föstudagur, 18. október 2013

Sjálfstæðismenn vilja rannsaka þátt formanns síns í Icesave


Það er ekkert sem fer jafnmikið í taugarnar á Sjálfstæðismönnum og nefndir sem ætlað er að skoða vinnubrögð stjórnvalda. Þeir vilja að almenningur taki söguritun Morgunblaðsins trúanlega möglunarlaust og segja allt annað vera purrkunarlausan vinstri áróður. Sjálfstæðismenn gefa ekkert fyrir Rannsóknarskýrslu Alþingis um aðdraganda hins svokallað Hruns og nú vilja þeir koma í veg fyrir að skipuð verði rannsóknarnefnd til að skoða einkavæðingu bankanna fyrir rúmum tíu árum.

Einar K. Guðfinnsson er þekktur fylgismaður þessarar stefnu, enda var hann einn af burðarásum í aðdraganda hins svokallaða Hruns. Nú hafa 13 þingmenn Sjálfstæðisflokksins lagt fram tillögu um rannsóknarnefnd til að skoða Icesave-málið. Þetta er venjubundið útspil og tilgangurinn er að skapa andvægi gegn rannsókn á bankamálinu og skapa með því stöðu í hinum reykfylltu bakherbergjum.

En það blasir við að enn eina ferðina á að búa til stöðu til þess að véla um það við stjórnarandstöðuna og skapa aðstöðu til að draga tillöguna um Icesave-nefndina til baka á heppilegum tíma, gegn því að ekki verði miklum mótmælum hreyft þegar hugmyndin um bankanefndina geispar endanlega golunni.

Ég er ákafur fylgismaður þess að báðar þessar nefndir verði skipaðar. Í þessu sambandi er rétt að rifja upp tilurð fyrsta Icesave samningsins. Þann samning gerði þáverandi fjármálaráðherra Árni Matthisen fyrir hönd ríkisstjórnar Geirs Haarde. Sá samningur var sá allra lélegasti af þeim þremur sem gerðir voru, og varð til þess að ríkistjórn Jóhönnu reyndi að ná betri samningum og tókst það. Sumir vilja trúa að við höfum kosið burtu allt tap íslenskra skattborgara vegna Icesave, það er því miður ekki rétt, tapið er þegar orðið gríðarlegt og nálgast eina ársframleiðslu og enn liggja á borðum Landsbankans ógreiddir reikningar vegna Icesave sem munu lenda á íslenskum skattborgurum upp á hundruð milljarða sem munu á óbeinaum hátt lenda á borði skattgreiðenda þessa lands.

En rifjum aðeins upp málavexti. Ef forráðamenn Landsbankans hefðu ákveðið að reka bankastarfsemi sína í Bretlandi og Hollandi í þarlendum dótturfyrirtækjum, en ekki sem útibú frá Landsbankanum, þá hefði þessi reikningur vegna Icesave til íslenskra skattgreiðenda náð inn í sali Alþingis Íslendinga. Þeir sem með þessum hætti framvísuðu vísvitandi Icesave á hendur þjóðarinnar eru : Halldór Kristjánsson og Sigurjón Þ. Árnason, bankastjórar; og Björgólfur Guðmundsson og Kjartan Gunnarsson formaður bankaráðs og fyrrv.framkv.stj. Sjálfstæðisflokksins.

Það voru þessir menn sem ákváðu að yfirbjóða innlánsvexti keppinauta í samkeppni um innlán sparifjáreigenda í þessum löndum. Bankinn var undir þeirra stjórn sokkinn í skuldir og þeir börðust við að koma í veg fyrir hrun hans og sóttust eftir erlendu fjármagni.


Með því að hafna tilmælum seðlabanka Hollands og breska fjármálaeftirlitsins um að flytja útibú bankanna til Englands og Hollands komu þáverandi forráðamenn Landsbankans beinlínis í veg fyrir að lágmarkstrygging innistæðueigenda hjá Icesave yrði borin af tryggingarsjóðum viðkomandi landa, en ekki íslenskum skattgreiðendum. Á þetta hefði þáverandi Seðlabankastjóri átt að þrýsta, en gerði ekki og er því meðvirkur í þessari stöðu.

