sunnudagur, 11. mars 2012

Dagleiðin langa

Átti miða á aðra sýningu Dagleiðarinnar löngu, en komst ekki fyrr en í gærkvöldi til þess að sjá þetta magnaða fjölskyldudrama. Nóbelsverðlaunahafinn Eugene O’Neill (1888-1953) skrifaði verkið, sem er að sumu leyti sjálfsævisögulegt, á árunum 1939–41. Hann vildi ekki að verkið yrði sett upp fyrr en eftir dauða sinn og það var ekki frumflutt fyrr en árið 1956, og hlaut það Pulitzer verðlaunin ári síðar.

Boðskapur verksins fellur í mörgu saman við það uppgjör sem á sér stað í íslensku samfélagi þessa dagana. Þrátt fyrir öll þau tækifæri sem við höfum, erum við samt að tortíma samfélagi okkar í hamslausri togstreitu. Leikritið gerist á miklum átakadegi í lífi Tyrone-fjölskyldunnar, hjóna og tveggja uppkominna sona þeirra.

Fjölskyldan býr við ægivald fjölskylduföðurins sem er eyðilagður af alkahólisma. Móðurinn er flúinn inn heim morfínfíknarinnar. Synirnir tveir að tortíma sjálfum sér í áfengisneyslu, fíklar sársauka og átaka. Fjórar skemmdar manneskjur á þeirri þekktu leið að ásaka í sífellu hver aðra og brjóta hinn aðilan niður á milli þess að það er réttlætt með ástarjátningum og umhyggju.

Magnþrungið listaverk nærgöngult, já og grimmt. Við þekkjum öll þetta miskunnarleysi og þann feluleik þegar við víkjum okkur undan því að líta í spegilinn. Leikstjórinn Þórhildur Þorleifsdóttir lýsir verkinu réttilega sem fjölskylduhelvíti. Í hvert sinn sem örlar á einhverskonar sátt er leitað að vopni, tilgangurinn einn að það bíti. Sífellt lengra gengið á vit miskunnarleysisins.

Sýningin er í afbragðs þýðingu Illuga Jökulssonar. Þórhildur stytti verkið um helming, hún vildi einbeita sér að fjölskyldunni. Þetta hefur tekist vel að mínu mati, ég hef komið að því í öðrum umfjöllunum í vetur að leikstjórar mættu gjarnan huga betur að þessum þætti. Illugi á örugglega sinn þátt í því hversu textinn flæddi vel.

Ég treysti mér ekki til þess að gera upp á milli Atla Rafns, Hilmis Snæs, Arnars Jónssonar eða Guðrúnar Gísladóttur. Allt stórkanónur sem ráða vel við sín hlutverk. Verð þó að taka fram að leikur Guðrúnar er tær snilld. Þórhildar stýrir hópnum geysilega vel og sýningin ber öll merki leikstjóra sem kann vel til verka.

Lýsing spilar mikið hlutverk, skil á milli atriða og ekki síður þar sem verið að draga fram áherslur í leiknum.

Dagleiðin langa er skyldusýning fyrir alla sem á annað borð fara í leikhús.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér er líklega verið að sýna verkið "Long Day's Jouyney into the Night" eftir Eugene O'Neill. Hef ekki séð verkið á sviði, hinsvegar kvikmyndina með Katharine Hepburn, Ralph Richardson, Jason Robards og Dean Stockwell.
Hrífandi verk, sem minnir óneitanlega á "A Death of a Salesman".
Haukur Kristinsson

Nafnlaus sagði...

Gaman að fá þessar fréttir úr menninguni. Ekki síst frá iðnaðarmanninum Guðmundi Gunnarssyni, en ekki einhverjum oflærðum akademíker. Faðir minn var líka iðnaðarmaður, en átti enga möguleika á skólagöngu vegna fátæktar. Hann lærði engin tungumál og fór aldrei út fyrir landsteinana. En hann var vel lesinn í Íslendingasögunum og hafði gott vald á móðurmálinu. Hann hefði kunnað að meta leiksýningu þá sem Guðmundur lýsir, en hann þekkti ýmsar “togstreitur” mannlegs samfélags.

Haukur Kristinsson