þriðjudagur, 30. nóvember 2010

Takk fyrir stuðninginn

Byrja á því að þakka þann stuðning sem ég hef fengið, niðurstaðan kom mér þægilega á óvart, þar sem ég sá svo margt frambærilegt fólk í hópi hinna 530 frambjóðenda. Ég notaði ekki krónu í kynningar og gerði ekkert sérstakt átak til þess að kynna mig.

Það er ekki hægt annað en benda á það sem er svo einkennandi fyrir alla fjölmiðlaumræðu hér á landi. Alltaf er leitað að einhverju neikvæðu, sem svo er endurtekið í síbylju.

Í byrjun : Svo rosalega margir buðu sig fram.

Næst : Kosningin er svo flókin.

Þá : Svo fáir sem kusu, ekkert að marka þetta og leitað uppi fólk sem þekkt er fyrir andstöðu sína gagnvart stjórnlagaþingi og það sagðist vita hvaða skoðun þessi 60% hefðu sem ekki nýtti atkvæðarétt sinn.

Og nú : Bara þekktir aðilar af suðvesturhorninu sem náðu kosningu.

Aldrei jákvæðni, bara neikvæðni og nauðhyggja.

Hvernig átti að koma í veg fyrir að fólk sé kosið, sem hefur fyrir því að koma skoðunum sínum á framfæri. Er það fólk verra en aðrir af því það fólk hefur náð eyrum almennings með skilmerkilegri framsetningu á skoðunum sínum?

Hvar í ósköpunum tíðkast það að fólk sem enginn þekkir nái árangri í stjórnmálum? Ef þær skoðanir sem viðkomandi héldi fram væru andstæðar vilja almennra kjósenda, hefðu þeir þá verið kosnir?

Ef tekið væri mið af því sem fjölmiðlamenn halda fram þá ætti það að vera slæmt að vera þekktur. Leiða má að því haldbær rök að allmargir fjölmiðlamenn telji það sé út í hött að verkalýðsforingi nái kjöri, sé litið til þeirrar meðhöndlunar sem við starfsmenn stéttarfélaga fáum reglulega í fjölmiðlum.

Ég veit reyndar hversu mikill munur er á því sem fram fer á fundum í stéttarfélögunum og því sem fjölmiðlamenn halda að almenning. Það sem birt er í fjölmiðlum um starfsemi stéttarfélaga er víðsfjarri öllu sanni og samþykktum félagsmanna. Það er mat mitt að niðurstaðan staðfesti hversu langt frá veruleikanum margir eru hvað þessi mál varðar.

Það hvílir þung ábyrgð á þeim hóp sem var valinn inn á þingið. Ef þessum honum tekst ekki að starfa saman af drengskap án þess átakastíls og skrums, sem hefur einkennt störf stjórnmálamanna og dregið álit Alþingis niður, þá munu vonbrigði almennings verða það þung að Stjórnlagaþing mun aldrei ná sér á flug.

Núverandi Stjórnarskrá hafði ekkert með Hrunið að gera. En ný stjórnarskrá getur verið gott skref til þess að byrja með hreint borð. Stjórnmálin eru löskuð og þurfa að ná til þjóðarinnar á ný, það er gert með því að gera gagngerar breytingar á stjórnskipaninni í stjórnarskrá og senda með því skýr skilaboð um nýtt upphaf og nýja siði.

8 ummæli:

Gísli Baldvinsson sagði...

Til hamingju Guðmundur. Sé á skrifum þínum að það verður spennandi að fylgjast með stjórnlagaþinginu. Búinn að bókmerkja það.

Nafnlaus sagði...

"Sterk og miklu stærri sveitarfélög eru framtíðin. Gömlu kjördæmin eru æskileg stærð sveitarfélaganna. Sveitarfélögin ættu að taka að sér öll þau verkefni sem þau geta. Skatttekjur ættu að renna beint til sveitarfélaganna og þau greiði ríkinu útsvar. Ríkið sjái einungis um sameiginleg mál landsmanna."

-Jafnvel mætti hugsa sér að hvert sveitarfélag hefði lögjafarvald, innan ramma stjórnarskrár. Ef suðvesturhornið vill ganga í NAFTA, Vestfirðingar vilja lögleiða kannabis, Húsvíkingar vilja reisa álver þá eyða þeir sínum tíma og peningum í það.

Með því að fækka alþingismönnum, skapa um 33 einmenningskjördæmi t.d. er tryggt að þingmenn hafi hag kjósenda sinna að leiðarljósi.

Að auki myndi áhersla stjórnmálanna færast meira að sveitarfélögum (eða 6-8 landshlutum), og hver landshluti gæti einbeitt sér að hagsmunamálum sínum.

