miðvikudagur, 6. október 2010

Áhugaverð greining á stöðu Íslands

Heiner Flassbeck er einn af stjórnendum Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna. Flassbeck hefur skrifað mikið um efnahagsmál og látið til sín taka í umræðu um yfirstandandi heimskreppu. Hann var áður varafjármálaráðherra Þýskalands og bar þá ábyrgð á alþjóðamálum, Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Flassbeck hélt fyrirlestur um kreppuna í hátíðarsal Háskóla Íslands þ. 5. okt. á vegum Rafiðnaðarsambandsins, Alþýðusambandsins og Stofnunar stjórnsýslufræða við Háskólann.

Heiner Flassbeck sagði að kreppan á Íslandi væri stjórnmálamönnum að kenna, þeir hafi ekki skilið hvernig hið hnattræna peningakerfi virkaði og hvernig það gæti drekkt smáríki eins og okkur. „En kennið ekki bara íslenskum stjórnmálamönnum um, kennið líka útlendum stjórnmálamönnum um. Ástæða þess að heimsbyggðin lenti í kreppu var að hagkerfi landanna varð hnattrænt en enginn pólitískur vilji var til að hnattvæða stjórnunina á hagkerfinu, peningamarkaðurinn varð stjórnlaus. Við þurfum kerfi til að stýra fjármagnsflæði milli landa.“

Heiner segir sökina liggja hjá alþjóðlegri nýfrjálshyggju, þar sem stefnan hefur verið að opna fyrir hömlulaus alþjóðleg viðskipti. Alþjóðlega samfélaginu mistókst fullkomlega að stjórna alþjóðaviðskiptum. Ef ekki verður komið böndum á alþjóðlega fjármálakerfið, munum við fljúga fram af brúninni aftur, og aftur. Hingað til hafa þjóðirnar ekki verið skynsamar og hafa algjörlega hafnað því að setja alþjóðleg lög. Þessi mistök endurtaka sig reglulega vegna þess að spákaupmennska viðgengst og það eru engar leikreglur. Ekki er tekið á því hvernig greiningardeildirnar stjórna markaðnum.

Þið eruð ekki ein um að hafa gert mistök.
Heiner sagði að þessi mistök hefðu mörgum sinnum verið gerð og í mörgum löndum. „Íslendingar urðu varir við flæðið þegar fjárfestar fóru að gera út á vaxtamuninn sem var á milli Íslands og flestra annarra landa, örlítið hagkerfi eins og ykkar lifir það ekki af. Hin japanska húsmóðir settist að venju við tölvuna sína og nettengdi sig með forriti sem leitar upp hagkvæmustu fjárfestingarkostina. Þar kom Ísland upp efst á listanum með hærri vexti en allir aðrir og hún færði fjármuni sína þangað úr japanska bankanum sem bauð einungis 1% vexti. Sama gerðu margir stjórnendur vogunarsjóðanna.“

Skyndilega höfðu íslensku bankarnir úr miklum fjármunum að spila. Þeir urðu að koma þessum fjármunum í umferð og fóru inn á íbúðarlánamarkaðinn af fullum krafti og gerðu auk þess öllum kleift að kaupa nýja bíla og margskonar hluti erlendis frá. Fyrirtækin voru hvött til þess að fjárfesta í nýjum tækjum og húsnæði, en þetta var innlend fjárfesting samfara miklum halla á viðskiptajöfnuði og fyrir lá að íslendingar voru ekki að ná inn þeim tekjum sem þurfti til að geta staðið undir hinum háu vöxtum til japönsku húsmóðurinnar og vogunarsjóðanna. En þetta leiddi til þess að íslenskir stjórnmálamenn fylltust falskri sjálfsánægju og sögðu öðrum frá því hinu íslenska efnahagsundri.

Heiner Flassbeck kom inn á að margir hefðu verið undrandi á viðbrögðum íslenskra stjórnmálamanna, þegar þeim var gerð grein fyrir því hvert stefndi. Það hefði blasað við árið 2007 að íslenska krónan myndi falla og íslendingum yrði gert greiða kostnaðinn. Það eru til lítil lönd sem hefur tekist að starfa sem fjármálastofnanir eins og t.d. Luxemborg. Þeir passa vel upp á að fjárfesta utanlands og fjárfesta t.d. mikið í Þýskalandi. Það þekkta fagnaðarerindi var boðað að láta peningana vinna og markaðurinn myndi leiðrétta sig. Staðreyndin og reynslan segir okkur hið gagnstæða, markaðurinn hefur aldrei rétt fyrir sér, það er hið mismunandi gengi sem er svo rangt. Háir vextir voru boðskort fyrir erlenda Casínófjárspilara. Þar ber stjórn íslenska Seðlabankans stærstu sökina.

Hvað eiga íslendingar að gera?
Það má líta til Kína, þar er genginu haldið lágu og vextir lágir. Íslendingar eru með svipað gengi í dag en það verður að lækka vextina, en hann nefndi einnig hvaða galla lágt gengi hefði. Það leiðir til þess að Casínóspilararnir hafa engan áhuga á þeim markaði og þar er stöðugleiki. Íslendingar verða að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna, gera verður skuldir viðráðanlegar og eins að skapa atvinnu þannig að fólk geti aflað tekna. Þetta snýst um að koma atvinnulífinu af stað, auka verður verðmætasköpun og útflutningstekjur. Lágir vextir og framkvæmdir, framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila. Það er leiðin út úr kreppunni. Niðurskurður festir kreppuna í sessi.

Það skiptir öllu að horfa fram á veginn og örva efnahagslífið strax. Mönnum hættir til að gleyma því í kreppu en einblína á niðurskurð, stara á skuldafjöllin. Allir ætla sér að koma sjálfum sér á þurrt land hið fyrsta en það gengur ekki þannig fyrir sig, þetta er verkefni heildarinnar, það verða allir að leggjast á eitt. Það þýðir heldur ekki að bíða eftir aðgerðum ríkisstjórnarinnar, niðurskurðinum, hann leiðir aðeins til nýs hruns. Ríkisstjórnin verður að setja stefnuna á eyðslu, og nota þá fjármuni í framkvæmdir.

Heiner lagði áherslu á að vextirnir yrðu að lækka strax, þar verði auðveldara fyrir ríkisstjórnina að fá lán til framkvæmda og ef engin lán fást þá verða peningarnir, lánin, að koma úr Seðlabankanum. Með öðrum orðum ef það er ekki hægt öðruvísi þá verðið þið að prenta peninga. Seðlabankinn er alltaf að prenta hvort sem er, það skiptir öllu að koma í veg fyrir verðhjöðnun. Hana verður að forðast. Bandaríkin lækka vexti til að ýta undir framkvæmdir. Það gera Bretar líka og Japanir. Það er gert í öllum vitrænum hagkerfum. Hvers vegna ætti það ekki að virka á Íslandi líka?

Ná verður samningum við erlenda skuldaeigendur með lánum til langs tíma. Þannig að eðlilegar lánafyrirgreiðslur standi íslenskum fyrirtækjum til boða. Erlendir aðilar hafa tapað gríðarlegum fjárhæðum á Íslandi. Á einu augabragði hvarf það traust sem íslendingum hafði á mörgum árum tekist að byggja upp, nú er krafist ábyrgða og hárra vaxta. Íslendingar verða að breyta aðferðum ef þeir vilja endurvinna traust. Fáist ekki lán verður Seðlabankinn að prenta peninga í stað þeirra sem bankarnir eyðilögðu. Þetta er eina leiðin til þess að koma atvinnulífinu af stað. Ef einkageirinn er ekki að fjárfesta verður ríkið að gera það.

Breyta verður stefnu í gjaldmiðilsmálum
Það er því miður er enginn pólitískur vilji til að samræma peningakerfi landanna. Menn eru dauðhræddir um að missa völd og áhrif sem þeir hafa hvort eð er ekki. Lítið hagkerfi, eins og það íslenska, á að finna sér sterkt gjaldmiðilskerfi, sterka mynt til að festa sig við og fylgja. En Heiner er ekki svo hrifinn af evrunni einmitt núna. En ef þið finnið góðan gjaldmiðil þá ættuð þið að tengja ykkur þeim miðli eða taka hann upp. Þetta er afar þýðingarmikið íhugunarefni, mörg lönd hafa gert þetta, til dæmis Austurríki sem tengdi sig þýska markinu á sínum tíma. Það tókst, það skilaði góðum árangri. En allt þarf það að fara eftir efnahagslegum stöðugleika á því svæði eða í því landi sem menn vilja eða íhuga að tengjast. Það er og verður erfitt fyrir smáþjóð eins og Íslendinga að halda stöðugleika í þeim öldusjó sem gengur yfir löndin núna.

Mörgum hefur gengið illa að skilja hvernig háir vextir gerðu þjóðir með sjálfstæðan gjaldmiðil berskjaldaðan í hinu hnattræna fjármálakerfi. Það ríkir nefnilega gjaldmiðlastríð í heiminum. Pólitískar ákvarðanir skipta í raun engu hvað varðar alþjóðamarkaðinn og þróun samfélaga heimsins. Næsta hrun blasir við ef ekkert verður að gert. Við verðum að leita að rótum vandans og lagfæra hann.

Það er endalaus keppni á öllum sviðum. Almannahagsmunir hafa vikið fyrir hagsmunum fjármagnseigenda. Þjóðir eru farnar að keppa í lækkun skatta vegna fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Það setur þrýsting á stéttarfélögin, þau dragi úr sínum kröfum og laun hækki ekki. Kaupmáttur minnkar. Arður fyrirtækjanna ræður öllu.

Þessi keppni getur ekki leitt til annars en að þau samfélög sem við byggðum upp á síðustu öld munu hrynja. Þeim er fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildarhagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera. Sú þjóð sem er í vanda skapaði ekki vandamálið, það var hið frjálsa alþjóðlega og óheilbrigða fjármálaumhverfi. Ef ekki er tekið á kerfinu getur það ekki annað en leitt okkur í annað Hrun með sömu alvarlegu afleiðingunum og almenningur sem situr í súpunni með enn lakari lífskjör.

Ábyrg vinnubrögð íslenskrar verkalýðshreyfingar
Í heimsókn minni hingað hef ég verið m.a. með leiðtogum íslenskrar verkalýðshreyfingar og verð að lýsa hrifningu minni á því hversu raunsæir og yfirvegaðir þeir eru. Verkalýðshreyfingin í Grikklandi, á Spáni og Frakklandi er ákaflega óábyrg. Þar vinnur hún markvisst að því að valda skaða á samfélaginu með því að standa í vegi fyrir óhjákvæmilegum aðgerðum til þess að takast á við vanda þjóðfélagsins. Opnir óheftir markaðir leiddu Ísland, eina ríkustu þjóð Evrópu, í gjaldþrot. Gjaldþrot auðhyggjunnar blasir við hvert sem litið er. Fjárfestar eru prímusmótorar þessa ferlis blindaðir af veðmálakeppni sem fer fram eftir flautu greiningardeildanna. Skipuleggja verður baráttu almennings gegn þeim.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hver kaus þessa snillinga. Ég held að 80% landsmanna ætti að líta sér nær.

Nafnlaus sagði...

Kjarni málsins,

Þetta þarf að koma í blöðunum Guðmundur.

Alþjóðavæddur fjármálamarkaður, krefst alþjóðlegs gjaldmiðils.

Aðild að frjálsu flæði fjármagns er ekki möguleg með stórhættulegan örgjaldmiðil.

Það er eins og að sigla út á Atlanshafið með fjölskylduna í árabát.

Það gerðu Íslendingar samt og hafa upp skorið í samræmi við það. Því verður ekki haldið áfram.

Evra innan 2ja ára er lausnin sem ekki má kvika frá.

Nafnlaus sagði...

Joseph Stiglitz fjallar ítarlega um nákvæmlega þetta í bókinni Making Globalization work. Það er bók sem er vel þess virði að lesa.

ÞÚB

Nafnlaus sagði...

Í fyrirlestri í hátíðarsal Háskóla Íslands í dag varaði Dr. Heiner Flassbeck yfirmaður alþjóðavæðingardeildar Viðskipta- og þróunarstofnunar Sameinuðu þjóðanna Íslendinga við að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru.

Flassbeck fékk spurningu úr sal um hvort evran væri ekki lausn fyrir Íslendinga.

Hann hélt nú ekki. Sagðist hafa verið viðbúinn þessari spurningu og varpaði upp á tjald mynd sem sýndi þann vanda sem Evrópusambandið ætti við að glíma vegna sundurleitrar verðbólguþróunar. Þar væri Þýskalandi aðalsökudólgurinn vegna miklu lægri verðbólguþróunar, en þessi sundurleitni væri að ganga af
evrusamstarfinu dauðu.

Við þessar aðstæður ætti ekkert land að gerast aðili að Evrópusambandinu


.... OK, hvaða gjaldmiðil eigum við þá að tengja okkur við ?

Guðmundur sagði...

Þú sleppir nú hluta svarsins. Hann sagði að þjóðverjar hefðu ekki farið að þeim reglum sem löndin hefðu komið sér saman um hvað varðar samkeppnishæfni, og það væri ólíkleg tað að þeir kæmust upp með þetta, og það myndi þá kalla á upptöku þessara reglna.

Nafnlaus sagði...

Tek undir að seinni hluti svarsins hefði átt að fylgja með til að halda samhenginu. ( Ég copy Pastaði þetta frá öðru bloggi eins og það kom fyrir,þar var greinilega hluta svarsins sleppt.)

En ef við gefum okkur að Evran sé út úr myndinni í bili vegna innri aðstæðna hvaða kostir eru þá í stöðunni ?
Bandaríkjadalur er varla fýsilegur kostur, menn á borð við Flassbeck virðast sammála um að það sé bara tímaspursmál hvenær sá gjaldmiðill fellur vegna gífurlegrar skuldasöfnunar. Sumir tala um tifandi tímasprengju, sem gæti jafnvel startað hruni no 2.

Hvað með Norsku krónuna þá ? Er hún alveg út úr myndinni ?

Spyr sá sem ekki veit.

Sigurgeir Orri sagði...

„Frjálsa alþjóðlega og óheilbrigða fjármálaumhverfi,“ segirðu. Óskandi að svo væri. Er það tákn um frjálst kerfi að örfáir menn ákveði stýrivexti á dalnum? Er ekki vandinn einmitt of mikil opinber afskipti af fjármálakerfinu? Ríkissjóður getur einungis tapað stórkostlegum fjárhæðum vegna ríkisafskipta.

Greinar þínar eru annars afar góðar. Ég er hjartanlega sammála þér varðandi gjaldmiðilinn og tel að Íslendingar eigi að fara sömu leið og Panama, standa utan Esb og notast við dal.

Guðmundur sagði...

Segi ég?? Bíddu aðeins - það er verið að fara yfir fyrirlestur manns og hans er getið í annarri hverri setningu.

Það er svo allt annað mál hvort ég sé því sammála eða ekki.