föstudagur, 8. október 2010

Um nýtingu auðlinda

Sé mannkynsagan skoðuð þá blasir við allt frá því að rómverjar fóru um heimsbyggðina og yfirtóku svæði og svo síðar þegar stórveldin lögðu undir sig þjóðir og gerðu að nýlendum sínum, voru það ætíð auðlindir sem réðu hvert ferðinni var heitið. Innbyggjar voru ekki spurðir ráða. Sama er enn upp á teningunum, þar má t.d. líta til fiskveiða undan ströndum Afríku, eða fyrirtæki sem eru að leggja undir sig vatnsréttindi í heiminum.

T.d. er bent á að sjóræningjar fyrir utan Sómalíu séu fyrrum fiskimenn, sem í dag eru verkefnalausir sakir þess að stórveldin í fiskveiðum komu upp að ströndum landsins og þurrkuðu þar upp allan fisk undan ströndum landsins Sé litið þróunar þessara mála hér á landi hefur alla tíð verið ráðandi sú hugsun að eignarhald auðlinda landsins eigi að vera í höndum þjóðarinnar. Vatnsveitur, hitaveitur og rafveitur hafa verið reknar af sveitarfélögum og hafa verðmæti þeirra í raun grundvallast á því að fólk hefur myndað byggðarkjarna og tekið sig saman um að byggja þessar veitur.

Árið 1901 var lagt fram á Alþingi frumvarp til laga „um takmörkun á rjetti til fasteignaráða á Íslandi“ þar sem gert var ráð fyrir að bæði eignarréttur og notkunarréttur væri bundinn mönnum eða félögum sem heimilisföst væru í Danaveldi. Í umræðu um frumvarpið kom fram að þessi breyting væri gerð „til þess að tryggja sjer það að arðurinn af slíkum fyrirtækjum, sem menn gjöra sjer von um að muni rísa upp, lendi, að svo miklu leyti, sem unnt er, í landinu sjálfu“

Árið 1907 voru í fyrsta skipti sett lög á Íslandi sem takmörkuðu eignar- og afnotarétt útlendinga, Fossalögin, lög nr. 55/1907. Þessi lög voru samin upp úr frumvarpinu frá 1901 með tveimur afgerandi breytingum. Annars vegar takmörkuðu lögin einungis rétt erlendra manna til að eiga fossa en ekki fasteignir almennt, og hins vegar var miðað við heimilisfesti á Íslandi en ekki í Danaveldi, 1. gr.: Engir aðrir en þeir menn, sem heimilisfastir eru á Íslandi, eða fjelög, er hafa þar heimilisfang, enda sje meiri hluti fjelagsstjórnar skipaður mönnum, sem þar eru heimilisfastir, mega hjeðan af, án sjerstaks leyfis, ná að eignast fossa á Íslandi, hvorki eina nje með löndum þeim, sem þeir eru í, eða notkunarrjett á fossum.

Árið 1919 voru í fyrsta skipti sett almenn lög á Íslandi um takmörkun á eignarrétti útlendinga, lög nr. 63/1919 „um eignarrjett og afnotarjett fasteigna“. Flutningsmaður frumvarpsins var Bjarni Jónsson frá Vogi. Greinargerð með frumvarpinu var afar stutt: "Smáþjóðum er það hin mesta hætta, að fasteignir þeirra eða afnot, svo sem auðugar afllindir o. fl., lendi í höndum erlendra manna. Þess vegna ber jeg nú frv. þetta fram.“ Þarna eru ráðandi þau sjónarmið að smáþjóðum sé mest hætta búinn að auðlyndir þeirra lendi í höndum fjölþjóða auðhringja.

Niðurstöður nefndar um orku- og auðlindamál voru kynntar á fundi í Háskólanum í gær. Álitaefnin í skýrslu nefndarinnar mörg og af ólíkum toga. Nefndin fékk ekki aðgang að öllum samningum þar sem Geysir Green Energy hafnaði samstarfi við nefndina. Frá lagalegum sjónarhóli finnur nefndin ekki tilefni til að gera athugasemdir við samningana við Magma sem slíka. Það er niðurstaða nefndarinnar að það sé ekki á færi annarra en dómstóla að kveða endanlega upp úr um túlkun laganna, þau séu svo óljós að það sé útilokað að draga fram klára niðurstöðu. Þegar metið er saman, óvissa um túlkun laga og þeir almannahagsmunir sem málið varðar, hefði að mati nefndarinnar verið eðlilegt að viðhafa meiri varkárni við afgreiðslu málsins þegar það var til meðferðar hjá stjórnvöldum.

Í skýrslunni kemur fram að það sé glöggt á hvaða forsendum lögin voru reist, en það verði greinilega á þessum viðhorfum pólitísk breyting þegar einkavæðingar hugtakið nær að Íslenskum ströndum. Kvótinn var færður í hendur fárra, bankarnir einkavæddir og síðan hefst ferli sem ekki sér enn fyrir endann á hvar lendi; einkavæðing orku- og hitaveitna á Suðurnesjum.

Markmið með sjálfbærri þróun er að hver kynslóð skili orkulindum náttúrunnar jafnsterkum til næstu kynslóðar. Þegar rætt hefur verið um endurnýjanlegar auðlindir (sjálfbærar) hér á landi er oft talað um gufuaflið, eða varmaflæði frá iðrum jarðar til yfirborðs. Gufuhitasvæði á Íslandi eru talin geta gefið um 3.600 – 4.200 MW af rafafli í 50 ár, ef þau væru í fullri nýtingu. Ferlið er í grófum dráttum þannig að með borholu er gufu og heitu vatni, sem hefur myndast á heitu bergi í iðrum jarðar hleypt upp á yfirborð og í stað þess kemur kalt vatn og kælir bergið niður.

Rannsóknir sýna að það taki nokkrar aldir að ná sama hita í bergið aftur. Þetta hefur verið þekkt um alllangt skeið t.d. í jarðvarmavirkjunum í USA og víðar og hefur komið fram hér á landi. Einhverra hluta vegna hefur þessi umræða náð að takmörkuðu leiti til stjórnmálamanna, þegar þeir hafa farið um héruð landsins og lofað stóriðju í hverjum firði, alla vega í hverjum landsfjórðungi, orka landsins væri óþrjótandi.

Magma hefur þegar sótt um rannsóknarleyfi á fjölmörgum stöðum hér á landi og sú krafa liggur á stjórnvöldum og eins þeim sem eru að undirbúa breytingar á stjórnarskránni að færa þessi mál á skýrari grundvöll. Þegar rætt er um nýtingu orkunnar skiptir það í raun engu hvort um sé að ræða erlenda eða innlenda eignaraðild, það er umgengnin og varðveisla sjálfbærni orkulindanna, sem skiptir öllu. Tryggja þarf sveitarfélögum aðgang að hita- og vatnsveitum þar sem rekstraröryggi er sett efst og um sé að ræða „non profit“ fyrirtæki sem selji íbúum orkuna á kostnaðarverði.

Eftirtektarvert er hvernig t.d. Noregur hefur haldið á þessum málum með setningu laga um að hið opinbera verði að eiga 70% í auðlindunum. Í Danmörku er það þannig að ríkið á 100% í öllum gas- og olíulindum landsins. Á þessu verðum við að taka nú þegar.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Við erum nú ekki með góða reynslu af eignarhaldi hins opinber á nýtingarrétti auðlinda. Orkuveita Reykjavíkur í raun gjaldþrota og Landsvirkjun allt of skuldsett miðað við rekstrarafkomu.
Allur beinn arður af auðlindum sem Landsvirkjun hefur virkjað rennur til erlendra lánveitenda félagsins.

Nafnlaus sagði...

Sammála

Unnur Kr sagði...

Athyglisverður pistill eins og ævinlega Guðmundur. Var líka á fundinum í gær og er sammála þér að þetta stóð upp úr en ég hefði vilja skýrari umræðu um t.d. að einkavæðingin er meinið sem orsakar stöðu HS Orku í dag svo og tengingu þess máls við t.d. ákveðna stjórnmálamenn, REI, útrásina og fleira.
Mér finnst vanta hjá talsmönnum þess að byrja upp á nýtt í orku- og auðlindamálum að vera hlutlægari og byggja á rökum. tilfinningaþrungin umræða um þessi mál mun að mínu mati lítið duga en skipuleg vinnubrögð og að kynna sér sjónarmið á hlutlægan hátt myndi koma málinu mikið lengra en ella.
Vil taka undir með nafnlausum, fyrir eina tíð seldi Siglufjarðarbær RARIK hitaveituna, sama gerðist á Blönduósi, Hitaveita Suðurnesja er enn eitt dæmið um að nokkrir sveitarstjórnarmenn rústi og fái ríkið til að einkavæða til að selja sjálfir og afleiðingarnar eru að nú er það fyrirtæki komið í erlenda eigu. OR er búið að offjárfesta í vikjunum fyrir stórkaupendur sem greiða undirverð. Landsvirkjum er ekki heldur í góðum málum skilst okkur.
Er ráðið ekki fremur að skilja milli framleiðslu fyrir stórnotendur þar sem einkaaðilar komast að uppfylli þeir ströng skilyrði um hóflega nýtingu auðlinda, selji til aðila sem einnig þurfa að standast ströng umhverfisskilyrði og orkuframleiðslu (sérstaklea hitaveitur) fyrir íslenskan almenning. Slíkar veitur mega ekki vera eftir sömu uppskrift og verið hefur. Það þarf stranga lagasetningu og reglur sem verja neytendur fyrir þeirri óráðsíu sem hefur viðgengist í orkufyrirtækjum landsins og sett þau á hausinn eða gert það að verkum að sveitarfélög eða aðrir selji þau einkaaðilum. Úr því að hægt var að skilja á milli dreifingar og auðlindar annarsvegar og framleiðslunnar hins vegar hlýtur að vera hægt að haga almenningsveitur og stórnotendaveitur.
Stefán jarðfræðingur minntist á þetta í gær, sagði að lög mætti setja um Svartsengisvirkjunina annars vegar og aðra orkynýtingu á Reykjanesi hins vegar. Mér heyrðist hann vera einmitt að meina þetta með að aðskila almenningsveitur og stórnotendaveitur sem mér líst mjög vel á.
Vil einnig koma því á framfæri að hrunið spilar mikla rullu í því sem nú er að gerast. Þrýstingur á að virkja og byggja upp stóriðju er mjög mikill sem þýðir að við gærum verið í enn verri málum ef stjórnvöld eru ekki sterk á svellinu og skilji á milli eins og ég rökstyð hér að framan.
Ég held ef satt skal segja að þjóðarsálin vilji einmitt halda sínu fyrir sig en um leið stuðla að því að önnur orkuframleiðsla verði arðsamari og miðuð meira við umhvervisvernd en slík framleiðsla hefur veirð hingað til.

Nafnlaus sagði...

Mjög málefnalegt og gott innleg hjá Unni. Rétt hjá henni pistlar þínir eru akyldulesning þeirra sem vilja fylgjast með
Rúnar

Nafnlaus sagði...

Er það Kata Júl sem á að hafa forgöngu um að koma þessum málum á hreint eða er þetta stjórnarskrármál?

En allavega gætu alþingismenn tekið sig til í andlitinu og skýrt lögin þannig að ekki verði annað Magma klúður.

Þetta þarf að gerast með sírenum og blikkandi ljósum, en þó að ráðum vísustu manna.