fimmtudagur, 24. júní 2010

Hin sjúka króna

Það liggur fyrir að bankarnir unnu sleitulaust bak við tjöldin að fella krónuna meðan þeir kynntu viðskiptavinum sínum þá hagkvæmu kosti að taka gengistryggð lán. Þeir lýstu því margoft yfir að þeir vildu komast inn á markað húsnæðislána og ganga í skrokk á íbúðarlánasjóð.

Í dómi Hæstaréttar voru gengistryggingarákvæði dæmd ógild og ólögleg. Ekki sé heimilt að reikna fjárhæð skuldar varnaraðila með þeirri hækkun sem sóknaraðili reiknar vegna breytinga á gengi jens og svissnesks franka gagnvart íslenskri krónu.

Lög nr. 38 um vexti og verðtryggingu voru samþykkt á Alþingi 19. maí 2001 með atkvæðum 36 þingmanna, 19 sátu hjá, 8 voru fjarverandi. Lögin eru skýr. Í 13. gr. frumvarpsins er fjallað um gildissvið kafla um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í 1. mgr. er lagt til að heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verði felldar niður. ... Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. Er talið rétt að taka af allan vafa þar að lútandi." Vilji löggjafans gat varla skýrari verið.

Meðal þeirra, sem tryggðu framgang málsins á Alþingi með atkvæði sínu, voru Davíð Oddsson forsætisráðherra, Geir H. Haarde fjármálaráðherra, Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra og Valgerður Sverrisdóttir viðskiptaráðherra auk 32 þingmanna. Enginn þessara 36 þingmanna brást við, þegar bankarnir og önnur fjármálafyrirtæki hófu nokkru síðar að binda lán í stórum stíl við gengi erlendra gjaldmiðla í blóra við lögin. Enginn þarf lengur að velkjast í vafa um ásetning bankanna og annarra fjármálafyrirtækja.

Nú vilja bankarnir að þeir lánþegar sem létu blekkjast af fagurgalanum eigi að taka höggið af falli gengisins, þrátt fyrir að nú séu gengnir 3 dómar sem samhljóða kveða uppúr um ólögmæti gerninganna og lýsa þeim ásetningi laganna að ekki skuli gengistryggja lán.

Þriðji dómurinn er afdráttarlaus og nær yfir það sem menn kalla óvissu. Lánið telst íslenskt og gengistengingin er ólögmæt og aðrir skilmálar eiga að standa óbreyttir. Hversvegna vilja lánafyrirtækin og stjórnvöld aðeins ræða um bílalán í þessu samhengi?

Þriðji dómurinn kemur bílasamningum ekkert við og hann er ítarlegri en hinir tveir. Telur hann að miða verði við upphaflegan höfuðstól auk áfallinna vaxta, en að ekki sé heimilt að reikna annars konar verðtryggingu í stað gengisviðmiðunar.

Bankarnir, og reyndar fleiri, vilja að ríkisstjórnin komi að þessum málum og þar með að það verði skattgreiðendur og almenningur sem greiði þennan pakka. Einhver mun borga, og bankarnir vilja komast undan því, en samt sem áður er líklegt að það muni einhver hluti þessa sem lender á skattborgurunum og mun þýða enn frekari niðurskurð í velferðarkerfinu.

Sú einkennilega skoðun hefur komið fram að þeir sem eiga sitt sparifé í lífeyrissjóðum eigi að greiða þennan kostnað. Enn einu sinni vilja menn líta á það fjármagn sem er í lífeyrissjóðum sem einhverja sameign þjóðarinnar.

Láttu drauminn rætast og keyptu draumabílinn og stækkaðu við í húsnæði, voru sjónarmið sem bankarnir héldu að fólki myntkörfulánum með vaxtakjörum svipuðum og í löndum sem búa við stöðugan gjaldmiðil bjóðast.

Á þessum tíma lá það fyrir í opinberri umræðu að gengi krónunnar væri skráð a.m.k. 30% of hátt og allir voru meðvitaðir um gengisáhættuna, en lánin voru svo miklu hagstæðari en venjuleg verðtryggð lán á íslenskum ofurvöxtum að menn töldu sig geta þolað 20-30% gengisfall.

Enginn gerði ráð fyrir að erlendir gjaldmiðlar tvöfölduðust í verði við hrun krónunnar. Þegar það gerðist, voru myntkörfulánin orðin mun síðri kostur. Hæstaréttardómurinn bætir stöðu myntkörfulánþega.

