miðvikudagur, 1. desember 2010

Móðir mín

Nútímamanni er fyrirmunað að skilja hvernig húsfreyjur fyrri tíma fóru að. Ekkert rafmagn og ekkert af þeim hjálptækjum sem í dag eru talin grundvallarnauðsyn. Í því umhverfi sem ég ólst upp í, hvort sem væri á heimili pabba og mömmu eða þar sem ég var í sveit, tók húsmóðirin fullan þátt í umræðum um þjóðfélagsleg efni og mótaði umhverfi sitt og viðhorf barna sinna.

Mikil réttlætiskennd og áhyggjur af því hvernig lagfæra mætti þjóðfélagið, svo þeir sem minnst máttu sín gætu orðið bjargálna. Konur öðrum frekar lögðu grunninn að þeirri þjóðfélagsgerð, sem byggð var upp á síðustu öld. Eiginmenn, synir og dætur, fóru af heimilinu mótaðir af viðhorfum þeirra.

Körlum er síðan reistir minnisvarðar sakir þess að talið er að þeir hafi komið málum í höfn. En í viðtölum við þá kemur ætíð glöggt fram hvað varð til þess að móta lífsstefnu þeirra. Forskotinu var síðan glutrað niður á þeim fáu árum sem liðin eru af nýrri öld þar sem jöfnuður varð að víkja fyrir ofsafenginni karllægri keppni.

Móðir mín var af þeirri kynslóð sem hefur upplifað mestu breytingar á samfélaginu. Hún var oft ekki sammála þeirri umræðu sem fram fór um stöðu konunnar. Gagnrýndi gjarnan viðhorf þeirra kynsystra sinna, sem mest höfðu sig í frammi þegar jafnræði kynjanna bar á góma og töluðu niður til þeirra kvenna sem völdu að sjá um rekstur heimilis og umsjón barna. Það var að hennar mati frekar staðfesting á karllægum viðmiðum, en baráttu fyrir jafnræði kynjanna og minni ójöfnuði í samfélaginu.

Í orðræðu hennar var konan sjálfstæð án þess að bera þyrfti það á torg, tók sínar ákvarðanir og framfylgdi þeim. Hún sá um rekstur heimilisins meðan faðir minn var fjarverandi við það að afla tekna. Tekið var á hlutum með útsjónarsemi svo þeir rúmuðust innan hins þrönga ramma. Saumaði öll föt á fjölskylduna samkvæmt nýjustu tísku hverju sinni, átti alltaf góðar saumavélar og fylgdist vel með nýjustu árgerðum þeirra.

Tókst samt að hafa tíma til þess að læra á hljóðfæri og söng, vera í kórum og þátttakandi í öllum óperum Þjóðleikhússins. Fara í Myndlistarskólann og ljúka þar fjögurra ára námi. Finna svigrúm í rekstri heimilisins til þess að fjárfesta í ísskáp og tæma þar með pokana með matvælum heimilisins hangandi út um eldhúsgluggann.

Kaupa bíl og taka bílpróf á undan föður mínum. Stolt fór hún snemma á fætur á sunnudagsmorgnum smurði nesti og bauð síðan bónda sínum og börnum í bíltúr til Þingvalla.

Hún þurfti ekki að setja á langar ræður til þess að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, en hlustað var á hana meðan hún talaði án endurtekninga og upphrópana. Uppeldinu fylgdu ekki hótanir eða bönn, en maður lærði að axla ábyrgð á afleiðingum gjörða sinna. Gera gott úr því sem var, án öfundar í garð annarra. Minn besti vinur.

6 ummæli:

Jónína Óskarsdóttir sagði...

Þessar konur mega ekki gleymast, þeirra mikilvæga starf. Við konur verðum sjálfar að virða grunninn sem við byggjum á. Hann er góður og þau störf - kvennastörf - sem hafa sprottið af vinnu mæðra okkar - eru og verða mikils virði.

Nafnlaus sagði...

Ég segi nú bara eins og ónefndur íþróttamaður: "Guð blessi hana móður þína sem ól þig!"
-Alli

Unknown sagði...

Dugleg kona og klár greinilega. Heppin líka að fá að láta ljós sitt skína þrátt fyrir lagalega/samfélagslega mismunun. Amma mín var tvíbent (Fædd 1907, stolt húsmóðir sem langaði einu sinni að verða ljósmyndari), bæði hvatti hún okkur stelpurnar til að menntast og vera sjálfstæðar en þoldi enga menn sem gætu kannski ekki séð fyrir okkur. Saumaði á okkur ballkjóla upp úr fyrri kynslóðum þeirra en sagði okkur að láta enga karla ráða okkur. Orðræða hennar bar þess vitni að þótt hún elskaði afa minn þá réði hún litlu um almenna stefnu fjölskyldunnar áður en hann (menntamaður og esperantisti) dó og prísaði sig sæla að hann hefði ekki verið drykkjumaður. Feminismi (afsakið orðbragðið) hefði kannski verið henni of framandi hugtak en skilaboðin voru þau hin sömu.

Nafnlaus sagði...

Ég ber sömu tilfinningar til móður minnar - stórkostleg og góð kona.

Gott að fleiri hafa átt slíku láni að fagna!

Guðbjörn Guðbjörnsson

Bára sagði...

Orðið HETJA er kvenkynsorð og sjálfsagt ekki að ástæðulausu!

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill.
Til hamingju með kosningu á Stjórnlagaþing.