miðvikudagur, 28. mars 2012

Baráttan um Ísland

Maður vaknar til nýs dags og við blasa fréttir um hvernig tiltekinn hópur þingmanna hefur beitt klækjabrögðum á Alþingi, stingur af um bakdyrnar til þess að koma í veg fyrir atkvæðagreiðslur. Þingstörf mótast af ómerkilegum bellibrögðum og innihaldslausum upphrópunum.

Undanfarið hefur sami hópur alið á þeirri trú að okkur stafi mest hætta af útlendingum. Þeir vilji komast yfir auðlindir okkar fyrir lítið og við eigum að berjast gegn öllu skipulögðu samstarfi við nágrannaþjóðir okkar.

Sami hópur berst gegn því að tekið verði á efnahagsstjórn og gjaldmiðilsmálum með þeim hætti að komið verði í veg fyrir reglulega eignaupptöku og tilfærslu frá launamönnum til hinna fáu með gengisfellingum handstýrðs gjaldmiðils.

Í fréttum gærdagsins kom fram hvernig tiltekin hópur hefur í skjóli þessara þingmanna og gjaldmiðilsins ástundað arðrán. Þessir sem fengu frá sömu þingmönnum auðlindir landsins til eigin nota.

Hópur sem beitir öllum brögðum til þess að koma í veg fyrir breytingar, lítur svo á að landið og ríkið sé þeirra eign. Hinn almenni launamaður sé þræll sem þeir geti beitt bellibrögðum til þess að koma í veg fyrir að hann fái notið þeirrar verðmætasköpunar sem hann skilar með vinnu sinni.

Þetta er það Ísland sem þessi hópur hefur búið okkur og hann beitir öllum fanta- og klækjabrögðum sem þekkjast til þess að verja sína stöðu. Tugþúsundir heimila liggja í valnum. Hvaða tillögur liggja fyrir frá þesusm hóp? Jú að gera sparifé launamanna upptækt.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ísland er orðið einn stór sirkus: Bessastaðir, Alþingi, fjölmiðlar, stjórnsýslan, Samtök atvinnulífsins etc.
Vanhæfni, lágkúra og meðalmennska blasir við nær allstaðar. Eiginlega með ólíkindum. En þó eiginlega ekki, þegar íhugað er hverjir fóru hér með völd í nær 20 ár. Afglaparnir Dabbi og Dóri.
Já, kjósendur góðir, því fylgir ábyrgð að hafa kosningarétt og nýta hann.
Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Ég er mjög sammála Guðmundi.

Vandinn sýnist mér liggja í vonlausum forustumönnum stjórnar og stjórnarandstöðu.

Allt þetta fólk er trausti rúið.

Ég sé ekkert tilefni til bjartsýni.

Íhaldið hérna vill engar breytingar og ríkisstjórnin er svo illa skipuð að þar er enga forustu að finna.

Ég geri engan greinarmun á foringjum flokkanna.

Enginn þeirrar er traustsins verður að mínu mati.

Ég óttast að landflótti unga fólksins aukist til muna.

Þeir sem geta flýja úrræða - og hæfileikaleysið, spillinguna, tækifærismennskuna, valdasýkina.

Kveðja
Rósa G

Nafnlaus sagði...

Hvað vilt þú gera Guðmundur? Hver er þín tillaga?

Guðmundur sagði...

Það er erfitt að svara svona purningu í nokkrum setningum, en ég reyni.

Þeir sem telja sig eiga Ísland vilja ekki glata völdum til almennings í beinu lýðræði. Í nýrri stjórnarskrá er lagt til að færa valdið til þjóðarinnar. Það þolir hin ráðandi stétt ekki.

Núverandi kosningakerfi er þannig uppbyggt að það tryggir stöðu núverandi stjórnmálaflokka og liðlega helmingur alþingismanna þarf aldrei að óttast næstu kosningar. Þeir eru í öruggum sætum, sem úthlutað er af flokkskrifstofum valdaflokkanna. Í nýrri stjórnarskrá er lagt er til að þessu verði breytt, andstææt vilja valdstéttarinnar.

Í auðlindaákvæði nýju stjórnarskrárfrumvarpi segir svo: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum“.

Það þarf að skapa 20 þús. ný störf á næstu 2 árum og auka verðmætasköpun ef minnka á atvinnuleysið.

Byggja þarf upp öflugan vinnumarkað hér á landi reistir á þeirri hreinu orku sem eru í auðlindum Íslands svo vel menntað fólk sækist eftir störfum heima en leiti ekki til annarra landa.