þriðjudagur, 1. október 2013

Verður Ólátagarður settur í dag?


Alþingi verður sett í dag. Nú eru komnir í ráðherrastólanna það fólk sem átti hvað mestan þátt í því að draga niður álit almennings á störfum Alþingis niður í eins stafs tölu.
 
Málflutningur þessa einstaklinga sem sitja í ráðherrastólunum í dag og eru í forsæti helstu nefnda Alþingis var með þeim hætti að annað eins hafði aldrei heyrst áður í sölum Alþingis og líktust helst málflutning í Ólátagarði.

Kosningabarátta þessa fólks einkenndist af gildishlöðnum yfirlýsingum og loforðum um að það myndi ekki taka langan tíma að lækka skatta, færa niður skuldir heimilanna, afnema gengishöft, koma lagi á gjaldmiðilinn og afnema gengishöft og verðtryggingu lána, hækka skerðingarmörk bóta og hækka þar með örorku- og lífeyrisbætur. Auka greiðslur til heilbrigðiskerfisins og lagafæra menntakerfið og síðast en ekki síst taka upp góð samskipti við aðila atvinnulífsins og vinna með þeim að koma því í gang og auka erlenda fjárfestingar og þá um leið að auka hagvöxtinn hér á landi.

Yfirlýsingar ráðherranna í sumar hafa fært okkur heim sanninn um að sumir þeirra eru allfjarri því að hafa gert sér grein fyrir því hvernig íslensk samfélag virkar og þaðan af síður hvernig hagkerfið virkar. 
 
Á morgun verða fjárlög kynnt og þá kemur í ljós hvort núverandi ráðherrar ætla sér að standa við loforð kosningabaráttunnar og framkvæma þær „einföldu“ lagfæringar sem þeir lýst með svo fjálgum hætti í ræðustól Alþingis síðustu tvö kjörtímabil.

Forsætisráðherra upplýsti okkur fyrir nokkur að hann vildi ekki hafa samskipti við erlendar stofnanir, þær væru einungis ómerkilega skammstafanir, hann lýsti því yfir að hann hefði ekkert við þessa þrjá einstaklinga sem nefnast samtök atvinnulífsins að tala.
 
Hann lýsti því yfir að að erlend fjárfesting sé sama og erlend lántaka, því ætli hann að nota einungis innlenda fjárfestingu.

Áhrif erlendra fjárfestinga hafa verið rannsakaðar ítarlega og eru niðurstöður á þann veg að hún hafi jákvæð áhrif á efnahagsþróun. Erlend fjárfesting skilar löndum meiri hagvexti en innlend fjárfesting.

Við munum tilkynningu um fyrir varalaust afnám Náttúruverndarlaga, þar sem ekkert var gert með fyrri samþykktir Alþingis. Ný ríkisstjórn rúllaði svo í gegnum Alþingi á örtíma frumvarpi þar sem Hagstofunni varfalið að safna ógrynni af fjárhagslegum upplýsingum um fjárhag einstaklinga og fyrirtækja til notkunar varðandi útreikninga skuldamála heimilanna þrátt fyrir að Persónuvernd hefði gert alvarlegar athugasemdir við lögin og taldi að þau gætu brotið í bága við stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Annað var nú upp á teningum nýju ráðherranna þegar þeir lækkuðu veiðileyfagjöldin um tugi milljarða á þeim fyrirtækjum sem settu 10 millj. kr. í kosningasjóði xD og xB. Þá var því borið við að lögin væru óframkvæmanleg þar sem Hagstofan gæti ekki fengið lögboðnar upplýsingar um nokkur fyrirtæki í sjárvarútvegi til útreikninga veiðigjalds frá annarri ríkisstofnun.

Einnig eru minnisstæð ummæli nýrra ráðherra um Rannsóknarskýrslu Alþingis og ekki síður um nýja stjórnarskrá fólksins í landinu og meðferð þeirra á afgerandi niðurstöðu í þjóðaratkvæðagreiðslu um það mál.

Mun núverandi ráðherrum takast að viðhalda þeirri sýn sem þeim tókst að skapa í hugum almennings að störf Alþingis jafngildi hugtakinu „Ólátagarði“ eða reka af sér slyðruorðið og taka upp fagleg vinnubrögð?

Engin ummæli: