miðvikudagur, 7. mars 2012

Hörundsárir fjölmiðlamenn

Ég skrifaði pistil í gær þar sem fjallað er um að mér finnist einkennilegt að einhverjir séu að láta það koma sér á óvart að harka og óvægni í samskiptum fari vaxandi. Mér finnst svona yfirlýsingar vera lýsandi fyrir íslenska umræðu, það er að geta ekki horfst í augu við hinn raunverulega vanda, sífellt er sjónum beint að „tittlingaskítnum“ eins og Nóbelskáldið okkar sagði.

Í þessu sambandi má minna á ummæli nokkurra norrænna vina okkar um hvað við ættum helst að varast eftir hrunið og þar voru helst sænskir ekki síður finnskir menn að benda okkur á hvaða sár hefði tekið lengst að græða eftir þau hrun sem þeir gengu í gegnum árin eftir 1990. Það var umhyggja og tillit til þeirra sem verst fóru, en varast ætti ábyrgðarlaust lýðskrum. Þeir væru enn í dag að glíma við afleiðingar
þessa.

Ég er í pistlinum ekki að fjalla um voðaverk einstaklings, heldur þá samfélagslegu umræðu sem fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafa leitt undanfarin misseri og þá vaxandi hörku sem er í smaskiptum milli fólks og t.d. hér á netinu, sem margir hafa bent á.

Saklaust fólk er dregið inn í umræðuna og það sakað um að standa í vegi fyrir því að „réttlátar“ töfralausnir nái fram að ganga. Ég vísaði í mitt starfsumhverfi, en við starfsmenn stéttarfélaga höfum mátt sitja undir mjög alvarlegum ásökunum af hálfu þessara fjölmiðlamanna og stjórnmálamanna. Á skrifstofum stéttarfélaga sé séu samankomnir harðsnúnir sérhyggjumenn sem raki til sín fjármunum.

Ekkert er fjarri lagi, en aldrei er þetta kannað einungis hert á ásökunum. Aldrei er fjallað um raunverulega starfsemi stéttarfélaganna. Sjaldan er fjallað um hinn raunverulega vanda sem launamenn eiga við að glíma, gengisfall, kaupmáttartap, okurvexti og eignaupptöku í skjóli gjaldmiðils sem er handstýrt.

Engir eru jafn hörundsárir og fjölmiðlamenn og þá helst þeir sem standa hvað fremst hafa staðið í þessum ábyrgðarlausa leik. Það er sorglegt að horfa upp á viðbrögð þeirra, en það var svo fyrirséð hver þau yrðu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kjarni málsins,,,,

"Sjaldan er fjallað um hinn raunverulega vanda sem launamenn eiga við að glíma, gengisfall, kaupmáttartap, okurvexti og eignaupptöku í skjóli gjaldmiðils sem er handstýrt."

Vel að orði komist hjá Guðmundi.

Hver skildi ástæðan vera?

Þekkingarleysi á hagfræði, peninga- og gjaldmiðlamálum, pólitísk tengs eða skoðanir, kjarkleysi, þröngsýni, skortur á vilja til að þroska og kryfja málin til mergjar eða hagsmunatengsl eða áhugi á að viðhalda ruglaðri umræðu, sem um leið magnar vandann til framtíðar þar sem hamrað er á töfralausnum, í stað faglegra málefnalegra og markvissrar umræða, sem byggðar eru á raunhæfum leiðum.

Eða er þetta bara einangrun hugarfarsins, sem endurspeglar landfræðilega einangrun landsins, þar sem allt á að vera best, ef einangrunin er sem mest.

Er fagmennska á fjölmiðlum ekki meiri en þetta? Svari hver fyrir sig.

Til eru frábærir fjölmiðlamenn, þeir þurfa að láta meira til sín taka, á sviði hagfræði, peningamála, gjaldmiðla, viðskipta, sem um leið eykur trú á raunhæfar lausnir fyrir heimili og fyrirtæki og framtíð Íslands.