mánudagur, 14. október 2013

Hækkun raunlauna takk fyrir


Íslendingar skila lengstu vinnuvikunni af þeim þjóðum sem við viljum bera okkur saman við. Ef borin er saman verðmætasköpun á mann á hverja unna klukkustund eru afköst Íslendinga einungis tveir þriðju af því sem Bandaríkjamenn ná og Danir eru einungis liðlega 10% á eftir Bandaríkjamönnum.

Á árunum 1950 til 1980, þegar vélvæðingin var hvað umfangsmest, fækkaði árlegum meðalvinnustundum á Íslandi úr um 2.400 klst. í um 1.900 klst. En í hinum Norðurlandaríkjunum voru sömu tölur um 1.900 klst. árið 1950, eru komnar niður í um 1.600 klst. árið 1980 og halda áfram að lækka niður í um 1.550 árið 2010. Árið 2010 er árlegur meðalvinnutími Íslendinga hins vegar um 1.750 klst. og við náum samt ekki sambærilegum kaupmætti.

Framleiðni vinnuafls er 20% minni á Íslandi en í nágrannalöndum en fyrir hendi eru umtalsverð tækifæri til þess að knýja hagvöxt til framtíðar með því að auka arðsemi í fjármagnsfrekum atvinnugreinum. Þannig má bæta launamönnum upp þann skaða sem þeir hafa orðið fyrir, tryggja öran framleiðnivöxt og skapa möguleika fyrir varanlegum og myndarlegum lífskjarabótum.

Nú er aftur komin upp umræða launahækkanir upp á tugi prósenta. Við erum föst í viðjum vanans og erum þar af leiðandi að dragast aftur úr á öllum sviðum á góðri leið með að ná verðbólgunni upp í tveggja stafa tölu og tryggja áframhaldandi stöðu gjaldeyrishaftanna.

Vonandi er farið að renna upp fyrir þingmönnum nýrrar ríkisstjórnar að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og þeir héldu fram í nánast hverjum einasta fréttatíma allt síðasta kjörtímabil þar sem þeir greindu frá alls konar töfralausnum á efnahagsvanda þjóðarinnar og heimilanna.

Við verðum einfaldlega að auka fjárfestingar í atvinnulífinu og auka framleiðni og verðmætasköpun í íslensku þjóðabúi ef okkur á að takast að greiða niður skuldir okkar og standa jafnframt undir velferðarkerfinu. Það þýðir að núverandi ríkisstjórn verður að kúvenda í samskiptum sínum við helsta viðskiptasvæði landsins og yfirlýsingum ráðherra í erlendum fréttamiðlum. Auk þess að setja forseta vorn í farbann.

Við verðum að fjölga þeim íslensku fyrirtækjum sem framleiða og selja alþjóðlegar vörur, eins og t.d. Marel, Össur, Actavis og CCP. Forsvarsmenn þessara fyrirtækja hafa margoft sagt að þeir sjái alltof mikla takmörkun í samkeppni og stækkunarmöguleikum ef við breytum ekki peningastefnunni.

Við verðum að skapa stöðugra rekstrarumhverfi og auka erlenda fjárfestingu. Íslenskir stjórnmálamenn verða að leggja af það óábyrga hátterni að vera með óraunsæ loforð, sem þeir redda síðan með gengisfellingu og verðbólguskoti.

Þetta kerfi Íslensku valdastéttarinnar tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Hann er réttindalaus. Hér á landi eru hagsmunir fárra í fyrirrúmi, en um leið eru þar eru ákvörðuð þau kjör sem mögulegt af að bjóða íslenskum heimilum upp á, þessu verður að breyta eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn bendir á í nýrri skýrslu.

AGS leggur til að þjóðir heims tækli skuldakreppuna með því að hækka skatta á fyrirtæki og þá ríku. Í skýrslunni segir að skattar á hæstu tekjuhópanna hafa lækkað mikið síðan á níunda áratugnum. Verði skattarnir færðir í sama horf og þá, geti þróuð ríki aukið tekjur sínar sem nemur 0,25 prósent af landsframleiðslu.

Forréttindi hátekjufólks hafa einungis skilað auknum ójöfnuði til samfélagsins. Það voru þeir sköpuðu bóluhagkerfið og meðfylgjandi kreppu með skuldsettu braski sínu og tókst að gera stórkostlega eignaupptöku hjá almenning sem þeir hafa síðan falið í skattaskjólum.

Engin ummæli: