mánudagur, 25. október 2010

Fýluköstin

Hagfræði nasistaríkisins gekk aldrei upp, reist á græðgi og þjófnaði frá þeim ríkjum sem þeir yfirtóku. Valdastéttin hrifsaði til sín það sem henni þótti sér samboðið, væri einhver með múður var hann settur í fangelsi eða naut þeirrar mannúðar að þurfa ekki að vera barinn og sveltur til bana í fangelsi, heldur var einfaldlega skotinn á staðnum.

Hagfræði sovéts kommúnista var reist á sömu stoðum, þegar hún var kominn í hendurnar á samskonar fólki og síðar rak nasistaríkið. Engin sjáanlegur munur á þeim mannlegu "gæðum" sem þar réðu ríkjum. Nákvæmlega sömu eiginleikar ráða för ef horft er til Bandaríkjanna, þar sem rétturinn og sannleikurinn verður eign þeirra sem hafa hrifsað hann til sín, svo maður tali nú ekki um McCarthyismann.

Það er ekki langur vegur á milli þessara hagkerfa og hagfræði-hrifsunar, óheftrar markaðshyggju sovéts nýfrjálshyggjunnar og hvað hún leiddi yfir okkur íslendinga. Þar sem öfl græðginnar áttu að leiða til jöfnunar og þegar bitarnir væru orðnir of stórir hjá þeim sem völdin höfðu, átti ofgnóttin að hrynja af borðunum niður til almúgans. Valdaklíkan hér heima kom sér strax í þá stöðu að geta hrifsað til sín bestu bitana og reikningurinn liggur gluggaumslagi í pósthólfi þeirra sem minna mega sín. Sagan endurtekur sig.

Ræður stjórnmálamanna einkennast nú fremur af ofbeldi en samræðulist. Almenningur er um margt sekur um svipað hátterni ásamt fjölmiðlum. Umfjöllun fjölmiðla einkenndist af neikvæðni og niðurrifi. Endurrtekið er leitað til einstaklinga sem eru þekktir fyrir þessi viðhorf og beita gjarnan fyrir sig útúrsnúningum. Tekin eru viðtöl við þann eina sem eru á móti öllum hinum, fremur en að kynna niðurstöðu fjöldans og hvaða forsendur liggja þar til grundavallar.

Við stjórn heimila er oft beitt fýluköstum, og oft með ágætum árangri. Þessari aðferð væri beitt víðar í samfélaginu. Má þar t.d. benda á stóra fýlukastið sem birtist í spjallþáttum, þegar forsvarsmenn nokkurrar stéttarfélaga ásamt allmörgum sjóðsfélögum eru atyrtir fyrir að benda á að þar sé lögbrot ætli menn sér að ganga í sparifé nokkurra launamanna og greiða með því skuldir annarra. Mönnum væru jafnvel gerðar upp skoðanir og sem síðan er beitt til þess að drepa málum á dreif. Ekkert eða lítið miðar á uppbyggilegri umræðu til framfara og leiða um aðgerðir til lausnar á þeim vanda sem við höfum búið okkur.

Ríkið á að setja leikreglur sem tryggja stöðu almennings, en stjórnvöld settu lög þar sem samkennd og jöfnuði var vikið til hliðar, markaðshyggjan réð för. Og nú virðist eiga að viðhalda því gjaldmiðilsástandi sem tryggir áframhald óstöðugleikans og ójöfnuðar. Sú stefna sem fylgt hefur verið við mótun þjóðfélagsins hefur leitt til þess að rökvísi efnahagslífsins hefur yfirtekið stjórnmálalífið.

Íslendingar geta byggt upp enn öflugri hátækniiðnað. Iðnað sem flytur lítið inn en mikið út. Verðmætasköpun hins velmenntaða íslenska vinnumarkaðar og hæfilegrar nýtingar orkunnar. Uppbyggingu rafbílaframleiðslu og minnkun jarðefnanotkunar.

Til lengri tíma verður að vera hér gjaldmiðill sem bíður upp á stöðugleika. Verðbólga verði það lág að vextir verði innan við 4,5% og verðtrygging afnuminn. Það þarf að skapa 20 þús. störf á næstu fjórum árum svo meðalatvinnuleysi íslensks vinnumarkaðar fari niður fyrir 5%. Ef það tekst munum við á árinu 2013 hafa endurheimt þau lífskjör sem við bjuggum við fyrri hluta árs 2006.

Krónan hefur reynst okkur ákaflega dýrkeypt. Hún hefur stuðlað að miklum sveiflum vegna agalausrar hagstjórnar. Sveiflurnar hafa kallað á að meðaltali 3,5% hærri vexti en þeir þyrftu að vera og verðtryggingu. Nærtækasti kosturinn er að sækja um aðild að Evrópusambandinu og láta reyna á hvert við komumst í slíkum viðræðum um forræði í auðlindamálum. Það eru nauðsynlegt að fá úr því skorið hvort við eigum kost á ásættanlegri lausn.

Gildismat hefur breyst á undangengnum áratugum. Hógværð hefur vikið fyrir öðrum gildum. Græðgi hefur markað för og krafan hefur verið endalaus velgengni. Alvarlegasta ógnunin við framtíð Íslands er skuldsetning hugarfarsins þar sem vantrú ríkir á öllu sem viðkemur einkaframtaki. Hugarfarsbreytingu þarf ef atvinnulífið á að skapa 20 þúsund störf fyrir árið 2013. Það gerist ekki með því að fjölga störfum hjá ríkinu, það gerist í atvinnulífinu. Við eigum að leggja áherslu á að laða fram jákvæðni, áræðni og frumkvæði.

Þýðingarmesta verkefni okkar er að stuðla að víðtækri sátt um stöðugleika. Styrkleiki okkar liggur meðal annars í miklum náttúruauðlindum, sterkum lífeyrissjóðum, hlutfallslega meira af ungu fólki en hjá öðrum Evrópuþjóðum. Helsti styrkleiki þjóðarinnar liggur í hugarfari; þrautseigju og mestu atvinnuþátttöku sem þekkist í vestrænu landi. Við megum ekki missa þennan styrkleika niður.

13 ummæli:

Haukur Kristinsson sagði...

Flott grein. Mjög athyglisverður maður, hann Guðmundur Gunnarsson.

Gunnlaugur sagði...

Sæll Guðmundur.
Mjög góð grein og það er flest ef ekki allt rétt í þessu hjá þér.

Mig langar samt að taka fram tvo hluti úr þessu hjá þér og ræða sérstaklega og byrja á aðildarviðræðunum við ESB.

Ég er farinn að hallast að því að þingmenn og ákveðnir aðilar í þjóðfélaginu óttist aukið "Lýðræði" til handa almenningi. Amk. virðast vera einhverjar ankannalegar ástæður fyrir því að við eigum ekki að fá að sjá þennan samning og að kjósa svo um eitt mikilvægast málefni landsins.

Gæti það verið að einhver þröngur hópur hafi hag af því að halda okkur fyrir utan og þá á kostnað almennings? Spyr sá sem ekkert veit.

Fáum samninginn á borið og tökum þá upplýsta ákvörðun um hvort við séum fylgjandi aðild eður ei. Ekki byggja skoðun okkar á einhverju trúboði bygðum á draugasögum eða ævintýrum áður en við vitum hið rétta. Spurningum okkar verður svarað í samningnum sem liggur fyrir þegar við fáum að kjósa um hann.

Seinna atriðið snýr að neikvæðninni í þjóðfélaginu. Ég get vel skilið alla þá neikvæðni sem er úti um allt. Enda er jarðvegurinn mjög frjór fyrir hana núna þegar almenningur horfir upp á næstum daglegar fréttir af tugmilljóna ef ekki milljarða afskriftir hjá "besta vin aðal" meðan heimilunum er hent á bálið til að viðhalda eldinum.

Það er stöðugt verið að tala um að það þurfi að tryggja fjárhagslegan stöðuleika hér svo hér sé hægt að byggja upp aftur. Það ætla ég ekki að draga í efa, en það má ekki gleyma því að ekkert þjóðfélag er byggt eingöngu upp á fjárhagslegum stöðuleika. Sá stöðuleiki sem mikilvægastur er hverju þjóðfélagi er hin samfélagslegi. Án hans getur enginn fjárhagslegur stöðuleiki þrifist.

Hvað gerist þegar þú króar mann af úti í horni og hótar honum líkamstjóni? Það er annað af tvennu sem gerist. Hann legst niður og gefst upp fyrir kvalara sínum eða þá að hann snýst gegn honum og bíður honum birginn. Það er nákvæmlega það sem við sáumst gerast þegar þingið kom saman í haust þennan fræga föstudag og svo aftur á mánudeginum þegar Jóhann flutti stefnuræðu sína.

Sagan hefur því miður að geyma mörg ljót dæmi um það þegar almenningur rís gegn ríkjandi valdhöfum og oftar en ekki hefur blóði verið spillt. Ég vona innilega að til þess þurfi ekki að koma en með sama áframhaldi verð ég því miður að viðurkenna að ég óttast að það muni gerast fyrr en okkur grunar.

Ég ætla að leyfa mér að vona að þingið og ríkisstjórnin sjá af sér og fari nú að hugsa um almenning í landinu því annars verður ekkert fyrir þau að byggja á áður en langt um líður.

Kveðja
Gunnlaugur

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir, enn einn frábær pistill
Halldóra

Nafnlaus sagði...

Er gagnrýni, sem er þér ekki þóknanleg, aldrei hleypt í gegnum athugasemdakerfið ?

Guðmundur sagði...

Jú, enda sérð oft harða gagnrýni á mig hér í aths. kerfinu.

En mörkin eru ef menn eru ekki að fjalla um það málefni sem til umræðu er

eða

þegar menn eru að ausa persónulegum sviðvirðingum yfir fólk

þá fer það ekki gegn. Eins og tekið er rækilega fram á síðunni.

Menn verða bara að finna sér stað fyrir sína nafnlausu dylgjur annarsstaðar

Nafnlaus sagði...

Þessir síðustu pistlar eru hreint út sagt fantagóðir og gaman að sjá hvað sumum svíður undan þeim, enda eiga þeir svo sannarlega inni fyrir
því, allt það neikvæða sem frá þeim kemur
Takk Ragnar

Nafnlaus sagði...

Satt best að segja finnst mér ég mjög sjaldan sjá gagnrýni á greinar þínar í athugasemdakerfinu þínu.

Enda ekki hægt að taka þátt í umræðum þegar einhver hleypir sumu í gegn og öðru ekki.

Vill samt bæta við þessa grein, sem er ágæt að mörgu leyti (en þarna er mjög margt látið ligja milli hluta), að þetta unga fólk sem þú talar um er á leið úr landi eða hlekkjað niður í skuldafen. Þetta er skuldugast kynslóð í sögu landsins og flestum, m.a. verkalýðshreyfingunni virðist vera nokk sama um hana. Þetta er kynslóðin sem á að borga hrunið sýnist manni.

Vona að þessa athugasemd komist í gegn.

Guðmundur sagði...

Það er einfaldlega ekki rétt að verkalýðshreyfingin láti þessi mál ekki til sín taka, þessi fullyrðing er út í hött. Um þetta má benda á heimasíðu ASÍ m.a.

Það er harla einkennilegt að ræða þessi mál ekki þar frekar en hér. Hér hefur verið skrifaður hver pistillinn á fætur öðrum um atvinnumál og ekki síður gjaldmiðilsmál, sem eru hið stóra vandamál launamanna á Íslandi. Ég er ekki starfsmaður ASÍ, ég er formaður stéttarfélags sem er aðilai að ASÍ og við erum 6% af ASÍ þannig að við erum bara lítið peð þar.

Þar hefur verið bent á að það sé einmitt stærsta hættan sem íslenskt hagkerfi muni mæta það er ef unga fólkið flýr land.

Það eru ekki margir pistlar sem ekki hefur verið hleypt í gegn þeir eru 15 á þessu ári. Allir áttu það sannmerk að innihalda lágkúrulegar svívirðingar um starfsfólk stéttarfélaga.

Ef menn hafa eitthvað við starfsfólk síns stéttarfélags að athuga hafa þeir vitanlega við stjórn síns stéttarfélags og koma á framfæri aths. Þær eiga ekkert erindi hingað.

Félagsmenn Rafiðnaðarsambandsins hafa samband við skrifstofur okkar eða mæta á fundi þar sem málin eru rædd á hreinskiptin hátt. Þeir eru ekki skráð að kbaki fólks með dylgjur í skjóli nafnleysis.

Nafnlaus sagði...

Góð grein Guðmundur.
Þakka þér og öðrum fyrir að standa í lappirnar og verja lífeyrissparnaðinn okkar fyrir siðvilltum lýðskrumurum sem vilja moka endalaust undir eigið rassgat.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur. Þú hefur skrifað marga góða pistla og ýtir oft við málum sem aðrir þora ekki að tala um.

En með fyllstu virðingu, þá er frekar langsótt að leggja að jöfnu nasisma Þýskalands, kommúnisma Sovétríkjanna, og efnahags eða stjórnmálakerfi BNA.

Við getum alveg sammælst um að þeir ríku hafi of mikil áhrif innan BNA, og rifist um hvort stríðsrekstur BNA hin síðustu árin sé réttlátur. En þaðan er svo langur vegur að skipulögðum fjöldamorðum sem samanlagt murkuðu lífið úr mörgum tugum milljóna í Sovétinu og þriðja ríkinu. Samanburðurinn einfaldlega á ekki rétt á sér -- og síst að nefna þar McCarthyismann, sem vissulega er smánarblettur á sögu Bandaríkjaþings, en enginn var þó myrtur á vegum þingsins meðan öldungardeildin var á sínum galdraveiðum.

Andri Haraldsson

Guðmundur sagði...

Sæll Andri
Víst voru margir myrtir í BNA, eða gerðir ærulausir og settir á bak við lás og slá. Mörg dæmi sérstaklega í suðurríkjum BNA. Síðustu öld voru myrtir árlega um 200 verkalýðsleiðtogar í Suður-Ameríku af BNA fyrirtækjum, það hefur dregist saman undanfarin ár vegna þess að það hafa orðið viðhorfsbreytingar gagnvart þessum málum með tilkomu sjálfstæðari stjórna þar sem almenningur braut á bak aftur áhrif BNA.

En það sem ég er að benda á að sé sameiginlegt með þessum stefnum að þær enda alltaf á sama stað, myndast hefur fámennur hópur sem hefur dregið til sín völdin og skapað sér stöðu til þess að standa að eignatilfærslu frá almenning til sín. Viðhorfin gagnvart almennum borgurum verður alltaf sú sama í restina.

Líttu á stöðuna hér, í valnum liggja 25 þús. heimili og örfá hundruð manna vita ekki aura sinna tal.

Nafnlaus sagði...

Góðar greinar hjá þér takk fyrir

valmundur valmundsson sagði...

góður sem fyrr.