miðvikudagur, 4. maí 2011

Staða viðræðna að morgni 4 maí

Eins og margir höfðu spáð þegar við blasti allsherjarverkfall þá sættu fyrirtækin sig ekki við forsjá LÍÚ í málinum og viðræður fóru aftur af stað í gær. ASÍ tilkynnti að nú væri einungis í boði eins árs samningur. Ef ræða ætti 3ja ára samning þá yrði að gera umtalsverðar breytingar á því tilboði sem fyrir lægi. Eftir það hófust miklar umræðu.

Töluverður árangur hefur náðst og liggur nú fyrir meiri hækkun lægstu launa, hækkun tekjutryggingar, og meiri hækkun almennra launa. Í upphafi kemur eingreiðsla og síðan meiri eingreiðslur síðar á árinu. Rísi upp ágreiningur milli aðila og ríkisstjórnar fellur samningur niður um áramót. Öll hliðaratriði sem taka gildi á þessu ári verða áfram inni. Verðmæt atriði hafa komið inn hvað varðar jöfnun lífeyrisréttinda.

Samningafundir stóði til fjögur í nótt, lengst hjá okkur í samninganefnd ASÍ. Viðræður milli verslunarmanna og iðnaðarmanna stóðu fram yfir miðnætti, þar er tekist á um laun fólks sem vinnur á nóttinni í stórmörkuðum og launaflokka iðnaðarmanna. Ekki sér enn til lands í þessum deilum og verður tekið aftur til við þær í dag. Einnig er óleystar deilur við Starfsgreinasambandið m.a. vegna bræðslusamninga.

Mikil vinna er eftir hjá okkur í aðalsamninganefndinni við endanlegan frágang á skjölum, enda eru þetta orðnir víðtækustu og umfangsmestu kjarasamningar sem gerðir hafa verið, fylgiskjöl skipta tugum blaðsíðna. Þar er tekið á bótamálum, skattamálum, menntamálum atvinnulausra, slysatryggingarmál, tilkynningar um vinnuslys, forsenduákvæði, launastefnu, og svo endanlegan texta hvað varðar lágmarkslaun, tekjutryggingu, lágmarkshækkunum og lífeyrismálum.

Sem reyndur samningamaður tel ég að það þessi dagur muni a.m.k. renna á enda áður en niðurstaða fæst í þessi mál.

2 ummæli:

Halldór Halldórsson sagði...

Allt sem þú nefnir um innhald samninganna, Guðmundur, gæti orðið eins og að pissa í skóinn sinn sem ráð við kulda; ef ráðstafanir stjórnvalda eru ekki fastnegldar. Þó er ég viss um að slíkir samningar eru réttlætanlegir, þó ekki sé nema til að sjá raunveruleg skref tekin í átt að jöfnun lífeyrisréttinda á vinnumarkaði. Ég vona bara að þar sé eitthvað áþreifanlegra á ferðinni en almenn "stefnt skal að" yfirlýsing frá ríkisstjórninni?

Guðmundur sagði...

Rétt allt þetta gæti horfið í buska verðbólgunnar og vaxandi atvinnuleysis.

Það er rétt að okkur samningamönnum varð kallt á tánum þegar sú varð raunin eftir gerð stöðugleikasáttmála, þegar Alþingi ómerkti hverja samningsgreinina á fætur annarri, sem ráðherrar höfðu undirritað.

Einmitt þessa vegna hefur verið lögð margfalt meiri vinna í textavinnslu og ófáar næturnar sem við höfum legið yfir þeirri vinnu

Takk fyrir innlitið kv GG