Þingmenn eru með tillögu á Alþingi um að laun verkalýðsforingja megi aldrei vera hærri en þreföld byrjunarlaun hjá viðkomandi stéttarfélagi. Venjubundið lýðskrum af verstu sort sem hefur dregið álit Alþingi niður í svaðið. Fullkomið þekkingarleysi og að venju stuðst við rakalausar dylgjur.
Í raun er verið að leggja til að laun starfsmanna stéttarfélaga hækki umtalsvert. Vitanlega þiggja þeir laun samkvæmt kjarasamningum, ekki krónu umfram það. En í lýðskrumsumræðunni er ætíð stuðst við byrjunardaglaun unglinga og þau borin síðan saman við heildarlaun starfsmanna með langan starfsaldur.
Hvernig fer þetta fram í þeim félögum sem þingmenn stjórna, hlýtur maður að spyrja. Í þeim félögum sem ég hef starfað í er þetta borið undir félagsmenn og það eru stjórnir félaganna sem bera ábyrgð á launum starfsmanna og verða að gera grein fyrir þeim á ársfundum.
Þessari tillögu hlýtur einnig að fylgja sú spurning til þingmanna; Hvað með þá sjálfa? Þau laun sem þeir véla með eru laun öryrkja og lífeyrisþega. Er það tillaga þingmanna að tengja laun sín við þrefaldar örorkubætur?
En það er svo margt sem þingmenn láta sér til hugar koma, en horfa ætíð framhjá eigin umhverfi. T.d. vilja þeir setja sérstök lög um hverjir megi sitja í stjórnum lífeyrissjóða almennra launamanna, en þeir hafa ekki sett sömu kröfur hvað þá sjálfa varðar og skipa hiklaust sjálfa sig í stöður við að stjórna landinu, ráðuneytum og margskonar peningastofnunum án sérstakra krafna.
T.d. er ljóst að Seðlabankinn, Íbúðarlánasjóður, bankakerfið og þeir lífeyrissjóðir eru í vörslu bankanna og stjórnmálamanna fóru kirfilega á hausinn. Sama má segja um nokkrar stofnanir sem stjórnmálamenn hafa stjórnað eins og t.d. Orkuveituna og sveitarfélögin og fl. og fl.
Það voru launamenn sem stofnuðu sína lífeyrissjóði um 1970 og hafa valið stjórnendur þeirra. Staðreyndin er sú að almennu lífeyrissjóðirnir eru einu peningastofnanirnar sem komu standandi út úr Hruninu. Þeir töpuðu margfalt minna en þeir lífeyrissjóðir sem voru í vörslu sérfræðinganna í bönkunum, og svo má einnig benda á lífeyrissjóð verkfræðinga og útkomu hans, sem er landsfræg. Einnig stöðu lífeyrissjóðs alþingismanna sem FME segir að þurfi að vera með tvöfalt hærri iðgjöld en lífeyrissjóðir annarra landsmanna, því hann sé svo kyrfilega á hausnum .
Ég er ekki með þessu að segja að ekki eigi að gera kröfur til stjórnarmanna almennu lífeyrissjóðanna og það gert auk þess að þeim er gert að leita eftir sérfræðirágjöf.
3 ummæli:
Þór er semsagt að leggja til að laun í landinu séu ákveðin af Alþingi. Laun hjá frjálsum félagasamtökum.
Hvar skyldi hann bera niður næst? Íþróttahreyfingunni?
Ungmennafélögum?
ÞÚB
Laun þingmanna undir 160 cm verði 1/3 af atvinnuleysisbótum....
"Það voru launamenn sem stofnuðu sína lífeyrissjóði um 1970 og hafa valið stjórnendur þeirra."
Rugl er þetta. Ég greiði í Söfnunarsjóð lífeyrisréttinda og stjórnin þar er skipuð af fjármálaráðherra. Reyndar hluti af stjórninni eftir tilnefningu frá Landssamtökum lífeyrissjóða. Ég veit ekki hvernig þetta er annars staðar, en launamenn sem greiða í SL fá að minnsta kosti engu ráðið um stjórnendur sjóðsins.
Og alveg burtséð frá því er þetta lífeyrissjóðskerfi auðvitað handónýtt. Það hvarflar varla að nokkrum manni, sem eitthvað nennir að skoða hvernig kerfið virkar, að þeir sem nú eru á fertugsaldri og greiða í sjóðina fái nokkurn tíma nokkuð út úr þeim, nema til komi stórkostlegir styrkir frá ríkinu.
Skrifa ummæli