laugardagur, 3. mars 2012

Kanadadollar og aðrar reyksprengjur

Nú er það orðið ljóst að almenningur mun ekki lengur sætta sig við það umherfi sem krónan býður upp á með reglulegum gengisfellingum sem valda hækkun vaxta og skulda og skerðingu launa. Stjórnmálamenn hafa hingað til komist upp með kasta upp margskonar reyksprengjum til þess að villa fólki sýn og margir hafa trúað því að að krónan sé bjargvættur, það er hið gagnstæða hún er sjúkdómurinn. Verkfæri sem valdahafa nýta til þess að færa kostnað vegna eyðlsuhyggju og vanhugsaðra kosningaloforða yfir á almenning.

Andstæðingar ESB umræðunnar eru því þessa dagana að verða örvæntingarfullir og nota öll vopn til þess að koma henni á villigötur. Formaður Framsóknarflokksins fer þar framarlega, minnistætt er þegar hann kynnti til sögunnar mann með skilaboð um að Noregur væri tilbúinn að til þess að lána Íslandi umtalsverðar upphæðir á gríðarlega góðum kjörum, það reyndist vera eitthvað knæpuhjal óábyrgs þingmanns, nú er farinn svipuð leið.

Nú er því haldið fram að Kanadamenn séu gríðarlega spenntir að við tökum upp Kanadadollar. Eru Kanadamenn virkilega tilbúnir að spandera á okkur þeim fjármunum sem hlýst af því að verja okkar hagkerfi? Eru þeir til í að kaupa allar krónur sem eru í umferð, allt lausafé og skuldabréf og greiða það upp í topp með kanadískum dollurum? Henda svo öllum krónunum í ruslið. Fyrirfinnst enn í heiminum slík gjafmildi og hjartahlýja?

Þetta er óraunhæft og fyrir því eru nokkrar ástæður.
1
. Við eigum ekki nægan gjaldeyrisforða sjálf til að kaupa það magn af viðkomandi gjaldeyri til að mæta lausu fé í umferð. Því yrðum við að fá samþykki AGS og Norðurlandanna að nota lánin frá þeim til þessa arna og það gæti reynst þrautin þyngri. Ljóst má vera að þessar þjóðir myndu ekki vilja fá greitt með krónum fyrir sinn gjaldeyri.

2. Ef okkur tækist að safna saman nægum gjaldeyri til að umbreyta myntinni er ljóst að lítið væri eftir til að mynda varaforða – sá sem er að láni fór í myntbreytinguna. Auðvitað skiptir máli á hvaða skiptigengi þessi aðgerð yrði framkvæmd. Ef krónan er of veik (aflandsgengið er 250-260 á evrunni) rýrna eignir okkar tekjur gríðarlega við myntbreytinguna og ef krónan er of sterk göngum við nærri samkeppnishæfni atvinnulífsins og þar með störfum okkar og tekjum.

3. Gefum okkur að við notum jafnvægisgengið sem gæti legið í kringum 130-140 kr. á evruna. Þegar umbreytingunni væri lokið skiptir miklu máli að aðgerðin sé svo trúverðug og traust – að hér verði svo öflugt atvinnulíf – að ekki leiki minnsti vafi á því að við munum standa við skuldbindingar okkar gagnvart erlendum innistæðueigendum sem eru æði margir. Ef þeir telja hins vegar að nú séu þeir lausir og best sé að taka evrurnar og hverfa aftur heim á þarlendan fjármálamarkað er ljóst að bankarnir lenda fljótlega í lausafjárvanda – þá vantar þá meiri gjaldeyri í lausu fé.

Í venjulegu hagkerfi myndi Seðlabankinn sjá til þess að bankinn fengi ,,innlendu myntina‘‘ ef ekki með öðru þá með prentun fleiri seðla. Þetta er hins vegar ekki hægt og þá erum við komin í sama vanda nema hvað við erum búin að sólunda varasjóðnum sem við fengum að láni hjá AGS og Norðurlöndunum til að hleypa þeim erlendu fjárfestum, sem eignuðust íslensk verðbréf þegar þeir voru að veðja á vaxtamun milli Íslands og annarra landa, út úr hagkerfinu með erlendan gjaldeyri og sitjum uppi með afleiðingarnar. Það er ástæðan fyrir því að AGS og Norðurlöndin myndu trúlega aldrei samþykkja svona aðgerð – hún gengur einfaldlega ekki upp.

4. Þá er ótalin sá vandi sem yrði í framtíðinni að ef okkur tekst að koma hagvexti í gang þarf peningamagnið í umferð að fylgja hagvextinum– en ekki vaxa meira en sem nemur hagvexti. Til að gera það í hagkerfi með gjaldmiðil annars ríkis verður Seðlabankastjóri að fara reglulega til þess ríkis með afrakstur útflutningsins og kaupa meiri gjaldeyri og ef hér kæmi upp einhver efnahagskreppa aftur (og það verðum við að gera ráð fyrir að muni gerast) er enginn bakhjarl og engin prentsmiðja.

