sunnudagur, 9. september 2012

Nei við EES og ESB?


„Ákveði Íslendingar að hætta aðildarviðræðum mun að sjálfsögðu enginn neyða þá til að halda áfram. Evrópusambandið sótti ekki um að Ísland gerðist meðlimur, og aðildarríkin samþykktu að fara í viðræður og við hófum þær.“ segir Peter Stano hjá stækkunarskrifstofu Evrópusambandsins. „Það er undir Íslendingum komið hvort þeir vilji halda áfram. Ákveði þeir að hætta aðildarviðræðum mun að sjálfsögðu enginn neyða þá til að halda áfram og enginn mun reyna að koma í veg fyrir það.“

Það er barnalegt að halda því fram að ESB löndin sækist eftir því að komast yfir auðlindir Íslands til þess að bjarga efnahag ESB. Jafnvel þó allt yrði virkjað hér á landi sem hægt er að virkja dugar það einungis til þess að skapa orku fyrir eina litla borg eins og t.d. Árósa eða Gautaborg. Ástæða er að minna á að Danir eiga sínar olíu og gaslindir í Norðursjó eins og Englendingar og Svíar eiga sín námur og Finnar sína skóga.

Fram eru komnar vangaveltur innan ESB hvort sambandið vilji aðild að samningum sem innihalda mikinn lýðræðishalla eins og EES samningur er og hvort EES löndin séu að borga “eðlilegt” verð fyrir EES aðild? Á grunni þessa eru verulegar líkur á að ESB muni endurskoða aðildargjald að EES, enda þurfi að tryggja að full ESB aðild sé alltaf mun fjárhagslega hagkvæmari en aukaaðild í gegnum tvíhliða samninga eða EES.

Að slíta ESB viðræðum verður því varla kostnaðarlaust fyrir Ísland, ásamt því að samningsstaða Íslands mun að sama skapi veikjast enda mun Brussel halda á góðum spilum á meðan Ísland segir nei við ESB en já við EES. Það verður ekki bæði haldið og sleppt í þessu mikilvæga máli. EES áskrift verður alltaf ólýðræðislegri en full ESB aðild. Í umræðunni í vetur verður að fjalla einnig um framtíð EES samningsins og framtíð hans eftir að ESB aðildarviðræðum verður slitið.

Ein helsta ástæða þess að margar þjóðir hafa sótt um aðild að ESB er til þess að uppræta spillingu og klíkusamfélag og koma á eðlilegum stjórnarháttum, ekki síst í efnahagsmálum. Þetta er helsta ástæða þess að launamenn hér á landi sækjast eftir aðild. Helsta markmiðið er að ná þeim efnahagslega stöðugleika sem íslendingar hafa farið á mis við allt frá stofnun lýðveldisins. Það hefur bitnað mest á launamönnum. Örgjaldmiðill studdur af risastórum gjaldeyrisvarasjóðs sem kallar árlega á tugamilljarða vaxtaútgjöld fyrir íslenskt samfélag. Lækkun vaxta og stöðugleiki myndi lækka útgjöld heimilanna umtalsvert, auka kaupmátt og um leið auka fjárfestingar í atvinnulífinu og fjölga störfum.

Í þessu sambandi er full ástæða að minna á að endurskoðun allra kjarasamninga í landinu er að hefjast, þar blasir við mikil spenna milli starfsgreina. Útflutningsgreinarnar hafa notið góðs af því að krónan hrundi. Nokkrar starfsgreinar fengið mun meira launaskrið en aðrar, þar helst einnig í hendur að þar er atvinnuleysi og kaupmáttarhrap mest. Ekki einungis vegna minna launaskriðs og meira atvinnuleysis, margir þeirra sem hafa vinnu í þessum greinum hafa ákaflega takmarkað vinnumagn.

Starfsmenn þessara starfsgreina sætta sig ekki við að sitja eftir og krefjast í dag mikilla launahækkana og að raungengi krónunnar verði hækkað. Þessi mál er ekki hægt að leysa til langframa án þess að aflétta höftunum á gjaldmiðlinum og við það verkefni ræður Ísland ekki hjálparlaust.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vilt þú semsagt meina það Guðmundur að spillingar og klíkusamfélög þrífist ekki innan ESB? Og finnst þér hafa verið mikill agi innan ESB í fjármálum?

kv
Gunnar Jóhannsson

Guðmundur sagði...

Já Gunnar, það hefur reyndar komið fram í fjölmörgum pistlum mínum hér og hjá öðrum. Íslenskir ráðamenn virtu að vettugi aðvaranir norrænu og enskra ráðherra sem varð síðan til þess að hér varð kerfishrun. Ísland féll vegna þess að ofurskuldsettur einkageiri dró ríkið með sér niður.

Í dag blasir við hvernig íslenskir stjórnmálamenn földu sannleikann og drógu upp falska mynd. Hér má minna á orð þáverandi íslenskra ráðherra um íslenska efnahagsundrið og að norrænir kollegar þeirra ættu að fara endurmenntun úr þeir virtust ekki skilja snilli íslendinga. Snillin er fólgin í því að hafa handstýrðan gjaldmiðil sem reglulega er felldur og kostnaður færður yfir á launamenn. Þetta gerðist ekki t.d. í löndum sem lúta agaðri efnahagsstjórn eins og t.d. í nágrannlöndum okkar, þar urðu ekki 20 þús. heimili gjaldþrota og þar tóku skuldir ekki stökkbreytingum.

Rótina að efnahagshamförnum má finna á auknu frjálsræði í fjármálaheiminum. Markaðir vissu allt og gátu, en ríkið þvældist fyrir. Ísland varð þar af leiðandi eitt helsta fórnarlamb hugmyndafræðinnar um hinn frjálsa markað. Þar var fjármálastofnunum og viðskiptamönnum gefinn laus taumurinn og fjármálamenn fóru að búa til eigin fjármálaafurðir án tillits til stöðugleika kerfisins. Afurðir sem reyndust á endanum með öllu verðlausar. Afreglun átti að leiða menn frá klíkuskap, pólitískri spillingu og sérhagsmunum, en hún leiddi samfélögin inn í stórkostlega eignatilfærslur frá almenning til fárra.

Nafnlaus sagði...

Þurfum við ekki bara að taka til í okkur sjálfum? ESB mun ekki gera það fyrir okkur og það er mikill misskilningur hjá þér að spilling og klíkuskapur þrífist ekki innan ESB ríkja. Líttu t.d. á grikkland, ítalíu og fleiri ríki þar sem spilling og klíkuskapur blómstrar sem aldrei fyrr.

Mesta frelsið sem okkur hefur verið fengið var fólgið í EES samningnum með frjálsu flæði fjármagns, sem var forsenda þess að við gátum farið í hina blessuðu útrás okkar. Við kunnum ekki með þetta frelsi að fara og því fór sem fór. Stjórnendur íslenskra fjármálastofnana voru upp til hópa nýgræðingar í faginu og gáfu lítið fyrir gamla og reynda bankamenn. Þetta hafði ekkert með frjálsan markað að gera, heldur miklu frekar heimsku og dómgreindarskort.

kv
Gunnar Jóhannsson