miðvikudagur, 29. september 2010

Hverjir eru skríll?

Mann setti fullkomlega hljóðan við atburði gærdagsins og svo kom viðtalið við Geir Hilmar Haarde fyyrv. forsætisráðherra í þeirri ríkisstjórn sem var við völd í aðdraganda Hrunsins og fram yfir það og hann var þar á undan fjármálaráðherra í þeim ríkisstjórnum sem settu upp þá efnahagsstefnu sem leiddi þjóðina í glötun.

Það er verið að vinna eftir gildandi landslögum, það fara fram kosningar á Alþingi og þar er niðurstaða. Það er ljóst að það var alveg sama hver hún yrði að einhverjir myndu segja að önnur niðurstaða hefði verið heppilegri. En það er ekki málið og maður er í vandræðum að finna orð til þess að lýsa viðbrögðum og yfirlýsingum Geirs Hilmars Haarde og félaga hans í gærkvöldi.

Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis og þingmannanefndarinnar kemur glögglega fram að íslenskum yfirvöldum var margoft gerð grein fyrir þeirri stöðu sem íslenskt efnahagslíf var komið í. En Geir Hilmar Haarde og ráðherrar hans gerðu ekkert, landið var stjórnlaust.

Erlendum lánamörkuðum var lokað á árinu 2007 og íslendingar gátu ekki fengið krónu að láni. Bankastjóri Englandsbanka, bauðst til að veita íslendingum aðstoð við að komast út úr Icesave og norrænu seðlabankarnir vildu koma til hjálpar, en settu skilyrði um að stjórnvöld tækju á vandanum. En íslenskir ráðherrar gerðu ekkert og héldu því fram að allt væri í himnalagi. Það var og er ástæða þess að AGS er hér.

Nú er Geir Hilmar Haarde orðið fórnarlamb að eigin mati og flokksfélaga, sem hin 24 þús. gjaldþrota heimili eiga að vorkenna, þrátt fyrir að það var efnahagsstefna hans og síðar aðgerðaleysi kom þjóðinni á vonarvöl. Stjórnmálamenn fara um sviðið með enn heitarlegri yfirlýsingar í garð hvors annars. Engin þeirra ætlar að axla ábyrgð, allra síst þeir sem voru meðvirkir þátttakendur í þeirri atburðarrás sem Geir Hilmar Haarde fyrrv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra og flokkur hans bjuggu til og leiddi þjóðina í þrot.

Upphrópanir þingmanna og fyrrverandi ráðherra um pólitískar hausaveiðar, götuskríl sem kom réttkjörnum stjórnvöldum og Seðlabankastjóra frá eru komnar aftur í umræðuna eins og þar séu á ferð einhverjar boðlegar staðreyndir. Við erum á upphafspunkt og stjórnmálamenn komast ekkert áfram. Allt er stopp og þingmenn halda Alþingi í gíslingu með sínu tilgangslausa sjónarspili.

Og svo eru leidd fyrir dómstóla 9 einstaklingar og þess krafist að þeir fái þyngstu refsingu fyrir að hafa gert hróp að þessu fólki. Það vefst ekki fyrir mér hver það sé sem eigi helst að hljóta tilnefninguna Skríll í þessu samhengi.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir enn einn þarfan pistil. Þetta er eiginlega þyngra en tárum taki. Okkur miðar ekkert áfram.

Sigríður Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

það er hreint ótrúlegt að bæði samfylkingarfólk og sjálfstæðisfólk sem stóð að ákæruni á hendur þessum 9 einstaklingar skuli ekki draga kæruna til baka.
Þingmenn skammisti þið ykkar

Nafnlaus sagði...

Sammála þér, Guðmundur, eins og oftast. Verstur fjárinn að arfavitlausar fyrningarreglur leiða af sér að arkitektar hrunsins, Davíð, Halldór og Finnur sleppa allir og halda sínum illa fengna auði.

Nafnlaus sagði...

Er ekki verið að kasta hér steinum út glerhúsi? Vissir þú Guðmundur ekki um allt sukkið og svínaríið í Rafiðnaskólanum sem skólastjórinn mátti taka út dóm fyrir? Stundum er hollt að horfa í eigin barm áður en dómar eru felldir.

Guðmundur sagði...

Nafnlaus #11.55
Allur rekstur Rafiðnaðarskólans var skoðaður af utanaðkomandi endurskoðendum og lögmönnum, þar kom ekkert saknæmt fram.

Það kom aftur á móti fram að fyrrv. skólastjóri hafði tekið umtalsverða fjármuni frá Eftirmenntunarsjóð rafeindavirkja án heimildar og leynt stjórn sjóðsins því. Fyrir það hlaut hann dóm. Það kemur Rafiðnaðarskólanum ekkert við.

Auk þess kom í ljós að hann hafði framkvæmt nokkra hluti sem dæmdir voru ólöglegir, þeir hlutir komu heldur ekki Rafiðnaðarskólanum við.

Nafnlaus sagði...

Hún er ótrúlega ósmekkleg aths. hjá nafnlausum kl. 11.55. Það kom í ljós mikill fjárdráttur og skjalamisferli hjá fyrrv. skólastjóra, það fór allt lögbundnar leiðir fyrir dómstólum og hlaut hann þar mjög harða dóma. Að snúa því upp að hann hafi tekið á sig eitthvað fyrir aðra er algjörlega út í hött. Sérstaklega voru þær ómaklegar aðdróttanirnar að formanni Rafiðnaðarsambandinu og sambandinu sjálfu sem í engu kom að þessum málum.

Og svo að fara draga þetta fram núna og reyna að tengja það saman við hátterni alþingismanna, segir allt um þann sem það gerir.

Einn af þeim sem fylgdist mjög vel með þessu ferli.

Nafnlaus sagði...

Sæll Guðmundur,
Alltaf gaman að lesa pistlana þína þó maður sé ekki alltaf sammála þér í einu og öllu.
Það er áhugavert að þú nefnir þarna 24þús gjaldþrota heimili. Nú ert þú í þeirri stöðu að geta beitt þér beint fyrir þessi heimili. Hvað ætlar verkalýðshreyfingin og lífeyrissjóðir að gera fyrir þessi heimili, og til að hindra að gjaldþrota heimilum fjölgi enn meir? Ætla þessir aðilar að taka undir tillögur Hagsmunasamtaka Heimilana, Talsmanns Neytenda o.fl. um leiðir til að létta á skuldum og greiðslubyrði heimilanna?
kv,
Jens

Nafnlaus sagði...

Þessu tengt,

Fulltrúi ASÍ, segir í fjölmiðlum að gengið þyrfi að styrkjast um a.m.k. 20%. Mikið rétt og þó fyrr hefði verið. Það gleymdist hinsvegar að minnast á það að ef gengið er of lágt skráð, er um kerfisbundan einganupptöku að ræða hjá fyrirtækjum sem launþegum!!! Þetta er ekki smámál. Þess vegna er skuldavandinn svona stór í dag og fer versnandi. Hverjir eru að verja þessa eignaupptöku?

Guðmundur sagði...

Varðandi spurningar hér fyrir ofan vísa ég til fjölmargra pistla sem hafa birst hér á þessari síðu.