Í stjórnmálasögu Íslands birtist
sá veruleiki að lýðnum á Íslandi er stjórnað með blekkingum í gegnum handstýrða
flokksfjölmiðla. Við sjáum endurtekið til hvaða bragða valdastéttin grípur
bregði starfsfólk RÚV út af þeirri línu.
T.d. gagnrýni á nýja skemmtiþáttinn
um „hið svokallaða Hrun“ á messutíma í Sjónvarpinu eða viðbrögðum við
efnistökum Spegilsins í RÚV. Svo maður tali nú ekki um óþægilegum og jákvæðum fréttflutning
af velgengni nágrannalanda okkar innan ESB. Það er úthrópað sem purkunarlaus
áróður vinstri aflanna, "sem elska latté og reiðhjól, en hata bíla og Bandaríkin." Við viljum ekki eiga samskipti við nágrannalönd okkar, frekar gera samninga við Kína, þar sem réttindi fólks eru fótum troðin og laun keyrð niður, segir núverandi utanríkisráðherra.
Samtrygging fjögurra
stærstu flokkana gengur út á að moka arði náttúruauðlinda upp á „sérhagsmunadiskinn“
sinn á kostnað almennings. Það er ekki á nokkurn hátt hægt að útskýra með
öðrum hætti stöðu hinnar íslensku þjóðar. Þjóðar sem á verðmætustu
auðlindir heims per. íbúa, fisk, orku, hreint vatn, víðerni og náttúru. Hvað annað
veldur því að almenningur þessarar þjóðar nýtur þessa ekki í meira mæli?
Það er fjármálaaflið sem
hefur náð undirtökunum í hinum vestræna heimi og ekki síst hér á landi. Valdastéttin
verður sífellt ríkari og hún fyllti kosningasjóði Framsóknarflokks og
Sjálfstæðisflokks og vitanlega var þeirra fyrstu verk að loknum kosningum, að
fella niður skatta á þá ríkustu og afnema það afgjald sem greiða átti fyrir
notkun auðlynda samfélagsins. Þar var myndað svigrúm til þess að greiða það í
formi arðs upp á tugi milljarða í vasa örfárra einstaklinga.
Þetta kallar vitanlega á að
skerða verður enn meira í velferðarkerfinu og leggja enn meiri sérskatta á þá
sem þurfa að nota velferðarkerfið. Þarna fer fram í gegnum skattkerfin stórfelld
endurúthlutun auðs frá lýðnum til hinna auðugu.
Þessi eignaupptaka birtist
okkur einnig í ábyrgð ríkisins á fjárhættuspili fjármálaaflsins. Þar ráða greiningarhúsin og
spár þeirra leiða til hamslausrar keppni. Allir vilja kaupa bréf sem
greiningarhúsin spá velgengni. Þar eru sömu menn að störfum í dag og áður, þó
svo að þeir hafi orðið uppvísir um að allt sem þeir greindu og spáðu reyndist
rangt.
Almannahagsmunir víkja
fyrir hagsmunum fjármagnseigenda því þjóðirnar keppa í lækkun skatta vegna
fyrirtækjanna. Það getur ekki leitt til annars en lakari skóla, veikari
heilbrigðisþjónustu og skuldsettari þjóða. Lýðræði er hægt og bítandi á undanhaldi.
Valdastéttin
hér á landi er þessa dagana að undirbúa brennslu á sparnaði launamanna í
lífeyrissjóðunum með því að ætla sér að setja „handbremsu“ á fjárfestingar
lífeyrissjóðanna erlendis. Sem er reyndar eina leiðin til þess að tryggja eðlilega
ávöxtun og koma í veg fyrir bólumyndun í íslenska hagkerfinu.
En
hagsmunir lýðsins, aldraðra og öryrkja skipta hér engu, valdastéttin hefur náð
undirtökum og hún ætlar sér að mynda þarna svigrúm svo hún nái að koma undan
eignum sínum, áður en næsta hrun verður.
Þeir
flokkar sem kosnir voru til valda í vor útiloka kerfisbreytingar í
peningamálum, það jafngildir að loforð um afnám reglulegra gengisfellinga,
ofurvaxta og verðtryggingar verður í raun framkvæmt í formi nafnbreytingar á
því ástandi sem hér ríkir og ætlunin er að það muni ríkja um fyrirsjáanlega
framtíð.
Og
hinum íslenska lýð verður boðið upp á launahækkanir sem verða afnumdar
jafnharðan með gengisfellingum. „Krónan er svo dásamlegt tæki, því þá er hægt
blóðsúthellingalaust að lagfæra of góða kjarasamninga verkalýðsins.“ Segir
málsvari Eimreiðarhópsins brosandi sigri hrósandi yfir koníakinu og kaffinu.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli