Ég var að koma heim í gærkvöldi eftir viku orlof og sá umfjöllun um skýrslu rannsóknarnefndar sem Ríkissáttasemjari var fenginn til þess að skipa og kanna stefnumótun, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna við fjárfestingar í aðdraganda bankahrunsins.
Í öllum fyrirsögnum var talað um 480 milljarða tap sjóðanna vegna Hrunsins. Ég staldraði við þessa tölu í gærkvöld þegar ég var að fara yfir fréttirnar, því hún var önnur en sú tala sem ég hafði heyrt. Ég lagðist því yfir skýrsluna í morgun og fór að kynna mér innihald hennar og fann fljótt skýringu á þessu.
Í skýrslunni kemur nefnilega fram að einungis eru teknar taptölur og þær lagðar saman. Yfirleitt tölum við um afkomu. T.d. gefur Hagkaup ekki bara upp rýrnun í verslunum sínum og tap vegna ógreiddra reikninga í árslok. Lífeyrissjóðir eru fjárfestar og þeir hafa alla tíð tapað einhverju og samfara því að hagnast eitthvað, annars væru þeir líkleg ekki til og ættu ekki eignir upp á tvö þús. milljarða.
Hérna missa fjölmiðlamennirnir fótanna í endurtekinni leit að hasar. Skýrsluhöfundar taka fram að ekki sé talin ástæða til að fjalla sérstaklega um þau eignasöfn sjóðanna, sem skilað hafa þeim jafnri og góðri ávöxtun í gegnum árin eins og verðbréf og skuldabréf með ábyrgð ríkissjóðs, innlán í bönkum og sparisjóðum og lán til sjóðfélaga. Enginn sem fjallar um þetta mál kemur inn á þennan vinkil.
Því verður vitanlega að halda einnig til haga að Alþingi setti á sínum tíma mjög ítarleg lög um hvernig lífeyrissjóðir ættu að fjárfesta og ná sem mestri ávöxtun. Eigi að taka á þessu verða menn að skoða þessi lög og bera þau saman við störf stjórnanna.
Einnig eru í gildi mjög ströng lög um eftirlit með lífeyrissjóðum, innra eftirlit aðskilið frá löggiltri endurskoðun og þannig mætti lengi telja. Ef langtíma ávöxtun er ekki inna tiltekinna marka þarf að skerða réttindi, reyndar bara í almennu sjóðunum ekki opinberu sjóðunum.
Ég er ekki með þessu að gera lítið úr tapinu, heldur benda á það sem skýrsluhöfundar taka það sérstaklega fram þetta sé ekki afkomutalan, svo ég reyni að tala sama tungumál og við notum við eldhúsborðið.
Skýrsluhöfundar taka það fram að þeir einblína á, eins og þeim var uppálagt, að kanna stefnumótun, ákvarðanatöku og áhættumat lífeyrissjóðanna við fjárfestingar í aðdraganda bankahrunsins. Hvað orsakaði tap sjóðanna svo að sumir þeirra þurftu að skerða lífeyrisréttindi sjóðfélaga sinna. Hvort eitthvað saknæmt hefði átt sér stað. Þetta er gert til þess að draga megi lærdóm af falli bankanna í október 2008, til þess að bæta lífeyrissjóðakerfið sjálft og að ákvarðanir innan þess verði teknar á skipulagðari og traustari máta.
Við höfum á nær hverju einasta kvöldi undanfarnar vikur fengið kennslu í því hvernig yfirmenn og eigendur bankanna bjuggu til fléttur til þess að féfletta fólk og fjárfesta þar á meðal lífeyrissjóðina. Skýrslan greinir frá því hvernig féfletturunum tókst upp gagnvart lífeyrissjóðunum, en hún segir ekki frá afkomu lífeyrissjóðanna, eins og margir virðast halda. Ég hef ekki upplýsingar hér til þess að reikna þetta út en tel víst að á næstu dögum muni þessar afkomutölur birtast.
En ég endurtek skýrslan sýnir vel hvernig hlutirnir gengu fyrir sig og skýrir vel hvernig þeir menn sem ráku bankana eru innréttaðir. Reyndar kemur oft fram hvernig þeir fengu stjórnmálamenn til þess að vera virka "kóara" með sér í að bera út hið íslenska efnahagsundur og hvernig byggja ætti alþjóðlega efnahagsmiðstöð á Íslandi og leika sér purrkunarlaust með sparifé launamanna.
Skipan stjórna
En það var einnig annað sem ég tók einnig eftir það var umfjöllun um skipan stjórna lífeyrissjóðanna. Í þeim gögnum sem nefndin fékk er ekkert samband á milli fyrirkomulags stjórnar og hve miklu lífeyrissjóður tapaði í hruninu. Sumir sjóðir sem velja alla stjórn sína á ársfundi töpuðu mjög miklu.
