sunnudagur, 5. febrúar 2012

Útópísk óskhyggja?

Velti oft fyrir mér hvar menn ætluðu að ávaxta fjármuni lífeyrissjóðanna án þess að eitthvað myndi tapast eftir Hrun. Engin skammaðist yfir töluverðri hækkun lífeyrisbóta umfram neysluvísitölu fyrstu ár þessarar aldar.

En nú er fjallað um þá sem voru í stjórnum lífeyrissjóða árin 2008 og 2009 þannig að þeir hafi starfað af fullkominni glópsku og jafnvel verið spilltir. Það er stórt að alhæfa svona um allt þetta fólk sem var í stjórnum lífeyrissjóðanna.

En hvað áttu þáverandi stjórnarmenn að gera á sínum tíma til þess að koma í veg fyrir að bankarnir féllu með þeim afleiðingum að hlutabréfamarkaðurinn hrundi til grunna?

Það liggur fyrir að ríkistryggð skuldabréf stóðu ekki til boða í nægjanlegu magni, ekki heldur nægilegur fjöldi félagsmanna sem vildi taka sjóðsfélagalán, frekar voru tekinn erlend lán. Ekki nægilega mikið framboð á ríkistryggðum bréfum frá íbúðarlánasjóði, sveitarfélögum og hinu opinbera á markaði. Ekki nægilega mörg örugg fyrirtæki skráð á hlutabréfamarkaði sem aldrei áttu að tapa neinu.

Já svo voru það hlutabréfin í bönkunum, sem alltaf höfðu verið pottþéttustu pappírar landsins. Við erum búinn að fá daglega kennslu undanfarnar vikur hvernig stjórnendur bankanna og tilteknir stjórnmálamenn keyrðu hér allt í þrot í tilraunum við að framkvæma hið íslenska efnahagsundur og gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.

Eru menn ekki að tala um útópíska óskhyggju? Var þetta mögulegt fyrir lífeyrissjóðina, miðað við það fjármagn sem þeir þurftu að ávaxta, til þess að koma í veg fyrir að skerða þyrfti bætur? Slíkt var einfaldlega óhjákvæmilegt eftir að stór hluti hlutabréfamarkaðarins þurrkaðist út við hrunið.

Þeir sem halda því fram að hægt hafi verið að komast hjá að lífeyrissjóðir myndu tapa fjármunum lifa í afneitun. Vilja beina sjónum frá ákveðnum hlutum. Sumir halda því fram að þar fari almannatenglar útrásarvíkingana fremstir í flokki, það henti þeim vel að halda umræðunni fjarri eigin málum.

Varla var það rekstrarkostnaður almennu sjóðanna a.m.k. því hann er með því lægsta sem þekkist og reyndar kvartað undan því að ekki hafi starfað nægilega margir hjá lífeyrissjóðunum við eigin greiningar á mörkuðunum. Það voru nokkrir starfsmenn á töluvert góðum launum það er búið að taka á því þar sem ég þekki til og var full þörf á því.

Mér dettur ekki augnablik í hug að mæla þeim bót sem fóru í glysferðir eignastýringadeilda bankanna, en hverjir fóru? Það voru ekki allir, það voru eftir því sem ég best veit tiltölulega fáir sem stigu hrunadansinn með bankastýrunum og tilteknum stjórnmálamönnum. Já svo forseta vorum, sem stóð ofarlega á tildurhaugnum brosandi með einkaþoturnar í baksýnisspeglinum.

Geggjunin varð nánast altæk, en þá er gott að láta óskhyggjuna taka völdin.

21 comments:

Nafnlaus sagði...

Það er auðvitað fáránlegt að slíta hrun úr samhengi við innistæðulausan uppgang áranna á undan (bæði hérlendis sem ytra). Það þarf ekki litla fjárfestingarsnilld (og óhjákvæmilega meiri áhættu!) til að ávaxta sitt pund ef upphafspunkturinn á að vera endir froðuskeiðsins.

Eyjólfur

Nafnlaus sagði...

Fannst mönnum ekkert athugavert við skuldatryggingarálag bankanna frá því árið 2006 fram að hruni? Var það ekki vísbending erlendis frá eða einhvers staðar frá að ekki skuli fjárfesta meira?

Hvað með öll eignatengslin þvert í gegnum allt? Var ekki hægt að sjá þetta?

Eða voru lífeyrissjóðirnir neyddir til að fjárfesta í glötuðum pappírum?

Það virðist allt ganga hér sjálfkrafa. Tortímingarvél þar sem allir benda á alla og enginn getur gert neitt til þess að stöðva þessa vél.

Nafnlaus sagði...

oiErt þú að segja eitthvað annað en Geir Haarde, og þingmenn m.a. sjálfstæðisflokksins hafa sagt um hruntímann og um aðstæður í samfélaginu á þeim tíma... eru málsbætur stjórnenda lífeyrissjóðanna meiri eða betri en þeirra?
mk
Ólafur

Lúðvík Júlíusson sagði...

Ertu að segja að það hafi verið stefnt að 3,5% raunávöxtun hvað sem það kostaði?

Miðað við áhættu lífeyrissjóðanna vegna krosseignatengsla, hefðu þeir þá ekki átt að gera kröfu um hærri vexti? Hefðu dýrari lán ekki verið óbein krafa um meiri ábyrgð?

Miðað við takmarkaða fjárfestingakosti á Íslandi ertu þá sammála því að lífeyrissjóðir eigi að öllu jöfnu að fjárfesta sem mest erlendis í framtíðinni?

Guðmundur sagði...

ofboðslega finnst alltaf jafn leiðinlegt þegar sumir virðast sífellt þurfa að lesa eitthvað annað út úr tiltölulega einföldum og stuttum texta.

það sem stendur í pistlinum :

a) ég er ekki að mæla bót neinni spillingu þvert á móti

b) áttu menn von á einhverju öðru en að fjármagnseigendur myndu tapa í Hruninu?

c) það er svo allt annað mál hverjir skópu þær aðstæður sem þurfti til þess að þetta gerðist. um það er ekki fjallað í þessum pistli

Nafnlaus sagði...

Lífeyrissjóðir eru varla fjármagnseigendur í venjulegum skilningi. Launafólk er þvingað með lögum til greiða hluta af launum í lífeyrissjóð. Með öðrum lögum er svo ákveðið hverjir eigi að stýra þeim og í hvað þeir eiga að sitja aurana svona gróflega. Ávöxtunin er auðvitað óraunhæf. Sá sem vinnur í 30 ár getur ekki búist við að fá nema hálf laun í eftirlaun. Annað verður að koma með auðlindaskatti. Þessir miklu peningar sem runnu inn í sjóðina voru auðvitað á vissan hátt forsenda bóluhagkerfis. Lífeyrissjóðirnir öskruðu á 3.5% ávöxtun og eins og Guðmundur segir þá var ríkissjóður ekki að skaffa hana og ekki vel rekin fyrirtæki.Því var ekki annað að gera en að '' selja'' sjóðaforkólfunum eitthvað sem '' hækkaði''. Stýra þeim í Ponzi hagkerfið.
Einar

Nafnlaus sagði...

Guðmundur,
Af hverju stóðu Stafir sig svona illa í samanburðinum?
Hvað fór úrskeiðis?
Hvað hefur verið gert til úrbóta?
Hvað hafa Stafir skert lífeyri mikið frá hruni?
Hvað sjá menn fram á mikla skerðingu til viðbótar?
Fyrirgefðu spurningaflóðið!
Með vinsemd

Unknown sagði...

a) ég er ekki að mæla bót neinni spillingu þvert á móti

SVAR, ég hef lesið pistla þina reglulega og veit að það er satt!

b) áttu menn von á einhverju öðru en að fjármagnseigendur myndu tapa í Hruninu?

SVAR; get ekki svarað því, ég var með myntkörfulán (80%) og hef misst allt, svo svar mitt hlytur að vera að fjármagnseigendur (lífeyrirssjoðseigendur) hljóta að tapa líka á hruninu

c) það er svo allt annað mál hverjir skópu þær aðstæður sem þurfti til þess að þetta gerðist. um það er ekki fjallað í þessum pistli,

Svar; Nákvæmlega það sem þú fjallar ekki um Guðmundur, en nú er að koma í ljós að sumir lífeyrirsjóðir tapa 20% og aðrir 50% á 2 árum. Þetta er stór munur og gott væri að fá umræðu um hversvegna það er svona stórt get á aðeins 2 arum (skýrslan).

