fimmtudagur, 26. maí 2011

Kosningalögin og Stjórnarskráin

Umfangsmikil umræða fer fram þessa dagana í Stjórnlagaráði um hvernig breyta eigi kosningakerfinu, þetta er líklega flóknasta málið sem fyrir ráðinu liggur. En af hverju er þetta svona ofarlega í hugum landsmanna? Margir hefja sína umfjöllun á ræðum um mismun milli landshluta og verja eigi landsbyggðina. Fólk flytji suður og gegn því verði að vinna með því að tryggja stöðu landsbyggðarinnar í gegnum kosningakerfið.

Algengt er að auki sé vísað er í að laun og atvinnuástand, laun séu að meðaltali mikið hærra á SV- horninu og það verði að lagfæra með því að tryggja aðkoma landsbyggðarinnar að stjórn landsins. En bíddu aðeins, nánast allt atvinnuleysið er á SV- horninu. Flestar einstæðar mæður eru á SV-horninu. Það fólk sem býr við mestu félagslegu vandræðin býr á SV-horninu. Þetta er staðan þrátt fyrir að landsbyggðin hafi margfalt atkvæðavægi miðað við SV-hornið og enn flytur fólk af landsbyggðinni.

Reikna menn með því að sjávarútvegur og landbúnaður taki til við að hækka laun og fjölga störfum? Þróunin hefur verið í hina áttina í þessum atvinnugreinum og það er ekkert sem bendir annars en að sú þróun verði áfram. Öll fjölgun starfa hefur verið í tækni- og þjónustugreinum á undanförnum áratugum. Fólk sækist í störf þar sem boðið er upp á þróun og möguleika til starfsframa. Það er fólk í góðum störfum á góðum launum, sem er að flytja af höfuðborgarsvæðinu til Norðurlandanna. Það er ekki fólk af landsbyggðinni.

Hvað er það sem hefur umfram annað leitt yfir okkur þau vandræði sem Ísland býr við? Hvers vegna er meiri spilling á Íslandi en annarsstaðar? Hvers vegna gengur Íslandi mun verr en nágrannalöndum? Er það vegna þess að hér sé ekki nægilega mikið atkvæðamisvægi? Um hvað eru menn að tala? Ef bæta á stöðuna verður að greina rætur vandans.

Það kosningakerfi sem okkur er búið hafa þingmenn búið til þess að tryggja eigin stöðu. Núverandi kosningakerfi tryggir að liðlega helmingur þingmanna situr alltaf í öruggum sætum og óttast ekki næstu kosningar. Það voru margendurkjörnir þingmenn sem sátu í valdastólunum þegar landið flaug fram af hengifluginu án sjáanlegs bremsufars.

Þessum margendurkjörnu þingmönnum miðar ekkert við að laga efnahagskerfið, en nýta reglubundnar gengisfellingar til þess að leiðrétta slaka efnahagsstjórn. Það er þetta stjórnkerfi sem brást. Það voru þeir sem áttu að sinna eftirlitshlutverkinu en gerðu það ekki og standa í vegi fyrir breytingum.

Allar rannsóknir sína að þeim mun stærri sem kjördæmin eru, þeim mun minna verður flokks- og foringjaræðið, hlut minnihlutahópa betur borgið og sama á við um stöðu kvenna. Rannsóknir sýna að þeim ríkjum hefur vegnað best, hafa mestan jöfnuð og eru með fjölmenn kjördæmi, öndvert við einmenningskjördæmalönd.

Það eru engin rök sem styðja það að vandi Íslands leysist ef kjósendur verði áfram dregnir í dilka eftir búsetu. Umtalsverður meirihluti landsmanna vill að tekið verði á flokksræðinu og hafa lýst stuðningi við persónukjör. Það á að hafa alla lista óraðaða og leyfa kjósendum að velja með persónukjöri þvert á lista.

Málið snýst ekki um að lagfæra stöðu landsbyggðar gagnvart SV-horninu. Það snýst um að lagfæra stöðuna á Íslandi gagnvart öðrum löndum. Snýst um að lagfæra hverjir eru kosnir til valda, ekki hvernig flokksmaskínur raða sínum mönnum í örugg sæti án tillits til getu og fyrri starfa.

Það eru einmitt þessi atriði er það sem Alþingi vandræðast með og drepur málum á dreif þegar ræða á þennan vanda. Stjórnlagaráð verður að greina vandann og sporna við honum í nýrri Stjórnaskrá. Afganginn á síðan að setja í kosningalög, þetta verðum við að gera sakir þess hversu fullkomlega Alþingi hefur mistekist að fást þennan vanda, enda málið sitjandi þingmönnum allt of skylt til þess að hafa nokkurn vilja til breytinga.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Minn alltaf að toppa sig?

Nei, svona án gríns, mikið rosalega er þetta rétt greining. Flottur pistill.

ÞÚB