Á hátíðardegi verkafólks var birt í öllum blöðum opnuauglýsing af auðmanni sem hefur reglulega birt auglýsingar þar sem hann ber þungar, en órökstuddar sakir á starfsfólk lífeyrissjóða og stéttarfélaga. Undantekningalaust byggir texti auglýsinga hans á rangtúlkunum og hlutunum snúið á haus.
Nálgun þessa auðmanns einkennst af þekkingarskorti og skilningsleysi. Einkennilegt því það er búið skrifa einhver ósköp um lífeyriskerfið á undanförnum árum og eins liggja fyrir á netinu ákaflega greinargóðar útskýringar á því eins og t.d. á heimasíðu landssambands lífeyrissjóða. Hann heldur því fram að sáralítið sé greitt út til lífeyrisþega af inngreiðslum til sjóðsfélaga og lífeyrissjóðir séu reknir með ofboðslegum hagnaði sem notaður sé til þess að fjárfesta í viðskiptalífinu.
Lífeyrissjóður er uppsöfnun sparifjár þeirra sjóðsfélaga sem greitt hafa í viðkomandi sjóð. Hlutverk lífeyrissjóðs er að taka á móti iðgjöldum sjóðsfélaga og ávaxta þau með besta hætti sem til boða stendur hverju sinni og greiða lífeyri til sjóðsfélaga. Kerfið er stillt þannig af að sjóðsfélagi sem greiðir allan sinn starfsaldur, það er frá 25 ára til 67 ára, á þá í sínum sjóð innistæðu fyrir lífeyri sem svarar til um 60% af meðallaunum frá 67 ára aldri til dauðadags. Ef viðkomandi hefur greitt í styttri tíma verður lífeyririnn minni í réttu hlutfalli við það sem upp á vantar.
Flestir lífeyrissjóðirnir voru stofnaðir árið 1970, en það er ekki fyrr en 1989 sem farið er að greiða til sjóðanna af fullum launum. Það þýðir að það er ekki fyrr en um 2031 sem til verða sjóðsfélagar með full réttindi og skýrir hvers vegna sjóðsfélagar eru að fá ákaflega mismundi mikinn lífeyri í dag.
Það eru stóru barnasprengjuárgangarnir sem komu í heiminn á árunum eftir seinna stríð fram til ársins 1960 sem eru safna upp sínum lífeyri og munu skella á lífeyriskerfinu með fullum þunga eftir árið 2031. Fram að þeim tíma fer eðli málsins samkvæmt fram mikil uppsöfnun í sjóðunum, en eftir þann tíma munu útgreiðslur úr sjóðunum verða meiri en innstreymi og þá byrja sjóðirnir að ganga á eignir sínar, eða með öðrum orðum eigendur sparifjárins fara að taka lífeyri sinn út.
Það var mikil framsýni sem leiddi til uppbyggingar íslenska lífeyriskerfisins. Flest önnur þjóðfélög í Evrópu greiða lífeyri í gegnum almenna skattkerfið, en eru í óða önn að taka upp íslenska kerfið. Þessi þjóðfélög eins og t.d. Frakkar, Grikkir. Ítalir og Spánverjar slást við nú þessa dagana og horfast í augu við þann alvarlega vanda að ef þeir gera ekkert í sínum málum þá verða þessi þjóðfélög gjaldþrota árið 2020, nema þá að skerða lífeyrisgreiðslur geysilega mikið.
Gráhærðu árgangarnir verða sífellt stærra hlutfall og hlutfall skattgreiðenda minnkar hratt eftir þau tímamót. Ef ekkert verður að gert munu allir skattpeningar þessarar þjóða ekki duga fyrir óbreyttum lífeyrisgreiðslum.
Janúar 2009 hélt aðalritari OECD, Angel Gurria opnunarræðu í Davos þar sem hann sagði að afturhvarf í hreint gegnumstreymiskerfi yrðu mikil mistök, hér má benda á Grikkland, Frakkland og Ítalíu sem eru með gegnumstreymiskerfi. „Eftirlaun eru alvarlegt áhyggjuefni í ríkisfjármálum flestra iðnvæddra landa. Þau eru að mestu greidd með skattfé og fyrirsjáanlegt að framlög til þeirra þurfa að hækka mikið næstu áratugi. Ástæðan fyrir þessu er að fjölmennir árgangar nálgast eftirlaunaaldur, íbúar landanna ná hærri aldri og eignast færri börn. Hlutfall eftirlaunaþega og fólks á starfsaldri mun því hækka mikið fram eftir 21. öld.“
Einnig má benda á til niðurstöðu ráðstefnu sem Hagfræðistofnun Háskólans efndi til vorið 2004 í samvinnu við Columbiu háskóla. Þeir sem sátu þá ráðstefnu og reyndar margir aðrir fræðimenn, hafa komist að því að eftirlaun þeirra sem búa við gegnumstreymi er alvarlegt áhyggjuefni. Má þar nefna skýrslu Alþjóðabankans frá 2001 þar sem mælt er með uppbyggingu á þriggja stoða lífeyriskerfi, kerfi með blöndu af gegnumstreymi fyrir grunnlífeyrisrétt, sjóðasöfnun í samtryggingarkerfi og séreignarsjóði. Sú stefna byggði á ítarlegri greiningu bankans frá 1994 sem birt var undir nafninu “Averting the Old Age Crisis”. Þá hefur OECD ítrekað látið sína skoðun í ljós á málefninu samanber opnunarræðu Gurria í Davos.
Að sjálfsögðu er öllum frjálst að viðra skoðanir sínar á málefninu, en þá væri vel við hæfi að bera þær saman við þær ákvarðanir sem hafa verið teknar og á hvað grunni þær eru reistar. Þar komu margir að og þær eru ekki byggðar á mannvonsku, heldur margra ára reynslu og rannsóknum.
Í grein í Peningamálum frá 2006, þar stendur m.a. “Nokkuð almenn sátt virðist ríkja um fyrirkomulag lífeyrismála á Íslandi og við hrósum happi að hafa valið aðra leið en þau lönd sem við líkjumst mest í lífsgæðum.” Barátta þeirra þjóða sem stefna út úr gegnumstreymiskerfi verður þrautarganga og öll umræða í Evrópu um þriggja stoða leiðina bendir til þess að við ættum að hrósa happi fyrir að vera komin þó þetta nálægt því markmiði að byggja upp slíkt kerfi.
Hér á landi eru nokkrir auðmenn sem vilja brjóta niður þessa áratuga uppbyggingu. Auðmenn hafa ekki áhyggjur af sínu ævikvöldi, en vilja samt ná meiru til sín, þó það muni um leið rústa lífeyri hjá þeim sem minnst mega sín. Sá lífeyrissjóður sem ég greiði til hefur varið um 30% af eignum í skuldabréf til fjölskyldna í landinu. Auk þess eru það lífeyrissjóðir sem hafa fjármagnað uppbyggingi flest þeirra sérbýla sem hér hafa verið reist.
Auðmaðurinn blindaður af græðgi leggur til að við afhendum ríkinu hin 70% og vísa sjóðfélögum á Tryggingastofnun ríkisins, þannig, þannig mætti hækka þær greiðslur sem hann fengi frá Tryggingarstofnun.
Með því fyrirkomulagi væri verið að gera eignaupptöku hjá þeim kynslóðum sem eiga þarna sparifé sitt. Þegar þær kynslóðir næðu lífeyrisaldri fengju þær þarf af leiðandi mun minna í sinn hlut, sakir þess að fjöldi lífeyrisþegar hefur þá tvöfaldast í hlutfalli við þá sem eru að greiða inn í kerfið. Með leyfi má biðja um rökræna og upplýsta umræðu frekar en rakalausar fullyrðingar reistar á rætni, sérhyggju og auglýsingatækni.
6 ummæli:
Mjög fín grein Guðmundur og sýnir góðan skilning þinn á þeim vandamálum sem blasa við mörgum þjóðum sem styðjast við gegnumstreymiskerfi. Hvað þetta snertir verður vaxandi hlutfall eldri borgara (lífeyrisþega) mikið vandamál í nánustu framtíð. Stöðugt dregur úr barneignum pr. konu, víða komið niður 1,7 börn pr. konu (þarf 2,1 til að viðhalda stöðugleika í mannfjölda) auk þess sem fólk lifir stöðugt lengri ævi.
Það er kaldhæðnislegt að meðal þeirra þjóða (t.d. Dana) sem eru með hvað minnsta fjölgun, eykst útlendingahatur og andstaða við innflutning á fólki. En það er einmitt það sem þessar þjóðir þurfa á að halda til að vega upp á móti minkandi barneignum eigi þeir að geta tryggt eftirlaunagreiðslur.
Kristján E.Guðmundsson
Orð í tíma töluð, umræða um lífeyrissjóði hefur verið afar einhliða og einkennst af fordómum. Takk fyrir góða grein.
Svanheiður Ingimundrdóttir
Það er ekki hægt að bera á móti því að "forstjórar" hinna ýmsu lífeyrissjóða hafa haft sjálftöku og skammtað sér laun og fjöldi starfsmanna sem að sjálfsögðu rýrir eignir lífeyrissjóða allt of mikill. Þetta erum við óánægð með!
Sæl Rut
Ágætt væri að þú bendir á þann lífeyrissjóð sem þetta hefur verið gert.
Þú átt líklega við þá lífeyrissjóði sem hafa verið í vörslu bankanna, enda komu þeir mjög illa út úr Hruninu með sína sérfræðingar á öllum fingrum.
Í almennu lífeyrissjóðunum þar sem ég þekki til þá eru laun forsvarsmanna borin undir stjórnir og ársfundi, þannig að vart er hægt að tala um sjálftöku.
Það svo hægt að hafa skoðanir á því hvort ársfundir hafi gert einhverja vitleysu, það verða þeir að meta og leiðrétta sem fundina sóttu.
Ég hélt ekki að lakkrís hefði þau áhrif á fólk að það hætti að sjá smahengi hlutanna.
Fín grein hjá þér. Þú segir að lífeyrissjóðir í vörslu bankanna hafi komið mjög illa út úr hruninu. Einn af þessum lífeyrissjóðum er Frjálsi lífeyrissjóðurinn sem er í vörslu Arion banka. Mér leikur forvitni á að vita að hvaða leyti þér fannst Frjálsi lífeyrissjóðurinn koma mjög illa út úr hruninu?
Sjóðfélagi í Frjálsa lífeyrissjóðnum
Skrifa ummæli