Það er hins vegar óskiljanlegt þegar einarðir talsmenn þess að Ísland haldi áfram að búa við krónuna leggja til að verðtrygging verði afnumin. Það liggur fyrir að enginn mun lána til langs tíma í íslenskum krónum nema hafa tryggingu fyrir því að fá endurgreitt í jafnverðmætum krónum.

Örmynt eins og krónan mun ætíð kalla á verðtryggingu og ofurvexti. Það er ófrávíkjanlegt hlutskipti okkar á meðan við kjósum að búa áfram við krónuna. Að halda öðru fram er lýðskrum og tóm blekking.
Það er einungis ein leið að til að mæta skuldavanda heimilanna; meðhöndlun á einkennum sjúkdómsins. Varanleg lækning fæst aðeins með því að skipta um gjaldmiðil.

17 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta er rétt hjá þér með verðtrygginguna. Það sem er svo aftur réttara eða réttlátara er að minn lífeyrissjóður eða banki og ég, lántakandinn ættum að deila með okkur verðtryggingunni 50-50. Það má líta svo á að ég sé að minnka tap lánara.
Einhverntíma sá ég í BBC að hjá stórfyrirtækjum í Evrópu var hagnaður ekki í fyrsta sæti yfir markmið og framtíðarsýn. Í fyrsta sæti var velferð samfélags og starfsmanna. Skýringin var að stærstu eigendur fyrirtækjanna eru sjóðir hverskonar, starfsmanna etc. og í Evrópu kjósa menn í stjórnum (fulltrúar sjóðanna) eftir vilja sinna félagsmanna. Hér er þessu öfugt farið.

Nafnlaus sagði...

Engir yrðu ánægðari en umsjónarmenn lífeyrissjóða ef verðtrygging lífeyrisyrði afnumin. Þá stæðu sjóðirnir vel og ættu fyrir framtíðarskuldbindingum.

En það myndi hafa það í för með sér að lífeyrissjóðirnir myndu hafna því alfarið að kaupa bréf Íbúðarlánasjóðs og fjárfesta frekar erlendis. Þar með stæðu íslenskir íbúðarbyggjendur ekki nein lagntímalán til boða.

Það er einungis ein leið úr þessu það er að ganga í ESB og taka upp Evru, þá fyrst er möguleiki að við fáum lán með sömum kjörum og eru í nágrannalöndum okkar.
Kristinn Þór

Nafnlaus sagði...

Þetta er allt rétt hjá ykkur. En ef evra verður innleidd hér (og evruvextir) mun húsnæðisverð væntanlega rjúka upp þangað til afborganir hafa náð svipuðu meðaltalshlutfalli af ráðstöfunartekjum. Húsnæðisverð hlýtur að vera einhvers skonar fall af ráðstöfunartekjum. Ef kostnaður við húsnæðiskaup lækkar verulega hlýtur verðið að hækka - eins og gerðist þegar vextir voru færðir niður í 4,15. Er ég að misskilja eitthvað?
Júlíus

Hjörtur J. Guðmundsson sagði...

Þeir sem eru reiðubúnir að gefa eftir yfirráðin yfir auðlindum Íslandsmiða og sjálfstæði þjóðarinnar fyrir gjaldmiðil sem stendur höllum fæti og enginn veit hvort verður til innan fárra ára eru eðli málsins samkvæmt reiðubúnir að gera alveg einstaklega slæman "díl".

Nafnlaus sagði...

Hin sjúka króna hefur aldrei þann rétt að drekkja eignum manna í skuldafen. Með verðtrygginguni er vitlaust gefið, kolrangar forsendur notaðar til útreikninga. Verðtryggingin er svikamylla. Næst þegar þú ferð á ráðstefnu til norðurlanda reyndu að segja kollegum þínum hvaða kerfi er notað hér. Viðbrögð þeirra verða hneykslun.
Og þín viðbrögð ættu að vera eins.
Dagbjartur

Nafnlaus sagði...

Af hverju ætti ekki að gera kröfu um að verðlagning á lánum væri rétt?

Banna verðtryggingu og neyða menn þannig til að bjóða lán á breytilegum okurvöxtum.

Þannig sést það svart á hvítu hver skaðinn við efnahagsstjórnina er - eins og hann birtist í svo verðbólginni krónu að hún er lögst í kör og líðan EKKI eftir atvikum góð.

Unknown sagði...

Það virðist sem að valdamiklir menn vilji að verst útleiknu fórnarlömb hrunsins eigi að slaka á lagalegum rétti sínum gagnvart bönkunum. Ein af rökunum fyrir jöfnun er að annars muni kjör bankanna verða verri fyrir almenning. Þá spyr ég hversvegna jöfnun átti sér ekki stað fyrir hæstaréttardóminn? Var ekki ósanngjarnt væri hvað bankarnir komust billega frá öllu og enduðu með tugi milljarða hagnað fyrir 2009?

Ef þetta nær fram að ganga þá ætti að vera sjálfsagður hlutur að spóla til baka með björgun peningamarkaðssjóðanna sem og björgun innistæðutrygginga umfram 20.þús evrur. Hafa Gylfi, Már og Mörður ekkert um það að segja?

Nafnlaus sagði...

Mér þykir það bera vott mikla þröngsýni og afar takmarkað ímyndunarafl að telja að örmynt eins og krónan muni ævinlega búa við verðtryggingu og háa vexti. Við getum auðveldlega verið án verðtryggingar, vaxta og jafnvel lífeyrissjóða!

Nafnlaus sagði...

Góð framsetning,

Kostnaður meðalfjölskyldu af verðbólgu og hærri vöxtum á Íslandi en innan evrunnnar, vegna íbúðarkaupa, er að meðaltali 1 milljón í útlagðan kostnað á fjölskyldu á ári.

Ef tekið er tillit til skatta, eru þetta laun að fjárhæð 1,6 milljónir krónan!!!! vegna ónýts gjaldmiðils,,,, á sama tíma og fók á ekki fyrir mat,,, hvað væri hægt að gera fyrir 1 milljón,,,,

Þessi kostnaður vegna ónýts gjaldmiðils, er stærsti þáttur í kaupmáttarskerðingu launafólks á Íslandi, og samt segir enginn neitt!!! Ótrúlegur sofandaháttur,,,eins og fyrir hrun,,,á þessu sviði hefur lítið breyttst á Íslandi,,

Með upptöku evru, myndi kaupmáttur fjölskyldna aukast um þessa sömu upphæð, ein milljón - bara vegna minni fjármagnskostnaðar,,. Þá er eftir að taka tillit til lækkunar á matvælaverði, auknum útflutningi, og mun meiri hagvexxti. Kaupmáttur myndi sennilega aukast gríðarlega með nýjum gjaldmiðli,,

Hvers vegna er þessum staðreyndum ekki haldið á lofti af hálfu launþegasamtakanna?? Ef slík samtök standa sig ekki á þessu sviði, verða launþegar sjálfir láta miklu meira heyra í sér.

Flott grein Guðmundur, þú ert einn af fáum sem bendir á kjarna málsins á þessu svið,,,

Nafnlaus sagði...

ÞEIR RÉÐUST Á KRÓNUNNA OG BITU Í SKOTTIÐ Í SJÁLFU SÉR.--Nú næ ég að borga upp allar minar skuldir með því að setja 13 milljónir inní bankakerfið. tók 9500000-skuldinn fór uppí 26000000. frá magasári yfir í lottóvinning -það er ekki búandi á þessu landi.

Viðar Ingvason sagði...

Krónan er mikilvægasta verkfæri mafíunnar til að ræna lýðinn.
Engin rök eru til fyrir því að krónan sé þjóðhagslega hagkvæm.

Nafnlaus sagði...

Goð grein,

Það er ekki bara krónan sem er sjúk, það er fólkið sem er sjúkt sem heldur Íslandi í hörmungum ónýts gjaldmiðils.

Gjaldmiðlar eru tæki til að skipta verðmætum, ekkert annað. Þeir eru ekki fjallkonan, eða fólkið, þeir eru efnahagslegt tæki.

Gjaldmiðlar eru eins og skór.

Krónuskórnir eru ónýtir, rifnir og götóttir, og það blæðir úr fótum landsmann vegna þessa, en samt á að þvinga þjóðina í að ganga í götóttum skóm af þjóðernisástæðum.

Samt bíða miklu betri og heilir skór (evru skór), sem þola allar aðstæður, en fólkið má ekki nota evru skó.

"Vitringarnir", vilja að fólkið, ungmenni sem gamalmenni, gangi í götóttum skóm í óveðrum og vondum vegum. Það er hættulegt að ganga í evruskóm.

Fólkið má ekki einusinni máta evru skóna, til að vita hvort þeir séu betri. Nei það má alls ekki, því þá gæti fólkið uppgvötvað að það eru alvöru skór. Og það er hættulegt, að uppýs fólk, þá bítur ekki áróðurinn um vondu mennina í útlöndum.