Nefndin bendir á að það sé ekki hægt að rökstyðja nýtt fyrirkomulag stjórnar á þeirri forsendu, eða að líklegra sé að beint kjörnir fulltrúar verji fé lífeyrissjóðanna betur en þeir sem nú sitja þar. En eins og þekkt er fer kjör stjórnarmanna fram með mjög mismundi hætti hjá lífeyrissjóðunum, sem skipa má í þrjá flokka almennu sjóðina þar sem fram svokallað fulltrúakjör, frjálsu sjóðina þar sem fram fer kjör á ársfundum og svo hina opinberu og sveitarstjórnarsjóðina þar sem einfaldlega er tilnefnt í stjórnir sjóðanna
Lífeyrissjóðakerfið íslenska er vel heppnað í alþjóðlegum samanburði, sjá skýrslu Katrínar Ólafsdóttur í viðauka skýrslunnar. Nefndin tekur fram að strangt eftirlit Fjármálaeftirlitsins með þeim sem taka sæti í stjórnum lífeyrissjóða ætti að tryggja hæfi þeirra óháð því hvernig valið er. Úttektarnefndin leggur til að lífeyrissjóðir á almennum markaði og opinberum móti sér þá stefnu að einn eða fleiri stjórnarmenn séu kosnir beinni kosningu á ársfundi lífeyrissjóðsins. Fimm árum héðan í frá verði reynslan af þessu fyrirkomulagi metin og athugað hvort lengra skuli haldið.
Nefndin bendir á það í kafla 34.2.1. bls. 132 að það sé eftirtektarvert að ársfundur Stafa (að tillögum frá rafiðnaðarmönnum, reyndar hafa þær komið fram áður) hafi árið 2009 samþykkti að stefnt skyldi að því að auka lýðræði við kjör stjórnar með því að fjölga stjórnarmönnum um tvo og þeir kosnir í netkosningu. Framkvæmdastjóri Stafa sagði í viðtali við nefndina að þessi samþykkt hefði verið kynnt forsvarsmönnum Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands, en þeir hefðu lagst gegn henni. Það er skoðun úttektarnefndarinnar að stjórnir lífeyrissjóða skuli móta sér stefnu um að einn eða fleiri stjórnarmenn úr hópi sjóðfélaga skuli kosnir á ársfundi.
12 ummæli:
Það var enginn að fullyrða að hér væri um afkomu að ræða. En þessar taptölur eru svo gígantískar, að það skal heldur betur vekja athygli á þeim. Enn einu sinni kemur í ljós að ein helsta meinsemd samfélagsins er vanhæfni – incompetence - , fremur en glæpsamlegt eðli. Erlendis þykir það ekki góður siður að stjórnendum lífeyrissjóða sé boðið í ferðalög og á fyllirí.
Haukur Kristinsson
Heyrðu Haukur minn, það er nefnilega svo leiðinlegt fyrir okkur að sitja alltaf undir svona dylgjum.
Það hefur ekki verið gerð nein tilraun til þess að fela tapatölur, enda er það bannað samkvæmt bókhaldslögum eins og þú kannski þekkir.
En það er þessi uppstilling sem ég er benda á því ég varð var við að margir áttuðu sig ekki á að það hefðu alla tíð átt sér töp, og reyndar alla tíð líka hagnaður. Hagnaðurinn langoftast mun stærri en taptölurnar.
Viltu vera nú svo vænn að telja þá upp sem hafa farið í þessar glysferðir. Ég þekki nefnilega engan, ekki einn einasta.
Þetta er nefnilega bannað í því umhverfi sem ég starfa og hefur verið mjög lengi.
En ég hef heyrt að bankalífeyrissjóðirnir hafi verið með svona á sínum vegum fyrir sína menn, ég veit ekkert hvort það sé rétt.
En á meðan þú getur ekki sýnt fram hverjir þetta eru og hvaða ferðir þú ert að tala verður þú væntanlega að sitja undir því að vera með rógburð.
Bestu kv. og hafðu það ætíð sem allra best GG
Sæll Guðmundur. Sagði ég að þið hefðuð verið að "fela" taptölur? Ég gerði það hvergi, hér ert þú með dylgjur. Hinsvegar skal viðurkennt, að ég veit ekkert um þær ferðir, sem ég minntist á. Það eina sem ég veit er: "að sjaldan lýgur almannarómur".
Ef þetta er rangt hjá mér, biðst ég afsökunar.
Haukur Kristinsson
Sæll aftur
Landsbankastjóri bauð mér einu sinni í einkaþotu til London til þess að horfa á West Ham, ég sagði neit takk, þetta er það eina sem ég hef kynnst um svona ferðir.
En ég hef það eftir mönnum sem hef ástæðu til þess að trúa að þessi þota hafi á ákveðnu tímabili farið allmargar ferðir full í svona ferðir og þá alltaf með sjóðsstjóra hinna svo kölluðu frjálsu lífeyrissjóða.
Kominn heim frá Alpalandi óbrotinn og sólbrúnn eftir sólina og snjóinn
kv g
Ef ég skil þetta rétt vilt þú að arðsemi sjóðanna sé reiknuð út?Það ætti varla að vera neitt sérstaklega erfitt. Arðsemi er væntanlega reiknuð út í ársreikningum. Auðvitað hafa sjóðirnir tapað. Það hafa væntanlega alla grunað.En það þarf að skoða nákvæmlega hvers vegna? Skoða þarf verkferla við ákvarðanatöku. Skoða þarf að farið ´se að öllum formkröfur,s,s jafn einföldu atriði eins og að skrá fundargerðir og minnisblöð frá sérfræðngum. Lífeyrissjóðirnir fengu lagalegalega heimild til að stunda áhættufjáarfestingar með skammtímahagnað í huga. þetta gengur augljóslega ekki. Í lífeyriskerfinu eru verkalýðshreyfing og SA samtvinnuð með undarlegum hætti. kerfinu er treyst fyrir 2000 milljörðum. Það eru miklir peningar og gera verður miklar kröfur um ábyrgð þeirra sem taka ákvarðanir.Lífeyrissjóðirnir verða að útiloka hagsmunatengsl og hagsmunaárekstra....
Hver væri tryggingafræðileg staða lífeyrissjóðanna í dag ef þeir hefðufarið "varlega" og ávaxtað "skynsamlega" (eins og allir þykjast nú hafa vit á) og EKKI tekið þátt í neinum áhættufjárfestingum á árunum 2004-2008. Þeir hefðu að vísu aldrei náð að uppfylla lagaskilyrði um ávöxtun en látum það liggja á milli hluta.
Það erlenda lánsfé sem pumpað var inn í landið til þess að gíra upp bankana og glataðist hér er líklega um 10 þús. MIA eða 5 falt meira en heildareignir bankanna, og líklega 50 falt meira en tap lífeyrissjóðanna. Sumar af þessum endurteknu upphrópunum eru svo innihaldslitlar og standast ekki skoðun. Ein þeirra algengari er að lífeyrissjóðirnir og starfsmenn stéttarfélaganna hafi pumpað áfram hagkerfið og gert það svo kröftuglega að allt fór hér fjandans til. Það er svo lítið vit í svona upphrópunum og greinilegt frá hvaða skrifborðum þær koma.
Að vera á bótum og vinna svart er að verða mál málanna í dag. Allt í einu þykir það bara orðin næstum sjálfsögð sjálfsbjargar viðleitni og til að ná til baka einhverju sem þetta sjálftökulið og vinstri stjórnin hefur stolið af almenningi.
Sælir.
Engin afsökun eða skrif.
Geta réttlæt þetta tap á okkar sparnaði.
mbk
Benedikt G. Egilsson
Sæll Benedikt
Ég er sammála þér. Ef þú ert að beina þessu til mín, þá er ég ekki að afsaka nokkurn skapaðan hlut, var ekki í stjórn þessi ár sem skýrslan fjallar um. Hóf mína stjórnarsetu á síðasta ársfundi í maí sðasta liðnum. Ég er einfaldlega að benda á annan vinkil og venjubundnari.
Svo má nú benda á að réttindi í okkar sjóð voru hækkuð töluvert umfram neysluvísitölu frá aldamótum til Hruns, engin kvartaði þá, það sem hefur tapast síðan þá er minna en þeirri hækkun nemur. Svona er þetta og svona mun það verða, ávöxtun er ekki eitthvað sem er meitlað í stein
kv GG
Er stundum að velta fyrir hvar menn ætluðu að ávaxta fjármuni lífeyrissjóðanna án þess að eitthvað myndi tapast. Engin skammaðist yfir töluverðri hækkun bóta umfram neysluvísitölu fyrstu ár þessarar aldar. Það liggur fyrir að ríkistryggð skuldabréf stóðu ekki til boða í nægjanlegu magni, ekki heldur nægilegur fjöldi sjóðsfélaga sem vildi taka lán, margir völdu frekar erlend lán. Og svo er þetta með örugg fyrirtæki skráð á markaði aldrei eiga að tapa neinu. Já svo eru það hlutabréf í bönkum, margir töldu að það væru nú aldeilis pottþéttir pappírar. Eru menn að tala um útópíu?
Skrifa ummæli