föstudagur, 13. maí 2011

Löggjafar- og framkvæmdavaldið

Öll umræða er pólitísk og einkennist af mati á aðstæðum og umræðu um stöðuna hverju sinni. Staða umræða hefur verið á undanhaldi, hún hefur vikið fyrir sérhagsmunum fjármálalífsins, samfara því að maðurinn í vaxandi mæli orðið að hlutlausum móttakanda, fjarlægst sérstöðu sína og nálgast aðrar lífverur. Við sjáum einstaklinga hugsunarlaust ástunda hrifsun af græðgi, sem endurspeglast í fullkomnu tillitsleysi í garð náungans. Sama og einkennir hátterni annarra lífvera.

Í Stjórnlagaráði eru áberandi umræða um hlutverk og stöðu Alþingi og skilnað framkvæmda- og löggjafavaldsins. Stjórnmálamenn hafa undanfarna áratugi stefnt markvisst að því að gera sig óþarfa. Losa sig undan allri ákvarðanatöku með afreglun og ábyrgðarleysi. Stjórnvöld eiga að setja lög, fylgja þeim eftir og verja stöðu almennings.

Sé litið til þess hvernig staða Alþingis hefur þróast á undanförnum árum, kemst maður ekki hjá því að velta því fyrir sér hvort sé afleiðing og hvort sé orsök. Hafa þingmenn gefist upp á því að eiga vitræna umræðu á hæstvirtu Alþingi, eða hefur umræðan á Alþingi þróast á þennan veg sökum þess að þingmenn hafa gefist upp gagnvart fjármálalífinu og ráðherraræðinu?

Í gegnum stjórnmálatengsl þróaðist spilling. Markaðs- og efnahagsöflunum voru gefin laus taumur. Þessi öfl voru talinn hafa ráð við öllum vanda. Þau áttu að leita sjálfvirkt að lausnum sem myndu leiða til óendanlegrar og stigvaxandi velferðar. Í öllum hlutverkum var sprenglært fólk úr háskólum. Skýrslur streymdu frá skrifstofum fullum af sérfræðingum. Allar upplýstu þær okkur um að hér væri allt í himnalagi. Hið íslenska efnahagsundur fékk þrefalt A plús í einkunn. Síðar kom í ljós kom að þetta var allt byggt á lygi og falsi. Markaðsöflin tortímdu sjálfum sér undir stjórn háskólamenntaðra manna. Íslenskir háskólar hljóta að skoða sína stöðu.

Reglulega hefur skollið á efnahagshrun og það síðasta nýafstaðið. Spilapeningarnir eru enn á borðinu og fjárhættuspilararnir eru enn í spilavítinu, þeir viku aðeins úr salnum um tíma. Sömu menn eru enn að störfum í greiningardeildunum, þó svo að allt sem þeir greindu og allar þeirra spár reyndust rangar. Enn greina þeir á sömu forsendum og gefa út spár. Allt er til reiðu til þess að spilararnir stigi aftur inn í salinn og hefji fjárhættuspilið aftur og stefni í næsta hrun. Miðað við óbreytta stöðu er það óhjákvæmilegt.

Þessi keppni getur ekki leitt til annars en að þau samfélög sem byggð voru upp á síðustu öld muni hrynja. Fórnað á altari samkeppninnar. Það vantar lög sem tryggja hagsmuni almennings gagnvart fjármagnseigendum. Það verður að setja alþjóðlega stjórn á kerfið sem tekur mið af heildahagsmunum. Það þarf að skilgreina upp á nýtt hver markmiðin eigi að vera.

Kerfið eins og það er nú tekur ekki mið af hagsmunum almennings. Fyrirtækin sem hafa stjórnað ríkisstjórnum í gegnum stjórnmálatengsl. Í samspili þessara aðila eru ákvörðuð þau kjör sem launamönnum er boðið upp á. Viðhorf sem voru að leiðarljósi við uppbyggingu samfélaga hafa glatast og viðhorf fjármálanna tekið við. Barnaþrælkun eykst, mansal viðgengst sem aldrei áður, kynlífsþrælkun vex, réttindalausum farandverkamönnum fjölgar og hungrið í heiminum vex. Vatn er að verða söluvara og aðgangur að því takmarkaður. Það er kominn verðmiði á rigninguna.

Stjórnmálakerfið hefur verið sjálfbært undanfarin ár og viðheldur sjálfu sér í einangruðu umhverfi. Þeir sem koma nýir inn verða umsvifalaust að samsama sig settum leikreglum, annars verða þeir undir, einangraðir og hraktir á dyr. Á Þjóðfundum hefur þessi staða markað umræðuna og kallað er eftir viðbrögðum.

Ný viðhorf verða að fá svigrúm til þess að þróast og rjúfa þá kyrrstöðu sem stjórnmálin hafa skapað. Í núverandi kosningakerfi er liðlega helmingur þingmanna sjálfkjörinn. Þessu verður að breyta, í nýrri stjórnarskrá verður að veita þingmönnum meira aðhald.

Almenningur vill að áhrif þingmanna verðin aukin á kostnað ráðherraræðis. Krafa er um skýran aðskilnað löggjafar- og framkvæmdavalds. Í tillögum Stjórnalagaráðs sem nú er unnið að taka á þessu. Í tillögum er gert ráð fyrir að ráðherrar sitji ekki á þingi. Sé alþingismaður skipaður ráðherra víki hann úr þingsæti á meðan hann gegnir embætti og varamaður tekur sæti hans á þinginu.

Í Stjórnlagaráði er lagt til að alþingismenn einir geti lagt fram frumvörp til laga. Öflugri og sjálfstæðari þingnefndir muni styrkja stöðu Alþingis gagnvart ráðherrum. Auka á vægi fastanefnda Alþingis til þess að draga úr ríkisstjórnarræði og færa löggjafarvaldið og frumkvæði að lagasetningu í auknum mæli til þingsins. Lagt er til að sett verði Stjórnlagadómstóll/Lögrétta sem muni leiða til þess að öll lagasetning verði vandaðri og lög stangist ekki á við stjórnarskrá eða stangist á við fyrirliggjandi lög.

Beint lýðræði hefur orðið að klisjutengdri fullyrðingu og hefur tekið á sig þá mynd að vera tilfærsla valds til þeirra sem auðinn hafa og völdin. Núverandi forseti Íslands hefur þróað stjórnskipunina á grundvelli eigin túlkunar og þróað ábyrgðarleysiskenningu. Forsetinn hefur gert sjálfan sig að sjálfstæðri valdastoð. Hann ræður því hvort löggjöf er sett með aðferðum fulltrúalýðræðisins og á grundvelli þingræðis eða með beinu lýðræði í þjóðaratkvæði. En hvorki forseti né ríkisstjórn eiga að taka afleiðingum þess að tapa í þjóðaratkvæði.

Forsetinn hefur einnig gefið margskonar yfirlýsingar í nafni Íslands, þar sem hann túlkar marga hluti með eigin hætti, jafnvel þvert á viðtekin viðhorf hér heima. Enginn ber stjórnskipulega ábyrgð á yfirlýsingum hans hvorki gagnvart Alþingi né öðrum þjóðum. Túlkun hans er nýmæli í íslenskri stjórnskipun.

Þjóðfundur leggur áherslu að framtíð forsetaembættisins verði skýrt mörkuð, sama kemur fram í tillögum stjórnlaganefndar. Viðhorf eru uppi um að forsetaembættið verði lagt niður eða hið gagnstæða að tilvist þess verði tryggt og málskotsrétturinn til þjóðarinnar. Þetta kallar á að í nýrri Stjórnarskrá verði að fjallað um forsetann, ráðherra og framkvæmdarvaldið og setja mun skýrari reglur um athafnir forsetans.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Eins og ég skil þetta þá er gert ráð fyrir að þingmaður fari í "leyfi" og verði ráðherra en geti svo endurheimt þingsæti sitt.

Er einhver ástæða til þess?
Væri ekki eðlilegt að þingmaðurinn ef hann kýs að gerast ráðherra fórni þingsætinu? Hann er klárlega ekki að sinna þingstörfunum sem hann var kosinn í. Er ekki algjör óþarfi að ráðherrarnir séu með öruggt starf í bakhöndinni.

Annars eru þessar tillögur mjög tímabærar. Og í raun hálf ótrúlegt að foringjaræðið og ráðherraræðið hafi náð svona miklum tökum á Alþingi. Þrískiptingin hefur aldrei verið nema í orði.

Guðmundur sagði...

Gert er ráð fyrir að hann verði að ná inn aftur á þing í næstu kosningum

Takk annars fyrir innlitið og aths.
gg

Gísli Baldvinsson sagði...

Fróðlegt verður að fylgjast með niðurstöðu ykkar hvað varðar þrískiptingu valdsins og svo forsetans sem í augnablikinu virðist vera fjórða valdið. Frönsku spekingunum hefði ekki litist á það. Er farinn að ljúka máli mínu með: auk þess legg ég til að forsetaembættið sé lagt niður. gb