sunnudagur, 27. október 2013

Sigmundur Davíð líttu þér nær


Á Sprengisandi í morgun lýsti Sigmundur Davíð sjálfum sér afskaplega vel, og hann heldur því blákalt fram að það sé við aðra að sakast en þingmenn Framsóknar á hvaða lágkúruplani stjórnmálaumræðan er.

Hér er Sigmundur Davíð enn einu sinni að spinna, það var einmitt hann sem fór fyrir samflokksmönnum sínum í stjórnarandstöðunni allt síðast kjörtímabil og dró umræðuna niður á áður óþekktplan. Núverandi stjórnarandstaða hefur ekki beitt sama málþófi og bellibrögðum sem Sigmundur Davíð notaði og hún hefur lýst því yfir að það standi ekki til að fara niður í sömu forina og Sigmundur Davíð hélt sér í og hún hefur staðið við það.

Það hefur ekkert verið gert fyrir heimilin og hvar er skjaldborgin? Hrópuðu þingmenn stjórnarandstöðunnar. Það hefur margoft verið gert en það er ekki til meira svigrúm var svar þáverandi stjórnarþingmanna. Það er ekki rétt, svaraði þingflokkur Framsóknar og kynnti aðferð til þess að búa til nýtt svigrúm, sem reyndar margir skyldu ekki.

Sigmundur Davíð fór síðan fyrir sínum flokk í gegnum kosningabaráttu þar sem beitt var sömu brögðum og í ræðupúlti Alþingis með loforðum um patentlausnir, klisjum og spuna, og hann vannkosningarnar og komst í það stöðu sem hann fór fram á að geta framkvæmt kosningaloforðin, en þar mætir hann ókleifum vegg sem hann reyndar reisti sjálfur með hjálp samflokkssystkina sinna og þá hrynur fylgið vitanlega, xB er búið að glata 40% og stefnir í að fylgishrunið verði enn meira.

En það er ekki endilega sakir þess að hann hafi ekki staðið við loforðin, eins sumir halda fram, það er að mínu mati ekki síður sú hrokafulla framkoma sem þau hafa tamið sér,  þótti og veruleikafirrtur spuni. Og svo maður tali nú ekki um þegar þau vilja ekki kannast við það sem þau hafa áður sagt. Það er nefnilega svo auðvelt nú á tímum netheima að fletta upp í fjölmiðlum og gögnum Alþingis.

Það er einfaldlega útilokað að festa hendur á því hvað Sigmundur Davíð á við þegar hann talar þessa dagana, eitt í dag annað á morgun t.d. um „svigrúmið.“ Hann skall allharkalega til jarðar með "paranojugrein" sinni í Mogganum í sumar um stanslausar loftárásir á sig??!!

Eða þegar hann sagði á Alþingi fyrir rúmum mánuði síðan; "Í undirbúningi eru róttækustu aðgerðir stjórnvalda nokkurs staðar í veröldinni í þágu skuldsettra heimila."


Það er vart hægt að komast á hærra hástig í lýsingum en hér.

Einnig er ástæða til þess að benda á kafla í ræðu hans um samskiptin við atvinnulífið. Hvar eru þau stödd í þeim málum? Það vitum við öll bilið milli atvinnulífs og ríkisstjórnar virðist hafa breikkað. Sigmundur Davíð segist ekki tala við einhverja þrjá einstaklinga??!!
 
En nú fullyrðir Sigmundur Davíð; „Stjórnarandastaðan hefur reynt að auka enn á væntingar til nýju ríkisstjórnarinnar og meir að segja gengið svo langt að byrja eð endurskilgreina það sem við höfum sagt í skuldamálum.“ Það er nefnilega það, ég sé ekki að það hafi verið mögulegt að yfirbjóða hans eigin loforð.“

„Svigrúmið“ varð nefnilega til í kosningabaráttu Sigmundar Davíðs og þá var það svo skýrt. „Svigrúmið“ var svo afmarkað að það var auðvelt að framkvæma það „strax“ ásamt 12 milljarða innspýtingu í Landspítalann og það var einmitt á þeim forsemdum sem Sigmundur Davíð bar þungar sakir á Steingrím og Jóhönnu fyrir að hafa ekki gripið til þessara skuldaleiðréttinga strax á síðasta kjörtímabili.


En nú er það orðið eitthvað óskýrt og Sigmundur Davíð tafsar og reynir að klóra í bakkann með því að bera sakir á annað fólk. Hann segir nú að það sé svo ómálefnalegt að ætlast sé til þess að kjósendur hafi tekið mark á því sem hann sagði í kosningabaráttunni. Það jafnist á við að gera honum upp skoðanir og svo maður tali nú um að einhverjir vilji rukka hann um skýr svör við einhverju sem hann segist aldrei hafa sagt.


Sigmundur Davíð lofaði því að ef hann fengi stuðning og kæmist til valda þá yrði „svigrúmið“ nýtt til að færa niður skuldir tæplega helmings heimila í landinu? Er þetta „svigrúm“ til? Eða var það semsagt rétt sem Steingrímur sagði að hann hefði gengið eins langt og svigrúm ríkissjóðs heimilaði?

Ætlar núverandi fjármálaráðherra að búa til „svigrúm“ Sigmundar Davíðs með seðlaprentun upp á 300 MIA og 50% verðbólgu og meðfylgjandi vaxtahækkunum og nýrri stökkbreytingu lána?

Á að nota "svigrúmið" ef það finnst til annarra hluta?

Er „svigrúmið“ ekki nægjanlegt til þess að færa einnig niður skuldirnar? Geta skuldug heimili ekki reiknað út niðurfellingarnar út frá því sem sagt er í stjórnarsáttmálanum eins og Sigmundur Davíð fullyrti svo oft fyrri hluta þessa árs?

Sigmundur Davíð virðist óttast kröfuharða stjórnmálaumræða, en opin hreinskiptin umræða er undirstaða lýðræðisins. Samstarfsnefndir með ýmsum aðilum í samfélaginu eru Alþingi nauðsynlegar, en þær virðist Sigmundur Davíð óttast og vill leggja niður þær nefndir sem hann telur að muni þvælast fyrir honum og þeim spuna sem hann hefur reist sína veröld á.

„Líttu þér nær“ Sigmundur Davíð, „Maður líttu þér nær“

Það væri stórt skref í íslenskri stjórnmálaumræðu ef Sigmundur Davíð færi fyrir sínum ráðherrum og skipti yfir í málefnalega umræðu á Alþingi og tæki upp rökræðu við aðila vinnumarkaðsins, ekki bara á sínum eigin forsendum.

Það væri stórt skref ef Sigmundur Davíð tæki upp á því að tala með þeim hætti að samfélagið skilji hvert hann er fara og láti af þeim ásökunum sem hann ber á alla um að hann sé misskilinn. Hann einn getur lagað það.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þegar forsætisráðherra lýsir því yfir að lýðræðið sé í hættu vegna hreinnar og beinnar stjórnmálaumræðu almennings, ef til vill í fyrsta skipti á Íslandi, þá veit maður að lýðræðið er í hættu en það vegna allt annarra ástæðna en venjulegrar umræðu almennings.

Nú, sem aldrei fyrr, mega Íslendingar ekki láta glepjast af hinum sígildu frösum og smjörklípum sem hafa mótað okkar þjóðfélag alltof lengi. Nú verður hinn venjulegi Íslendingur að líta undir yfirborðið til að sjá hvað er á seyði í þjóðfélaginu.

Orð íslenskra stjórnmálamanna verða öfgakenndari með hverri vikunni. Það er merki um stórhættu.

Þetta eru afar spennuþrungnir tímar sem við lifum hér á klakanum góða.