mánudagur, 14. júní 2010

Flatey


Hef verið á flakki síðustu viku þar á meðal fórum við út í Flatey og vorum þar nokkra daga. Flatey hefur ákveðna sérstöðu í hugum margra. Flokkast undir rómantík, seiðmagnað andrúmsloft sem hefur komið fram í myndum og bókum. Í sjálfu sér er það fábreytnin sem verður til þess að maður nýtur þess sem eyjan hefur upp á að bjóða. Hvíldin felst í því að það er góður tími til þess að skríða jafnvel upp í aftur og lesa aðeins meira og fara svo aftur í stuttan göngutúr.

Rólegur göngutúr um eyjuna er góð afslöppun. Fuglalífið er fjölbreytt og fuglarnir eru óvenjulega spakir. Krían situr róleg á næsta girðingarstaur í nokkurra metra fjarlægð, en grípur til sinna aðgerða fari maður inn fyrir þar sem er hennar umráðasvæði. Á þessum árstíma er varptími og fuglinn að koma ungum upp. Fjölmargir fuglaskoðunarmenn víðsvegar úr heiminum eru í eyjunni.

Húsin í þorpinu hafa flest verið endurbyggð í sína upprunalegu mynd með myndarlegum hætti. Ég hitti Guðmund Pál Ólafsson rithöfund, skólastjóra, kennara, náttúru- og heimildaljósmyndara, kvikmyndagerðarmann, smið, kafara, náttúruverndari og fyrirlesara. Hann endurbyggt gamla kaupfélagshúsið og ótrúlegum hagleik þar sem hann býr nú hluta ársins. Þar stendur en gamla verzlunin með sínum flóknu og vönduðu innréttingum.

Breyting hefur orðið á ferðamenningu með tilkomu hótelsins. Þar er búið að endurbyggja þrjú hús á listilegan hátt. Fágað og vandað handbragð iðnaðarmanna blasir við hvar sem litið er. Ingibjörg Á. Pétursdóttir hótelstýra hefur stutt við það andrúmsloft sem er í húsunum með góðu vali á húsgögnum og munum.

En Ingibjörg er meistari meistaranna í eldhúsinu og þeir réttir sem hún laðar fram eru hreint út sagt óviðjafnanlegir. Matseðilinn er sóttur í Breiðafjörðinn. Fiskisúpan er sú besta sem ég hef smakkað, er þó vel inn í þeim málum sakir dálætis á súpum og hef prófað þær víða auk þess að glíma við þær í eldhúsinu heima. Bláskelin, þorskurinn hennar, fiskibollurnar, léttreykti svartfuglinn, sjávarréttaþrennan og þannig mætti halda áfram. Allt þetta dregur mann inn í unaðsheima eldhúss sem er í heimsklassa.

Enda það orðið eftirsótt að gista á hótelinu og það oftast fullbókað. En það er ekki bara sumarið sem er góður tími í Flatey haustið með sínum stillum og myrkum kvöldum eru seiðmögnum í Flatey. Skyndilega er allur fuglinn farinn yfir hafið til vetursetu í öðrum löndum og þögnin er mikil. Engir bílar, engar hraðbrautir. Engin Moggi, ekkert Fréttablað, maður nennir ekki einu sinni að kveikja á útvarpinu, setur frekar góða plötu á.

2 ummæli:

Viktor Arnar Ingólfsson sagði...

Ég er sammála hverju orði í þessum pistli

Nafnlaus sagði...

http://www.reykholar.is/

Bestu þakkir!