föstudagur, 9. mars 2012

Fátæktargildrur

Umræðan um skuldavandann hefur verið efst á dagskrá allt frá hruni. Í fréttum hafa verið magnþrungnar lýsingar í tengslum við þennan vanda. Kennarar hafa varað við þessu og sagt að börn sem heyri ekki annað óttist morgundaginn. Í nýlegum rannsóknum hefur komið fram að það eru önnur vandamál umfangsmeiri. Fall krónunnar og kaupmáttar er hlutfallslega meiri vandi heimilanna, fólk hefur ekki nægan framfærslueyri.

Umfang umræðu um skuldamálin hefur valdið því að staða ört stækkandi hóps fólks sem býr við fátækt hefur ekki komist á dagskrá. Í þeim hópi eru öryrkjar, eldri borgarar og þeir sem hafa verið lengi atvinnulausir, hópar sem eru svo illa staddir fjárhagslega að þeir hafa vart ofan í sig né á, hvað þá að þeir geti leyft að vera virkir þátttakendur í samfélaginu.

Fjölskylduhjálp sem byggist á því að fólk standi í röð og þiggi matargjafir í plastpokum er niðurlægjandi og ekki við hæfi í nútíma samfélagi. Sumt af þessu fólki þarf á annarskonar aðstoð að halda. Þar má t.d. benda á að betra væri að halda gjöldum óbreyttum, en frekar veita öllum barnafjölskyldum styrk sem samsvari þeim afsláttum sem sífellt er að reyna að koma inn í ruglingskennt kerfi, þar er verið að niðurlægja fólk með flokkun. Fólk er metið með kerfinu undir yfirborðið og sent í svarta vinnu. Kerfið stillir upp fólki með að ef það tekur ekki það sæti sem kerfið úthlutar því, þá er viðkomandi hótað með því að taka af honum og fjölskyldu hans allt lífsviðurværið.

Í fréttum er endur tekið komið á framfæri skilaboðum um að gamalt fólk sé þakklátt fyrir að þá þjónustu sem það fær. Hvers vegna þarf að birta þessar fréttir? Hvers vegna er ætlast til þess að fólk sem hefur skilað sínu til samfélagsins áratugum saman að lýsa yfir sérstöku þakklæti fyrir að fá nauðsynlega og eðlilega þjónustu?

Stór atvinnurekandi birtir árlega útreikninga skömmu fyrir páska, sem byggja á því að fella niður örorkubætur, makalífeyri og barnabætur. Það sé óþarfa kostnaður á lífeyriskerfinu sem eigi að fella niður. Verkalýðsfélag Akranes hefur tekið undir þessa útreikninga. Þessir aðilar fá gríðarlegt rúm í fréttum og vinsælum spjallþáttum.

Helsta ástæða þess að verkalýðsfélögin vildu við uppbyggingu lífeyriskerfisins taka upp tekjutengdar örorkubætur ofan á þær smánarbætur sem kerfið greiðir, var að koma í veg fyrir að allir sem lentu í því óláni að verða öryrkjar væru í gegnum opinbera kerfið dæmdir til ævilangrar fátæktar. Gegn þessu berjast þessir aðilar og fá fínar undirtektir í fréttum og spjallþáttum.

Þetta er ekki það nýja Ísland sem við viljum sjá rísa úr efnahagshruninu. Vaxandi fátækt er smánarblettur sem þjóðin verður að má burt sem fyrst. Það á að vera forgangsmál að allir þegnar landsins geti lifað mannsæmandi lífi.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Athyglisvert.

Nýlega birti ASÍ samantekt á vöxtum hér á landi og innan landa með stóran gjaldmiðil, evruna.

Að meðaltali í langan tíma er þessi munur a.m.k. um 4%.

Einnig kom fram að skuldir ríkisins séu um 1500 milljarðar króna.

4% af 1500 milljörðum er 60 milljarðar á ári, sem ríkissjóður hendir út um gluggann, vegna þessa að vextir á Íslandi eru 4% hærri, en innan evrunnar, vegna smæðar, sveiflna og óhagkvæmni krónunnar.

Það þarf engum að koma á óvar að það sé fátækt á Íslandi, þegar 60 milljörðum er hent út um gluggann á hverju ári, bara vegna skulda ríkisins. Þá er eftir að bæta við sambærilegum kostnaði vegna skulda einstaklinga, fyrirtækja og sveitarfélaga.

Til að skilja þessa sóun, þá kostar rekstur Landsspítalans 30 milljarðar á ári.

Sem sagt ríkið hendir út um gluggann 60 milljörðum sem duga fyrir tekstri tveggja Landsspítala.

Á sama tíma er verið að skera niður í heilbrigðiskerfinu á öllum stöðum, á meðan 60 milljörðum er hent út um gluggann, til að viðhalda ónýtum gjaldmiðli.

Með þessu peningum gæti ríkið byggt nýjan Landspítala ókeypis, í stað þess að henda þessu út um gluggann.

Hvað ætli myndi heyrast ef Landspítalinn henti 60 milljörðum út um gluggann? En af því ríkið gerir þetta þá er þetta ok???

Með svona háttalagi, þarf engum að koma á óvart að fátækt vaxi hröðum skrefum á Íslandi.

Nafnlaus sagði...

Ef tekinn væri upp evra í stað krónunnar - mætti spara þessa 60 milljarða og senda frekar þessa peninga inn á hvert heimili. Sú upphæð næmi tæplega 600 þúsund krónum á ári.

Ef evra væri tekinn upp þá væri hægt í staðinn að veita þessum 60 milljörðum til stórskuldugra heimila, í stað þess að henda þeim í rándýrt fjármagn.

Það er undarlegat að ekkert mál sé að henda 60 milljörðum út um gluggan af háflu ríkisins á ári í ónýtan gjaldmiðil, á sama tíma og ekki er hæt að finna fjármagn fyrir stórskuldug heimili, sem eru á barmi gjaldþrots.

Króna er greinilega tekin fram yfir fólkið og heimilin.

Ef þetta er sú forgangsröðun sem ríkja á, á Íslandi þarf engan að undra að fátækt fari vaxandi.

Ef sparnaðurinn hjá ríkinu er 60 milljarðar á ári vegna lægri vaxta af skuldum ríkisins, þá er ríkið búið að tapa 180 milljörðum frá hruni bara vegna hærri vaxta hér á landi en innan evrunnar.

Hvar er kommon sens hjá þessari þjóð.

Hversu lengi á að halda þessu rugli áfram með kostnaðarmestu krónu veraldar.