sunnudagur, 6. október 2013

Jeppi, barónninn og við


Sá í gærkvöldi leikritið um Jeppa og baróninn. Uppsetning Benedikts er einfaldlega brilljant. Sviðið, tónlistin, textar Megasar, einfaldlega allt smellur saman í eina frábæra sýningu. Unaðslega en um leið hrollkalda kvöldstund, þar sem dregin er upp mynd af því samfélagi sem við áhorfendur höfum búið okkur.

Verkið sjálft, þó það sé 300 ára gamalt, fjallar um veruleika okkar íslendinga í dag. Jeppi vesæll bóndadurgur er þræll og leiguliði Barónsins, sem er mynd ríkisvaldsins og valdastéttarinnar. Á einni kvöldstund fáum við ásamt Jeppa alhliða kennslu um stöðu okkar og afstöðu valdastéttarinnar.


Benedikt tekst með einu risastóru hjóli að draga upp einfalda og um leið samfærandi mynd af veröld íslenskra launamanna. Það er sama í hvora áttina við göngum, við erum alltaf á sama stað. Baróninn og hirð hans hafa skapað samfélag þar sem það er sama í hvorn fótinn Jeppi stendur,  í hálaunaðri velferðaraðalsins eða í þrautpíndum láglaunaheiminum, valdastéttin heldur sínu, staða hennar breytist ekkert.

Einn sólarhring ævi sinnar nýtur Jeppi þeirrar náðar að frelsast úr viðjum og fá að upplifa meiri paradís en orð fá lýst. Jeppi gerist aldeilis húsbóndi á sínu heimili, skipandi þjónum sínum fyrir, svolgrar í sig vínin úr þeim 2.600 flöskum sem standa á sviðinu og með guðsgöflunum rífur hann í sig matinn. Jeppi samsamar sig á svipstundu valdastéttinni sviptir þjónana launum og hóta þeim hengingu þegar þeir hafa ekki undan að bera í hann bjargirnar. Við sjáum þarna á sviðinu þá umhverfingu sem orðið hefur á þingmönnum síðasta kjörtímabils og belgja sig nú út í ráðherrastólunum í dag.

Ísland í dag. Sýning sem þú verður einfaldlega að sjá lesandi góður.

Engin ummæli: