Vegna athugasemda og villandi greina Benedikts Jóhannessonar ætla ég að bæta aðeins við um þetta mál, en vísa einnig til fyrri pistla minna.
Þeir sem hafa stutt þetta mál fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins hafa sett upp einfalt reikningsdæmi og fengið út úr því að það skipti lífeyrisþega engu hvort þeir greiði skatt strax eða þegar lífeyri sé tekinn út og miða þar við að 3.5% ávöxtun náist í 40 ár allan tímann.
Þetta dæmi er einfaldað, hvort það sé gert vísvitandi eða hvort viðkomandi þekki ekki skattkerfið skal ósagt látið. Það blasir þó við þeim sem þekkja til í skattamálum að inn í málið blandast persónuafsláttur og fjölmörg önnur flókin mál. Þetta ættu nú þingmenn að þekkja út og inn vegna þess að það eru þeir sem sjá um skattamálin.
Hið rétta er að ef skattfrelsismörk miðast við sömu laun og skattfrelsismörk eins og þau eru nú, gætu greiðslur til lífeyrisþegar (eftir skatt) lækkað um allt að 15%. Til að halda greiðslum til lífeyrisþega óbreyttum þyrftu skattfrelsismörk iðagjalda að miðast við töluvert hærri laun, þar sem lífeyrisgreiðslur eru yfirleitt um 50-60% af þeim launagreiðslum sem iðgjöld hafa verið greidd af, miðað við 40 ára inngreiðslutíma. Stór hluti lífeyrisþega er undir skattfrelsismörkum í núverandi kerfi. Þetta þýðir í framkvæmd að ríkið þarf að greiða sjóðfélaga út þann ónýtta persónuaflsátt sem hann hefði annars nýtt hefði skattur verið dreginn af lífeyrisgreiðslum við útgreiðslu.
Einnig blasir við að ef fara á þessa leið verður að loka núverandi kerfi. Það gæti leitt til þess að skerða þyfti réttindi sjóðsfélaga um allt að 25% í sumum sjóðum, sem er ekkert smá mál þegar það fellur ekki jafnt á alla hópa. Með þessu vex mismunum milli þeirra sem eru í ríkistryggðu sjóðunum sem flutningsmenn tillögunnar eru í og svo þeim sem eru í almennu sjóðunum, er þó sú mismunum ærinn fyrir.
Það blasir líka við að ráðstöfunartekjur lífeyrissjóða munu minnka. Þeir verða því ekki jafnvel í stakk búnir að fjármagna nýsköpun í atvinnulífinu, mæta fjárþörf ríkis og sveitarfélaga sem og að taka þátt í endurreisn fjármálamarkaða þegar fram líða stundir.
Meginreglan um skattlagningu til lífeyrisþega innan ESB er að engin skattur á iðgjöld og fjármagnstekjur en lífeyrir skattskyldur. Framkvæmdastjórn ESB hefur mælt eindregið með að sú leið verði almennt viðhöfð í aðildarríkjunum og hefur sett fram þá skoðun með ítarlegum rökstuðning í svokölluðum „Communication paper“ (COM-2001-214). Meginkostur varðandi samræmingu beitingu er sú að hún auðveldar flutning launamanna milli landa innan EES-svæðisins, þar sem hún kemur í veg fyrir tvískattlagningu lífeyrisgreiðslna eða að lífeyrir sé greiddur úr óskattaður.
Megineinkenni og styrkur núverandi lífeyrissjóðakerfis er að hver kynslóð stendur undir sínum lífeyri með sparnaði en veltir ekki kostnaðinum yfir á næstu kynslóðir eins og flestar þjóðir gera.
Lífeyriskerfi sem byggir á sjóðssöfnun mun ef það fær að búa við viðunandi starfsskilyrði leiða til samkeppnishæfara atvinnulífs í framtíðinni og þarm eð betri lífskjara. Það byggir m.a. á því að íslensk fyrirtæki muni ekki þurfa að afla verðmæta til að standa undir tröllvöxnum kostnaði vegna stóraukinnar lífeyrisbyrði sem mun óhjákvæmilega fylgja öldrun þjóða á Vesturlöndum.
4 ummæli:
Líklegast er þjóðnýting lífeyrissjóðanna mun betri kostur. Þá gæti verkalýðshreyfingin líka farið að koma sér aftur í hagsmunabaráttu fyrir vinnandi fólk í stað þess að vera alltaf að verja fjármagnsvaldið.
Þessi rakalausa fullyrðing er að verða dáldið mikið þreytt. Engin rök bara kallað upp í vindinn síendurteknum fullyrðingum.
Þessar fullyrðingar eru greinilega hafðar upp eftir fólki sem aldrei hefur komið inn á skrifstofur verkalýðsfélaga og aldrei komið á félagsfundi, aldrei kynnt sér hvað starfsfólk verkalýðsfélaganna er að gera.
