Ég er einn af þeim fjölmörgu sem tel inngöngu í ESB eina helstu forsendu fyrir því að okkur takist að losna undan ofríki og spillingu þeirra hópa sem hafa hrifsað til sín völdin, ná stöðugleika, lækkun vaxta, tryggingu kaupmáttar og losna við reglubundnar kollsteypur með við gengisfellingum og eignatilfærslum frá launamönnum til hinna efnameiri.
En það er einnig ýmislegt sem við þurfum að athuga, reyndar jafnvel þó við göngum ekki í ESB. Margskonar tilskipanir koma fram sem eru ekki alveg að ganga upp, alla vega ekki á almennum vinnumarkaði. Það er nú þannig að flestir þeirra sem semja lög og reglugerðir eru stjórnmálamenn og opinberir embættismenn. Fólk sem hefur aldrei unnið annarsstaðar en á opinbera vinnumarkaðnum.
Þessa dagana er á ferð tilskipun um bann við mismunun vegna aldurs. Þetta hefur jafnvel náð alla leið inn á borð okkar sem erum að vinna við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Háleit hugsun og góð, en það er samt ákveðin atriði sem fólk verður að íhuga.
Eftir viku á að fjalla um þetta mál á ráðstefna Vinnuréttarfélags Íslands, áhrif tilskipunar 2000/78/EB sem m.a. bannar mismunun vegna aldurs og þeirra frávika sem þar eru heimiluð hefur vakið ýmsar spurningar um rétt starfsmanna og heimildir fyrirtækja, sbr. dóma Evrópudómstólsins. Undirbúningur að innleiðingu tilskipunarinnar í íslenskan rétt stendur nú yfir og búist er við að frumvarp verði lagt fram í haust.
Á undanförnum áratug hafa stéttarfélög á almennum vinnumarkaði unnið að því að fella sem mest af áunnum aldurshækkunum inn í launataxta, þeim hefur verið flýtt þannig að þær koma nú inn eftir 1 ár, 3 ár 5 ár og 7 ár. Launakerfin eru þannig mun brattari fyrsta áratuginn, áður dreifðust þessar aldurshækkanir allt fram til 25 ára aldurs.
Ástæða þess að stéttarfélögin lögðu áherslu á þetta var :
a) Það er fólk um þrítugt sem þarf hæstu launin, vegna þess að þá er það koma undir sig fótunum, er með þyngstu byrðina vegna heimilisástæðna.
b) Þegar svo var komið að 45+ ára starfsmaður ætti að fá umtalsverða launahækkun vegna lífaldurs umfram ungan starfsmann, sem að auki var með „nýja“ menntun, varð það í vaxandi mæli orðið að myllustein hins eldra starfsmanns. Leiddi til uppsagnar og stundum tilboð um endurráðningu á lágmarkslaunum nýs starfsmanns. Þetta er þekkt um allan heim, oft nefnt hrollvekja miðaldursins.
c) Reynslan sýnir að ef starfsmenn uppfylla ekki kröfur um starfsreynslu og hæfni til starfsins á fyrstu 5 – 8 árum, eru aðrir ráðnir í starfið, en menn verða að endurskoða menntun sína.
d) Á almennum vinnumarkaði hefur vaxandi mæli tíðkast að segja starfsmönnum upp mánuði áður en umsamdar launahækkanir eða íþyngjandi kjaraatriði koma til framkvæmda og þeim boðin endurráðning á óbreytt kjör, jafnvel byrjendakjör.
e) Það sem hefur reynst best í þessu er að stuðla að því að starfsmaður eigi ávalt rétt á símenntun, sem hann sjálfur velur, ekki fyrirtækið. Með því bætir hann atvinnuöryggi sitt og kemur í veg fyrir að hann þróist út af þeim vinnumarkaði sem hann menntaði sig inn á. Einnig kemur það í veg fyrir að fyrirtækin geti lagt á starfsmenn átthagafjötra með því að gera þá að „fagídjótum“ með sérhæfingu inn á sífellt þrengra svið og svo ef starfsmaður vill færa sig til í starfi uppgötvar hann að hann er bjargarlaus ef hann fer úr sínu sérhæfða umhverfi.
Tillögur um lögbundnar aldurstengingar munu einungis leið til enn frekari athafna á þessu sviði. Þetta er sambærilegt og þegar uppsagnarfrestur hefur verið lengdur, fleiri verða án fastráðningar. Verulegar líkur eru á að þessar tillögur kalli yfir okkur hið andstæðu tilgangs þeirra, þ.e. að lausráðnum 45+ ára starfsmönnum fjölga og launakjör þeirra verði lakari en þau eru í dag.
Flestar þvingandi ráðstafanir ofanfrá í þessum efnum gera lítið annað en að búa til ófyrirséðar (en samt fyrirsjáanlegar) afleiðingar. Íslenski vinnumarkaðurinn hefur verið tiltölulega sveigjanlegur miðað við það sem algengast er í Evrópu og ég tel að það sé öllum til góðs, jafnt fyrirtækjum sem launafólki.
Ósveigjanleiki á vinnumarkaði gerir lítið annað en að auka atvinnuleysi og leiða menn í skrýtnar hjáleiðir sem þjóna einungis hagsmunum þeirra sem leita sífellt leiða til þess að sniðganga eðlilega viðskipta- og samskiptahætti. Þetta er eitt af því sem við þurfum að passa að vernda við hugsanlega inngöngu í ESB og getur gefið okkur betri samkeppnisstöðu.
Grunntónninn er, lagasetningar í þessa veru hafa valdið skaða á almennum vinnumarkaði. Stéttarfélögin eru fyllilega hæft til þess að takast á við þessi mál í samningum sínum við fyrirtækin.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli