mánudagur, 28. júní 2010

Uppdráttarsýki fjórflokksins

Nokkrir hafa haldið því fram að úrslit sveitarstjórnarkosninganna boðuðu endalok fjórflokksins. Einnig má benda á að í kosningum til Alþingis hafa flokkarnir oft leikið þann leik að koma fram undir röngum formerkjum. Fært sig til miðju með boðskap um norræn velferðarþjóðfélög. En að loknum kosningum hafi ákafamenn komið fram á sjónarsviðið og ýtt til hliðar öllu sem rætt var um í kosningabaráttunni.

Það er áberandi að hin svokallaða óróadeild VG á sér dygga samferðarmenn í hinum svokallaða frjálshyggjuarmi Sjálfstæðisflokksins. Þessir hópar finna samstöðu í andstöðu gegn ESB og fylgja einangrunarhyggju eða þjóðrembu. Þessi hópur hefur barist harkalega gegn því að Icesave deilan verði leyst með samningum.

Honum hefur tekist að telja mörgum í trú um að það sá kostur sé í stöðunni, að íslendingar komist hjá því að greiða og standa við skuldbindingar sem fyrrverandi ríkistjórnir og Alþingi hafa undirgengist. Á grundvelli þeirra hafa verið gerði 4 Icesave samningar við Breta og Hollendinga, sem íslendingar hafa síðna neitað að standa við.

Því er haldið fram að þeir sem ekki séu sammála þessu, séu á móti öllu sem íslenskt er og erlend samfélög og nágrannaríki séu óvinir Íslands, svo ég noti nú algeng ummæli forsvarsmanna þessa hóps. Í þessu sambandi má einnig benda á afstöðu í skattamálum, og niðurskurð í ríkisbákninu. Sama á við, landbúnaðarmál og kvótamál.

Margir hafa komist að þeirri niðurstöðu að íslenskt efnahagslíf geti ekki búið við krónuna til frambúðar. Þar hafa verið áberandi menn í atvinnulífinu. Engin greið leið er fyrir Ísland að taka upp nýjan gjaldmiðil önnur en aðild að Evrópusambandinu. Það tekur nokkur ár að semja um aðild og taka upp evru. Almenningur kallar á stöðugleika og sambærilega vexti og eru í nágrannalöndum okkar, auk lægra verðs á matvöru. Þess vegna má ekki slá umsókn á frest og fá fram hvað standi okkur til boða.

Í ályktun nýafstaðins landsfundar sjálfstæðismanna segir að þeir hafni aðildarferlinu vegna þess að mikilvægara sé nú að stjórnsýslan setji alla sína krafta í að leysa aðkallandi hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Þetta er einkennileg niðurstaða, stór stjórnmálaflokkur heldur landsfund sem lýsir því yfir að innan hans raða sé fólk sem geti ekki unnið nema að einu máli í einu. Þessu er fagnað með langvinnu lófataki.

Aðildarumsóknin er í raun eina leiðin til þess að leysa þá efnahags- og gjaldmiðilskreppu, sem Ísland glímir við. Hér er á ferðinni sérhagsmunamat, ekki mat á hagsmunum heildarinnar.

Sá hópur sem sat landsfundinn er að færa sig frá öðrum evrópskum hægriflokkum, þar sem ESB-aðild er talin vera brýnt hagsmunamál heimila og fyrirtækja. Það er ekki hægt annað en að draga þá ályktun að þarna sé áframhald þess sem búið er að spá að endalok fjórflokksins séu jafnvel nær okkur en margir héldu.

Þessi hópur einkennist á þröngu mati á hagsmunum sjávarútvegs og landbúnaðar. Ég hef margoft bent á að í þessum atvinnugreinum hefur ekki verið nein fjölgun atvinnutækifæra á undanförnum árum og ekkert bendir til að það muni breytast. Það er í ferðaþjónustu, hátækniiðnað sem hefur verið fjölgun og það eru þær atvinnugreinar sem hafa lýst stuðningi við aðildarumsókn og óskað eftir nýjum og stöðugum gjaldmiðli.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær færsla, að venju!

Nafnlaus sagði...

Frábær grein..

Nafnlaus sagði...

Meira af þessu Guðmundur, ekki veitir af til að andmæla þjóðernisöfgamönnunum til hægri og vinstri

Nafnlaus sagði...

Sjálfstæðismenn verða að horfast í augu við að aðildarferlið er hafið og því væri æskilegra að menn sameinuðust um að berjast fyrir hagsmunum Íslands í aðildarviðræðum við sambandið.
Segir Þorgerður Katrín. Tek undir með henni
Úlfur

Nafnlaus sagði...

Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir viðskiptafrelsi, afnámi hafta og ríkisafskipta sem og leitt Ísland inn í samfélag þjóðanna í gegn um NATO, EFTA og EES.

Núverandi stefna Sjálfstæðisflokksins, ef einhverja stefnu skyldi kalla, er furðuleg og fráleit. Flokkurinn er eins og Bjartur í Sumarhúsum þar sem sjóndeildarhringurinn er 5 metra í burtu.

Og menn telja sig þess umkomna að finna út þann sannleik að ESB sé einhverskonar afturhaldsbatterí í Brussel og flestar þjóðir Evrópu hafi unnið þar hörðum höndum að koma saman félagsskap til að gera lífið sér erfiðara.

En við séum svo klár að láta nú ekki plata okkur. Það er óhætt að kalla alvarlegt ofmat á eigin snilli eins og staða þjóðarinnar og almennings sýnir augljóslega nú.

Stjórnmálaflokkur sem hefur það á stefnuskránni að halda dauðahaldi í gerónýta mynt með stórkostlegum kostnaði fyrir almenning í landinu er á alvarlegum villugötum.

Stjórnmálaflokkur sem tekur hagsmuni útgerðarmanna og bænda fram yfir almenning í landinu hefur verulega skakkt útsýni á eðilegar vogarskálar hagsmunamats.

Stjórnmálaflokkur sem rekur stefnu afturhaldsamrar þjóðernishyggju á heima á 18. öldinni, nú eða bara í sæng með vinstri grænum þar sem nægur félagsskapur er til frasasmíði og forpokunar.

Góð lýsing fyrrv. sjálfstæðismanns á flokknum í úrsagnarbréfi
Kristinn Þór.

Nafnlaus sagði...

Staðan er fyrir ofan skilning þeirra sjálfstæðismanna sem voru á landsfundinum.

Ef umsóknin væri dregin til baka væri verið að setja lok á lýðræðislega umræðu og komið í veg fyrir að þjóðin tæki afstöðu til málsins.

Mér finnst alls ekki að við eigum að draga umsóknina til baka, enda snýst þetta um að það sé lýðræðisleg umræða um málið og að þjóðin fái að taka af skarið eftir viðræður við ESB.