fimmtudagur, 15. mars 2012

Rammaáætlun og tækifærissinnar

Lengi hafa staðið deilur meðal landsmanna um virkjanir. Hvar eigi að virkja, hvaða svæði eigi að vernda og svo hversu mikið þurfi að virkja. Flestir voru sammála um að koma yrði þessum málum í einhvern farveg þar sem komið væri í veg fyrir að skammtímahugsun tækifærissinnaðra stjórnmálamanna á atkvæðaveiðum réði för.

Í öllum kosningabaráttum hafa stjórnmálamenn farið um og lofað mikilli atvinnuuppbyggingu í sínu kjördæmi, sjaldan kom fram í máli þeirra hversu mikla orku þyrfti svo hægt væri að framkvæma þau loforð sem þeir gáfu. Það var í þessu umhverfi sem ákveðið er að hefja vinnu við Rammaáætlun.

Þar var m.a. litið til þess hvernig norðmenn hefðu leyst samskonar deilur. Við borðið settust ekki bara fulltrúar stjórnmálamanna og Landsvirkjunar, allir hagsmunaaðilar fengi sinn stól, þar á meðal útivistarfólk og sat ég í þeim stól í fyrri umferð þessarar vinnu.

Nú er búið að afla upplýsinga sem segja okkur svart á hvítu að tiltekin svæði séu dýrmæt fyrir þróun íslenskrar náttúru eða sem vettvangur ferðaþjónustu, útivistar og lífsfyllingar fólks, þau eru sett í verndarflokk. Önnur svæði hafa verið sett í biðflokk þar sem óvissa er um þá orku sem hægt er að virkja á hverjum stað og hversu mikið er óhætt að taka af henni í einu.

Á meðan þessi vinna hefur staðið yfir hefur komið fram að gufuaflsvirkjanir eru ekki eins umhverfisvænar og margir vildu halda fram. Ekki hefur tekist að leysa vandamál hvað varðar útblásturs- og affalsmengun frá gufuvirkjunum, auk þess að töluverkur vafi er um rekstaröryggi nokkurra svæða.

Það hefur aldrei verið hlutverk Rammaáætlunar að uppfylla loforð tækifærissinnaðra stjórnmálamanna, heldur er henni þvert á móti ætlað að skapa sátt um nýtingu til framtíðar. Tryggja eins vel og frekast verður kosið sjálfbæra þróun og gætt sé varúðar við að finna hagfellda nýtingu náttúrusvæða.

Nú þegar niðurstaða Rammaáætlunar liggur loks fyrir, ætlumst við til að farið sé að niðurstöðum hennar og skammtímahugsun vikið til hliðar. Sé litið til alls þess að er harla einkennilegt og reyndar mótsagnarkennt þegar einhver hópur stígur nú fram að segist tala fyrir munn náttúruverndarsinna.

Þessi hópur vill ýta til hliðar niðurstöðum Rammaáætlunar og hverfa aftur til tækifærissinnaðrar ákvarðanatöku stjórnmálamanna og hefur í frammi allskonar dylgjur í garð þeirra sem ekki eru sammála þeirra sjónarmiðum. Því fer fjarri að þetta fólk tali fyrir munn allra náttúruverndarsinna.

Það liggur fyrir að það þarf að virkja á Íslandi, það viðurkenna náttúruverndarsinnar. Það eru ákveðin svæði sem eru betur til þess fallin en önnur. Það er ekki þar með sagt að það þurfi að virkja öll þessi svæði nú þegar.

Það er mikið atvinnuleysi á Íslandi og það þarf að skapa um 30 þús. störf á næstu árum ef okkur á að takast að vinna okkur út úr þeirri stöðnum sem hér ríkir. Ef það á að takast verður ekki komist hjá því að auka fjárfestingar hér á landi. Þetta er ekki einkaskoðun einhverra verkalýðsforkólfa sem eru um borð í virkjanahraðlest, svo ég vitni í dylgjur og upphrópanir þeirra sem telja sig vera sjálfkjörna málsvara allra náttúruverndarsinna og um leið almennings hér á landi.

Þegar forsvarsmenn stéttarfélaga hafa bent á framangreind atriði eru þeir einfaldlega að benda á samþykktir félagsmanna og að hvaða markmiðum við höfum stefnt að með því að standa heilshugar með í gerð Rammaáætlunar.

Forsendum fyrir víðtækri friðun, virkjanir byggðar á raunsæjum forsendum og ekki síst tekið á tækifærissinnuðum stjórnmálamönnum og þeim hóp sem hefur gripið til tækifærissinnaðra vinnubragða og gefur sig út fyrir að vera hinir einu og sönnu náttúruverndarsinnar. Þessi hópur vinnur gegn náttúruvernd.

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur, hér er ágætis pistill sem ég mæli með að þú lesir. http://smugan.is/2012/03/rammaaaetlun-fagleg-og-god/

Kveðja,
Guðmundur Hörður Guðmundsson

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur

Ég er nú ekki alltaf sammála þér. En þessi pistill er mjög góður. Mér lýst ekkert á hvernig málin eru að þróast í þessum efnum.

Nafnlaus sagði...

Sæll.
Rammaáætlun er mikilvægur áfangi í náttúruvernd þó enn vanti talsvert upp á fagleg vinnubrögð í ákvarðanatöku. Þar hallar á náttúruna, ekki virkjanahliðina. Engu að síður áfangasigur fyrir náttúruvernd en eins og þeir þekkja sem barist hafa fyrir réttindum sem í dag þykja sjálfsögð, s.s. verkafólks, kvenna, barna o.s.frv. vinnast sigrarnir í áföngum. Þá gerist það stundum að jafnvel einörðum stuðningsmönnum finnst full langt gengið en þannig túlka ég þennan pistil þinn Guðmundur.

Á síðustu árum hefur þekking á sviði umhverfisverndar, -hagfræði og -verkfræði tekið stórt stökk. Enn er samt langt í land.

Í miðri Kárahnjúkadeilunni sagði Valgerður Sverrisdóttir þv. iðnaðarráðherra að ekki væri til aðferð til að meta hvort fara á í óafturkræfar framkvæmdir eða ekki með hliðsjón af fórnarkostnaði náttúrunnar. Þessu fannst mér erfitt að trúa og skráði mig í umhverfishagfræði í Bifröst. Eitt af því fyrsta sem ég rakst á var 40 ára gömul aðferðafræði sem einmitt tekur á þessu og er praktíseruð í hinum siðaða heimi.

Aðferðafræðin er einföld. Fyrst er skoðaður tilganginn með hinni óafturkræfu framkvæmd (t.d. skapa vinnu)og ef hún - sem við skulum kalla leið A - er hagkvæmasta leiðin að settu marki þá er líka til einhver leið B til að ná sama marki sem er eitthvað dýrari. Ef mismunurinn á leið A og B er ekki án vafa meiri en hagurinn af því að eiga náttúruna sem til stendur að granda um alla framtíð eru í boði tveir faglegir kostir: 1) Að hætta við A og fara leið B eða 2) Að bíða þar til betri upplýsingar liggja fyrir.

Nafnlaus sagði...

(frh.)

Í Rammaáætlun var svæðum raðað eftir aðferðafræði sem flestir eru sammála um að sé góð þótt auðvitað sé hún ekki fullkomin. Út úr því kom listi yfir hagkvæmni orkukosta og verndargildi náttúrusvæða. Þetta var einn hluti vinnunnar og hann fór fram í verkefnastjórn Rammaáætlunar. Annar hluti verkefnisins var svo að setja þessi svæði í (orku)nýtingarflokk, biðflokk og verndar(nýtingar)flokk. Alltaf var ljóst að þennan hluta vinnunnar ætti Alþingi að vinna. Kallað var eftir athugasemdum og unnið úr þeim. Í þeim komu m.a. fram alvarlegar ábendingar um hrun laxastofnsins í Þjórsá og áhrif virkjana í nágrenni Vatnajökulsþjóðgarðs á framtíð hans. Allt vel rökstuddar ábendingar.

Það má lesa út úr pistli þínum að þetta sért þú óánægður með og teljir þetta jafnvel svik við einverja sáttargjörð sem felist í Rammaáætlun. Ef svo er þá er það alvarlegur misskilningur. Þessar athugasemdir eru hluti af ferlinu og að á þeim sé tekið mark ber vitni um að stjórnvöld hlusti á góð rök og vilji fara varlega í að taka ákvarðanir þegar um óafturkræfar framkvæmdir í verðmætri náttúru er að ræða. Ég held að allir sanngjarnir menn hljóti að fagna því.

Persónulega finnst mér að öll háhitasvæði á Reykjanesskaganum hefðu með sömu rökum átt að fara í biðflokk meðan menn komast að niðurstöðu um hvernig á að vinna brennisteinsgufur úr útblæstrinum, hvernig á að nýta betur orkuna en í dag fer hátt í 90% hennar til spillis og hvernig á að finna leið til að nýta orkuna með sjálfbærum hætti í stað þess að hugsa þetta eins og námugröft í 50 ár og svo þurfi að hvíla svæðið í 50-200 ár.

Ég hefði líka talið faglegt og eðlilegt að aukið virði náttúrusvæða á Reykjanesskaga yrði kannað betur áður en nokkurt svæði þar yrði sett í nýtingarflokk. Fyrir því færi ég eftirfarandi rök:
1) Útivist Ísleninga og ferðamanna hefur stóraukist undanfarin ár en til að gefa hugmynd um vaxandi útivistargildi þessara svæða má nefna að fjöldi þeirra sem hefur skrifað í gestabækur FÍ á Esjunni hefur á síðustu 10 árum farið úr 2-3 þúsundum upp í 12-14 þúsund.
2)Höfuðborgarsvæðið er að stækka og ferðamönnum að fjölga. Sérstök áhersla er lögð á ráðstefnugesti sem vilja geta séð eitthvað áhugavert á skömmum tíma.
3) Bensínverð er að hækka og þar með eykst kostnaður við að sjá önnur svæði sem eru sambærileg við það sem Reykjanesskaginn býður upp á.
4) Reykjanesskaginn kann að búa yfir miklu meiri hagrænum verðmætum með verndarnýtingu fremur en frekari orkunýtingu. Athuganir benda til þess að við getum hér verið með jarðminjagarð sem gefur Yellowstone og öðrum slíkum ekkert eftir. Í því felast gríðarleg hagræn verðmæti og tækifæri til atvinnusköpunar.

EF vinnan í þinginu hefði verið fullkomlega fagleg hefði verið hlustað á þessi rök ekki síður en þau sem nú leiða Þjórsárvirkjanir og Skrokköldu í biðflokk. Því var ekki að heilsa, ekki að þessu sinni. Ég gæti svo sem tekið mér orð í munn eins og að því hafi ráðið "tækifærissinnar" sem helst vilja alltaf láta virkjanir njóta vafans. Ég ætla að láta það ógert.

Nú held ég sé gott tækifæri til að stoppa og svara spurningunni: "Til hvers virkjum við?" Ef svarið er að skapa störf þá verðum við líka að skoða vandlega hvort þetta er besta leiðin.

Þú segir að við þurfum að skapa 30 þúsund störf og að það verði ekki gert nema með að auka fjárfestingar. Gott og vel. Vilt þú beita þér fyrir því að kanna möguleika á að fjárfesta í verndarnýtingu Reykjanesskagans með uppbyggingu Eldfjallaþjóðgarðs? Ef Huang Nubo sér tækifæri í að fjárfesta á þessum vettvangi af hverju ætti það þá ekki að vera hagkvæmt fyrir aðra? T.d. lífeyrissjóði sem gætu þá fjárfest í verndun auðlinda í stað þess að fjárfesta í eyðingu þeirra.

Með góðri kveðju,
Dofri Hermannsson, formaður Græna netsins og tækifærissinni sem nýtir hvert faglegt færi til að rétta hlut náttúru- og umhverfisverndar.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur. Það er margt gott í þessu, einkum þörf umfjöllun framan af umfjöllun þinni. Verra er með sumt í síðari hlutanum. Ábendingar umhverfisverndarsinna byggjast ekki síst á því að það liggja ekki nægar upplýsingar fyrir til að taka afgerandi ákvarðanir um öll svæði þó flokkunarhópurinn úr iðnaðarráðuneytinu hafi metið það svo. Þá þarf að undirstrika að upplýsingaskortur um orkuna er ekki eina forsenda þess að hugmyndir um hana eigi að fara í bið. Hvers kyns mikilvæg atriði þurfa að liggja fyrir svo hægt sé að flokka í nýtingu eða vernd. Það kemur skýrt fram í skýrslum verkefnisstjórnar og faghópanna að víða vantar grundvallarupplýsingar, t.d. um mikilvægi landslags (grundvallandi þáttur um mat okkar á svæðum), aðra landnýtingu (t.d. ferðamennsku og útivist, verndargildi) og hvernig eigi að verja vistkerfi og stunda mótvægisaðgerðir (t.d. varðandi lax og silung í Þjórsá og Ölfusá, áhrif á lífríki sjávar ef set festist í lónum en berst ekki til sjávar) og um samfélagsleg áhrif, sem eru ein þriggja stoða sjálfbærrar þróunar. Þessi skortur endurspeglast í fjölda athugasemda við niðurstöðurnar sem voru ekki einu sinni unnar af verkefnisstjórninni og það er kannski vafasamt lýðræði að reyna ekki að taka tillit til þeirra. Rammaáætlun er í raun ætlað að koma með mat á því hver hagstæðasta landnýting ákveðinna svæða er, þar sem virkjun er stillt upp annars vegar og öllu hinu á móti. Að drífa í að virkja meðan nauðsynlegar upplýsingar skortir gæti því þýtt að meiri hagsmunum væri fórnað fyrir minni. Er því ekki jákvætt að menn vilji skoða þetta vel og benda á það sem er ekki í lagi áður en óafturkræf skref eru stigin?

Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Guðmundur sagði...
Þessi ummæli hafa verið fjarlægð af höfundi.
Guðmundur sagði...

Ástæða þess að ég er hvassyrtur í garð tiltekinna manna er að í hvert skipti sem þeir taka þessi mál til umfjöllunar þá veitast þeir að okkur forsvarsmönnum launamanna á almennum markaði á einstaklega ómaklegan hátt. Nú er það svo að við erum að kynna sjónarmið félagsmanna okkar. Meðal þeirra er atvinnuleysi mest. Allir voru sammála um það fyrir nokkrum árum að til þess að komastút úr hinum endalausu deilum um hvað ætti að virkja og hvað ekki væri að koma sér saman um einhverjar mælistikur og nýtaþær svo til þess að meta virkjanakosti, aðilar myndu svo sætta sig við niðurstöðuna sem væri þá til langs tíma, eftir fyrri umferð var það Landsvirkjun sem var óhressust. Nú virðist það vera svo að tilteknir aðilar sem telja sig vera forsvarsmenn okkar náttúruvernarsinna, ætla ekki að sætta sig niðurstöðurnar og ok við skulum sætta okkur við verndarflokkinn og svo skulum við byrja að semja upp á nýtt. Þetta eru þekkt vinnubrögð tækifærissinna í samningum. Svo bregður við að þegar maður vogar sér að benda á þetta, þá verða þeir hörundsárir sem hafa borið mesta aurinn á okkur. Það er einnig vel þekkt.

Nafnlaus sagði...

Já Guðmundur þessir sjálfskipuðu náttúruverndarmenn eru undantekningalítið fólk sem vinnur hjá hinu opinbera og er í öruggum stöðum. Staða launamanna á almenna vinnumarkaðnum skiptir það engu. Staða þessa fólks og afstaða gagnvart náttúru Íslands opinberar sig vel þegar tún og fjárhús á bökkum Þjórsár eru allt í einu orðin mestu náttúruvætti Íslands.

Takk fyrir virkilega góðan pistil Með besu kveðjum Krummi gönguhrólfur og náttúruverndarsinni, sjáumst í útilegunum upp á hálendinu í sumar

Guðmundur sagði...

Maður er ákaflega fljótur að átta sig á því hvort fólk þekki landið sitt. Ég gisti á hverju sumri milli 30 - 40 nætur á tjaldsvæðum víða um landið, er búinn að þræða margar gönguleiðir, ganga á vel yfir 200 fjöll.

Svo heyrir maður fólk sem þekkir sumt hvert vart mikið annað en kaffihúsin í miðbæ Rvíkur eða á Akureyri, kannski komið í rútu inn í Þórsmörk, sig sem sjálfskipaða talsmenn náttúruverndarsinna og hreyta ónotum í okkur hin sem þekkum landið betur en kaffihúsaflóruna

Guðmundur sagði...

Það er erfitt að skilja sumar þeirra aths. sem ég hef fengið vegna þessarar greinar öðruvísi en svo að lýðræðisleg vinnubrögð sé eitthvað sem sumir telja sig ekki þurfa að virða.

Nokkur stéttarfélög hafa samþykkt ályktanir um náttúruvernd og atvinnuuppbyggingu. Heildarsamtök stéttarfélaga á almennum vinnumarkaði (ASÍ) hafa einnig samþykkt ályktanir um náttúruvernd og hvernig staðið skuli að nýtingu auðlinda.

Það hefur svo verið lýðræðislegt hlutverk forsvarsmanna þessara samtaka að koma samþykktum meirihlutans á framfæri. Þar er í sumu öðruvísi tekið á málum en tiltölulega fámennur hópur einstaklinga sem telja sig vera handhafa löggiltra skoðana um náttúruvernd.

Mér er spurn eiga þessar skoðanir launamanna ekki rétt á sér? Er þess krafist að við kjörnir forsvarsmenn þeirra kynnum eitthvað annað en meirihlutinn hefur samþykkt?