Og fólkið, samþykkir, heilaþvegið af áratuga linnulausum áróðri um óþokkana í útlöndum, sem framleiða þó miklu betri skó.

Hvenær opnast augu landsmanna?

Þarf annað hrun til?

Nafnlaus sagði...

Til að tryggja hagsæld þá þarf að vera afgangur af viðskiptum við útlönd. Hann eykst ekki við upptöku Evru því miður. Það verða ekkert allt í einu til meiri verðmæti þó tekinn sé upp annar gjaldmiðiðll.
Ef þjóðin/stjórnmálastéttin heldur áfram að eyða meira en hún aflar þá verður því ekki breytt einungis með upptöku Evru. Undanfarið ár hefur töfralausnin verið Evra allir tala um Evru og þá á allt að verða gott. En það gerir lítið ef ekkert annað kemur til.
Besta leiðin núna er að breyta öllum erlendum skuldum einstaklinga og fyrirtækja í krónur afnema svo gjaldeyrishöftin og láta krónuna gossa þá fáum við alvöru viðspyrnu og ríkulegan afgang af viðskiptum við útlönd. Eina ráðið nú sem fyrr er að framleiða það hefur ekkert breyst.

Nafnlaus sagði...

Hjörtur í Guðs bænum opnaðu nú augun þið verðið að láta af kúgun almennings.

Sjálfstæðis- og þjóðernishyggja hefur hamlað framförum í þágu almennings.

Með auknu sjálfstæði hefur til að mynda framleiðniaukningin verið mun minni hjá Íslendingum en hjá nágrannaþjóðum.

Þessi þróun hefur einnig birst í mannfjöldaþróun 20. aldar. Að jafnaði hafa fjölskyldur minnkað með aukinni framleiðni og velsæld. Hér hefur þessarar þróunar ekki gætt með sama sniði.

Auðvelt er einnig að benda á hversu tómlát íslensk stjórnmál hafa verið um þróun mannréttindamála og réttarbóta í þágu almennings.

Allar réttarbætur til handa launamönnum og almenning hafa komið frá verkalýðshreyfingu og ESB, en Sjálfstæðisflokkurinn og andstæðingar ESB hafa barist gegn þeirri þróun. Þeir vilja ekki missa kúgunarmátt sinn á íslenskum launamönnum, með útgerðarmenn og bændur fremsta í flokki.
Úlfur

Vofa Jóns Sigurðssonar sagði...

Þeir sem eru reiðubúnir að gefa eftir yfirráðin yfir auðlindum Íslandsmiða og sjálfstæði þjóðarinnar fyrir gjaldmiðil sem stendur höllum fæti og enginn veit hvort verður til innan fárra ára eru eðli málsins samkvæmt reiðubúnir að gera alveg einstaklega slæman "díl".

Mjálm er þetta. Ég les bara "mjá mjá mjá hvæs mjá".

Oh jæja.

Nafnlaus sagði...

Byrjar nú bullið hjá Hirti J Guðmundssyni um að við missum auðlindir okkar, eins og að allar þær þjóðir sem hafi gengið í ESb hafi látið af hendi auðlindir sínar og lifi nú á loftinu.Þetta er svo mikill endemis vitleysa að þetta nær engu tali, bíðum bara þangað til samningurinn kemur og þá skulum við sjá hvort það verði ekki þannig að það þurfi einungis að semja um flökkustofna við Íslandsmið og búið. Þetta óttast þessar þjóðrembur meira en allt annað, enda hamast þeir nú við að reyna taka til baka umsókn okkar um aðildarviðræður. Þeir eru lafandi hræddir um að samningurinn verði svo góður að þjóðin hafi ekki efni á að hafna honum.

Nafnlaus sagði...

Mikið er mig farið að hlakka til að fá Evruna. Þá getum siglt togurunum í land og loksins getur maður litið upp úr slorinu og farið að njóta lífsins.
Ef ég skil pistla höfund rétt þá er það svarið við öllum okkar vandamálum þar sem krónan er höfuð valdur að áratuga vanmætti okkar og óréttlæti en ekki ofeyðsla og óstjórn í efnahagsmálum.
Mikið væri nú gott ef þetta væri raunin að ekki þyrfti nema eina svona töfralausn.
Ég hinsvegar get ekki varist þeirri ónotakennd þetta sé en eitt drauma trixið hjá okkur Íslendingum sem ekki virki.