föstudagur, 24. febrúar 2012

Þjóðin fær að segja sitt álit

Ég er ánægður með að Alþingi hafi samþykkt með afgerandi hætti að kalla saman Stjórnlagaráð til þess að fara yfir þær athugasemdir sem fram hafa komið. Þetta er í samræmi það sem kom fram í vinnsluferlinu síðastliðið vor. Stjórnlagaráð færi síðan yfir rökstuddar athugasemdir og ábendingar um atriði sem betur mættu fara, áður en það yrði borið undir þjóðina.

Vitanlega er það svo að það komast ekki allir til fundar sem boðaður er með skömmum fyrirvara, en það þarf ekki að þýða að þeir sem ekki komast á vinnufundinn geti ekki tekið afstöðu til þeirra athugasemda sem frá Alþingi koma.

Það er hljómar óneitanlega harla einkennilega fyrir þjóðina að heyra nokkra þingmenn tala þannig að þeir treysti ekki þjóðinni til þess að taka „rétta“ afstöðu við afgreiðslu frumvarps til nýrrar Stjórnarskrár. Það vill svo til að þeir hinir sömu treystu þjóðinni til þess að taka „rétta“ afstöðu til mjög flókinna samninga um Icesave.

Afgerandi meirihluti Alþingis tók þá afstöðu að halda sig við það vinnuferli sem lagt var upp með á sínum tíma við að endurskoða Stjórnarskránna, sem hófst með 1.000 manna Þjóðfundi völdum með slembiúrtaki, niðurstaða hans sent til Stjórnlaganefndar skipaðri sérfræðingum, 25 einstaklingar valdir af þjóðinni í kosningum sem þátt tóku um 85 þús. manns. Stjórnlagaráð var skipað af Alþingi og því falið að vinna unnu úr niðurstöðu Stjórnlaganefndar og senda það síðan til Alþingis.

Alþingi hefur tekið sér hálft ár til þess að fara yfir málið og kallað marga álitsgjafa til sín og farið á fundi m.a. norður á Akureyri, sem er bara mjög gott. Þær athugasemdir verða sendar til Stjórnlagaráðs að mér skilst nú um helgina og Stjórnlagaráði gefið tækifæri til þess að skoða heildarmyndina. Alþingi mun að því loknu undirbúa það sem verður borið undir þjóðina í sumar.

Ég geng til vinnufundarins með því hugarfari að þar náist niðurstaða. Öðruvísi er ekki hægt að ganga til verka, þaðan af síður að vera búinn að taka fyrirfram þá afstöðu að aths. við tillögur Stjórnlagaráðs séu ekki þess virði að skoða þær.

Þetta er bara allt í góðu og þjóðin mun fá tækifæri til þess að segja sitt álit í sumar. Úr þeim niðurstöðum mun svo Alþingi vinna endanlega tillögu um nýja Stjórnarskrá sem borinn verður undir þjóðina.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sigurður Lindal í samtali við Morgunblaðið.

„Mér finnst þetta vera allsherjar handarbakarvinna og í raun algjört klúður...Eins og málin standa í bili, að það takist að leysa þetta á einum mánuði. Ég held það myndi jaðra við almættisverk...Þess vegna finnst mér þetta vera eitt allsherjar klúður og rangt farið að málinu frá byrjun.“

„Ég tel að það sé einfaldlega ekki tími til þess að leggja þetta fyrir þjóðina þannig að hún geti tekið vitræna afstöðu. Það er kjarni málsins. Tíminn er of stuttur og málið of vanbúið til þess að hægt sé að greiða atkvæði um það. Ég tel ekki að það sé hægt að leysa það á einum mánuði.“

Nafnlaus sagði...

Það lá fyrir frá upphafi hvert ferlið yrði þegar Alþingi útvistaði gerð nýrrar stjórnarskrár. Til að tryggja þátttöku almennings og að enginn einn aðili eða hópur fólks gæti ráðið málinu á einstökum stigum þess var fyrst boðað til 1.000 manna Þjóðfundar með slembivali (sem gefur fullkomið þversnið af þjóðinni). Síðan valdi Alþingi sjö manna Stjórnlaganefnd sem skyldi taka saman gögn þjóðfundarins sem og önnur sem hafa verið unnin í stjórnarskrármálum gegnum tíðina og leggja þau fyrir þjóðkjörið Stjórnlagaráð sem 84.000 manns kusu. Tillögur þess skyldu fyrir þjóðina í atkvæðagreiðslu áður en Alþingi fengi þær til meðferðar til að þingið gæti stuðst við vilja þjóðarinar eins og hann birtist í þeirri akvæðagreiðslu. Þá og fyrst þá mun Alþingi taka efnilega afstöðu til frumvarpsins og einstakra þátta þess eins og því ber að gera samkvæmt núgildandi stjórnarskrá og til þess mun þingið hafa heilt ár. Andstæðingar þess á þingi (Sjálfstæðisflokkur og fjórir Framsókanrmenn) eru æfir út af fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu og vilja alfarið fá að ráða málinu sjálfir og eru núna að vinna í því að Stjórnlagaráð sundrist.

Nafnlaus sagði...

En þau drög sem liggja fyrir eru svo miklu, miklu betri en það sem við eigum nú. Sú stjórnarskrá var í grunninn samin handa 19. aldar dönum. Þessi er fyrir 21. aldar Íslendinga. Og það sem mestu skiptir er að hún er raunverulega okkar. Við bjuggum hana til saman með þátttöku okkar í öllu þessu ferli