sunnudagur, 13. október 2013

Aukin óvissa og engin framtíðarsýn


Aðild að ESB felur í sér skuldbindingu um að taka upp evruna, eða fara sömu leið og Danir, Svíar og Englendingar og tengja myntina við evru með takmörkuðum vikmörkum. Helstu rökin sem valdastéttin heldur ákaft að okkur gegn upptöku evrunnar, eru að Íslendingar þurfi á eigin mynt og sveigjanlegu gengi að halda til að draga úr innlendum hagsveiflum, þar sem þær séu svo frábrugðnar hagsveiflum í Evrópu.

Sérstaða Íslands stafi einkum af sjávarútvegi, þessu er haldið að okkur þrátt fyrir að útvegurinn skiptir Íslenskt efnahagslíf nú minna máli en áður, hann stendur nú einungis á bak sjö prósent af landsframleiðslu., öðrum atvinnuvegum hefur vaxið fiskur um hrygg.

Í þessu sambandi má einnig benda á að Færeyingar, með allan sinn sjávarútveg, eru með sína krónu beintengda við Dönsku krónuna og þá um leið fasttengda við Evruna og þeir hafa engan áhuga á að breyta því.

Eftir inngöngu Íslands í EES svæðið árið 1994 hefur hagsveiflan hér færst stöðugt nær hagsveiflunni í Evrópu. Í dag eru 80% viðskipta Íslands við ESB svæðið. Það er augljóslega veik og agalaus hagstjórnin sem veldur okkur mestum skaða.

Nú benda virtir hagfræðingar á það hafi ekki átt sér stað eitthvert efnahagsundur á Íslandi, andstætt því sem Krugman, forseti Íslands og tilteknir stjórnmálamenn hafa hrósað svo mjög. Krónan og gjaldeyrishöftin valda því nefnilega að Íslendingar glíma við nýjan skuldavanda í erlendum gjaldeyri. Þeir hvetja Grikkja ákaft á að hlusta ekki á þá sérfræðinga sem boða kraftaverk.

Fljótandi króna færði Íslendingum ekki efnahagsundur og Gríska drakman mun heldur ekki gera það. Enn einu sinni er forseti Íslands með allt niðrum sig, fyrir Hrun fór hann ásamt forsvarsmönnum þáverandi ríkisstjórnar, sem reyndar koma úr sömu flokkum og núverandi ríkisstjórn, um heimbyggðina og talaði fjálglega um hið Íslenska fjármálaundur.

Athafnir tækifærisinnaðra og agalausra íslenskra stjórnmálamenn, kostaðir af gildum kosningasjóðum hagsmunaaðila, hafa komið í veg fyrir að okkur takist að kveða verðbólguna niður. Þannig er einnig ástatt um ýmis önnur lönd, til dæmis í Austur-Evrópu og Afríku.
 
Stöðugt verðlag innan Evrópusambandsins er sameiginlegt keppikefli aðildarlandanna. Þess vegna leggja Eystrasaltslöndin og önnur ný aðildarlönd ESB allt kapp á að taka upp evruna sem fyrst og eru strax farinn að uppskera margfalt lægri vexti og alvöru jákvæða efnahagsþróun.

Ein höfuðrökin sem notuð eru gegn upptöku evrunnar eru þau, að aflagning krónunnar feli í sér fullveldisafsal, því reglubundnar gengisfellingar standi stjórnvöldum þá ekki lengur til boða. Höfuðhugsjón Evrópusamstarfsins er þó einmitt að dreifa fullveldinu á völdum sviðum, svo sem í peningamálum og auka hagvöxt með öflugu viðskiptasvæði.

Þeir, sem heimta óskorað sjálfstæði í peningamálum, eru í raun að heimta að fá að halda áfram að nota krónuna sem kúgunartæki til að geta með reglulegu millibili notað gengissig krónunnar til að flytja fé frá launafólki til útvegsfyrirtækja, halda launamönnum í efnahagslegum þrælabúðum.

Óábyrgar yfirlýsingar nýrrar ríkisstjórn hefur stóraukið alla óvissu í íslensku efnahagslífi með því að lofa skuldaniðurfellingu sem erlendir fjárfestar eiga að borga og að stöðva ESB umsókn. Þetta tvennt hefur gjörbreytt áhættumati erlendra fjárfesta og valdið okkur hruni á viðskiptakjörum.

Það er ótrúlegt að slíkt skuli gerast á vakt Sjálfstæðisflokksins, en upplýsir okkur svo ekki verður umvillst hverjir það eru sem stjórna á þeim bæ í dag. Eimreiðarhópurinn hefur leitt flokkinn víðsfjarri þeirri línu sem hann tók upp í Viðreisnarstjórninni.

Land sem ekki veitir fjárfestum nauðsynlegt pólitískt bakland byggir ekki á kapítalísku hagkerfi til lengdar. Að treysta á ríkisforsjá undir pilsfaldi krónunnar og helmingaskiptahugarfari, er ekki trúverðug framtíðarsýn en það er einmitt það sem við okkur blasir á þessum haustdögum.

Ný ríkisstjórn horfir til haftaáranna og forsætisráðherra mærir þá tíma. Ríkisstjórnina skortir alla framtíðarsýn og ný atvinnutækifæri eru nánast eingöngu láglaunastörf í ferðamannaiðnaði. Störf í landbúnaði og sjávarútvegi sem eru svo lágt launuð að íslendingar velja frekar að vera áfram á atvinnuleysisbótum eða fara erlendis í leit að nýjum störfum.

Við hrun krónunnar fyrir 5 árum og kreppuáhrifin sem því fylgdu féll kaupmáttur ráðstöfunartekna heimilanna um nærri 30%, sem var met í kjaraskerðingu. Á árinu 2012 lækkaði kaupmátturinn um 0,8% og lítil eða engin hækkun verður á yfirstandandi ári (2013). Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár gerir ráð fyrir 0,3% aukningu kaupmáttar.

Helstu loforð stjórnaflokkar voru skuldaniðurfellingar og lækkun skatta. Nú eru komnar fram liggur ríkisstjórnarinnar. Þeir sem eru með lægri laun en 300 þús. kr. fá ekkert.

Skattalækkun þeirra sem eru með 300 þús. kr. mánaðarlaun fá myndarlega skattalækkun eða hitt þá heldur hún nemur  372 kr. á mánuði.

Sá sem er með 400 þús. kr. mánaðarlaun fær skattalækkun upp á 1.140 kr á mánuði.

Þeir sem hafa 770 þúsund krónur í mánaðarlaun, fá skattalækkunin upp á 3.980 krónum á mánuði.

Útgerðin fékk nokkra tugi milljarða í skattalækkun, enda greiddi hún svimandi upphæðir í kosningasjóði ríkisstjórnarflokkanna.

Og nú taka við kjarasamningar við alla launamenn í landinu og allir bíða þar að auki eftir skuldaniðurfellingunum, svo loforðunum um lagfæringar á skerðingarmörkum örorku- og lífeyrisbóta.

Engin ummæli: