Sífellt fleiri eru að átta sig á hversu löskuð umræðan er hér á landi. Þetta blasir við í nær hverjum einasta fréttaþætti þar sem sýndar eru umræður á Alþingi. Páll Skúlason fór ákaflega vel yfir þetta í Návígi á þriðjudagskvöld síðastliðið. Íslensk stjórnmál einkennast af valdabaráttu og stjórnmálaflokkarnir gæta sérhagsmuna þeirra valdahópa sem að baki hverjum flokki stendur. Stjórnmálamenn leggja umfram allt áherslu á að viðhalda völdum eða komast til valda. Þessi staða eyðileggur pólitíska umræðu veldur siðrofi og er orðið þröskuldur í vegi framfara.
Erfiðleikatímar er heimavöllur lýðskrumarans. Allir kostir í stöðunni sama hvert litið er, eru slæmir. Við erum dæmd til þess að leita upp besta slæma kostinn, annars blasir við lakari staða. Það eru fáir sem hafa kjark til þess að fara fyrir ákvörðum eins og t.d. að loka hjúkrunardeildum, eða benda á að það sé ekki hægt að þurrka upp skuldir fólks með því að taka sparifé launamanna og nýta það til þess að greiða upp skuldir annarra. Yfirboð eru þekkt við undirbúning kjarasamninga.
Yfirboð einstaklinga sem telja sig hafa fundið sársaukalausar töfralausnir. Vitanlega vill fólk trúa því að hægt sé að vinna sig út úr vandanum á þægilegan hátt, í stöðunni séu möguleiki mikilla launahækkana. Á þessum forsendum vinnur lýðskrumarinn í sinni fullvissu, að hann þurfi ekki að standa við sín yfirboð. Hann veit að fyrir valinu verður leið raunsæis, eftir að skoðaðir hafa verið allir kostir og gallar stöðunnar.
Lýðskrumarinn verður þar af leiðandi endurtekið sigurvegari, en raunsæismaðurinn tapari, hann dæmdist til þess að benda á galla yfirboðsins og þá erfiðu kosti sem eru í stöðu efnahagsvandans, annars föllum við enn neðar og vandamálin vaxi.
Hér spilar fjölmiðlamaðurinn stórt hlutverk og við líðum fyrir það hversu slök íslensk fjölmiðlun er í sumum tilfellum, þekkingarleysi fjölmiðlamanna. Lýðskrumaranum er hampað í viðtölum og spjallþáttum. Það sem er vinsælt er valið til umfjöllunar, töfralausnirnar. Raunsæir menn eiga erfitt með að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og þeir tapa atkvæðum.
Samfélagssáttmálinn er í bráðri hættu. Hinir ríku verða ríkari vegna þeirrar efnahafsstefnu sem fylgt hefur verið, gengisfall krónunnar kallar endurtekið á mikla eignatilfærslu í samfélaginu. Ójöfnuður vex og það virðist vera svo eins og staðan er nú að það verði til frambúðar. Ísland fellur alltaf dýpra og við erum að dragast aftur úr hinum Norðurlandanna.
Frá því að íslensku bankarnir féllu í október 2008 hefur ein króna af hverjum tíu tapast út úr verðmætasköpun þjóðarbúsins. Heimilin eru í sárum; kaupmáttur hefur hrapað, atvinnuleysi er meira en við höfum þekkt og skuldir hafa hækkað mikið. Þetta er bein afleiðing þeirra stjórnhátta sem yfir okkar hafa verið leidd, eins og Pál Skúlason fór svo skilmerkilega yfir.
Ef við ætlum að ná samskonar efnahagslegum stöðugleiki og er í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við, verðum við að gera það sama og þau hafa gert. Til þess þarf hugarfarsbreytingu, agaða stjórnarhætti og traustan og stöðugan gjaldmiðill. Það er forgangsverkefni að launamenn endurheimti fyrri lífskjör, það verður ekki gert án aukinnar verðmætasköpunar. Við erum er í fararbroddi í vistvænni orkunýtingu og hér er mikill mannauður. Við eigum að styðja nýsköpun og auðvelda erlenda fjárfestingu.
16 ummæli:
Guðmundur að venju enn einu sinni með góðan pistil
Gylfi
Þakka góðan pistil Guðmundur. Margt minnir nú á stöðuna í Kreppunni miklu og uppgangi nasisma og fasisma. Lýðskrumarar benda á einfaldar lausnir - iðulega vonda útlendinga. Bendi á að það er nánast stjórnarkreppa í Svíþjóð, Bretandi, Hollandi og Belgíu sem endurspeglar þennan vanda. Engar töfralausnir eru til og markaðshagkerfið í miklum vanda. Hér heima felst vandinn í því að mynda sátt nokkuð stórs hóps um raunhæfar lausnir. Ég óttast að það verði aðrir en stjórnmálamenn sem þurfi að leggja drög að slíkum lausnum. Fyrr en það liggur fyrir munu lýðskrumarar eiga sviðið.
Það voru nokkuð góð dæmin í Silfrinu áðan. Þegar panellinn í byrjun var að ræða um umræðuhefð og það væri ekki hlustað töluðu þau hvert í kapp við annað og enginn hlustaði á annan.
Ég gat ekki fengið annað á tilfinninguna í viðtali Egils við Jóhannes Björn en að hvorugur hefði lesið lögin sem lífeyrissjóðum er gert að starfa eftir að viðlagðri ábyrgð að lögum. Lýðskrum?
ÞÚB
Mikið er ég sammála þessu. Bendi á næsta komment á undan þessu varðandi fordæmið frá kreppunni á fjórða áratug síðustu aldar. Það fer ekki milli mála, að margur populistinn/demagoginn gengur í raun erinda þeirra, sem maka krókinn í þessu ástandi, þótt yfirbragðið sé annað.
Þú minnist oft á orðið "lýðskrumari" en hvað er lýðskrumari, hver er skilgreiningin?
Góður pistill.
Einn sem skilur eftir athugasemd ,,óttast að það verði aðrir en stjórnmálamenn sem leggi drög" að lausnum.
Hvers vegna er það óttalegt ef aðrir en stjórnmálamenn koma með drög að lausnum?
Það er okkar sjálfra að vera á vakandi og sanna það sem við höfum stært okkur af. Sönnum að við erum menntuð, hugsandi þjóð sem verðum lýðskrumurum ekki að bráð.
Lýðskrumari samkv. orðabók Menningarsjóðs = pólitískur æsingamaður, stjórnmálamaður sem talar eins og fólk vill heyra.
Pistalar þínir eru frábærir. Áfram, áfram.
Karl Steinar
Enn einu sinni sé ég ástæðu til þess að minna á að skítkast í einstaklinga í skjóli nafnleyndar og jafnvel þó það sé undir nafni eru einfaldlega ekki birt hérna.
Það er reyndar mjög sjaldan sem þannig er sent undir nafni, og reyndar sárafáar aths. sem ekki eru birtar. Líklega um 15 það sem af er þessu ári.
Kv GG
Það er gaman að sjá viðbrögð lýðskrumaranna og yfirbjóðendurna þegar þeir eru teknir í gegn og flett ofan af þeim.
Þetta birtist okkur svo vel á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar þegar menn, sem ítrekað eru búnir að koma í bakið á öllum félögum sínum og níða þá niður, er sýnt fram á hversu lágkúruleg viðbrögð þeirra eru, þá fara þeir að vola og segja að allir séu svo ósanngjarnir í þeirra garð og allir eigi að vera vinir.
Þessi skemmdu epli verkalýðshreyfingarinnar og uppáhöld spjallþáttastjórnenda eru búnir að valda verkalýðshreyfingunni og þeim sem minnst mega sín óbætanlegu tjóni.
Umræða um lýðskrum og yfirboð mætti vera meiri þessa dagana.
Það er eins og enginn velti því fyrir sér hvers vegna stjórnvöld leggi til aðgerðir sem eru sársaukafullar og erfiðar sbr. niðurskurð opinberra gjalda eða skattahækkanir. Þetta eru tillögur sem sumar hverjar eru nánast pólitísk sjálfsmorð.
Það er auðvelt að gagnrýna svona aðgerðir en erfiðara að koma með raunverulegar tillögur í staðin.
http://www.merriam-webster.com/dictionary/demagogue það lítur út fyrir að þú hafir hitt naglann á höfuðið. verðum við ekki að fara að kalla hlutina sínum réttu nöfnum?
Sæll Guðmundur
Mig langar að þakka þér fyrir enn einn prýðisgóðan psitil, í þetta sinn um Lýðskrumara, - orð í tíma töluð!
Bestu kveðjur
HR
þakka þér fyrir skilgreininguna á lýðskrumaranum en ég veit ekki ennþá um hverja þú ert að tala.
Þetta hljómar einmitt eins og lýðskrum hjá þér sjálfum þar sem þú bendir ekki á neinn og færir engin bein rök fyrir máli þínu.
Hverjir eru þessir lýðskrumarar?
Og hvaða lýðskrum ertu að tala um nákvæmlega?
Nafnlaus 25.10 # 16.49
Hún er hreint út sagt kostuleg þessi aths. þín. Þú reyndar upplýsir okkur um fáfræði þína þegar þú segist ekki skilja hið algenga orð lýðskrumari.
Það stendur skýrum stöfum í texta pistilsins hvernig lýðskrumarinn (populistinn) vinnur og við upplifum það á hverjum degi í spjallþáttum og fréttum.
Skrifa ummæli