sunnudagur, 18. mars 2012

Stjórnarskráin og ósnortin víðerni

Helstu baráttumál okkar útivistarfólks og náttúrusinna við gerð Rammaáætlunar hafa verið verndun ósnortinna víðerna. Koma fyrst og fremst í veg fyrir farið verði inn á ný svæði með virkjanaframkvæmdir. Með öðrum orðum ef maðurinn er búinn að spilla einhverjum svæðum þá verði honum gert að halda sig innan þeirra svæða þegar rætt sé um nýjar framkvæmdir.

Í lögum um náttúruvernd eru "ósnortin víðerni" skilgreind sem landsvæði sem er a.m.k. 25 ferkm. að stærð og er í a.m.k. fimm kílómetra fjarlægð frá mannvirkjum og öðrum tæknilegum ummerkjum. Áhrifa mannvirkja gætir í dag á stærstum hluta landsins.

Ósnortin víðerni hafa frá árinu 1936 minnkað að meðaltali um 677 ferkílómetra á ári. Af þeim ósnortnu víðernum sem eftir eru eru 88% þakin jöklum. Þetta blasir vel við okkur sem förum reglulega um landið, en ég hef undanfarna áratugi gist 30 - 40 nætur á tjaldsvæðum á hverju sumri og þrætt margar gönguleiðanna.

Það að ég skuli benda á þetta hefur kallað fram það tiltal frá tilteknum hóp að þetta séu bara geðvonskuleg tilskrif. Staðreyndin er hins vegar sú að það eru til mjög margir náttúruverndarsinnar á Íslandi, margir þeirra eru ekki sammála þeim sem hæst hafa og telja sig vera þá hina einu sem rétt hafi á að ræða náttúruvernd.

Þessi mál voru ofarlega á áherslulista Þjóðfundar og voru því á borðum Stjórnlagaráðs í vinnu við endurskoðun Stjórnarskrár. í 33. gr. stendur m.a. að náttúra Íslands sé undirstaða lífs í landinu. Öllum ber að virða hana og vernda.

Í því felst að fjölbreytni lands og lífríkis sé viðhaldið og náttúruminjar, óbyggð víðerni, gróður og jarðvegur njóti verndar. Fyrri spjöll skulu bætt eftir föngum. Öllum skal með lögum tryggður réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni, ómenguðu andrúmslofti og óspilltri náttúru.

Nýtingu náttúrugæða skal haga þannig að þau skerðist sem minnst til langframa og réttur náttúrunnar og komandi kynslóða sé virtur. Með lögum skal tryggja rétt almennings til að fara um landið í lögmætum tilgangi með virðingu fyrir náttúru og umhverfi.

Í þessu felst, að réttur manna á heilnæmu umhverfi og réttur náttúrunnar haldast í hendur. Náttúruvernd nær yfir hvort tveggja. Því er eðlilegt að blandað sé saman náttúruvernd og rétti manna á heilnæmu umhverfi til að hnykkja á gagnkvæmum rétti manna og náttúrunnar.

Hugtakið “óspillt náttúra” vísar til þess að hver maður eigi rétt til þess að hluti náttúrunnar í umhverfi hvers manns verði skilinn eftir eins óspilltur og aðgengilegur almenningi og verða má. Með þeim hætti geti maðurinn haldið tengslum við náttúruna og átt óspillt griðland í henni. Ekki er girt fyrir að hróflað sé við náttúrunni né heldur komið í veg fyrir að mannvirki séu reist eða gæði náttúrunnar séu hagnýtt með eðlilegum lögbundnum takmörkunum.

Með nýjum ákvæðum Stjórnarskrár er reynt að tryggja við og afkomendur okkar eigi rétt á óspilltri náttúru og aðgengi að henni í sínu nánasta umhverfi.

Því hefur verið haldið fram að orðalagið óspillt náttúra sé mannhverf nálgun og byggist á sjónrænu mati og blandað sé saman náttúruvernd og rétti manna á heilnæmu umhverfi. Í orðalaginu „óspillt náttúra“ felst ekki endilega mannhverf nálgun. Réttur manna á heilnæmu umhverfi og réttur náttúrunnar haldast í hendur og hnykkja á gagnkvæmum rétti manna og náttúrunnar.



Í þessu sambandi og ekki síður vegna ávirðinga í garð launamanna á almennum vinnumarkaði sem ég haf verið að fá frá tilteknum aðilum, ætla ég að birta hér þær skoðanir sem efst hafa verið í ályktunum innan samtaka launamanna á almennum vinnumarkaði undanfarin misseri.

Launamenn á almennum vinnumarkaði vilja bregðast með ábyrgum hætti við þeim ógnum sem steðja að náttúrunni og lífríkinu, hér á landi og hnattrænt m.a. vegna loftslagsbreytinga. Ísland hefur möguleika á að verða grænt hagkerfi sem byggir á grænum störfum.

Í ályktunum segir m.a. : Framtíðarsýn okkar í atvinnumálum byggð á grænum gildum verður að hvíla á traustum grunni. Þar skipta eftirtaldir þættir miklu:

• Verð á orku á eftir að hækka umtalsvert á næstu árum og eftirspurn eftir endurnýjanlegri raforku margfaldast. Þrýstingur á aukna virkjun bæði fallvatna og jarðvarma mun aukast. Það er því mikilvægt að mótuð verði markviss stefna í auðlinda‐ og umhverfismálum, á sjálfbærum grunni. Þannig má skapa skilyrði til að íslenskt samfélag verði á næstu áratugum að mestu sjálfbært á sviði orkunýtingar með því að skipta út jarðefnaeldsneyti fyrir hreina orkugjafa.

• Laða þarf fram meira samstarf á sviði rannsókna og tækniþróunar þvert á fræða og fagsvið svo og yfir landamæri. Horfa þarf meira til skapandi greina s.s. á sviði lista, hönnunar og margmiðlunar.

• Auka verður fjárfestingar í framleiðslutækni sem leiðir til minnkunar á losun róðurhúsalofttegunda. Fyrir liggur að áhugi og vilji á alþjóðavísu til að fjárfesta í græna geiranum fer ört vaxandi. Ef rétt er að málum staðið mun þetta leiða til nýsköpunar á mörgum sviðum. Tækifærin eru nánast óþrjótandi s.s. í orkuiðnaði, efna‐ og lífefnaiðnaði og endurvinnslu.

• Nýta verður möguleika sem hefðbundnar greinar íslensks atvinnulífs, sjávarútvegur og landbúnaður þ.m.t. garðyrkja og fullvinnslu afurða, eiga til að sækja fram á erlendum markaði á grundvelli hreinnar framleiðslutækni og grænna gilda. Sama gildir um ferðaþjónustuna sem býður upp á fjölbreytta þróunarmöguleika.

• Uppbygging atvinnulífs á sjálfbærum grunni og aðgerðir til að sporna við loftslagsbreytingum þýða margháttaðar breytingar í atvinnulífinu. Störf munu tapast en í staðinn munu skapast fjölbreytt og áhugaverð störf á fjölmörgum sviðum. Setja verður fram skýra áætlun sem miðar að því að aðstoða fólk við að takast á við þessar breytingar með jákvæðum hætti.

• Við þær aðstæður sem nú ríkja í samfélaginu er afar mikilvægt að skapa ungu fólki trúverðug tækifæri í samræmi við menntun þess og framtíðarsýn sem eykur tiltrú og vilja til áframhaldandi búsetu á Íslandi. Markmiðið er að atvinnustarfsemin skapi góð störf á traustum grunni, atvinnu og hagsæld, og geti staðið undir öflugu velferðarsamfélagi að norrænni fyrirmynd.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það er á kerfisáætlun Landsnets að leggja öfluga háspennulínu frá Þjórsársvæðinu og norður í Kröflu.
Stefnt er að verulegri uppbyggingu víða á landinu.
En hvar verður hægt að leggja jarðstrengi til að minnka hin stórfelldu sjónrænu áhrif?
Þarf þetta ekki að skoðast í samhebgi við Rammaáætlun?

Guðmundur sagði...

Ég benti á það það um leið og farið var að ræða Kárahnjúkavirkjun og álver í Reyðarfirði að það myndu koma fram kröfur um að tengja það kerfi við Landsnetið. Hringlínan er fyrir löngu fullestuð og réði engan veginn við tengja Kárahnjúka við landsnetið. Ég benti á að menn gætu þá ekki verið að ræða um annað en línu yfir Sprengisand niður í spennuvirkin við Búrfell. Hatturinn minn varð samstundis fullur af skömmum.

Í tengslum við Rammaáætlun verður að taka tillit hvernig menn ætla sér að flytja orkuna um landið. Það gerir t.d. línu um Sprengisand óhæfa, þá línu verður að leggja þar sem fyrir eru mannvirki.

Nú eru t.d. uppi áætlanir um að selja ónýtta orku um sæstreng. Það verður ekki gert nema með því að tengja saman landsnetið og opna fyrir flutningsleiðir

Nafnlaus sagði...

Fantagóður pistill, eins og oft áður.

Nafnlaus sagði...

Eins og þú nefnir, þá verður ekki lagður sæstrengur öðruvísi en komi til styrking flutningsnetsins. Þá vaknar spurningin; á að leggja línurnar á ódýrasta hátt eða á að hlífa viðkvæmustu svæðunum með því að nota jarðstrengi? Hvaða svæði eru viðkvæm?
Danir hafa markað þá stefnu að engar nýjar loftlínur verði lagðar á <400kV og gömlu línurnar á því bili verði komnar í jörð fyrir 2030.

Guðmundur sagði...

Danmörk er liðlega helmingi minni en Ísland. Hver einasti fermeter ee ræktaður. Þar búa liðlega 5 millj. manns.

Ég er ekki viss um að það verði jafnauðvelt að fá stjórnvöld hér á landi til þess að grafa allar línur.

Það er reyndar búið að gera mikið af því á undanförnum árum og víða eru sveitir þar sem í dag sést ekki ein einasta lína.