sunnudagur, 12. september 2010

Vitanlega er þetta svona

Það var fyrirséð hver afstaða sjálfstæðismanna yrði í rannsóknarnefndinni. Það var fyrirséð að þeir myndu reyna að splundra nefndinni, sami leikur og þeir viðhafa á Alþingi. Þar má t.d. benda á Icesave og fleiri mál, þar sem ógæfa almennings birtist í því hvernig þeim hefur tekist að splundra þingflokkum og halda umræðunni á Alþingi á lægsta stigi.

Það var einnig fyrirséð hvernig MBL myndi fjalla um málið, þar er t.d. rætt um þrjá ráðherra, ekki minnst á Geir.

Afstaða Bjarna formanns í fréttum gærkvöldsins endurspeglar allt þetta og það er fyrirséð hvernig málflutningur þingmanna flokksins verður um þetta mál næstu daga. Það er auk þess fyrirséð hvaða lögmenn muni hjálpa þeim við að splundra umræðunni um þessi mál.

Það var fyrirséð að þeir myndu ekki vilja ásamt Framsókn skoða athafnir Hrunkvöðla þessa lands þegar þeir úthlutuðu kvótanum til útvalinna, einkavæddu bankanna í hendur handvalinna vina, afsettu Þjóðhagsstofnun og komu Seðlabankanum í þrot.

Það er líka fyrirséð að þrjátíu og eitthvað prósent þeirra kjósenda sem mæta á kjörstað og styðja þennan flokk. Þetta er sá hópur sem hefur hag af óbreyttu ástandi og þeirri spillingu sem hér hefur viðgengist. Þeir óttast að alvöruviðræður um ESB muni opinbera hver staða þeirra er og grafi undan þeim tökum sem þeir hafa á landinu með tryggum aðgang að valda- og embættisstéttinni.

Það er fyrirséð að þessi hópur ver sína stöðu og hagsmuni með öllum brögðum í bókinni. Hann vill vera áfram í þeirri stöðu að geta ráðið verðgildi launa sem greidd eru í landinu, með spili sínu á krónunni og eyðileggja kjarabaráttu launamanna og standa að eignatilfærslu frá fjöldanum til fárra.

8 ummæli:

Ísak Harðarson sagði...

Hundrað prósent sammála. Þetta er orðið eins kristaltært og verið getur, jafn auðséð og munurinn á ljósi og myrkri.

Nafnlaus sagði...

Sammála Guðmundur, svona er þetta.

Einar Marel

Guðgeir Kristmundsson sagði...

Ég er alls ekki á því að öll 30+% hafi hag á óbreyttu ástandi eins og þú nefnir.
Tel að gríðarlegur fjöldi veiti honum atkvæði sökum vanafestu, vegna þess að það er 'kúl' eða vegna þess að það sér ekki annan raunhæfan valkost í stöðunni.
Maður hefur lengi beðið eftir að flokkurinn klofnaði í sérhagsmunabandalagið og í frjálslyndan mið-hægri flokk.

Nafnlaus sagði...

Svo sammála, tek undir hvert orð
Guðrún

Nafnlaus sagði...

Guðmundur með enn einn snilldar pistilinn. Skýr og rökvís.
Af hverju eigum við ekki menn eins og Guðmund á Alþingi?

Nafnlaus sagði...

Áratugum saman hafði klíkuþjóðfélagið grafið um sig og skapað forréttindastétt þar sem ófust saman helstu peninga- og auðlindahagsmunir þjóðarinnar og yfirráð á vettvangi stjórnmálanna. Þessi forréttindastétt hafði að lokum búið svo um hnútana upp úr aldamótunum síðustu að hún hafði framkvæmdavaldið, löggjafarvaldið og hálft dómsvaldið í höndum sér. Hún gat lifað í refsileysi við hlið réttarríkisins og bjó sig undir að ná undirtökunum á fjórða valdinu, fjölmiðlunum (Ólafur Ragnar Grímsson).


Og Ólafur Ragnar bætir við: „Flokkarnir skipuðu miskunnarlaust sína fulltrúa í embætti innan ráðuneyta og í öðrum stjórnstofnunum, dyggir flokksmenn höfðu forgang, almennir hæfileikar, menntun og reynsla, voru ekki ráðandi [...] Þetta hefur gert embættiskerfið flokkspólitískt í tvennum skilningi, menn eiga sinn sess og stöðu innan embættismannakerfisins hollustu við flokkinn að þakka og hins vegar að menn vissu um þetta skipunarvald ráðherranna.“
Í ljósi þessa kemst Ólafur Ragnar að þeirri niðurstöðu að ein af orsökunum fyrir kerfishruni bankanna hafi verið áratuga langt samspil flokksræðis og stjórnsýslu í landinu. Sjúkdómurinn verði ekki læknaður nema til komi siðvæðing og breyttir starfshættir á vettvangi stjórnmálaflokkanna og við val á embættismönnum.

Nafnlaus sagði...

Geir var getið í sér frétt 7 mínútum á undan hinum þremur..

Nafnlaus sagði...

Hvers vegna ertu með þessar blammeringar á sjálfstæðismenn þegar fyrir liggur að allir í nefndinni, þ.m.t. sjálfstæðismennirnir, eru sammála um niðurstöðurnar í þessari rúmlega 300 bls skýrslu. Aftur: Þeir eru sammála.
Ágreiningurinn er um það hvort eigi að ákæra. Telja menn virkilega að ráðherrarnir hefðu getað komið í veg fyrir hrunið ? Ef svo er hvernig áttu þeir að gera það ? Með því að halda fund í ríkisstjórninni ? Ja, það segir í ákærunni - finst mönnum þetta sannfærandi?