Vil bæta við að það sem reiðir fólk til hárreitis eru skildleikateingslin á milli stjórnenda og banka og svokallaða "fjármagnseigenda" , sem flestir bara skulda meira en ég og þú!
Kær kveðja
Anna Benkovic Mikaelsd.

Unknown sagði...

Eg hef ekkert við grein þína að athuga Guðmundur, og geri ráð fyrir og reyndar veit að þitt félag er í hópi félaga sem hefur ekki tapað miklu.

Það sem veldur reiði fólks eru ekki litlu velreknu lífeyrissjoðirnir (margir munu reyna að draga ykkur í svaðið á næstu vikum og mánu'um) heldur hvernig gat gerst að almannafé varð svo nátengt stóru bönkunum 3 á 2 árum?

Guðmundur Ólafsson sagði...

Þetta er vel sloppið, en er líklega 300 milljörðum meira, kæri nafni

Nafnlaus sagði...

Það kemur ekki á óvart að þegar horft er gagnrýnum augum á lífeyrisjóðina og hvernig menn hefðu getað gert hlutina öðruvísi, að þá gilda ekki sömu reglur um fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í fjármálakerfinu og þá sem þeir hafa hamast við að sverta undanfarin misseri. Fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar í lífeyrissjóðunum eru sem sagt fórnarlömb ákvarðana annarra.
Þetta er ömurlegur málflutningur Guðmundur.


Kristinn Daníelsson

Guðmundur sagði...

Sæll Kristinn
Ertu viss um að þú sért að skrifa aths. við þennan pistil. Hún passar allavega ekki við innihald pistilsins
Kv GG

Guðmundur sagði...

Sæll nafni
Já hún er óuppgerð deilan um gjaldeyrissamningana og það gæti þýtt hærri taptölur hjá sumum sjóðanna. En það eru svo sem líka önnur mál óuppgerð fyrir dómstólum og í slitastjórnum þannig að þetta getur allt saman breyst töluvert
Kv GG

Guðmundur sagði...

Nafnlaus 0:55
Svar: hlutabréfamarkaður hrundi er langstærsta ástæðan hjá Stöfum

Það var skipt um stjórnarmenn af hálfu launamanna, við vorum 3 nýjir sem fórum inn í vor síðasta vor.

Það er búið að vinna að því að endurskoða allt sem hugsanlega væri hægt að endurbæta. Ég er ekki með þessu að segja að fyrrverandi stjórnarmenn hafi vísvitandi tekið einhverjar rangar ákvarðanir. Það sem menn sjá í dag þegar litð er yfir sviðið og rekast á er hinn gríðarlegi blekkingarleikur sem var í gangi nánast á öllum sviðum. Þáverandi stjórnarmenn töldu sig vera að fjárfesta í í öruggum og gamalgrónum fyrirtækjum, en nokkru síðar voru þetta skyndilega innan tómar skeljar, búið að hreinsa allt innan úr þeim, hér má nefna FL group og Eimskip og svo bankana vitanlega. Það er hér sem eftirlitsaðilar og löggjafinn þurfa að taka sig umtalsvert á.

Á fyrstu árum þessarar aldar voru bætur hækkaðar umfram verðlagsvístiölu. Þrátt fyrir skerðingu eftir Hrun er ekki búið að lækka meir en hækkunin var

Það er margt sem er óuppgert ennþá þannig að það er útilokað að spá nákvæmlega fyrir um hvernig þessi mál enda

Góðar kv GG

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Góður pistill hjá þér.

Hér er smá hugleiðing, hverjir ráðlögðu okkar mönnum að fjárfesta í með þessum hætti og hverjir höfðu eftirlit með fjárfestingunum?

Hvernig var aðkoma starfsmanna sjóðsins að þessum fjarfestingum og eftirliti með þeim.?

Ég veita að stjórnarmenn geta ekki verið sérfræðingar í fjárfestingum og ekki heldur verið lagasérfræðingar um lög lífeyrissjóða þó svo þeir eigi að þekkja þau betur en Jón og Gunna úti í bæ.
Verður ekki örugglega farið í dómsmál við þá aðila sem ráðlögðu og höfðu eftirlit með fjarfestingar?

Ég veit allavegana að ég má ekki leggja rafmagn í hús eða teikna rafmagn í hús, nema að ég hafi til þess tilskilin leyfi og réttindi. Einnig þarf ég að hafa tryggingar fyrir þeim verkum sem ég vinn.

