þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Hvert liggur leið okkar?


Sl iceland sýningin í Bjargtangavita í sumar

Í þeirri kreppu sem hefur skollið yfir okkur velta örugglega margir því fyrir sér hvort við þurfum að afsegja kapítalismanum og hverfa tilbaka. Taka upp kommúnisma, marxisma eða þjóðernishyggju. Það hagkerfi sem hefur verið ráðandi undanfarin ár sé aldeilis ómögulegt. Við blasi sviðin jörð kapítalisma og frjálsra markaða.

Við eigum að nýta þetta og það geta verið spennandi tímar á næstunni. Þar sem tekist verður á um grundvallarspurningar um sátt fjármagns og framleiðni hinnar vinnandi handar. Viðhorfsbreytingar gagnvart neyslu og umhverfi okkar, inn í það mun næsta örugglega spila aukin umhverfisvitund og viðhorf til loftslagsbreytinga. Það verður að nást sátt í samfélaginu um skiptingu lífsgæða. Finna leiðir til stöðugleika og aukins kaupmáttar og koma böndum á ofsafengna auð- og neysluhyggju.

Þjóðfélög heimsins hafa áður glímt við svipaða stöðu og niðurstöðurnar breyttu heiminum. Það sama mun gerast í kjölfar yfirstandandi kreppu, en það getur brugðið til beggja átta hvert haldið verður. Aukna einagrun eða aukin samvinna þjóða. Umræða undanfarinn misseri um samskipti og samstarf við aðrar þjóðir vekur upp efasemdir um viðhorf íslendinga á þessu sviði. Á sama tíma og Evrópuþjóðir eru að bindast auknum samtökum og uppbyggingu viðskiptasvæðis til þess að tryggja atvinnuuppbyggingu og samkeppnishæfni við aðra heimshluta, eru áberandi viðhorf hér á landi sem miða að frekari einangrun Íslands, þá sérstaklega þeirra sem eru yst til hægri eða vinstri.

Hvort eigum við að láta þröngsýn pólitísk markmið hér innanlands sníða okkur stakk eða fara sömu leið og nágrannaríki okkar um samstarf og frelsi til þess að komast inn á sameiginlegan markað. Sjálfbærni næst með því að auka framboð samfara að böndum er komið á neysluhyggju. Nýsköpun og hröð tækniþróun er forsenda sjálfbærni, þar hefur orðið mesta fjölgun atvinnutækifæra undanfarin ár. Til þess þarf opið samfélag, ekki einangrun.

Samstarf innan Evrópu hefur spornað gegn því að stóru löndin verði enn stærri og hin litlu ósjálfbjarga. Kapítalisminn á að vera verkfæri, ekki hugmyndafræðilegt markmið eins og hann hefur orðið í höndum frjálshyggjunnar og leitt til ofsafenginnar auð- og neysluhyggju.

Kreppan á áttunda áratugi leiddi til þess að EES var stofnað til þess að standast samkeppni frá Asíu. Margt í stjórnmálaumræðu ungs fólks í dag minnir um margt það sem 68 kynslóðin hélt fram. Það var ekki einangrun það voru hnattræn sjónarmið. Umræður þessa dagana ber merki reiði og óuppgerðra hluta sem kalla á hert eftirlit og strangari lög sér staklega um fjármálamarkað og hegðan stjórnenda þeirra.

En sem betur fer farið að bera á kröfum um viðhorfsbreytingar og endurbætur á mikilsverðum þáttum þjóðskipulagsins.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guðmundur,hvernig er það með lífeyrissjóðina okkar ? Er það satt sem sagt er að búið sé að brenna upp ellilífeyri landsmanna heimskulegu gróðabraski og sukki.
Og ef svo er væri þá ekki heiðalegast af þeim sem var treyst fyrir þeim að stíga fram og viðurkenna það fyrir eigendunum.

Guðmundur sagði...

Á forsíðu stendur að athugasemdir séu velkomnar svo framarlega að þær snerti efni viðkomandi pistils.
Þessi aths. ætti reyndar heima við pistla sem voru hér fyrir nokkru. En varla þennan.

Það er erfitt að alhæfa um lífeyrissjóðina, þeir standa ákaflega misjafnlega, eins og margoft hefur komið fram.

Þeir eiga mismiklar eignir erlendis. Sumir eiga þar töluvert og þær eignir hafa verið að vaxa mjög hratt undanfarið eins og kom fram í fréttum í síðustu viku.

Einnig eru eignir þeirra í ríkisstryggðum skuldabréfum mismiklar, en hjá sumum er það töluvert.

Spurningin snýst um nokkur af þeim félögum sem útrásarvíkingarnir settu upp, með aðstoð bankanna að því virðist.

Þeim var breytt í fjárfestingarfélög og skuldapíramída án þess að Fjármálaeftirlit eða Seðlabanki stæðu sína plikt.

Þar var verið að blekkja allmarga einstaklinga sem keyptu skuldabréf og hlutabréf tengt þessum félögum.
Þetta hefur verið gagnrýnt harkalega hér í pistlum hvernig ríkjandi stjórnvöld stóðu ekki vaktina sem leiddi til þess að sumir lífeyrissjóðir og allmargir einstaklingar hafa tapað fjármunum, hversu miklum er ekki komið fram ennþá og verður ekki ljóst fyrr en skilanefndir eru búnar að ganga frá málum og niðurstaða væntanlegra réttarhalda fæst.

En eins og margoft hefur komið fram á eru í lífeyrissjóðunum gríðarlegar eignir og eru mikið rætt um að það fjármagn geti verið það haldreypi sem gæti komið þessu þjóðfélagi í gang.

Spurningin er hvenær efnhags- og atvinnulífinu verður komið í gang og hægt verður að láta þetta fjármagn vinna í stað þess að safnast upp á bankareikningum.

En því miður verður það aðsegjast eins og það er, fréttaflutningur nokkurra af lífeyrsisjóðum er alveg ótrúlega ómerkilegur og byggður á þekkingarskorti, en mikilli þörf á innistæðulasum upphrópunum.

Nafnlaus sagði...

Ég skil þennan pistil Guðmundar þannig að hann vilji fitja upp á vitrænni umræðu um hvernig við ætlum að takast á við framtíðina, þannig að við getum boðið börnum okkar upp á betra samfélag en það, sem hér hefur verið til þessa. Margur maðurinn hefur tekið þá afstöðu, vegna þess hvernig til hefur tekist hjá okkur undanfarið, að setja megi samasemmerki milli allrar stjórnmálaþátttöku annars vegar og spillingar og mútuþægni hins vegar. Það þykir mér nokkuð ódýr afstaða, þótt hún sé að sumu leyti skiljanleg. Ef við ætlum að hafa lýðræði, þar sem öll nálgun að samfélagsmálefnum sé jafn gild, úr hvaða átt sem hún kemur, verðum við með stjórnmál og stjórnmálaþátttöku. Það er óhjákvæmilegur þáttur lýðræðisins að fólk skipi sér saman í hópa, flokka, sem hafa svipaðar skoðanir á því hvernig skuli ráða fram úr hinum samfélagslegu viðfangsefnum. Ef við teljum hinsvegar lýðræðið ónýtt form eru þeir kostir, sem eru til staðar annað tveggja algjört stjórnleysi, anarchy, sem sumir aðhyllast reyndar, ellegar einræði, monarchy, þar sem einn eða fáir hafa öll ráð í hendi sér og eru ekki háðir neinu kjörnu yfirvaldi, þingi, og það er kannski það, sem sumir vilja?