þriðjudagur, 6. mars 2012

Fyrirséð staða

Ég er sammála Marínó G. Njálssyni ráðgjafa um að árásin inn á lögmannsstofuna í kom ekki á óvart. Ég er reyndar fullviss um að starfsmenn lögmannsstofa, banka og fjármálastofnana hafa upplifað margskonar uppákomur undanfarinn misseri sem hafa verið merki þess hvert stefndi. Ég þekki það allavega vel úr því umhverfi sem ég hef starfað í undanfarinn ár. Ég er ekki með þessu að segja að ofbeldi í einhverju formi sé réttlætanlegt.

Marínó bendir á lagaklæki og lagaflækjur og hvernig aðilar sem hafa fjármuni til þess að hafa lögmenn og sérfræðinga á sínum snærum hafi vikið sér undan að semja og koma fram við fólk af fullri virðingu og auðmýkt.

En til viðbótar því sem Marínó segir spyr ég því einnig hvort ekki sé ástæða fyrir stjórnmálamenn, fréttastjóra, álitsgjafa og spjallþáttastjórnendur og sum samtök til þess að staldra við og velta því fyrir sér hvort framsetning þeirra geti átt einhvern þátt í því hvernig komið er.

Vitanlega þarf að skoða fyrirkomulag lána og uppgjör þeirra og finna leiðir til þess að koma til móts við fólk í vandræðum. En það er mikill ábyrgðarhluti hvernig þessir hlutir eru settir fram. Hversu oft er nú búið að lofa töfralausnum, sem síðan við nánari skoðun reyndust vera innistæðulaus froða?

Menn verða að átta sig á að í hvert skipti sem slíku er lofað og slegið upp í fréttatímum, spjallþáttum eða í ræðum á þingi, er verið að vekja upp væntingar hjá fólki sem á í vandræðum. Vitanlega vill það trúa því að það komist úr sínum vanda.

Ítrekað er haldið á lofti lausnum sem ljóst er að ekki er hægt að standa við, en því slegið upp sem aðalfrétt kvöldsins og gestum boðið í spjallþátt til þess að útlista eitthvað sem augljóslega stenst enga skoðun. Í stað þess að kanna hvort það sé virkilega hægt að bjarga málunum með tveimur pennastrikum.

Það er klár fantaskapur að ástunda slíka taktík. Fólk er ítrekað búið að verða fyrir miklum vonbrigðum og reiði þess vex í hvert skipti. Og að hverjum beinist svo reiðin? Allavega ekki að fjölmiðlamönnum og spjallþáttastjórnendum, en þeir eru aftur á móti búnir að búa sér til efni í næstu aðalfrétt, sem er sorgleg árás einstaklings á saklausan starfsmann lögfræðistofu.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll,
Fyrirgefðu að þetta er óskylt efni pistilsins, en ætla Stafir að taka þátt í byggingu Hverahlíðarvirkjunar?
Tekur sjóðurinn þá á sig ábyrgð á jarðskjálftum og mengun vegna brennisteinsvetnis.
Þá eru eftir spurningar um hvort þetta er góður bisniss, yfir höfuð.
Með kveðju

Guðmundur sagði...

Það hefur ekki verið tekið nein ákvörðun um það. Ástæðan er einföld og hefur oft komið fram í fréttum, eins og staðan hefur verið þá er þetta ekki góður "bisniss". Fyrirliggjandi sölusamningar óljósir og kostnaður vegna virkjunar hærri en gert var ráð fyrir, samfara meiri þekkingu á hvaða óvissa sé fólgin í gufuaflsvirkjunum. Minni á að það voru okkar menn sem bentu þáverandi borgarstjóra Hönnu Birnu og hennar manni Guðlaugi Þór á í hvaða stöðu þau væru búinn að koma OR í, og að óbreyttu væri ekki hægt að taka þátt í verkefnum með þeim. Minni á hver viðbrögð þáverandi stjórna OR og borgarstjóra voru. En hvert einasta atriði sem við bentum á hefur komið fram

Nafnlaus sagði...

Góður pistill.

Það er aldrei afsökun fyrir ofbeldi.

Hinsvegar er staða heimilannan einfaldlega næg ábending til ýmissa ábyrgra aðila - til að vanda tillögugerð og umfjöllun um leiðir til úrbóta.

Töfralausnir sem byggja á ónýtum gjaldmiðli (krónunni) til frambúðar - er eitt gott dæmi um töfralausnir - sem gera ekkert annað en að magna vanda heimilannan enn frekar - þar sem vextir og fjármagnskostnaður á Íslandi eru margfalt hærri en í löndum með stóra gjaldmiðla.

Hvernig væri nú að byrja á því að viðurkenna þennan vanda - og finna lausnir.

Það væri holl tilbreyting í heimi töfralausna - m.a. innan fjölmiðlanna - og fyrsta skrefið í að sýna ábyrgð við lausna þess gríðarlega vanda sem heimili búa við.

Nafnlaus sagði...

Þetta er alveg hárrétt. Það er hreint til skammar hvað fjölmiðlar eru mikið í því að „selja“ fréttir. Manni virðist að það sé aðalmálið að búa til deilur og átök.

Og ekki eru spjallþáttastjórnendur skárri. Einn „aðal“ álitsgjafinn setur inn færslu eftir færslu um að hann hafi einhverntímann hitt einhvern frægan. Vá hvað hann er æðislegur. Ætla maður gæti fengið að koma við hann?

Svo kemur æ oftar í ljós að þetta fólk hefur afar takmarkaða þekkingu á því sem það er að fjalla um og umfjöllunin verður oft til þess að gera málin verri og óleysanlegri. Og eftirfylgnin með málum er engin. Enda kemur upp nýtt hneyksli á nálega hverjum degi.

Það má segja að eina sjálfskoðun fjölmiðla við hrunið hafi verið að leggja niður sérstaka fjármálafréttatíma og reka vana og gagnrýna fréttamenn með reynslu.

Að minnsta kosti hef ég ekki orðið var við mikið meira. Jú, það var reyndar ráðinn nýr ritstjóri dagblaðs, sem einu sinni var ábyrgt, hvers hlutverk virðist vera að drulla yfir fólk og endurskrifa söguna.

Þorsteinn Úlfar

Nafnlaus sagði...

Góður pistill.

Það væri góð byrjun á málefnalegri umræðu að - byggja lausnir á framtíðarsýn sem byggir á alvöru gjaldmiðili - þar sem vextir og verðbólga er svipuð og innan stórra gjaldmiðla, t.d. í Danmörku eða Finnlandi.

Vonandi hafa þeir sem tala fyrir heimilin - nægjanlega víðsýni til að bera til að fara nýjar leiðir - og byggja á alvöru framtíðarlausnum - og stórum gjaldmiðli - en ekki verkjastillandi skammtímalausnum - sem endast í nokkra mánuði - þar sem lausnirnar byggja á ónýtum gjaldmiðli - sem býr til endalaus ný og ný verðbólgu og vaxta og verðtrygginarvandamál - í hverjum mánuði - sem aldrei taka enda.

Það eru töfralausnir og blekkingar - að tala um að leysa vandann 2008 - og sigla svo á fullri ferð inn í alveg eins vaxta og verðbólguvanda til framtíðar - sem fylgja ónýtum gjaldmiðli.

Hvort þessir aðilar hafa til að vera slíka víðsýni - er prófraun á hæfni þeirra til að fjalla um þessi mál - á raunsæjan og málefnlegan hátt - þar sem ræða má um alvöru raunverulega framtíðarlausnir.

Eða vilja aðilar heldur fara í gamlar pólitískar skotgrafir - sem hafa ekkert með lausnir að gera - heldur töfralasnir og blekkingar sem framlengja vanda heimilanna.

Þetta er kjarni málsins.

Nafnlaus sagði...

Góð grein
Þessi æsingur sem er alltaf í fjölmiðlum getur sýnilega farið illa í fólk. Þá er kjafthátturinn voðalega þreytandi og getur gert fólk reitt sem er ekki uppbyggilegt til framtíðar. Það er lítið komið með raunhæfar lausnir og allt of fljótt farið í skotgrafahernað.