Svona rakalaus fullyrðing sem á svo greiða leið t.d. í Silfur Egils og á síður bókahöfunda sem telja sig þess umkomna að skilgreina þjóðfélagið og skrifa sögu þess.
Það er hagsmunarárekstur fólginn í því að þeir sem eigi að leiða baráttu fyrir kjörum hins vinnandi fólks séu gefin laun á við yfirstéttina og settir inn í stjórn stórfyrirtækja.
Hagsmunir verkalýðstoppsins hefur verið skipulagt tengdur við hagsmuni fjármálavaldsins og á sama tíma hefur dregið verulega úr átökum á vinnumarkaði og samkurl atvinnurekenda og verkalýðsforustunnar aukist. Virknin í verkalýðsfélögunum hefur minkað verulega og hefur verið gert lítið í þeim til að halda félögunum virkum enda á forustan litla hagsmuni undir virkni félaganna og mun meira undir góðum tengslum við atvinnurekendur.
Á sama tíma hefur misskiptingin í samfélaginu stóraukist og hátekjuhóparnir sem forustumenn í verkalýðshreyfingunni voru orðnir hluti af ruku upp í tekjum og eignum meðan að tekjur lág og meðaltekjuhópanna sátu eftir og skuldir þeirra stórjukust og eru nú komnir upp fyrir greiðslugetu þessarra hópa.
Staðan í dag er að venjulegu vinnandi fólki finnst himinn og haf milli sín og verkalýðsfélagsins síns. Grafið hefur verið undan jafningjagrundvellinum sem verkalýðshreyfingin bygðist á og er þau farin frá að vera baráttusamtök sem fólk bar ábyrgð á og var hluti af yfir í að vera þjónustusamtök sem selur félögum sínum ákveðinn þjónustupakka.
Það er ekki tilfelli að baráttan sem spratt upp í kjölfar bankahrunsins er snérist t.d að heimilislánamálum fann sér engan flöt til að vinna að þeim mikilvægu kjaramálum launafólks inna verkalýðshreyfingarinnar. Þar snérist verkalýðsforustan nánast einróma til varnar fjármálakerfinu og skipaði sér í lið með því gegn heimilunum í landinu.
Ef forusta verkalýðshreyfingarinnar hefði ekki verið svona tengd fjármálakerfinu er ég viss um að hún hefði verið í fararbroddi baráttunnar sem nú fer um allt þjóðfélagið en í staðin stendur hún annað hvort á hliðarlínunni eða tekur stöðu með fjármálavaldinu.
Héðinn er með hverja alhæfinguna á fætur annarri.
Hvaða verkalýðsforingjar eru í stjórnum stórfyrirtækja? Einn var þar, sá er ekki lengur formaður.
Sami var var með ofurlaun?
Eru það einhverjir aðrir? Ég veit ekki til þess. Héðinn mætti gjarnan leiðrétta mig þá. T.d. er um 23% félagsmanna í Rafiðnaðarsambandinu með hærri laun en ég.
Héðinn segir að á sama tíma og miskipting hafi aukist hafi verkalýðsforystan verið hluti af yfirstéttinni. Hverjir eru það og á hvaða kjörum eru þessir einstaklingar? Ég þekki persónulega formenn allra stærstu verkalýðsfélaganna og veit að þetta á ekki við þá, það eru þá einhverjir aðrir. Verkalýðsformenn eru um 80 innan ASÍ ég er ekki klár á hvernig það er í félögunum
opinberra starfsmanna. Á Héðinn við þá?
Er Héðinn enn einu sinni að alhæfa út frá stöðu eins og hins sama einstaklings?
Það væri fróðlegt að sjá hvað Héðinn eigi við um að verkalýðsforystan hafa tekið stöðu með fjármálayfirvaldinu og snúist gegn heimilunum og færi rök fyrir því. Á Héðinn við að það voru allmargir sem lögðust gegn því að lífeyrissjóðir væri teknir af eigendum þeirra, sjóðsfélögum og núyttir til þess að greiða upp skuldir annarra. Það voru mjög margir félagsmenn RSÍ sem komu á fundi innan sambandsins og kröfðust þess að tekinn yrði staða gegn þessu.
Hér er enn ein rakalausa alhæfingin, dylgja sem sumir hamra endurtekið á og eru farnir að trúa.
Ég hef verið í formennsku Rafiðnaðarsambandsins frá 1993 þá voru félagsmenn 1.700 í dag eru þeir liðlega 6.000 og hefur fjölgað jafnt stígandi og ef eitthvað meir undanfarin ár, og umfram fjölgun á vinnumarkaði.
Skrifa ummæli