En fyrst verður að skrifa nýja og betri stjórnarskrá.

Gangi þér vel Guðmundur.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með kosninguna. Mér finnst gott að vita af ykkur nokkrum þungavigtarmönnum á þinginu, mönnum sem takið ekki línu frá flokkum eða hagsmunaklíkum. Þið eruð nokkur sem hafið sýnt að þið búið yfir réttlætiskennd og eruð tilbúin að leggja ykkur undir ef svo ber við.

Sigurgeir sagði...

Sæll félagi

Til hamingju með kosninguna,
líður betur að vita af þér þarna inni,

kveðja
Sigurgeir Ólafsson

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með kosninguna og gangi þér vel. Þér tókst að laglega plata mig í Fréttablaðinu í dag er upplýst að þú sért Íhaldskurfur en ekki get ég séð það á skrifum þínum á þessari síðu og sit ég uppi með að hafa kosið Íhaldsmann, úlf í sauðagæru, á þingið sem stóð sko ekki til, það er á hreinu.
Engum að treysta.

Guðmundur sagði...

Hún dáldið mikið þreytt þessi árátta að þurfa sífellt að fella menn í einhvern stjórnmálaflokk.
Ég var varaborgarstjórnarfulltrúi xD 1994 - 1998. Sagði mig úr flokknum skömmu síðar það var vegna þess flugs sem hann var kominn á til hins villta hægris.

Hef ekki síðan þá tekið þátt í flokkspólitísku starfi. Enda myndi það hamla mér mikið í því starfi sem ég hef sinnt á undanförnum árum.

Nafnlaus sagði...

Gleðst yfir því að þú hafir verið kjörinn, Guðmundur.

Ég treysti því að á þessu þingi haldir þú uppi málflutningi í takt við skrif þín á þessari síðu.

Til þess kaus ég þig a.m.k.
Mér hefur fundist þú tala af meiri þekkingu og reynslu en flestir aðrir hér.

Það á ekki síst við um framtíð þjóðarinnar og nauðsynlegar breytingar, fækkun þingaman osfrv.

Ég treysti því að þú nýtir þetta einstaka tækifæri og haldir áfram kröftugum málflutningi þínum.

Það er mér gleðiefni að þú skulir hafa hlotið kosningu.
Kveðja
Karl Karlsson
Reykjavík.

Sigurður Viktor Úlfarsson sagði...

Til hamingju með kjörið Guðmundur!

Hvað frammistöðu fjölmiðla áhrærir er líka alltaf sorglegt hvað þeir hafa þrönga sýn á hvert mál og í raun oft samfélagið í heild.

Talað er um hlutverk forseta sérstaklega í stað þess að tala um stjórnkerfið í heild þar sem hlutverk forseta er aðeins einn hlekkur í stóru kerfi sem á að tryggja að lítill hópur einstaklinga geti ekki tekið það yfir.

Það er líka alltaf talað um það hvort fólk vilji þjóðkirkju eða ekki í stað þess að spyrja sig að því hvort við getum haldið því jákvæða við þjóðkirkjuna s.s. að sporna við öfgum en losnað við það neikvæða s.s. mismunun trúarhópa. Er ekki til þriðja leið?

Stjórnalagaþingið horfir á trúarbrögð út frá samfélaginu en ekki út frá trúfélögunum. Þannig fjallar stjórnarskráin um samfélagið en ekki trúarbrögðin. Trúarbrögð eru staðreynd í okkar samfélagi. Hvernig stuðlum við að sem jákvæðastri þróun á sviði trúarbragða í samfélaginu næstu áratugina?

Getum við ekki t.d. skilgreint tiltekið HLUTVERK "þjóðkirkju" (greint þar á milli verksins og verktakans) og boðið öllum trúfélögum sem vilja að gerast "þjóðkirkja" (það má líka kalla það eitthvað annað). Hlutverkið gæti til dæmis verið að vinna gegn öfgum, að stuðla að og taka þátt í samræðu og samskiptum milli trúarbragða, að stuðla að fræðslu um ólík trúarbrögð, að allir séu velkomnir, að boðið sé upp á starfsemi víðs vegar um land o.s.frv. Þau trúfélög sem væru tilbúin að gera þessi gildi að sínum gætu orðið "þjóðkirkja". Er þetta mögulegur þriðji kostur? Þá værum við að fá kostina en losna við gallana.

Fjölmiðlar stilla öllu upp sem svörtu og hvítu. Það er hlutverk ykkar stjórnlagaþingsfulltrúa að finna leiðir sem flestir geta sætt sig við. Á endanum erum við flest sammála um markmiðin - grundvallargildin.

Kveðja,

Sigurður Viktor Úlfarsson