fimmtudagur, 17. júní 2010

Lífeyriskerfi hinna útvöldu




Lífeyrisgreiðslur opinbera starfsmanna hafa þrefaldast frá 1997. Í 3. málsgrein 24. greinar laga nr. 1/1997 og 3. málsgrein 8. greinar laga nr. 2/1997 segir: ,,Eftir að taka lífeyris hefst skulu breytingar á lífeyrisgreiðslum ákveðnar til samræmis við meðalbreytingar sem verða á föstum launum opinberra starfsmanna fyrir dagvinnu, sbr. 2. mgr., og skal Hagstofa Íslands reikna þær mánaðarlega."

Vísitala lífeyrisskuldbindinga var fyrst reiknuð í febrúar 1997 vegna breytinga á launum opinberra starfsmanna milli desember 1996 og janúar 1997. Vísitala lífeyrisskuldbindinga var því stillt á 100 í desember 1996. Meðfylgjandi mynd sýnir hvernig þessi vísitala (blá lína) hefur hækkað frá 1997 borið saman við almenna launavísitölu (rauð lína) og verðlag (græn lína).

Það er næsta víst að fjölmörg dæmi eru til staðar hjá LSR um einstaklinga sem eru að fá um 1 millj. kr. á mánuði enda hafi þeir verið á góðum launum eða um 300 þ.kr. þegar þeir fóru á lífeyrir fyrir aldamót. Þá veldur þessi vísitala því að skuldbindingar B-deildar LSR hafa hækkað jafn mikið og raun ber vitni.

Launamenn á almennum markaði hafa margoft krafist þess að stjórnvöld standi samskonar vörð um lífeyrisréttindi allra landsmanna, en alþingismenn hafa hingað til ákveðið að standa einungis vörð um sín réttindi og nokkurra útvalinna opinberra starfsmanna. Það er himinhrópandi óréttlæti hvernig þingmenn hafa búið að sér og sínum á meðan lífeyrisþegar á almennum markaði þurfi að taka á sig kjaraskerðingu vegna hrunsins, en fyrrum starfsmenn í opinbera kerfinu halda óbreyttum lífeyrisgreiðslum og sjóðurinn er í 600 milljarða mínus.

Þetta er varið m.a. með því að réttindahækkanir í almennum sjóðum hafi verið meiri, en því fer fjarri. Ástæða .þessa er sú að í kjarasamningum á almennum markaði hafa lægstu laun verið hækkuð sérstaklega undanfarna kjarasamninga. T.d hafa lægstu laun í launatöflum rafiðnaðarmanna hækkað um 46% umfram almennar hækkanir það sem af er þessari öld. Þegar svo samningamenn alþingismanna og útvalinna opinberra setjast niður hafa aftur á mót launahækkanir þeirra lægstu á almennum markaði verið látnir ganga upp í gegnum taxtakerfi hinna útvöldu.

Þetta sést mjög vel í grafinu grunnlaun voru hækkuð umfram heildarlaun sem veldur til að mynda hækkuninni 2001 til 2002. Sama á við um hækkunina 2008. Okkur er jafnan svarað með þeim rökum að laun á almennum markaði hafi hækkað meira og þess vegna verði að taka það með í reikninginn. Af þessu að dæma hafa grunnlaun hækkað mjög mikið og hefur haft miklar afleiðingar fyrir skuldbindingar LSR.

Vísitala lífeyrisskuldbindinga
Samkvæmt lýsigögnum Hagstofu Íslands byggir vísitala lífeyrisskuldbindinga á gagnasafni launakönnunar Hagstofu Íslands. Í könnuninni eru aflað upplýsinga um laun og launakostnað allra starfa hjá úrtaki sveitarfélaga. Sveitarfélög í úrtaki senda mánaðarlega rafrænar upplýsingar á samræmdu sniði beint úr launabókhaldi.

Í könnuninni er aflað nákvæmra upplýsinga um launagreiðanda, launamann, launagreiðslur, greiddar stundir og annan launakostnað. Gögnin eru gæðaprófuð við móttöku, þar sem sannreynt er að þau standist uppsettar kröfur. Þegar gögnin hafa verið gæðaprófuð eru þau vistuð í gagnagrunni Hagstofunnar og notuð til úrvinnslu. Við framkvæmd launakönnunar er tekið mið af þeim kröfum sem gerðar eru til launakannana í reglugerðum á Evrópska efnahagssvæðinu. Auk gagna úr launakönnun Hagstofu Íslands stuðst við heildarsafn frá ríki og 600 manna úrtak ríkisstarfsmanna.

Reglur um töku lífeyris útvalinna opinberra
Þegar sjóðfélagi hefur náð því að samanlagður lífaldur og iðgjaldagreiðslutími sé 95 ár, hann er orðinn 60 ára og lætur af störfum á hann rétt á lífeyri úr sjóðnum. Sjóðfélagi, sem notfærir sér þessa reglu, skal greiða iðgjald til sjóðsins þar til 95 ára markinu er náð. Lífeyrisréttur hans skal vera 2% fyrir hvert ár í fullu starfi sem iðgjöld hafa verið greidd fyrir, en hlutfallslega lægri fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall, en þó ekki meira en 64% að náðu 95 ára markinu. Iðgjaldagreiðsluskylda fellur niður þegar 95 ára markinu er náð. Sjóðfélagi, sem nær 95 ára markinu eftir að hann nær 64 ára aldri, getur ekki nýtt sér heimild samkvæmt þessari málsgrein.

Lífeyrisréttur hjá þeim sem njóta útreiknings skv. 4. mgr. skal aukast um 2% fyrir hvert ár í fullu starfi frá því að iðgjaldagreiðsluskyldu lýkur og þar til taka lífeyris hefst, en um hlutfallslega lægri hundraðshluta fyrir skemmra starfstímabil og minna starfshlutfall.

Hafi sjóðfélagi gegnt hærra launuðu starfi eða störfum í að minnsta kosti tíu ár fyrr á sjóðfélagatíma sínum í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins skal miða lífeyrinn við hæst launaða starfið, enda hafi hann gegnt því í að minnsta kosti tíu ár, ella skal miða það hærra launaða starf sem hann að viðbættum enn hærra launuðum störfum gegndi í að minnsta kosti tíu ár

1 ummæli:

Ragnheiður Kristjánsdóttir sagði...

Sæll Guðmundur. Á þetta ekki við um b-deild LSR? Er ekki búið að loka henni fyrir um áratug og 95 ára reglan t.d að hætta. Er hægt að breyta þessu eftir á stangast það ekki á við eignarrétt. En ef þessu yrði breytt við hvað ætti að miða finnst þér?