupólitíkusum ekki. Þetta ástand leiðir til þess að haldið er í krónuna, því hún er eini gjaldmiðillinn sem fúnkerar í svona fársjúku gervihagkerfi slakra stjórnvalda og þar með komið með því í veg fyrir að kaupmáttur geti hækkað, vextir verða háir, skuldirnar vaxa og fátækt verður mun víðtækari.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Góð grein,

Það þarf einnig að hamra á framtíðarlausnum, sem eru sterkara gengi um 25%, flýta samningum við ESB, aðild að ERM2 eftir 2 ár, vel hægt og þá má aflétta gjaldeyrishöftum ekki fyrr.

Samhliða þarf einnig að efla framkvæmdir, leysa Icesafe o.fl.

Þetta er grunnur að kjarasamningum og framtíð Íslands.