Eyjan heldur áfram sínum ómerkilega málflutningi af störfum verkalýðshreyfingarinnar og er líklega að ná því marki að verða einhver lágkúrulegasti fréttamiðillinn hvað það varðar, er þó langt til jafnað. Eins og ég hef bent á hér í pistlum þá virðist sama hvar tekið er á fréttum Eyjunnar af ályktunum og störfum innan verkalýðshreyfingarinnar, alltaf er málum hallað á neikvæðan veg. Ef sendar eru inn leiðréttingar þá eru rangar fréttir látnar hverfa af síðunni og síðan þvertekið fyrir að þær hafi birst.
Á þingi ASÍ gengu öll störf mjög vel og eðlilega fyrir sig. Þingheimur tók tunnuslátti nokkurra einstaklinga mjög vel og töluðu menn í ræðustól þingsins um að gott væri að vera hvattir áfram af mönnum sem stóðu utandyra og að starfsemi þingsins drægi til sín athygli fólks og fréttamanna. En Eyjan afbakar sínar fréttir að venju þegar kemur að störfum samtaka launamanna og segir að það hafi truflað þingheim sem er alrangt.
Tunnuslagarar hættu eftir tvær klst. en þingið var að störfum fram undir kl. 18.00. Á þingi ASÍ sátu tæplega 300 manns hver um sig kjörinn af félagsmönnum síns stéttarfélags. Eins og venjulega þá eru menn ekki alltaf sammála um hvert eigi að stefna, annað væri óeðlilegt, en málin eru rædd og niðurstöður fengnar.
Aðalstörfin fara að venju fram í starfsnefndum sem voru að störfum á efri hæðum húsinns og stóðu fram á kvöld fyrri dags og byrjuðu snemma að morgni seinna dags. En niðurstöður starfsnefnda eru síðan afgreiddar í aðalsal, sem hóf störf um hádegið.
Vitað var fyrir þingið að það myndu verða kosningar um báða forseta ASÍ þar sem m.a. Ingibjörg varaforseti hefur átt við erfið veikindi að stríða og myndi ekki gefa kost á sér. Fram kom mikil ánægja meðal þingfulltrúa með að kosið væri um forseta, þar sem Gylfi hafði þurft að sitja undir miklu ámæli í fjölmiðlum en hlaut örugga kosningu 73% þingfulltrúa og styrkti stöðu sína mjög. Kosningar um fulltrúa í miðstjórn fara fram í landsamböndunum, sem kjósa hvert sína fulltrúa í miðstjórn, sem er síðan staðfest á þingi ASÍ.
Óvenjulega góður andi var í þingheim og mikil samhugur, og er næsta víst að einmitt tunnuslátturinn hafi haft þau jákvæðu áhrif, en tunnuslagarar höfðu löngu fyrir þingsetningu boðað komu sína. Mikill samhugur var meðal þingfulltrúa um að Alþingi yrði að taka á skuldum heimilanna, en gagnrýnt hversu óvönduð og illa unnin vinnubrögð ríkisstjórnar væru, endurtekið hefði komið fram hversu illa ríkisstjórnin hefði grundvallað ákvarðanir sínar, sem væri síðan að valda enduteknum seinkunum á niðurstöðum. Á öllum stigum hefði hagdeild ASÍ þurft að leiðrétta útreikninga ríkistjórnar, og oft hefðu skekkjurnar skipt jafnvel hundruðuðum milljarða. Einnig hefðu tillögur oft á tíðum gengið þvert á landslög.
Umræður í starfsnefndum og á þinginu einkenndust að venju af stöðunni í samfélaginu, falli krónunar sem hefði leitt til kaupmáttarhraps og margföldunar skulda, sem væri að valda launamönnum miklum vanda. Á þinginu sitja fulltrúar úr öllum starfsstéttum og mikil þekking þar samankomin á öllum þjóðháttum og vinnumarkaðnum.
Í umræðunni var áberandi umfjöllun um þá hugarfarsbreytingu sem þyrfti að eiga sér stað í samfélaginu, umræðan einkenndist um of af upphrópunum og lýðskrumi, sem hefði þær afleiðingar að lítið miðaði við að komast af stað upp úr lægðinni. Í ályktunum þingsins kemur fram að það væri óásættanlegt hversu mikið ósætti Alþingis- og sveitarstjórnarmanna væri að draga uppgang hagkerfisins.
Oft var vísað til þeirrar myndar sem Páll Skúlason fyrrv. Háskólarektor dró upp um hvernig komið væri fyrir íslensku samfélagi, í sjónvarpsviðtali á RÚV á þriðjudagskvöld, hún væri því miður ákaflega rétt og óþægilega sönn.
26 ummæli:
Guðmundur, hvað finnst þér um vinnubrögð í stjórn VR?
"Þar voru fundarmenn, sem seturétt eiga á þinginu, hvattir til að kjósa með tillögum formanns VR um tilnefningar til miðstjórnar ASÍ en því var staðfastlega neitað að gefa upp hverjir eru í framboði.
Hann sagðist (auðvitað) vita hverjir væru í framboði fyrir hönd VR en neitaði að gefa það upp!
Er lýðræðislegt að hafa áhrif á kosningar með því að hvetja félagsmenn til að kjósa eitthvað sem þeir hafa ekki hugmynd um hvað er?
http://www.svipan.is/?p=14415
Það er mikið til í þessu hjá þér en staðreyndin er að þessi fréttaflutningur er allstaðar svona fluttur er oft af þekkingarleysi.
Hins vegar er rétt að Gylfi hefur staðið í vegi fyrir því að lífeyrissjóðirnir skili þeim miklu fjármagnsfluttningum sem urðu frá almenningi yfir til fjármagnseigenda. Hann er forseti ASÍ og á að vinna fyrir fólkið.
Ég hef ekki orðið var við að við í RSÍ höfum gefið út stuðningsyfirlýsingu frá okkur um þau mál.
Að það lækki lífeyrisgreiðslum er misskilningur það sem lækkar þær er það fjárfestingarstarf sem átti sér stað hjá sjóðunum og það tap sem varð af því.
Og þeir sömu menn sem komu lífeyrissjóðunum í þessa stöðu sitja en að. Við þurfum að losna við stjórn og framkvæmdarstjóra úr okkar lífeyrissjóði. Og gott væri að koma með sannleikann upp á borðið um tapið sem varð á þeim fjárfestingum sem gerðar voru með vinum okkar sem buðu okkur víða í veislur og annað góðgæti.
Og þegar ráðið er nýtt fólk þá þarf þetta fólk ekki að vera á ofurlaunum og fríðindum. Skil ekki af hverju forusta RSÍ hefur ekki verið ákveðnari í þessum málum.
Ég þekki ekkert til vinnubragða í öðrum stéttarfélögum, við innan RSÍ tökum á okkar málum og skiptum okkur ekki að öðrum.
Gylfi hefur ekki staðið í vegi fyrir einu eða neinu í sambandi við lífeyrissjóðina, enda hefur hann ekkert með þá að segja, nema þá sem sjóðsfélagi í lífeyrissjóð VR. ASÍ kemur ekki nálægt stýringu lífeyrissjóða.
En Gylfi hefur eins og mjög margir félagsmenn þar á meðal RSÍ bent ríkisstjórninni á að það er ólöglegt að að taka sparifé launamanna og nýta það til þess að greiða niður skuldir annarra.
Fyrir liggur könnun meðal félagsmanna RSÍ um þessi mál og er á rafis.is.
Það kom mjög glöggt meðal þingfulltrúa á ársfundi ASÍ vilji til þess að ríkisstjórnin tæki á skuldavanda heimilanna. Þessi vilji kom einnig fram í ræðum Gylfa á fundinum.
Um þetta má lesa á heimasíðu ASÍ þar sem ályktanir fundarins eru.
Hvað varðar fullyrðingar um starfsfólk og stjórnendur lífeyrissjóðs rafiðnaðarmanna, þá er þar til að taka að þeir hafa mætt á allmarga fundi hjá félagsmönnum RSÍ og verið yfirheyrðir um fjárfestingar, fullyrðingar um glysferðir og fleira. Ekki hefur reynst nein ástæða til þess að láta nokkurn fara vegna þess. Laun framkvæmdastjóra hafa verið lækkuð í samræmi við samþykktir sjóðsfélagafunda.
Órökstuddar alhæfingar í þessum dúr skila engu. Greiddur lífeyrir og örorkubætur í okkar lífeyrissjóð voru hækkaðar langt umfram neysluvístölu fram að Hruni, þær hækka á hverjum mánuði í samræmi við vísitölu. þær eru enn í dag töluvert umfram neysluvísitölu þrátt fyrir fyrstu skerðingar sjóðsins eftir Hrun. Þannig að það er ekki fótur fyrir neinu af því sem þúr ert að fullyrða. Það getur verið að fullyrðingar þínar eigi við um aðra sjóði, ég þekki það ekki nákvæmlega, en hef séð í fréttum að staða nokkurra annarra sjóða er munlakari en okkar, þar ég kanski sérstaklega við um sjóðina sem bankarnir stýrðu.
Það blasir við öllum að almennu lífeyrissjóðirnir eru þeir einu sem stóðu Hrunið af sér, allar aðrar fjármálastofanir hrundu til grunna. Af því getum við launamenn verið mjög stoltir og erum það. Og nú vilja allir eiga þessa fjármuni og ráðskast með þá.
Um 50% sjóðsfélaga almennu lífeyrissjóðanna eiga eigið húsnæði.
Hvers vegna ættu þeir að samþykkja að það séu teknir 137 milljarðar úr sjóðum þeirra til þess að greiða niður skuldir annarra?
Það myndi leiða til þess að réttindi yrðu skert um 10% í almennu sjóðunum en ekki í lífeyrissjóðum útvalinna opinberra starfsmanna.
Sem einn af mótmælendunum vildi ég bara staðfesta fréttaflutning Eyjunnar og fullyrða að þessi pistill þinn Guðmundur er jafnframt staðfesting á þeirri ömurlegu veruleikafirringu og afneitun sem geislar af spilltri forystu ASÍ. Það er aumkunarverð tilraun hjá þér Guðmundur að reyna að stela mótmælunum til stuðnings þeim sem þau beinast gegn. Þetta er svona álíka lágkúrulegt og þegar allra firrtustu sjálfstæðismennirnir reyndu að stela mótmælunum við Alþingi.
Nærðu því ekki að mótmælendur við Hilton hótelið eru gjörsamlega búnir að fá upp í kok á verkalýðsforystunni? Hún þykist vera að verja hagsmuni félagsmanna með því að verja verðtrygginguna. En launafólk fær borgað í óverðtryggðum krónum og eignast bara óverðtryggð hús. Okkur er fjandans sama um þann ömurlega útúrsnúning að það sé verið að vernda okkar verðtryggða lífeyri sem þó spilltar stjórnir lífeyrissjóðanna hafa skert verulega með töpuðum glæfrafjárfestingum til fjárhættuspilara og sukkara. Samt sitja þær nær allar áfram. Við höfum ekkert við lífeyri að gera ef við deyjum úr hungri eða skorti á heilbrigðisþjónustu áður en við komumst loksins á eftirlaun.
Þú getur haft þínar skoðanir og réttlætingar Guðmundur, en augljóslega vill launafólk verðtrygginguna burt og það vill losna við mafíuna sem stjórnar lífeyrissjóðunum, þar með talið spillt forystulið verkalýðshreyfingarinnar. Fólk vill kjósa beint í stjórn lífeyrissjóða og fólk vill ekki sitja uppi með handónýtt lið í stjórnum verkalýðsfélaga og ASÍ sem virðist nánast handvelja á landsþing og hefur sjálfkjörið í stjórn.
Ég ítreka að mótmælin beinast sérstaklega gegn vanhæfri mafíu verkalýðsforystunnar. Þú mátt skammast þín fyrir þennan pistil Guðmundur, en frétt Eyjunnar stendur. Þeir sem komu út af fundinum og ræddu við mótmælendur og væntanlega fréttamann Eyjunnar var m.a. Vilhjálmur Birgisson (formaður Verkalýðsfélags Akraness) sem talar okkar máli en mafían kallar lýðskrumara. Hann var reyndar ánægður með tunnusláttinn, enda skildi hann vel skilaboðin ólíkt mafíunni sem í bullandi afneitun reyndi (samkvæmt þinni lýsingu) að snúa skilaboðunum á hvolf. Mafían virðist ekki hafa áhuga á að tala við fólkið, enda búin að ráða sér lífverði.
Þetta er mjög dapurlegur pistill hjá þér Guðmundur sem er einfaldlega aðför gegn þér sjálfum, lýsir vel þinni afneitun, veruleikafirringu og áframhaldandi stuðningi þínum við spillingaröflin í landinu. Það skal þá standa Guðmundur að þú ert í spillingarliðinu og pistill þinn er aum málsvörn fyrir þá mafíu sem þú kýst að tilheyra.
Kaldar kveðjur frá mótmælanda.
Þið þessir verkalýðsforkólfar eru mjög þaulsetnir og ég hef trú á að Vilhjálmur Birgisson viti alveg hvað hann er að segja þegar hann heldur því fram að verkalýðsforystan hafi fjarlægst hinn almenna launamann. Þið sem komist í æðstu stöður raðið í kring um ykkur vinum ykkar og hangið svo á þessum sömu stöðum eins og hundar á roði. Þetta veist þú vel og sannleikurinn er þér greinilega sár. Hvað ertu annars með í laun sé tekið mið af fólkinu sem þú ert að semja fyrir?
Valur B
Er ekki bara málið að vinnubrögð verkalýðsforystunnar eru svo ótrúverðug að það trúir enginn frásögnum af þeim. Þess vegna verða menn að skálda við ruglið.
Þetta hlýtur að vera brandari um tunnusláttinn, að menn innandyra hafi haldið að það væri verið að styðja þá!
Það er rétt hjá þér að lífeyris og örorkubætur í okkar lífeyrissjóð hafa verið hækkaðar langt umfram neysluvístölu fram að hruni og það er miður því það voru engar innistæður fyrir þessum hækkunum. Þetta var allt byggt á fölskum forsendum því miður.
Það breytir því ekki að það þarf að fá erlenda skoðunnar menn jafnvel þá sömu og foru í málin hjá íslandsbanka og fara yfir hlutabréfakaup,skuldabréfaútgáfu og lánveitingar þau mál eru algerlega óskoðuð eins og þú veist. Það er best að fá allt upp á borið og ef allt er skothelt þá erum við í góðum málum.
Það er líka rétt hjá þér að það hafa verið lækkuð laun en þau eru allt of há og það veist þú að flestum sjóðsfélögum ber saman um.
Um það að lífeyrissjóðirnir þurfi að greiða út 137 milljarða það er ekki rétt þetta var oftekið og einu leiðréttingin sem þarf að gera er á lánum sem eru inni hjá þeim og hafa verið uppfærð um 137 m sem aldrei voru til. Þetta eru peningar sem voru búnir til í kjölfar glæpa sem ýmsar stofnanir eins og bankar framkvæmdu og í skjóli þess voru 137m bætt á lán landsmanna.Það er ekki hægt að reka lífeyrissjóði með það á samviskunni að þeir liggi á ránsfeng.
Ég leyfi mér að taka undir með Guðmundi Gunnarssyni hvað varðar lífeyrissjóðina og sérstaklega Stafi, okkar sameiginlega lífeyrissjóð. Það er auðvitað ljóst að lífeyrissjóðir hafa tapað á hruninu, rétt eins og allir aðrir. Það þýðir skerðingar á lífeyri félagsmanna, mismunandi miklar reyndar eftir sjóðum. Ljóslega hafa svokallaðir "frjálsir" lífeyrissjóðir tapað meiru á hruninu en þeir, sem eru grundvallaðir á félagsaðild í stéttarfélögum. En það er hinsvegar umhugsunar virði, af hverju svo mörgum finnst ástæða til þess að það fólk, sem á nú lífeyrisrétt í sjóðunum, eigi að taka á sig efnahagsáföllin umfram aðra landsmenn. Þarna má nú líka hafa í huga, að aðrar skerðingar, sem ríkið stendur fyrir, koma þarna ofan á. Bendi á athyglisverðar greinar í mogganum í dag í þessu sambandi.
Vill bara minna á að það eru félagsmenn stéttarfélaganna sem kjósa forystuna. Ef félagsmönnum viðkomandi stéttarfélags líkar ekki við sínar stjórnir þá vitanlega kjósa þeir sér annað fólk.
Ég mæti þarna sem kjörinn fulltrúi rafiðnaðarmanna og í okkar hópi voru 20 aðrir rafiðnaðarmenn sem voru kosnir af hinum 10 aðildarfélögum RSÍ.
Nú veit ég ekki í hvaða stéttarfélögum þið eruð nafnlausir góðir, en þið hljótið að koma ykkar aths. á framfæri við ykkar félag.
Við sátum við gluggan og heyrðum vel trumbuslaginn og vorum allir sammál um að þetta væri fín hvatning og það sýndi sig í þeim umræðum sem fram fóru.
Okkur þótti þetta mjög skemmtileg uppá koma. Við erum mjög vanri því að vera með fjölmenna og fjöruga fundi meðal okkar félagsmanna. Það voru t.d. um 1.000 félgsmenn sem sóttu félagsfundi okkar víðsvegar um landið.
Þar heyrðum við hvergi það sem þið haldið fram, þar fór fram góð og rösk umræða eins og alltaf er á félagsfundum stéttarfélaga.
Við sendum ykkur hinar bestu kveðjur og þökkum stuðningin við ársfundinn. Þið gerðuð hann eftirminnilegan og svo sannarlega stuðluð þið að mikilli samdrægni fólksins.
Ég sat ársfundinn og get staðfest það sem Guðmundur segir. Frétt Eyjunnar er út í hött.
Verð að ítreka það sem stendur á síðunni, það er tilgangslaust að senda hingað eitthvert svívirðingaflóð og rakalausar dylgjur um fólk, það er ekki birt.
Góða helgi Guðmundur
Guðmundur er klárlega röggsamasti og heiðarlegasti formaður verkalýðsfélags í dag og hann nýtur mikils stuðnings meðal sinna manna.
Það er einkennilegt að heyra einhverjar dylgjur í hans garð frá einhverjum sem eru líklega utanfélagsmenn eða í öðrum stéttarfélögum.
Guðmundur er kosinn af okkur, og við höfum ekki verið að skipta okkur af stjórnum annarra stéttarfélaga
Rafiðnaðarmaður
Eftir Hrun hafa útgjöld styrkja úr sjóðum RSÍ vaxið um 100 millj. kr. á ári. Ráðin hefur verið lögmaður og sálfræðingur til þess að hjálpa fólki, fullt út úr dyrum hjá þeim.
Símtöl og tölvupóstar inn eru um 200 á dag, auk heimsókna félagsmanna. Heimsóknir á vinnustaði vegna átaka, störf ófaglærðra og svartrar vinnu hefur aldrei verið meiri.
Fjöldi félagsmanna á starfsmenntanámskeiðum Rafiðnaðarskólans hefur aldrei verið meiri og sambandið var að stækka húsnæði hans um helming og styrkja hann verulega.
Öll 43 orlofshús sambandsins eru fullbókuð allt árið um kring. Tjaldsvæðið stækkað á hverju ári og yfirfullt með 15.000 gestum síðasta sumar.
Markviss og mikil vinna hafði skilað mjög góðum árangri í kjarabaráttu rafiðnaðarmanna og var kaupmáttur þeirra orðin betri en á hinum norðurlandanna árið 2006. Meðalvinnutími hafði styst verulega og var kominn niður í 43 klst. á viku. En sá árangur var eyðilagður með rangri efnahagsstjórn stjórnmálamanna með falli krónunnar. Þar er ekki við starfsmenn stéttarfélaganna að sakast.
Tími starfsmanna vegna setu í starfsnefndum hins opinbera og í sameiginlegt starf verkalýðshreyfingarinnar hefur aldrei verið jafnmikill.
En svo dynja á starfsmönnum stéttarfélaganna endalausar skammir fyrir það að stjórnir félaganna hafa hafnað því að vera þátttakendur í því að henda grjóti í lögregluna og það heltekur alla umræðuna.
Ásamt rakalausum dylgjum um að starfsmenn stéttarfélaganna geri lítið annað en að gambla með fjármuni lífeyrissjóðanna. Enginn starfsmanna RSÍ kemur nálægt fjárfestingum lífeyrissjóðsins rafiðnaðarmanna.
Það er rétt hjá Guðmundi að nærvera tunnuslagverksins virkaði vel á fundarmenn og efldi samkennd þeirra.
Tek undir orð Guðmundar í bestu ræðu fundarins, þegar hann rasskelti lýðskrumarana á eftirminnilegan hátt.
"Það er út í hött að ætla að við losnum við hið illræmda óbermi verðtryggingarinnar fyrr en við höfum losað okkur við krónuna og náð stöðugleika í efnhagslífið.
Þangað til þá verða menn að velja á milli gríðarlegra hárra vaxta eða fastra vaxta og verðtryggingu"
Fjöðrin sem varð að þremur hænum hér saga sem börnin mín lásu einhverju sinni í skóla. Nú er tillaga Hagsmunasamtaka heimilanna um að lífeyrissjóðirnir taki ábyrgð á þátt sínum í hruni með því að veita Íbúðalánasjóði sömu leiðréttingu á Íbúðabréfum, húsbréfum og húsnæðisbréfum og samtökin fara fram á að ÍLS veiti lántökum orðin að 127 milljörðum. Guðmundur, þessi tala Gylfa er úr lausu lofti gripin. Rétt tala er 50 milljarðar auk að hámarki 27 milljarða vegna sjóðfélagalána. Mér finnst allt í lagi að menn fari rétt með tölur.
Annars hef ég verulegar áhyggjur af afstöðu verkalýðsforustunnar til ástandsins í landinu. Sérstaklega hef ég áhyggjur af því af skorti forustunnar að þola gagnrýni úr eigin röðum. Það eru döpur rök að kalla Vihjálm Birgisson lýðskrumara, því hann er allt annað. Hann hefur mér vitanlega hvergi reynt að slá sig til riddara eða sækjast eftir vegtyllum umfram stöðu sína sem formaður Verkalýðsfélags Akraness. Hann hefur t.d. forðast að rugla saman starfi sínu í þágu launafólks og vera í hagsmunagæslu innan lífeyrissjóða.
Staðreynd málsins er að verkalýðsforustan hefur með förfáum undantekningum gjörsamlega brugðist umbjóðendum sínum. Verðtrygging lána heimilanna hefur nákvæmlega ekkert með verðtryggingu lífeyris að gera. Þetta er dæmi um bullið sem vellur upp úr hagsmunagæsluliði verðtryggingarinnar. Verði verðtrygging af húsnæðislánum og afleiddum afurðum afnumin, þá þurfa sjóðstjórnar einfaldlega að leggja meria á sig til að fá fram nauðsynlega ávöxtun.
Ég legg til að verkalýðsforustan hætti að skakkyrðast við fólk sem er að vinna að hagsmunum almennings í landinum, en finni frekar flöt á samstarfi. Ársvelta Hagsmunasamtaka heimilanna nær ekki einu sinni 3 mánaðalaunum forseta ASÍ, enda öll vinnan unnin í sjálfboðavinnu. Hugsaðu þér bara, Guðmundur, hvað ætti að vera hægt að gera með allan þann pening sem er innan verkalýðshreyfingarinnar.
Nú hvað varðar að betra sé að eiga fyrir mat í dag, en 4% hærri lífeyri í lok starfsævi, þá tek ég heilshugar undir. Mér finnst raunar skammarlegt að launþegahreyfingin styðji ekki dyggilega við þær hjálparstofnanir sem eru að hjálpa fólki í nauð. Gleymum ekki að margt af þessu fólki er félagsbundið í verkalýðsfélagi, en fær ekki aðstoð frá því vegna þess að það vill ekki borga félagsgjöld af atvinnuleysisbótum. Þetta er enn eitt dæmið um að heggur sá sem hlífa skyldi.
Með virðingu
Marinó G. Njálsson
@Rafiðnaðarmaður
23. október 2010 12:47
Er sammála þér um Guðmund.
Verkalýðsforystan þarf fleiri slíka.
Sæll Marínó
Ég nefndi Vilhjálm hvergi nefnt á nafn í ræðu minni á ársfundinum. Ég sagði að þeir sem segja að hægt sé að afnema verðtryggingu og halda lágu föstu vöxtunum séu lýðskrumarar. Þessir einstaklingar hafa byggt upp væntingar hjá fólki sem aldrei verður hægt að standa við, það er fantaskapur gagnvart fólki sem stendur illa. En þar eru þeir að yfirbjóða í skjóli þess að þurfa aldrei að standa undir loforðum sínum. Þeir benda á þetta eru að taka óvinsælar ákvarðanir og verða taparar en lýðskrumararnir verða sigurvegararnir, þetta er að setja þessa þjóð á hliðina eins og ég sagði í ræðu minni.
Ef afnema á verðtryggingu þá verða menn að horfast í augu við himinháa vexti sem engin ræður við að borga nema með einhverskonar greiðsludreifingu eins og verðtryggingarkerfið gerir kleift. Ef menn vilja setja þak á vextina á meðan við höfum gjaldmiðil sem stjórnmálamenn spila með, til þess að leiðrétta of góða kjarasamninga eða slaka hagsstjórn, þá muni engir vilja setja fjármuni til langtíma í húsnæðiskerfið.
Vilhjálmur kaus það sjálfur að taka þetta til sín. Hann má það mín vegna, en hann gerði mér upp allskonar skoðanir og gagnrýndi mig fyrir skoðanir, sem ég hef aldrei haft, það eru venjubundin vinnubrögð þeirra sem eru röklausir. Enginn hefur verið jafnóvægin í garð samstarfsmanna sinna og félaga eins og Vilhjálmur enda er mér tjáð að hann sé búinn að einangra sig innan Starfsgreinasambandsins.
Vilhjálmur er ekki í RSÍ og eigum mjög lítið samstarf við Vilhjálm. Hann tekur lítinn þátt í mótun stefnu ASÍ, mætir ekki á miðstjórnarfundi eða aðra fundi þar sem stefnan er mótuð. En samt er hann sífellt að vega að þeim sem starfa innan ASÍ, sem er óskiljanlegt sakir þess að honum stendur til boða að starfa að mótun stefnunnar eins og öðrum. Í félagslegu starfi er það meirihlutinn sem ræður, við RSÍ menn náum ekki alltaf fram því sem við viljum, en sættum okkur við það sem ofaná verður, þannig virkar félagslegt samstarf. Við framkvæmum okkar hluti eins mikið sjálfir og við getum án afskipta ASÍ eða annarra.
Hvað varðar þessa upphæð frá lífeyrissjóðunum þá setti ríkisstjórnin fram þá kröfu að eigendur skuldabréfa Íbúðarlánasjóðs tækju á sig skellinn, þaðan er 137 milljarða talan komin. En það breytir í raun engu hvort þetta séu 50 MIA og 137 MIA sem menn vilja taka út úr lífeyrisjóðunum, hvorki Gylfi eða aðrir hafa nein völd til þess að ákveða þetta, það eru lög í landinu og eins stjórnarskrá.
Það hefur alltaf verið eindreginn vilji verkalýðsforystunnar að taka á skuldavanda heimilanna. Strax í byrjun benti hagdeild ASÍ á að það væri ekki rétt að þetta væri hægt án þess að mikill kostnaður lenti á ríkinu, þá var hagdeildin gagnrýnd heiftarlega og málið fór í stopp.
Nú eru aðilar búnir að átta sig á hagdeild ASÍ hafði rétt fyrir sér, þá er ráðist að ASÍ og það sakað um að standa í vegi fyrir að þetta sé gert. ASÍ ræður nákvæmlega engu um það. Ég ræð heldur engu þar um, stefna meirihluta rafiðnaðarmanna er skýr og það er mitt hlutverk sem starfsmanns þeirra að fylgja henni, sama hvaða skoðunar ég er.
Það er svo einkennilegt að það virðast margir ekki átta sig á því að það er meirihluti félagsmanna viðkomandi stéttarfélaga sem ræður, ekki einhver formaður. Ég starfa undir stjórn mjög virkri 20 manna miðstjórnar RSÍ og ef ég fer ekki að hennar samþykktum er ég einfaldlega tekinn á beinið.
Þetta verða menn að átta sig á í stað þess, eins margir og meðal annars Vilhjálmur segja oft, að ég sé í einhverri fámennri klíku í Fílabeinsturni sem ekki sé í sambandi við félagsmenn heldur fari sínu fram. Þetta er alrangt og mjög ómaklegar ásakanir, ég hika ekki við að fullyrða að félagslegt kerfi hér innan RSÍ er virkara en í flestum ef ekki öllum stéttarfélögum. Um 1.000 félagsmenn mættu á fundi um allt land á síðasta ári þegar fjallað var um stöðugleikasáttmálann.
Kv GG
Fínn pistill hjá Guðmundi. Tunnuslátturinn var auðvitað eftirtektarverður en engan vegin til þess að skemma þennan fund nema síður sé. Hafi markmiðið með þessum tunnuslætti verið að koma í veg fyrir framgang fundarins mistókst það algerlega en hafi markmiðið verið að hvetja fundarmenn til að muna eftir vanda heimilanna er það rétt hjá Guðmundi að það hafi tekist.
Tek undir með Guðmundi, þetta er líklega besti ársfundur sem ég hef setið. Þjóðfundarfyrrkomulagið gekk upp og þingfulltrúar ánægðir með þetta form. Þetta er allt annað en þegar starfsmenn mættu á fundina með drög að ályktunum og svo snérist umræðan bara um að lagfæra orðalag. Þarna tækju allir þátt í að smíða ályktanirnar frá grunni og draga fram helstu áherlsuatriði. Síðan var allt fellt saman í góða heild. Fólk var mjög ánægt með heimsókn tunnufólksins, það hvatti fólk til dáða og samheldni. Sumir fullyrtu að þetta væri fólk sem ekki væri þáttakendur í stéttarfélögum og þeim þætti einkennlegt hvers vegna það væri að skipta sér af fundi félagsmanna stéttarfélaga
Mikil er fyrring þín Guðmundur, tunnuslátturinn hvatning.
Þú ættir að losa þig við þingmannin úr görnum þínum.
Á þingi ASÍ gengu öll störf mjög vel og eðlilega fyrir sig. Þingheimur tók tunnuslátti nokkurra einstaklinga mjög vel og töluðu menn í ræðustól þingsins um að gott væri að vera hvattir áfram af mönnum sem stóðu utandyra og að starfsemi þingsins drægi til sín athygli fólks og fréttamanna.
Kv.Dagbjartur
Það var áberandi hversu oft hagfræðingarnir þurftu að fara upp í pontu og leiðrétta rangar tölur sem lýðskrumsfólkið sló um sig með. Maður fékk góða kennslu þarna í að hætta á hlusta á lýðskrumarana þegar þeir fóru að ryðja út sér tölulegum "staðreyndum"
Hef aldrei sem jafngóða endurspeglun á fólki úr öllum stéttum vinnumarkaðisins og gaman að sjá hve samhugurinn var sterkur.
Skrifa ummæli