Ekki fæst byggingarleyfi nema allir pappírar eru komnir á hreint og allar tryggingar séu í fullu gildi.

Kær kveðja
Kristinn Steinn Traustason

Nafnlaus sagði...

Á fyrstu árum þessarar aldar voru bætur hækkaðar umfram verðlagsvístiölu. Þrátt fyrir skerðingu eftir Hrun er ekki búið að lækka meir en hækkunin var

Af hverju kallarðu eftirlaunin bætur?

Guðmundur sagði...

Æi ég veit það ekki, í vinnunni er alltaf talaað um bótakerfið, skerðingar í bótakerfinu og svo framv.
Örorkubætur og lífeyrir heitir það réttu nafni.
Kv GG

Nafnlaus sagði...

Það er spurt hvar hefðu sjóðirnir átt að fjárfesta?
Eitt sem ekki er mikið í umræðunni er að fæstir lífeyrissjóðir fullnýttu heimildir sínar til fjárfestinga erlendis. Það má benda á það að norski olíusjóðurinn fjárfestir nær eingöngu utan Noregs m.a. til að valda ekki þenslu innanlands. Reyndar varð norski sjóðurinn fyrir 23% eignatapi árið 2008, annað hefði ekki verið hægt en það tap vannst upp og gott betur með góðri ávöxtun árið eftir 2009.
Hefðu íslensku lífeyrissjóðirnir fjárfest meira utanlands (bæði í erlendum hlutabréfum og ríkisskuldabréfum) þá hefði annars vegar verið mótvægi á eignabóluna og of háu gengi krónunnar fyrir 2008, auk þess að tap sjóðanna vegna hruns hins litla og afmarkaða efnahagskerfis Íslands hefði verið minna einkum vegna betri ávöxtunarmöguleika eftir 2008 erlendis.

Guðmundur sagði...

http://gudmundur.eyjan.is/2011/11/islenska-lifeyriskerfi.html

Guðmundur sagði...

Sæll og takk fyrir innlitið.

Norski sjóðurinn tapaði jafnmiklu og íslensku sjóðirnir hafa gert að jafnaði. Aðrir erlendir sjóðir hafa tapað meiru.

Það er nánast útilokað að bera þetta saman af einhverju viti við íslenska lífeyrissjóði reiknaða út í íslenskri örmynt en hinir í stórum alþjóðlegum gjaldmiðlum.

Við erum að taka alltof mikla áhættu að vera með svona stóran hluta hér heima og geta ekki fjárfest erlendis. Það getur leitt yfir okkur enn meiri hrakfarir en við erum nú þegar búinn að upplifa, að vera með nærri allar eignir í íslenskri örmynt.

Umræðan er því miður á villigötum, vitanlega hefði mátt gera ýmislegt öðruvísi, en minni þig á vegna spurningar þinnar á þær háværu kröfur sem gerðar voru um ávöxtun af sjóðsfélögum á árunum fyrir Hrun.

Þar komu fram kröfur um að vera ekki að hafa of mikið af fjármagni í ríkisbréfum það gæfi alltof lága ávöxtun, sama gilti um sum af hinum erlendu bréfum sem lífeyrissjóðirnir keyptu og sjóðfélagar vildu frekar kaupa hér heima vegna þess að ávöxtun var hærri hér en annarsstaðar.

Það var reyndar mat fleiri en íslendinga því hingað streymdi sparifé margra erlendra aðila vegna hárra vaxta hér á Íslandi.

Staðan var sú (og er reyndar enn) á markaði að þeir fjárfestar sem ekki voru tilbúnir að kaupa bréf með þeim kvöðum sem í þeim voru urðu útundan.

Þar voru alltaf bréfin með hæstu ávöxtunina og margir sjóðsfélagar fylgdust vel með þessu og skömmuðust yfir því ef lífeyrissjóðurinn þeirra var ekki að komast inn í þessi viðskipti.

Þetta gaf vitanlega fantaávöxtun og leiddi til þess að staða sjóðsfélaga var bætt umtalsvert á sínum tíma og minni á að það tap sem nú er að koma fram er töluvert minna en sú aukning sem varð í stöðu sjóðanna frá aldamótum til Hruns.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur vill ráða fleiri í greiningu. Þeim mun verr gefast heimskra manna ráð eftir því sem fleiri koma saman. Segðu af þér.