Þessi mál hafa verið rædd ítarlega á fundum innan verkalýðshreyfingarinnar og hún hefur komist að þeirri niðurstöðu að eina færa leiðin út úr þessum ógöngum sem núverandi gjaldmiðill og ábyrgðarlaus efnahagsstefna undanfarinna ára hefur leitt okkur í væri umsókn um aðild að ESB og upptaka evru. Og það eins fljótt og auðið er ef okkur tekst að ná ásættanlegum aðildarsamningi sem tryggir hagsmuni okkar í sjávarútvegs-, landbúnaðar- og byggðamálum.

Takist þetta er okkur greið leið inn í myntsamstarf Evrópuríkjanna innan ramma ERM-II í stað núverandi gjaldeyrishafta til að lækka vexti og koma fjárfestingum og atvinnusköpun í gang. Það sýnir reynsla Eystrasaltsríkjanna að aðlögunarferli vaxtanna hefst strax innan ERM-II þannig að áhrifin koma mikið fyrr en þann dag sem við fengjum myndina sjálfa. Ekki hafa orðið neinar þær grundvallar breytingar á okkar aðstæðum sem breyta þessari stöðu.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér fer Guðmundur vel yfir það hversu órauhæft það er að taka einhlða upp annan gjaldmiðil. Hann sleppir reyndar einu atriði og það er að við það færist myntsláttuhagnaðurinn frá Seðlabanka Íslands yfir til þess seðlabanka sem gefur út viðkomandi mynt. Ef við hins vegar göngum í ESB og gerumst aðilar að Seðlabanka Evrópu þá fáum við hlutdeild í myntsláttuhagnaði hans.

Guðmundur fer yfir það hvern...ig stækkun á okkar hafkerfi leiðir til þess að við þurfum að nota afrakstur útflutnins til að kaupa gjaldeyri frá þeirri þjóð sem gefur hann út til að mæta aukinni þörf fyrir peninga í umferð. Þetta gerist hins vegar ekki bara vegna stækkunar hafkerfisins heldur líka vegna verðbólgu og þar með verðrýrnun gjaldeyrisins. Jafnvel þó um lága verðbólgu væri að ræða til dæmis tvö til þrjú prósent þá leiðir hún þó til þess að við þurfum að auka peningamarn í umferð sem því nemur til viðbótar við þörfina vegna stækkunar hagkersisins og þurfum að fara með afrakstur útflutnings í það. Þessi viðbótarkaup okkar væru hreint tap fyrir okkur en hagnaður fyri þann seðlabanka og þar með það ríki sem gefur út þann gjalmiðil sem við notum. Með aðild að Seðlabanka Evróipu fengjum við einfeldlega þá seðla og mynt sem við þyrftum af þessum sökum frá Seðlabanka Evrópu án þess að þurfa að láta neitt á móti enda er það þá hluti af mynstláttuhagnaðinum sem við fengjum hlutdeild í með aðild.
Sigurður Grétarsson

Nafnlaus sagði...

"Gefum okkur að við notum jafnvægisgengið sem gæti legið í kringum 130-140 kr. á evruna."

Þetta er of sterkt skiptigengi. Gengi á bilinu 140-160 er nærri lægi, sennilega nær 160.

Bendi á skýrslur AGS varðandi þessi mál:

http://www.imf.org/external/pubs/ft/wp/2007/wp07276.pdf

Samkvæmt skýrslunni er jafnvægisgengi krónunnar um 15-25% lægra en það var árið 2006.

Árið 2006 var jafnvægisgengi IKR um 104 (http://sedlabanki.is/?pageid=444&itemid=5d8b67bd-f82d-49a2-a57f-35118b8154a8&nextday=5&nextmonth=3)

Þetta merkir að jafnvægi í þjóðarbúskap ætti að nást ef jafnvægisgengi IKR yrði á bilinu 79-89.

Í dag er jafnvægisgengi IKR um 75 og EUR 167. Í ljósi fyrrgreindra marka væri eðlilegt uppitökugengi á bilinu 140 - 160.

Þetta segir hins vegar ekki alla söguna. Ef viðvarandi verðbólga mun verða hér á næstu misserum mun raungengi krónunnar hækka frá 75. Þess vegna má vel vera að þegar upptaka annars gjaldmiðils verður komin á borðið verði raungengi IKR orðið mun hærra en það er dag einfaldlega vegna verðbólgu.

Þess vegna er ekki svo ólíklegt að ef það er vilji til þess að taka upp EUR þá verði það gert á núverandi gengi þ.e. 160-170.

Kveðja,
Björn Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Góð grein.

Væri Kanadadollari tekinn upp, væri einginn lánveitandi til þrautavara, fyrir banka hér á landi.

Bankar væru því berskjaldaðir og gætu fallið við minnsta ótta á mörkuðum.

Vextir banka myndu einnig hækka verulega til að vega upp á móti aukinni áhættu bankakerfisins. Vextir myndu því ekki lækka eins og haldið er fram heldur hækka með upptöku Kanadollars.

Útlán bankann yrðu einnig miklu minni og takmarkaðri þar sem þeir þyldu ekki neina áhættu. Þeir þyrftu einnig að hækka sitt eigiðfjárhlutfall til að standat áföll þar sem enginnn lánveitandi til þrautavar væri fyrir hendi.

Bankarnir myndu heldur ekki fá aðgang að erlendum lánamörkuðum, þar sem áhætta þeirra væri svo mikil. Þetta myndi auka vanda Íslands enn frekar.

Eina lausnin - er því aðild að ESB og upptaka evru sem allra, allra fyrst. Það er stærsta samningsatriði Íslands - að geta komist í ERM2 sem allra fyrst og að geta geta tekið evruna upp sem allra fyrst.

Þetta er stærsta hagsmunamál í samningaviðræðum við ESB.

Nafnlaus sagði...

Sem sagt, ef taka á upp Kanadadal þá verður að koma til gríðarlegur niðurskurður hins opinbera, ætli við þyrftum ekki að borga fyri myntina með velferðarkerfinu. Og það tekur þessi Ársæll hagkvæmara en að ganga í ESB og taka upp evruna, sem myndi ekkert reyna á velferðarkerfið heldur bara leiða til þess að það yrði betra. Hvílíkt rugl sem menn geta reynt að bera á borð.
G. Pétur

Nafnlaus sagði...

Ekki gleyma þeim rökum gegn Kanadadollar að við eigum nær engin viðskipti við Kanada á meðan 2/3 til 3/4 þeirra eru við Evrópu. Ef við tækjum upp CAD þá myndum við glata öllum þeim "kostum" sem fylgja sjálfstæðum gjaldmiðli (sem eru þeir að hægt er að flytja vanda útflutningsgreina yfir á launþega og halda þannig uppi háu atvinnustigi) en fengjum tvöldaldan ókost fastgengis -- þ.e. viðskiptakjörin við okkar helstu viðskiptaríki ráðast af gengi hagkerfis sem kemur okkur ekkert við. Þessar hugmyndir eru því það galnar að útilokað er að skilja hvernig stjórnmálaflokkur sem vill láta taka sig alvarlega heldur þeim á loft. Skýringin er reyndar augljós, eins og GG bendir á, þ.e. drepa á umræðuna um ESB á dreif.

Nafnlaus sagði...

Mér virðist umræðan mest ganga út á að finna einhverja patentlausn svo við þurfum ekki að taka til hjá okkur. Minnir stundum á rell í óþægum krökkum.

Ég held að það skipti ekki öllu hvað gjaldmiðillinn heitir það eru verðmætin á bak við hann sem skipta máli og hvernig farið er með þau og þau eru nýtt.

En við erum svo einstaklega föst í veiðamannahugsunarhættinum og ætlum að „detta í lukkupottinn“ og verða rík á morgun og þá getum við frestað því að sýna aga.

Í hagstjórn eða öðru.

Þorsteinn Úlfar

Nafnlaus sagði...

Þeir sem segja að ekki skipti máli hver gjaldmiðllinn er, tala eins og það sé sambærilegt að sigla út á úthaf á árabát (króna) með fjölskylduna og að fara með stærstu farþegaskipum heims (evru, eða öðrum stórum gjaldmiðlum).

Að sjálfsögðu þarf aga í öllum tilfellum - en stærð og gerð farkostsins sem farið er með - skiptir öllu máli.

Þó að það sé agi innan árabátsins (krónunnar) - er sá farkostur samt árabátur - og stórhættulegur fyrir fjölskyldur að ferðast á yfir úthöf.

Smæð krónunnar er því megin vandi heimilanna og fyrirtækjanna - og það er ekki hægt að leysa vanda heimilanna með krónu sem gjaldmiðil - þar sem árabáturinn skoppar eins og korktappi á hverri öldu - á meðan er stöðugleiki í miklu stærri skipum - sem þola óveðum án þess að hreyfast.

Með hruni krónunnar - og stökkbreyttum skuldum - olli krónan mestu eingnaupptökum sem nokkrusinni hafa farið fram.

Á meðan krónan er mun því vandi heimilannan vaxa - ár frá ári - með áframhaldandi stórfelldri eignaupptöku - sem enda mun í nýju hruni.