Vill þjóðarsáttarsamninga, segir Aðalsteinn Baldursson, var ein aðalfrétt fréttastofu RÚV í gærkvöldi. Aðalsteinn segist svo ekki vita hvort félagar hans í verkalýðshreyfingunni séu honum sammála. Helstu rök Aðalsteins eru að hann telji það vænlegast til árangurs að stjórnvöld, atvinnurekendur, sveitarfélög og verkalýðshreyfingin myndi með sér samtök og geri þjóðarsáttarsamning. Samningurinn myndi byggja á því til dæmis að hækka kaupmátt launa og koma af stað framkvæmdum.
Þeir sem fylgjast með, muna vel að Aðalsteinn ásamt formanni verkalýðsfélagsins á Akranesi voru ákaflega andsnúnir svokölluðum Stöðugleikasáttmála, og fréttastofa RÚV flutti reglulega fréttir þar sem þeir báru mjög þungar sakir á félaga sína innan verkalýðshreyfingarinnar fyrir að hafa gert þann sáttmála, ekki síst þann sem þetta skrifar.
Ef rifjað er upp hvaða forsendur lágu til þess að sá sáttmáli var gerður og samþykktur af 92% af verkalýðshreyfingunni, ekki bara ASÍ heldur einnig öðrum heildarsamtökum, sem er frekar fátítt, þá var það samdóma álit að aðstæður í þjóðfélaginu væru þannig að átök á vinnumarkaði myndi ekki hjálpa okkur úr stöðunni og sameiginlegt átak væri það eina sem gæti komið landinu upp á við, eða með öðrum orðum það sama og Aðalsteinn segir nú, en hann mótmælti harðlega á þeim tíma.
Forsendur Stöðugleikasáttmálans voru meðal annars að lægstu laun voru hækkuð umtalsvert, en til þess að gera það framkvæmanlegt gáfu stórir hópar eftir sinn launakostnaðarauka, t.d. fengu flestir iðnaðarmenn og stórir hópar úr VR nánast enga launahækkun, á meðan stórir hópar þá sérstaklega á landsbyggðinni, þar sem þeir liggja á lægstu töxtum, fengu umtalsverðar launahækkanir og eru þeir einu sem hafa haldið fullum kaupmætti á meðan aðrir hafa fengið skell.
Verkalýðshreyfingin sagði sig frá sáttmálanum í sumar vegna þess að ríkisvaldið stóð ekki við ákveðna þætti eins t.d. hvað varðar atvinnuuppbyggingu, gjaldmiðilsþróun og samning um Starfsendurhæfingarsjóð. Einhverra hluta vegna hefur fréttastofa RÚV ekki séð ástæðu til þess að fjalla um samþykktir hins mikla meirihluta og þær forsendur sem lágu þar að baki.
Þetta var svo endurtekið í fréttamati RÚV í þættinum í vikulokin, þar sem ekki var minnst á niðurstöður fundar um 70 formanna aðildarfélaga og helstu samningamanna ASÍ á fimmtudaginn. Þar var fjallað ítarlega um stöðuna nú og undirbúning kjarasamninga. Aðalsteinn var á þeim fundi og vekja ummæli hans í fréttum gærdagsins því undrun þeirra sem sátu fundinn. En við erum reyndar orðin ýmsu vön frá Aðalsteini og fréttamati RÚV þegar kemur að kjarasamningum.
Á fundinum voru menn sammála um að það væri eina leiðin úr þessari stöðu að menn næðu að standa saman, ekki bara launamenn heldur ekki síður ríkisvaldið. Það liggur fyrir beiðni frá ríkisvaldinu og einnig SA að gera 3ja ára samning á Þjóðarsáttar/Stöðugleikaforsendum, en menn vildu fá að sjá áður en teknar væru ákvarðanir um hvort sú leið væri farinn trúverðugar samningsforsendur frá ríkisvaldinu og á hvaða forsendum ætti að reisa þann samning.
Einnig kom mjög ákveðið fram á fundinum að menn væru búnir að fá sig fullsadda af málflutning og framkomu formannanna á Húsavík og Akranesi, þar sem þeir væri endurtekið í fjölmiðlum að bera á félaga sín ásakanir um svik og annað enn verra og voru þeir ákaft hvattir til þess að semja einir og standa þá við sín stóru orð um ókosti samflots.
Sjá meira HÉR
Í því sambandi komu einnig fram skýr skilaboð að þeir hópar sem ekkert fengu úr síðustu samningum myndu ekki standa upp tómhentir nú. Þar má einnig benda á samskonar yfirlýsingar sem hafa komið nýverið úr röðum samtaka kennara og BHM.
Ég ber mikla virðingu fyrir fréttastofu RÚV og tel hana vera þá trúverðustu af fréttamiðlum landsins. Þessvegna beið ég eftir að heyra fréttamanninn spyrja Aðalstein hvers vegna hann hefðu snúist um 180° í afstöðu sinni um samflot verkalýðsfélaga og eins hvaða niðurstöður hefðu komið fram á hjá hinum 60 formönnum aðildarfélaga ASÍ.
Margir félaga minna hafa haft samband og voru fréttastofu RÚV reiðir vegna þess að halda áfram að flytja einhliða túlkanir Aðalsteins og gera með lítið úr framlagi þeirra sem gerðu það mögulegt að félagsmenn Aðalsteins fengu umtalsvert meiri launahækkanir en flestir aðrir.
1 ummæli:
Ég vil (ekki vill) samninga
Ég vil
þú vilt
hann vill (frb. vidl)
Stytting sérhljóða í framburði er mesta hætta sem steðjar að íslensku þjóðinni.
Skrifa ummæli