Með neyðarlögunum haustið 2008 áréttaði ríkisstjórn Geirs og Ingibjargar Sólrúnar, að íslenska ríkið ábyrgðist allar innistæður í íslenskum bönkum og þ.m.t. lágmarkstryggingu í útibúum utan Íslands. Alþingi íslendinga samþykkti neyðarlögin og lagði þar með grunn þeirrar stöðu sem við búum við.

Í samningum við Bretana sem Árni M. þáv. fjárm.ráðh. samþykkti, þá ákvarðaði hann ábyrgð Íslands og lánaskilmála, sem voru reyndar mun verri en sú samningsniðurstaða, sem nú liggur fyrir Alþingi. Að baki undirskriftar Árna var ríkisstjórn með meirihluta á Alþingi. Það er í raun þessar athafnir sem binda okkur þá hnúta sem við búum við.


Til þess að rifja þetta upp þá er þetta að finna í fundargerðum Alþingis :


Til umræðu eru á Alþingi samningar um ábyrgð ríkissjóðs vegna innistæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á EES-svæðinu. Í samningum eru ákvæði um 10 ára lán með 6% vöxtum og jöfnum greiðslum vegna endurgreiðslu Íslendinga til Englendinga og Hollendinga vegna Icesave, í seinni samningum var búið að lækka lántökukostnaðinn í uþb fjórðung :


Alþingi 38. fundur 28. nóv. 2008 þetta er hluti ræðu Bjarna Benediktssonar Sjálfstæðisflokki :Virðulegi forseti. Mér sýnist nú sé að ljúka umræðu um þessa þingsályktunartillögu og málið sé á leiðinni til utanríkismálanefndar til frekari skoðunar. Hér með er óskað heimildar til þess að leiða til lykta samningaviðræður á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem liggja til grundvallar samningaviðræðum sem fara síðan afstað í kjölfarið. Þær voru eins og áður hefur komið fram í umræðunni hér í dag og reyndar áður grundvöllur fyrir því að greiða fyrir afgreiðslu lánsins frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Það er mjög áberandi hér í umræðunni að þátttakendur í henni telja sig sjá það fyrir eftir á að hægt hefði verið að fara aðrar og skynsamlegri leiðir, sem hefðu verið líklegri til þess að valda íslenskum skattgreiðendum inni byrðum en sú leið sem, málið hefur ratað í. Það er vísað til að mynda í lögfræðilegt álit í því samhengi.

Ég held að það sé afskaplega mikil einföldun á þessu máli öllu saman að telja í raun og veru að það hafi verið valkostur fyrir íslensk stjórnvöld að standa stíf á lögfræðilegri túlkun og halda henni til streitu, jafnvel fyrir dómstólum, hvort sem það væri á alþjóðlegum vettvangi eða hér heima fyrir íslenskum dómstólum.
....
Það er alveg ljóst að sú leið sem valin var og sá farvegur sem málið er í núna mun alveg örugglega skila okkur hagstæðari niðurstöðu en við hefðum fengið með því að láta reyna á rétt okkar og ef við hefðum síðan mögulega tapað þeirri þrætu fyrir dómstólum. Það er alveg öruggt.
.....
Þegar heildarmyndin er skoðuð er tel ég að ekki sé hægt að komast að annarri niðurstöðu en að vel hafi verið haldið á íslenskum hagsmunum í þessu máli.

Þannig er þetta nú ágæti lesandi , og hinir 13 þingmenn Sjálfstæðisflokksins ætla sem sagt að láta rannsaka gerðir Bjarna Benediktssonar og ríkisstjórnar Geirs Haarde í Icesave málinu, sem er vitanlega mjög gott.

Engin ummæli: