miðvikudagur, 30. júní 2010

Efnahagslegt fullveldi

Íslendingar náðu fullveldi sínu 1. des. 1918 og hafa stoltir haldið því síðan, þar til ríkisstjórnir sjálfstæðismanna snéru sér lengra til hægri og slepptu fjárglæframönnum lausum á þjóðina með því að taka eftirlitskerfið nánast úr sambandi. Efnahags- og peningastefna sem þeir mótuðu hefur leiddi til þess að íslendingar nær glötuðu efnahagslegu fullveldi.

53% af viðskiptum Íslands fara fram í Evrum, þannig að liðlega helmingur gengisáhættu íslendinga hverfur við upptöku evru. Norska krónan er með 4% af viðskiptum okkar dollarinn 11% og Kanadadollar 1%. Ég minni á þetta því þetta voru tillögur óábyrgra manna sem stungu upp á þessum myntum til þess eins að drepa vitrænni umræðu á dreif. Manna sem voru þá stjórnarþingmenn, sem með þessum tillögum upplýstu okkur um hversu óábyrgir og spilltir þeir voru.

Innganga í ESB og upptaka evru er ekki skyndilausn eins og sjálfstæðismenn hafa haldið fram, engir aðrir hafa rætt um að evran sé skyndilausn. Hún er nauðsynleg framtíðarlausn ef við ætlum að losna við óábyrga efnahagsstjórn, þar sem mistök íslenskra stjórnmálamanna hafa endurtekið verið leiðrétt með því að sveifla krónunni. Sem hefur kallað yfir 0kkur verðbólgu, hærri vexti og hærra verðlag.

Árið 1951 stofnuðu Belgía, Frakkland, Ítalía, Lúxemborg og Þýskaland til samvinnu í þungaiðnaði sem gekk mun lengra en gengur og gerist í milliríkjasamningum. Það var undanfari ESB. Þá var verið að undirbyggja framtíð og komast úr vítahring styrjalda og tryggja frið. Þetta samstarf þróast og þann 1. jan. 2002 var Evran tekin í notkun. Hvatinn henni var að tryggja efnahagslegt mótvægi við BNA og tryggja samkeppnistöðu og auka með því atvinnu.

Þetta hefur heppnast mun betur en nokkur gerði ráð fyrir og er Evran orðin ein af megingjaldmiðlum heimsins. Ítalir eru ekki í ESB til þess að fá evru, þeir gerðu það til þess að tryggja frið, bæta atvinnuástand og ekki síður til þess að losna undan fáránleika, lýðskrum og spillingu sinna stjórnmálamanna. Hjá okkur gildir hvort tveggja ástæðan, en þó fyrst og síðast að ná efnahagslegu fullveldi.

Ef við skiptum um mynt mun áhættuálag Íslands lækka töluvert. Það munar gríðarlega um hvert prósentustig í vöxtum eins og komið er fyrir Íslandi með hinar svimandi háu skuldir. Hvert prósentustig lækkar vaxtagreiðslur íslenska hagkerfisins um nokkra milljarða.

Íslenska krónan er við hlið evrunnar eins og korktappi við hlið skips af stærstu gerð. Eins og komið hefur fram spiluðu margir á örgjaldmiðilinn okkar og framkölluðu miklar sveiflur og högnuðust mikið á því á meðan venjulegar fjölskyldur bjuggu við hækkandi verðbólgu og vexti vegna þessa ástands.

Sveiflur krónunnar hafa leitt til þess að sparnaður og aðgát í fjármálum er íslendingum ekki eðlislægt eins og komið hefur fram í könnunum. Fjármálalæsi íslendinga er ákaflega lágt, borið saman við nágrannaþjóðir okkar. Það mun reynast vonlaust að laga það á meðan við búum við örgjaldmiðil.

Danmörk er að greiða 1 – 1,5% hærri vexti fyrir það að vera með danska krónu í stað evru. Það liggur fyrir að við munum greiða a.m.k. 3,5% aukalega hærri vexti á meðan við höldum krónunni en ella þyrfti. Vextir í Grikklandi féllu úr 30% í 4% á nokkrum árum eftir að þeir gengu í ESB.

þriðjudagur, 29. júní 2010

Aftur til fortíðar

Hannes Hólmsteinn prófessor ritaði nýlega grein þar sem hann færði rök fyrir styrkjum fyrirtækja til Sjálfstæðisflokksins, þar sem sá flokkur væri hlynntur hagstæðu umhverfi fyrir atvinnulífið. Í málflutning þessa helsta efnahagsráðgjafa Sjálfstæðisflokksins kemur fram ábending um hversu hagstætt það sé fyrir fyrirtæki að styrka stjórnmálaflokk sem aðstoða fyrirtæki að verja forréttindi, eins og t.d. gjafakvóta.

Haldið er áfram á þessari braut í samþykkt Landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Niðurstaða fundarins kom ekki á óvart sé litið til málflutnings málgagns flokksins í eigu kvótakónga, Morgunblaðinu, og yfirlýsingum formanns flokksins og eins hinu ríkisrekna Bændablaði. Þar á ganga gegn meirihluta samþykktum og koma í veg fyrir að Íslendingar fái kynnast því, hvaða kjör séu í boði, ef þeir ákveða með ítarlegri yfirvegun og meðfylgjandi þjóðaratkvæðagreiðslu að semja um aðild að ESB.

Frekar á að fara eftir matreiðslu spuna- og Morfísmeistara Flokksins og Morgun- og Bændablaðinu sem hafa reitt fram margvíslegar firrur um málefni ESB. Þar er hiklaust róið á mið Morfís umræðulistar og óskyldum hlutum blandað saman. Icesave-deilan er orðin að vandamáli sem er Evrópusambandinu að kenna fremur en þeim glæpamönnum sem komust í bankana sem hana sköpuðu og eftirlitsaðilum eins og t.d. fyrrv. stjórnarmönnum Seðlabanka sem sváfu á verðinum og fyrrv. bankastjóra Seðlabankans sem setti hann á hausinn.

Þessir menn halda því fram að innan ESB séu sjónarmið andstæð málflutningi íslenskra stjórnvalda og það sé ómakleg árás á íslensku þjóðina sem útiloki aðild okkar að slíku bandalagi. Hingað hafa borist ábendingar um að íslendingar verði að ednurskoða þá efnahags- og peningastefnu sem leiddi þá út þær ógöngur sem við erum í. Það eru þeir hinir sömu sem eru arkitektar þessa ástands sem standa fremstir í þessu ati.

Því er haldið fram að ESB sé samband sem þjóðir í Evrópu hafi unnið skapað til þess að gera lífið sér erfiðara. Það á að halda dauðahaldi í gerónýta mynt með stórkostlegum kostnaði fyrir almenning. Þetta er gert til þess að gæta sérhagsmuna útgerðarmanna og bænda á meðan almenning blæðir út.

Þessi stefna getur ekki leitt til annars eins og ég hef margoft komið að ungir og vel menntaðir Íslendingar muni í vaxandi mæli og yfirgefa landið til að velja sér búsetu í ríkjum þar sem opinberri þröngsýni og heimsku er ekki hampað á flokksþingum stórra stjórnmálaflokka. Hvers vegna leita íslendingar til landa innan ESB?

mánudagur, 28. júní 2010

Uppdráttarsýki fjórflokksins

Nokkrir hafa haldið því fram að úrslit sveitarstjórnarkosninganna boðuðu endalok fjórflokksins. Einnig má benda á að í kosningum til Alþingis hafa flokkarnir oft leikið þann leik að koma fram undir röngum formerkjum. Fært sig til miðju með boðskap um norræn velferðarþjóðfélög. En að loknum kosningum hafi ákafamenn komið fram á sjónarsviðið og ýtt til hliðar öllu sem rætt var um í kosningabaráttunni.

Það er áberandi að hin svokallaða óróadeild VG á sér dygga samferðarmenn í hinum svokallaða frjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins. Þessir hópar finna samstöðu í andstöðu gegn ESB og fylgja einangrunarhyggju eða þjóðrembu. Þessi hópur hefur barist harkalega gegn því að Icesave deilan verði leyst með samningum.

Honum hefur tekist að telja mörgum í trú um að það sá kostur sé í stöðunni, að íslendingar komist hjá því að greiða og standa við skuldbindingar sem fyrrverandi ríkistjórnir og Alþingi hafa undirgengist. Á grundvelli þeirra hafa verið gerði 4 Icesave samningar við Breta og Hollendinga, sem íslendingar hafa síðna neitað að standa við.

Því er haldið fram að þeir sem ekki séu sammála þessu, séu á móti öllu sem íslenskt er og erlend samfélög og nágrannaríki séu óvinir Íslands, svo ég noti nú algeng ummæli forsvarsmanna þessa hóps. Í þessu sambandi má einnig benda á afstöðu í skattamálum, og niðurskurð í ríkisbákninu. Sama á við, landbúnaðarmál og kvótamál.

Margir hafa komist að þeirri niðurstöðu að íslenskt efnahagslíf geti ekki búið við krónuna til frambúðar. Þar hafa verið áberandi menn í atvinnulífinu. Engin greið leið er fyrir Ísland að taka upp nýjan gjaldmiðil önnur en aðild að Evrópusambandinu. Það tekur nokkur ár að semja um aðild og taka upp evru. Almenningur kallar á stöðugleika og sambærilega vexti og eru í nágrannalöndum okkar, auk lægra verðs á matvöru. Þess vegna má ekki slá umsókn á frest og fá fram hvað standi okkur til boða.

Í ályktun nýafstaðins landsfundar sjálfstæðismanna segir að þeir hafni aðildarferlinu vegna þess að mikilvægara sé nú að stjórnsýslan setji alla sína krafta í að leysa aðkallandi hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Þetta er einkennileg niðurstaða, stór stjórnmálaflokkur heldur landsfund sem lýsir því yfir að innan hans raða sé fólk sem geti ekki unnið nema að einu máli í einu. Þessu er fagnað með langvinnu lófataki.

Aðildarumsóknin er í raun eina leiðin til þess að leysa þá efnahags- og gjaldmiðilskreppu, sem Ísland glímir við. Hér er á ferðinni sérhagsmunamat, ekki mat á hagsmunum heildarinnar.

Sá hópur sem sat landsfundinn er að færa sig frá öðrum evrópskum hægriflokkum, þar sem ESB-aðild er talin vera brýnt hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Það er ekki hægt annað en að draga þá ályktun að þarna sé áframhald þess sem búið er að spá að endalok fjórflokksins séu jafnvel nær okkur en margir héldu.

Þessi hópur einkennist á þröngu mati á hagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar. Ég hef margoft bent á að í þessum atvinnugreinum hefur ekki verið nein fjölgun atvinnutækifæra á undanförnum árum og ekkert bendir til að það muni breytast. Það er í ferðaþjónustu, hátækniiðnað sem hefur verið fjölgun og það eru þær atvinnugreinar sem hafa lýst stuðningi við aðildarumsókn og óskað eftir nýjum og stöðugum gjaldmiðli.

föstudagur, 25. júní 2010

Losum okkur við krónuna og sækjum fullveldi

ESB er samband frjálsra og fullvalda ríkja. Þeir sem andmæla aðild Íslands að ESB búa til alls kyns grýlur og hindranir sem að þeirra mati ættu að standa í vegi fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu, t,d, fullveldisafsal. Í hefðbundinni skilgreiningu fullveldis er gengið út frá því að hið þrískipta ríkisvalds lúti allt innlendri stjórn.

Fullveldi og frelsi manns á eyðieyju er merkingarlaust eins og fullveldi þjóða er merkingarlaust án samhengis við tengsl þeirrar þjóðar við aðrar. Hafa ber í huga í þessu samhengi að íslensk löggjöf er almennt undir miklum erlendum áhrifum. Það hefur farið framhjá ESB-þjóðum eins og til dæmis Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi, að þær hafi glatað fullveldinu vegna ESB aðildarinnar.

Regluverkið er algengasti skotspónn andstæðinga Evrópusambandsaðildar. Regluverk ESB felur í sér töluverða einföldun og sparnað ef betur er að gáð. Eitt regluverk í stað 27 aðgreindra um sambærileg mál. Sameiginlegt regluverk á vegum ESB eykur þannig á gegnsæi og skilvirkni.

Í alþjóða samstarfi almennt og Evrópusamstarfi sérstaklega geta fulltrúar Íslands fært rök fyrir máli sínu. Það er alltaf meginmarkmið að ná sátt í málum og þau skipti sem atkvæðagreiðsla hefur farið fram þar sem reynt hefur á atkvæðavægið eru fá. Ef eitthvað, þá hefur hallað á stóru ríkin í þeim efnum.

Aðal mótrök andstæðinga aðildar að ESB snúa hins vegar að sameiginlegu sjávarútvegstefnu bandalagsins. Á Íslandi er engin tilbúin til þess að gangast undir sameiginlegu fiskveiðistefnuna að óbreyttu. Ísland býr við þann kost í sjávarútvegsmálum að vera fyrir löngu búin að ná og uppfylla markmiðum stefnunnar um t.d. sjálfbærni og verndun stofna.

Sameiginleg fiskveiðistefna ESB er í grundvallaratriðum eins og fiskveiðistefna Íslands hvað varðar sameiginlega fiskistofna. Það er á þeim grunni sem til hennar er stofnað. ESB á ekki neinar auðlindir. T.d. eru olíu- og gaslindir Breta og Dana í eigi þeirra landa ekki ESB.

Íslenskur landbúnaður mun áfram leika lykilhlutverk á ferskvörumarkaði hér á landi. Samkeppnisstaða landbúnaðarins er að mínu mati vanmetin. Ef íslenskur landbúnaður fær eðlilegra rekstrarumhverfi þá er honum allir vegir færir. Höfum enn frekar í huga að ESB ríkið Danmörk, með litlar sem engar auðlindir og skandinavískt skattaumhverfi er stórveldi á alþjóðamörkuðum með unnar landbúnaðarvörur.

Það sem síðan skiptir öllu máli fyrir bæði íslenskan sjávarútveg og landbúnað í tengslum við aðildarviðræður að ESB er sú staðreynd að í aðild felst eina fyrirsjáanlega tækifæri íslendinga til þess að opna á stóran erlendan markað með fullunnar vörur. Allt slíkt er í dag takmörkunum háð sem myndu falla niður við aðild.

Stjórnmálamenn hafa í gegnum áratugina margítrekað eyðilagt ávinning sem launamenn hafa náð í gegnum mikla kjarabaráttu með einu pennastriki í því að lækka gengi krónunnar. Krónan er í raun mesti óvinur íslenskra launamanna í baráttu þeirra við að ná upp sambærilegum kaupmætti og er í nágrannalöndum okkar og gegn því að Ísland sé láglaunasvæði.

Íslenskt hagkerfið hefur tengst stærri hagkerfum vegna aukinna umsvifa atvinnulífsins. Örmynt eins og krónan veldur miklum óstöðugleika, sem kallar á að vextir séu um 3,5% hærri en ella. Það krónan veldur einnig hærra verðlagi, verðtryggingu og minni kaupmætti. Í sjálfu sér veldur hún því að Ísland er ekki fullvalda ríki.

fimmtudagur, 24. júní 2010

Hin sjúka króna

Það liggur fyrir að bankarnir unnu sleitulaust bak við tjöldin að fella krónuna meðan þeir kynntu viðskiptavinum sínum þá hagkvæmu kosti að taka gengistryggð lán. Þeir lýstu því margoft yfir að þeir vildu komast inn á markað húsnæðislána og ganga í skrokk á íbúðarlánasjóð.

Í dómi Hæstaréttar voru gengistryggingarákvæði dæmd ógild og ólögleg. Ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.

Lög nr. 38 um vexti og verðtryggingu voru samþykkt á Alþingi 19. maí 2001 með atkvæðum 36 þingmanna, 19 sátu hjá, 8 voru fjarverandi. Lögin eru skýr. Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. ... Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi." Vilji löggjafans gat varla skýrari verið.

Meðal þeirra, sem tryggðu framgang málsins á Alþingi með atkvæði sínu, voru Davíð Oddsson forsætisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra auk 32 þingmanna. Enginn þessara 36 þingmanna brást við, þegar bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki hófu nokkru síðar að binda lán í stórum stíl við gengi erlendra gjaldmiðla í blóra við lögin. Enginn þarf lengur að velkjast í vafa um ásetning bankanna og annarra fjármálafyrirtækja.

Nú vilja bankarnir að þeir lánþegar sem létu blekkjast af fagurgalanum eigi að taka höggið af falli gengisins, þrátt fyrir að nú séu gengnir 3 dómar sem samhljóða kveða uppúr um ólögmæti gerninganna og lýsa þeim ásetningi laganna að ekki skuli gengistryggja lán.

Þriðji dómurinn er afdráttarlaus og nær yfir það sem menn kalla óvissu. Lánið telst íslenskt og gengistengingin er ólögmæt og aðrir skilmálar eiga að standa óbreyttir. Hversvegna vilja lánafyrirtækin og stjórnvöld aðeins ræða um bílalán í þessu samhengi?

Þriðji dómurinn kemur bílasamningum ekkert við og hann er ítarlegri en hinir tveir. Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Bankarnir, og reyndar fleiri, vilja að ríkisstjórnin komi að þessum málum og þar með að það verði skattgreiðendur og almenningur sem greiði þennan pakka. Einhver mun borga, og bankarnir vilja komast undan því, en samt sem áður er líklegt að það muni einhver hluti þessa sem lender á skattborgurunum og mun þýða enn frekari niðurskurð í velferðarkerfinu.

Sú einkennilega skoðun hefur komið fram að þeir sem eiga sitt sparifé í lífeyrissjóðum eigi að greiða þennan kostnað. Enn einu sinni vilja menn líta á það fjármagn sem er í lífeyrissjóðum sem einhverja sameign þjóðarinnar.

Láttu drauminn rætast og keyptu draumabílinn og stækkaðu við í húsnæði, voru sjónarmið sem bankarnir héldu að fólki myntkörfulánum með vaxtakjörum svipuðum og í löndum sem búa við stöðugan gjaldmiðil bjóðast.

Á þessum tíma lá það fyrir í opinberri umræðu að gengi krónunnar væri skráð a.m.k. 30% of hátt og allir voru meðvitaðir um gengisáhættuna, en lánin voru svo miklu hagstæðari en venjuleg verðtryggð lán á íslenskum ofurvöxtum að menn töldu sig geta þolað 20-30% gengisfall.

Enginn gerði ráð fyrir að erlendir gjaldmiðlar tvöfölduðust í verði við hrun krónunnar. Þegar það gerðist, voru myntkörfulánin orðin mun síðri kostur. Hæstaréttardómurinn bætir stöðu myntkörfulánþega.

Það er hins vegar óskiljanlegt þegar einarðir talsmenn þess að Ísland haldi áfram að búa við krónuna leggja til að verðtrygging verði afnumin. Það liggur fyrir að enginn mun lána til langs tíma í íslenskum krónum nema hafa tryggingu fyrir því að fá endurgreitt í jafnverðmætum krónum.

Örmynt eins og krónan mun ætíð kalla á verðtryggingu og ofurvexti. Það er ófrávíkjanlegt hlutskipti okkar á meðan við kjósum að búa áfram við krónuna. Að halda öðru fram er lýðskrum og tóm blekking.
Það er einungis ein leið að til að mæta skuldavanda heimilanna; meðhöndlun á einkennum sjúkdómsins. Varanleg lækning fæst aðeins með því að skipta um gjaldmiðil.

miðvikudagur, 23. júní 2010

Upp úr hjólförunum

Samþykkt Evrópusambandsins um að hefja aðildarviðræður við Ísland þýðir ekki að Ísland verði aðildarríki ESB. Það ræðst ekki fyrr en þjóðin greiðir atkvæði um aðildarsamning. En einhverra hluta vegna verður maður sífellt vondaufari um að Evrópuumræðan komist á það plan að vera byggð á grunni staðreynda.

Það tíðkast að búa til allskonar gróusögur um herskyldu, að fiskimiðin fyllist af útlendum togurum og þjóðin farist úr matareitrun. Þó svo tugir þúsunda íslendinga ferðist þangað árlega og nærist og komist heim lifandi.

Icesave-málið ber ætíð á góma þegar aðild er rædd. Það liggur fyrir að íslenskt efnahagslíf mun ekki ná sér af stað án þess að Icesave-deilan leysist, það er algjörlega óháð hugsanlegri ESB-aðild. En þeir sem eru andstæðir ESB nýta sér þennan hnút til þess að afvegaleiða umræðuna.

Einnig er vinsæl klisja hjá þessum einstaklingum, að einhverjir útlendingar ásælist íslenskar auðlindir, fyrirtæki og allt sem íslenskt er. Á sama tíma eru íslensk útgerðarfyrirtæki að fjárfesta í útgerðum innan ESB. ESB á engar auðlindir. Danir og Bretar eiga t.d. sínar gas- og olíulindir í Norðursjó. Finnar eiga sín skóglendi og þannig mætti lengi telja. Það háir íslensku atvinnulífi og bankastarfsemi hversu ófúsir erlendir fjárfestar eru að koma hingað með fjármuni, sama þó við bjóðum upp á vildarkjör í sköttum og raforkuverði.

Íslendingar virðast trúa því að útlendingar séu ákaflega uppteknir af því hvað íslendingar séu að gera. Ég hef í gegnum árin unnið töluvert á Norðurlöndum. Verið þar við nám, auk þess að börn mín hafa verið þar við nám og vinnu árum saman. Norðurlandamönnum er slétt sama hvað við erum að gera. Þeir eru undrandi á óreiðunni hér og þeirri pólitísku sjálfheldu sem við höfum búið okkur.

Norðurlandamenn ásamt Þjóðverjum, Bretum og Hollendingum benda á að hrunið hafi verið alíslenskt, íslenskir bankar með Seðlabankann í broddi fylkingar, sem stjórnað var af íslendingum, fóru á hausinn og tóku íslensk fyrirtæki og heimili með sér. Íslendingar verði að standa sjálfir skil á þeim skuldum sem þeir hafa steypt sér í.

Íslenskir útvegsmenn vilja sitja áfram einir að gjafakvótanum og berjast gegn ESB aðild. Þeir græða á slakri stöðu krónunnar á meðan íslenskum heimilum blæðir, skuldir halda áfram að hækka og kaupmáttur fellur. Afstaða útvegsmanna er andstæð velferð íslensku þjóðarinnar. Ef fjárfestingahöft í sjávarútvegi yrðu afnumin myndi það einfaldlega þýða að einhverjir sem eru hæfari til að reka sjávarútvegsfyrirtæki gætu eignast þau. Gegn því berjast sérhagsmunamenn.

Okkur er tamt að telja okkur í trú um að við séum mest og best. En ef við lítum yfir farinn veg sjáum við hvernig krónan og einangrunarstefnan hefur farið með okkur. Leiðin út úr kreppunni er ekki viðhald einangrunar. Við verðum að byggja upp alþjóðlegra samfélag með beinum tengingum.

Einungis helmingur Íslendinga hefur lokið framhaldsskólaprófi á meðan samsvarandi hlutfall hjá öðrum evrópuþjóðum er 80 jafnvel 90%. Við erum ekki heimsk, en sú tíð er liðinn að við gátum reddað þessu með því að böðlast í gegnum eina vertíð eða byggt upp eina stóra virkjun og álver.

Íslendingar eru að verða fáfróðir vegna einangrunarstefnu sinnar. Heimóttaleg viðhorf, jafnvel rakalausar og heimskulegar klisjur komast áfram í umræðunni. Eitt stærsta dagblað landsins snýr hlutunum hiklaust á haus og það tekið sem staðreyndir.

Unga fólkið hefur ekki áhuga á að vinna láglaunastörf í fiskvinnslu eða landbúnaði. Það er farið og þeir sem eru við nám koma ekki heim. Menntun leiðir af sér víðsýni og flettir ofan af þröngsýnum einangrunarsinnum. Sjálfumglöð heimskan hefur verið hér við völd, eins og blasir við okkur öllum í dag og álit Íslands hefur fallið gríðarlega.

þriðjudagur, 22. júní 2010

Dómur Hæstaréttar

Með dómi Hæstaréttar eru gífurleg verðmæti flutt til einstaklinga og fyrirtækja. Hæstu upphæðirnar munu eflaust rennar til alls kyns braskara og kaupahéðna sem lifðu langt um efni fram. Þessum aðilum verði dæmd þessi verðmæti með 2-3% vöxtum á meðan venjulegt launafólk greiðir fulla verðtryggingu auk vaxta af sínum lánum.

Margir velta því fyrir sér hvort lánafyrirtækin fara í gjaldþrot með þessum dóm og þá muni flestir fá ekkert út úr þessum dóm og það ríkir algjör óvissa. Hvað ætlar ríkisstjórnin að gera? Mun þessi kostnaður lenda á skattborgurum þessa lands, á fólki sem fór varlega og skuldsetti sig ekki um of.

Ef um það væri að ræða að þessir fjármunir kæmu frá bönkum og lánafyrirtækjum sem lánuðu þá og tapið lenti á fjármálamönnum og stofnunum kæmi okkur þetta í sjálfu sér lítið við. En á meðan einhverjar líkur eru á að þetta lendi á almenningi í formi skatta og frekari niðurskurði velferðarþjónustu, er næsta víst að meirihluti landsmanna muni hafna þeirri leið

Af hverju er það fjármálastofnanna að ákveða viðbrögð við eigin lagabrotum? Ætlar ríkisstjórnin ekki að hafa neitt frumkvæði? Nú skín það í gegn um dóminn að það var ásetningurinn með lagasetningunni að ekki mætti verðtryggja á þennan hátt og nú eiga leiguliðarnir ennþá allt sitt undir óðalsbóndnum sem reyndu að hanna sig framhjá lögum og mistókst.

Besta frétt ársins

Pétur Blöndal er að spá í að hætta. Maðurinn sem berst fyrir auknu misræmi í landinu. Já takk Pétur - hættu

föstudagur, 18. júní 2010

Enn einn áfellisdómurinn

Það er ekki hægt annað en að niðurstaða Hæstaréttar um gengistryggð bílalán er enn einn áfellisdómurinn yfir fyrrv. ríkisstjórnum, stjórnum Seðlabanka og Fjármálaeftirlitsins, sem létu bankana athugasemdalaust taka upp þetta kerfi.

Á sama tíma og þessir aðilar keyrðu samfélagið í þrot og settu Seðlabankann á hausinn og kvarta núna undan því að niðurstaða Rannsóknarskýrslunnar sé að þvælast fyrir þeim. Líklega kvartar Ólög Norðdal, ætli hún að vera samkvæm fyrri yfirlýsingum, undan því að þessu dómur muni þvælast fyrir þingmönnum Sjálfstæðisflokksins.

Hvers vegna núverandi stjórnvöld og stjórnir FME og SB gera ekkert í málinu er svo pæling út af fyrir sig. Gerðu þær ekkert vegna þess að þetta hafi gengið ath.slaust fyrir sig.

Manni er minnistæð eftirmæli umboðsmanns Alþingis um ríkisstjórnir Sjálfstæðismanna og Framsóknar, að um 30% frumvarpa þeirra hefðu ekki staðist stjórnarskrá, eða gengu jafnvel þvert á gildandi lög.

Þó svo stjórnmálaflokkanrir hafi fengið gula spjaldið ásamt aðvörun í kosningum í vor, þá hafa þeir haldið uppteknum hætti með skrílslátum í Alþingi. Það er sannarlega kominn tími til að þeir fari að sjá sig í réttu ljósi.

Hrunið var alíslenskt, íslenskir bankar í eigu Íslendinga sem fóru að settum reglum og voru undir eftirliti Seðlabanka og Fjármálaeftirltis fóru á hliðina og tóku þúsundir heimila og fyrirtæki með sér. Þáverandi ráðherrar og Forseti voru verndarar þessa kerfis og fóru um heimsbyggðina til þess að útbreiða hinn alíslenska sannleika.

Sjónarmið sérhyggju og auðhyggju voru við völd og það virðist vera svo að sumir þingmenn ætli sér að halda áfram á þeirri braut.

Það á að verja sérréttindi fárra og viðhalda lokuðu þjóðfélagi. Tryggja áframhaldani eignaupptöku hjá launamönnum til þess að vernda stöðu útvegsmanna og milljarða styrkjakerfi til bænda.

fimmtudagur, 17. júní 2010

Lífeyriskerfi hinna útvöldu




Lífeyrisgreiðslur opinbera starfsmanna hafa þrefaldast frá 1997. Í 3. málsgrein 24. greinar laga nr. 1/1997 og 3. málsgrein 8. greinar laga nr. 2/1997 segir: ,,Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega."

Vísitala lífeyrisskuldbindinga var fyrst reiknuð í febrúar 1997 vegna breytinga á launum opinberra starfsmanna milli desember 1996 og janúar 1997. Vísitala lífeyrisskuldbindinga var því stillt á 100 í desember 1996. Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig þessi vísitala (blá lína) hefur hækkað frá 1997 borið saman við almenna launavísitölu (rauð lína) og verðlag (græn lína).

Það er næsta víst að fjölmörg dæmi eru til staðar hjá LSR um einstaklinga sem eru að fá um 1 millj. kr. á mánuði enda hafi þeir verið á góðum launum eða um 300 þ.kr. þegar þeir fóru á lífeyrir fyrir aldamót. Þá veldur þessi vísitala því að skuldbindingar B-deildar LSR hafa hækkað jafn mikið og raun ber vitni.

Launamenn á almennum markaði hafa margoft krafist þess að stjórnvöld standi samskonar vörð um lífeyrisréttindi allra landsmanna, en alþingismenn hafa hingað til ákveðið að standa einungis vörð um sín réttindi og nokkurra útvalinna opinberra starfsmanna. Það er himinhrópandi óréttlæti hvernig þingmenn hafa búið að sér og sínum á meðan lífeyrisþegar á almennum markaði þurfi að taka á sig kjaraskerðingu vegna hrunsins, en fyrrum starfsmenn í opinbera kerfinu halda óbreyttum lífeyrisgreiðslum og sjóðurinn er í 600 milljarða mínus.

Þetta er varið m.a. með því að réttindahækkanir í almennum sjóðum hafi verið meiri, en því fer fjarri. Ástæða .þessa er sú að í kjarasamningum á almennum markaði hafa lægstu laun verið hækkuð sérstaklega undanfarna kjarasamninga. T.d hafa lægstu laun í launatöflum rafiðnaðarmanna hækkað um 46% umfram almennar hækkanir það sem af er þessari öld. Þegar svo samningamenn alþingismanna og útvalinna opinberra setjast niður hafa aftur á mót launahækkanir þeirra lægstu á almennum markaði verið látnir ganga upp í gegnum taxtakerfi hinna útvöldu.

Þetta sést mjög vel í grafinu grunnlaun voru hækkuð umfram heildarlaun sem veldur til að mynda hækkuninni 2001 til 2002. Sama á við um hækkunina 2008. Okkur er jafnan svarað með þeim rökum að laun á almennum markaði hafi hækkað meira og þess vegna verði að taka það með í reikninginn. Af þessu að dæma hafa grunnlaun hækkað mjög mikið og hefur haft miklar afleiðingar fyrir skuldbindingar LSR.

Vísitala lífeyrisskuldbindinga
Samkvæmt lýsigögnum Hagstofu Íslands byggir vísitala lífeyrisskuldbindinga á gagnasafni launakönnunar Hagstofu Íslands. Í könnuninni eru aflað upplýsinga um laun og launakostnað allra starfa hjá úrtaki sveitarfélaga. Sveitarfélög í úrtaki senda mánaðarlega rafrænar upplýsingar á samræmdu sniði beint úr launabókhaldi.

Í könnuninni er aflað nákvæmra upplýsinga um launagreiðanda, launamann, launagreiðslur, greiddar stundir og annan launakostnað. Gögnin eru gæðaprófuð við móttöku, þar sem sannreynt er að þau standist uppsettar kröfur. Þegar gögnin hafa verið gæðaprófuð eru þau vistuð í gagnagrunni Hagstofunnar og notuð til úrvinnslu. Við framkvæmd launakönnunar er tekið mið af þeim kröfum sem gerðar eru til launakannana í reglugerðum á Evrópska efnahagssvæðinu. Auk gagna úr launakönnun Hagstofu Íslands stuðst við heildarsafn frá ríki og 600 manna úrtak ríkisstarfsmanna.

Reglur um töku lífeyris útvalinna opinberra
Þegar sjóðfélagi hefur náð því að samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími sé 95 ár, hann er orðinn 60 ára og lætur af störfum á hann rétt á lífeyri úr sjóðnum. Sjóðfélagi, sem notfærir sér þessa reglu, skal greiða iðgjald til sjóðsins þar til 95 ára markinu er náð. Lífeyrisréttur hans skal vera 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall, en þó ekki meira en 64% að náðu 95 ára markinu. Iðgjaldagreiðsluskylda fellur niður þegar 95 ára markinu er náð. Sjóðfélagi, sem nær 95 ára markinu eftir að hann nær 64 ára aldri, getur ekki nýtt sér heimild samkvæmt þessari málsgrein.

Lífeyrisréttur hjá þeim sem njóta útreiknings skv. 4. mgr. skal aukast um 2% fyrir hvert ár í fullu starfi frá því að iðgjaldagreiðsluskyldu lýkur og þar til taka lífeyris hefst, en um hlutfallslega lægri hundraðshluta fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall.

Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skal miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár, ella skal miða það hærra launaða starf sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti tíu ár

mánudagur, 14. júní 2010

Hið íslenska Sovét

Nú er tekist á um eignarhald á vatni. Félagshyggjustjórn vill ganga gegn lögum sérhyggjunnar frá 2006 og að vatn verði skilgreint í stjórnarskrá sem almannaeign. Á tímum Framsóknar og Flokksins átti að koma öllum eignum almennings yfir til hinna fáu. Þessi hópur breytti skattalögum til hagsbóta fyrir hina efnameira á kostnað þeirra sem minna máttu sín.

Sjálfstæðisflokkurinn vill viðhalda því Sovéti sem hann kom á. Hann hefur barist hatrammlega gegn því að þjóðin fái að koma að Stjórnlagaþingi. Hann vill að fáir útvaldir fái að véla þar um. Það er í samræmi við valdastefnu hans. Flokkurinn sem segir að Rannsóknarskýrslan sé að þvælast fyrir honum og tefji fyrir því að hann komist aftur að kjötkötlunum.

Það er hreint út sagt með hreinum ólíkindum að þessi flokkur skili liggja yfir 25% á kosningum og skoðanakönnunum. Flokkurinn sem átti stærstan þátt í að koma þjóðinni í þá skelfilegu stöðu sem hún er í, Flokkurinn sem berst áfram fyrir því að koma auði til fárra og berst um með öllum brögðum til þess að komast til valda og draga völdin til fárra.

Það er mjög athyglisvert að fylgjast með því hvernig Flokkurinn tekur í tilboð Besta flokksins um að nú eigi allir að vinna saman. Hvað Flokkurinn átti við með helsta kosningarloforði sínu. Nú blasir við að það á einungis að vinna saman ef það sé gert á forsendum Flokksins.

Þingmenn Flokksins kvarta í sífellu undan því að ekkert sé gert fyrir almenning, en hann tekur svo höndum saman við aðra um að koma í veg fyrir allan framgang góðra mála í þinginu. Beitir málþófi og öllum Morfísbrögðunum.

Sjálfstæðisflokkurinn vill að þröngur hópur þingmanna hanteri stjórnarskrána án þess að þjóðin sjálf komi þar nálægt og Flokkurinn berst harkalega gegn því að vatnalögin alræmdu verði felld úr gildi.

Hanna Birna, Guðlaugur Þór og Flokkurinn hafa gert OR að spillingarbæli og komið fyrirtækinu nánast á vonarvol. Eina leiðin út úr því er að hækka hitaveitugjöld almenning um 40. Sjálfstæðisflokkurinn hefur enn eina ferðina kynnt sig sem málsvara auðhyggju og sérhagsmuna.

Flatey


Hef verið á flakki síðustu viku þar á meðal fórum við út í Flatey og vorum þar nokkra daga. Flatey hefur ákveðna sérstöðu í hugum margra. Flokkast undir rómantík, seiðmagnað andrúmsloft sem hefur komið fram í myndum og bókum. Í sjálfu sér er það fábreytnin sem verður til þess að maður nýtur þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Hvíldin felst í því að það er góður tími til þess að skríða jafnvel upp í aftur og lesa aðeins meira og fara svo aftur í stuttan göngutúr.

Rólegur göngutúr um eyjuna er góð afslöppun. Fuglalífið er fjölbreytt og fuglarnir eru óvenjulega spakir. Krían situr róleg á næsta girðingarstaur í nokkurra metra fjarlægð, en grípur til sinna aðgerða fari maður inn fyrir þar sem er hennar umráðasvæði. Á þessum árstíma er varptími og fuglinn að koma ungum upp. Fjölmargir fuglaskoðunarmenn víðsvegar úr heiminum eru í eyjunni.

Húsin í þorpinu hafa flest verið endurbyggð í sína upprunalegu mynd með myndarlegum hætti. Ég hitti Guðmund Pál Ólafsson rithöfund, skólastjóra, kennara, náttúru- og heimildaljósmyndara, kvikmyndagerðarmann, smið, kafara, náttúruverndari og fyrirlesara. Hann endurbyggt gamla kaupfélagshúsið og ótrúlegum hagleik þar sem hann býr nú hluta ársins. Þar stendur en gamla verzlunin með sínum flóknu og vönduðu innréttingum.

Breyting hefur orðið á ferðamenningu með tilkomu hótelsins. Þar er búið að endurbyggja þrjú hús á listilegan hátt. Fágað og vandað handbragð iðnaðarmanna blasir við hvar sem litið er. Ingibjörg Á. Pétursdóttir hótelstýra hefur stutt við það andrúmsloft sem er í húsunum með góðu vali á húsgögnum og munum.

En Ingibjörg er meistari meistaranna í eldhúsinu og þeir réttir sem hún laðar fram eru hreint út sagt óviðjafnanlegir. Matseðilinn er sóttur í Breiðafjörðinn. Fiskisúpan er sú besta sem ég hef smakkað, er þó vel inn í þeim málum sakir dálætis á súpum og hef prófað þær víða auk þess að glíma við þær í eldhúsinu heima. Bláskelin, þorskurinn hennar, fiskibollurnar, léttreykti svartfuglinn, sjávarréttaþrennan og þannig mætti halda áfram. Allt þetta dregur mann inn í unaðsheima eldhúss sem er í heimsklassa.

Enda það orðið eftirsótt að gista á hótelinu og það oftast fullbókað. En það er ekki bara sumarið sem er góður tími í Flatey haustið með sínum stillum og myrkum kvöldum eru seiðmögnum í Flatey. Skyndilega er allur fuglinn farinn yfir hafið til vetursetu í öðrum löndum og þögnin er mikil. Engir bílar, engar hraðbrautir. Engin Moggi, ekkert Fréttablað, maður nennir ekki einu sinni að kveikja á útvarpinu, setur frekar góða plötu á.

miðvikudagur, 9. júní 2010

Vinnum okkur úr vandanum

Pólitíska kreppan hér landi er ekki einungis vegna innanbúðarvanda VG, sem endurspeglast í getuleysi ríkistjórnarinnar. Þrátt fyrir fyrirliggjandi vandlætingu þjóðarinnar á vinnubrögðum Alþingis þá halda þingmenn áfram í Morfísleik sínum sem aldrei fyrr. Stjórnarandstaðan segist vera benda á það sem aflaga fer í stjórnarsamstarfinu og hluti stjórnarþingamanna víkur sér undan því að taka óvinsælar ákvarðanir.

Það skynja allir þetta ástand, aðilar vinnumarkaðs eru farnir að skjóta fast á ríkisstjórnina. Skelfileg staða, þessi aðilar lýstu yfir vilja til samstarfs með stjórnmálamönnum í átaki til þess að vinna sig út úr vandanum. Alþingi hefur ekki dug í sér til þess að koma sér saman um nokkurn skapaðan hlut og þingmenn eru uppteknir í að koma höggi hver á annan og koma fingraförum sínum á þær ákvarðanir sem munu verða vinsælar.

Nú liggur fyrir að koma verður á jafnvægi í ríkisfjármálum, þar eru tvær leiðir. Hækka skatta eða minnka útgjöld. Hækkun skatta mun leiða til enn frekari samdráttar í hagkerfinu, og er þar nú þegar komið fram á bjargbrúnina.

Nær væri að fara þess á leit við þjóðina að hún vinni sig úr vandanum. Hvernig væri t.d. að launamenn bæti á sig einu korteri á dag í vinnu til þess að koma í veg fyrir frekari niðurskurð og hækkun skatta?

Það virðist blasa við að margir núverandi stjórnmálamanna munu ekki hafa kjark til þess að takast á við vandann sem liggur fyrir í nauðsynlegum í niðurskurði. Þar þarf að taka margar gríðarlega óvinsælar ákvarðanir. Þar má ætla að þingmenn VG muni standa fremstir í flokki og stjórnarandstaðan mun spila á það að venju.

Velferðarkerfið kom ekki af sjálfu sér og það verður ekki áfram án þess að gerðar séu ráðstafanir til þess að viðhalda því. Það kostar skatta eða uppskurð á ríkisbákninu. Starfsmönnum þar fjölgaði gríðarlega á þennslutímum. Ríkisfjármálin eru ekki prívatvandamál VG og Samfylkingar, hún er sameiginlegt vandamál allra. Þjóðin krefst þess að stjórnmálamenn taki sig saman í andlitinu og hætti Morfískepnninni og taki á þessum vanda eins fólk með ábyrgð. Annars mun bresta á pólitísk kreppa og kosningar verða að fara fram seinna í sumar.

Hver á nú að borga?
Hver hefur ráð á meiri útgjöldum?
Eru einhverjir eftir sem eiga mikið af peningum?
Ég og mín fjölskylda hefur alla vega ekki ráð á meiru.

þriðjudagur, 8. júní 2010

Vafningalaus spuni

Einhverra hluta vegna átti ég von á því að úrslit sveitarstjórnarkosninga, þar sem yfir 40% kjósenda hafnaði fjórflokknum með því að skila auðu, mæta ekki á kjörstað eða kjósa eitthvað annað, myndi verða til þess að stjórnmálamenn myndu skipta um gír.

Fyrsti stjórnmálamaðurin búinn að axla ábyrgð og aðrir hlytu að fylgja því fordæmi. Þeir myndu taka upp ábyrgari samskiptahætti og hætta útúrsnúningaleiknum. Ég er búinn að vera niður í Skandinavíu í viku, þar sem kosningaúrslit hafa hér heima hafa vakið athygli og þótt staðfesting á því sem haldið hafi verið fram undanfarin ár að stjórnmál á Íslandi séu ekki upp á marga fiska, eins og ég hef komið að ítrekað hér á síðunni frá 2007.

En þegar heim var komið nú um helgin voru fréttatímar fullir af fréttum frá umræðum á Alþingi með Sigurð Kára sem aðalforsvarsmann í útúrsnúningakeppni um hvað hefði staðið í tölvupóstum sem Davíð hafi dregið fram og birt. Sigurður Kári er á heimavelli í svona umræðu, kann reyndar ekkert annað, það hefur aldrei komið neitt frá þeim stjórnmálamanni annað en heimatilbúnir spunar um hvað aðrir séu að hugsa. Hann hefur fyrir hönd Flokksins verið í þeim verkefnum að eyðileggja alla umræðu sem Flokknum hefur þótt óþægileg og þar hafa samsuður Valhallar verið hans ær og kýr.

Það hefur ekkert komið fram sem sýnir að Jóhanna hafi lofað seðlabankastjóra neinu. Það er seðlabankastjórn sem ákvarðar hans laun og á að fara eftir settum reglum, ef það hefur ekki verið gert þá er við stjórnina að sakast. Sigmar mætti í Kastljósið í gær með hnífasettið sitt og nú átti að taka forsætisráðherra af lífi, en í lok þáttarins var Sigmar búinn að átta sig á því að enn eina ferðina var hann búinn að láta spunaliðið á Alþingi spila með sig.

Ef Sigurður Kári var ekki á skjánum þá var það Guðlaugur Þór og Bjarni Ben., sem vildu fá að fara eftir reglum 2006 til þess að meta styrki og framlög. Semsagt ef farið væri eftir þeirra ráðum, þá er Rannsóknarskýrslan óþörf. Það sem gert var fram að Hruni var gert eftir þáverandi reglum, það var ekki bannað með lögum að svíkja náungann og hafa af honum ævisparnaðinn og flytja hann til aflandseyja. Ræna bankanna innan frá og kaupa útvalda til fylgis með ofurlánum og styrkjum.

Einkennilegt hvernig formaður sjálfstæðismanna mismunar sínu fólk, hann fordæmdi lán Þorgerðar Katrínar og fékk hana til þess að segja af sér. Mat sín eigin vafningaviðskipti og viðskipti með tjónasjóð Sjóvá sem eðlileg. Fordæmdi ofurstyrki til Flokksins og skilaði þeim, en vill svo ekkert gera í málum þeirra þingmanna sem hafna því að skýra sín mál.

Styrkir Guðlaugs Þórs eru frá félögum sem viðurkennt er að hafa starfað með óeðlilegum hætti og aðilum tengdum Geysi Green. Ég hef áður sagt að það sé vitanlega stjórnmálaflokkanna að taka á sínum málum, og ef þeir geri það ekki þá séu þeir að senda kjósendum skilaboð um hvar spillingaþröskuldurinn sé í viðkomandi flokki.

Það verður vitanlega spennandi að fylgjast með hvernig Landsfundur Sjálfstæðismanna tekur á þessu og hvort formannum verði gert heimilt að starfa áfram Vafningalaust. Mun fundurinn una óbreyttu ástandi? Það eru örugglega margir í öðrum flokkum sem óska þess að Landsfundurinn geri það.

miðvikudagur, 2. júní 2010

Vaxnadi atvinnuleysi að óþörfu

Það er hreint út sagt ömurlegt að vera gert að horfa upp á að nú sé að dynja á okkur hrina uppsagna og það í byrjun sumars. Þegar atvinnulífið hefur ætíð tekið kipp upp á við. Forsvarsmenn fyrirtækjanna segja okkur að þeir séu búnir að leita í allar hugsanlegar matarholur eftir verkefnum til þess að geta haldið mannskapnum, en nú verði ekki lengra gengið i þeim efnum. Menn hafi gert allt til þess að lifa veturinn af án frekari uppsagna og viljað halda í sinn kjarnamannskap.

En ekkert hefur gerst, ríkisstjórnin sendir endurtekið frá sér lista um verkefni sem hún sé að vinna að, en í raun hefur ekkert breyst á þeim lista síðustu 12 mán. Fyrirhugaðar virkjanir eru í biðstöðu, sama má segja um álver og stækkun álvera og önnur verkefni.

Þessu veldur getuleysi Alþingis til þess að ganga frá Icesave og opna með því samband íslenskra fyrirtækja við erlendan lánamarkað á eðlilegum kjörum. Þegar bent er á þetta skella þingmenn sér í þrætustellingar með venjubundinni útúrsnúningum.

Það er t.d. ekki boðlegt að formenn Framsóknar og Sjálfstæðismanna ásamt stjórnandstöðunni í ríkisstjórninni haldi því blákalt fram að verið sé að vinna betri samningsstöðu fyrir Ísland. Allir aðilar sem þekkja til segja að nú fyrst stefni í verulega erfiða stöðu fyrir Ísland þegar mál eru kominn af stað fyrir dómstóla. Holland og England hafa ásamt öðrum vinaríkjum ítrekað bent á að dómstólaleiðin muni leiða Ísland í enn verri stöðu.

Öll þessi bið hefur kostað íslenskt atvinnulíf milljarða og í raun tryggt vaxandi atvinnuleysi og komið enn fleiri heimilum á vonarvöl. En þeir sem sitja á Alþingi hafa ekki áhyggjur af því, þeir eru í föstum djobbum hjá hinu opinbera og stjórnarandstaðan með sínum viðauka frá VG telur sig hafa verið að vinna lönd. En það gagnstæða blasir nú við að loknum kosningum. Rúmlega 40% þjóðarinnar sat heima, skilaði auðu eða kaus eitthvað annað en fjórflokkinn til þess að mótmæla þessum vinnubrögðum stjórnmálamanna.

Ég er þessa dagana á þingi rafiðnaðarmanna í Stokkhólmi og þingi norrænna byggingamanna. Ég hef áður lýst því hér á þessari síðu þær upplýsingar sem fram komu á þessum vettvangi, jafnvel fyrir Hrun, að Ísland yrði að taka til í efnahagsstjórninni ef ekki ætti illa að fara. Ísland myndi ekki fá aðstoð fyrr en það væri ljóst að íslendingar viðurkenndu sinn vanda og óstjórn.

Fyrst á eftir fann maður fyrir skilning hér niður í Skandínavíu og vilja til hjálpar, en í dag þá skynjar maður það viðhorf að íslendingum sé ekki viðbjargandi, þeir hafi ekki áttað sig á þessu sjálfskaparvíti sem þeir komu sér í og þeir verði bara að taka á sínum málum án þess að vera hjálpað.

Hér niður í Skandínavíu er löndunum að takast að komast af stað. Hér varð ekki Hrun og gjaldeyrir tvöfaldaðist í verði með hækkunum á öllum nauðsynjavörum. Hér vinna stjórnmálamenn sín störf, en heima eyða stjórnmálamenn tíma sínum í útúrsnúninga og þeir séu að vinna sigra og komnir í óstöðvandi sókn. Þrátt fyrir fullkomið hrun í kosningum, slakri þátttöku í kosningum og sigrum flokka utan fjórflokkanna.